Örmagna

25. febrúar 2007

Við mægður erum gjörsamlega örmagna, algjörlega búnar á því.  Dagurinn tók meira á en okkur óraði fyrir.

Athöfnin var hins vegar mjög falleg og söngurinn himneskur. Ásgeir í Blönduhlíð og Skjöldur Orri á Hamraendum sungu tvísöng og gerðu það frábærlega vel, ég vona að ég sjái þá ná lengra.  Vorboðinn var feikigóður enda skipaður úrvals söngfólki.  Við erum þakklátari en orð fá lýst, það sýndi sig í dag hve tónlistin skiptir máli á erfiðum stundum sem þessum.  Hlýlegar móttökur í Árbliki hjá kvenfélagskonum skiptu og miklu máli og kann ég þeim bestu þakkir fyrir daginn.  Hjónin á Kvennabrekku eiga heiður skilið og gerðu okkur morguninn auðveldari.

Við fengum fallegan dag en það andaði ansi köldu á stundum, í meira en einum skilningi.  Undravert hve fólk tekur á sorginni á misjafnan hátt.  Það var hins vegar merkilegt hvernig sólargeislarnir brutust í gegn á réttum augnablikum.  Við erum Dalamönnum sem og öðrum gestum ákaflega þakklát fyrir að fylgja Guðjóni síðasta spölinn.  Systkinum og mökum þeirra þökkum við fyrir að koma okkur í gegnum daginn.  Við fáum þeim seint fullþakkað.

Nú eru ákveðin kaflaskil og framundan erfiðar ákvarðanir varðandi framtíðina.  Okkar bíður tími sem einkennist af tómleika og söknuði.  Blákaldur veruleikinn blasir við.  Ferlið er rétt að hefjast og ég veit að það verður bæði sársaukafullt og flókið fyrir okkur öll.  Þau bjargráð sem fjölskyldan býr yfir duga skammt til að vinna okkur í gegnum sorgina og sársaukan.  Þó hefðbundnar sorgarathafnir hjálpi mikið, þá duga þær skammt núna.  Ég upplifi þennan tíma eins og fellibyl sem ætlar aldrei að ganga yfir. En einhvern tímann gengur hann yfir, við göngum að því vísu.

Það var erfitt að þurfa að halda suður á bóginn, tómleikatifinningin jókst.   Stundum getur maður ekki sætt sig við aðstæður, þannig er það bara en ég vil trúa því að þær muni breytast.

Litla fjölskyldan mín er ekki sú eina sem á sárt um að binda, við megum ekki gleyma því.

Beiskustu tárin sem falla við grafir,
eru vegna orða sem aldrei voru sögð,
og verka sem voru aldrei unnin

                           (Höfundur óþekktur)Ein ummæli við „Örmagna“

  1. Sara Björg ritaði:

    Gott að heyra að allt gekk vel, var með ykkur í anda og er búin að hugsa mikið til ykkar!
    Hittumst fljótlega elsku Gunna og Kata.
    Knúsar og kossar úr Keflavíkinni :*:*