Slæmur dagur

26. febrúar 2007

Þessi dagur var slæmur, ég er fegin að hann skuli nú á enda.  Hugga mig við það að hann kemur aldrei aftur. Heilsan hefur verið með verra móti, stanslaus ógleði og lystarleysi og áfram “beinverkir” og slen.  Kata hefur ekki sloppið heldur, verið fremur framlág en náði að mæta í skólann.  Trúlega varð okkur of kalt á laugardaginn. Atli steinliggur með flensuna, trúi ég og ótrúlega heppinn að fá ekki lungnabólgu, þökk sé úlpunni hans Tóta :)   Í dag var það sem sé Þyrnirósin og sófinn á þessum bæ!

Dagurinn hefur því farið í mest lítið, ég gerði nánast ekkert af því sem ætlaði en af nógu er að taka.  Ótal atriði sem ég þarf að taka afstöðu til og gera ráðstafanir á mörgum sviðum. Sumt virðist óyfirstíganlegt núna, atriði sem að öllu jöfnu eru ekkert mál.

Andleg líðan hefur svo sem ekki verið upp á marga fiska heldur.  Þungar hugsanir og minningabrot sækja að.  Ég trúi því vart hvað gerst hefur, finnst það óraunverulegt og í fjarska, líkt og vondur draumur.  Pirrandi að geta ekki breytt atburðarrásinni og óþolandi að vera í þessari stöðu.  Mig langar mest að urra! Það þýðir svo sem ekki neitt, ekkert breytist við það en mig langar það samt en við hvern á ég að vera reið?  Auðvitað verð ég að sætta mig við orðinn hlut, hvort heldur sem það eru veikindin eða fráfall Guðjóns, ég get hvorugu breytt.  Er það ekki alltaf þannig að ef maður getur ekki haft stjórn á hlutunum og lífi sínu þá verður maður pirraður og ónógur sjálfum sér? Eins og systurdóttir mín, hún Auja, orðaði svona aðstæður í “den”; urr, garg og hvæs!!!

Móðir mín sagði oft við mig þegar mér fannst lífið ekki ganga eins og ég vildi að það væri tilgangur með öllu í þessu lífi og hélt því fram að í öllum áföllum og vonbrigðum lægju ákveðin tækifæri eða ný leið.  Pabbi sagði alltaf að “þetta kæmi allt með kalda vatninu”, ég þyrfti að vera þolinmóð og gefa öllu tíma.  Bæði höfðu oft rétt fyrir sér þó mér fyndist þar harla ólíklegt þegar þau orð voru sögð.  Oft hef eg saknað þeirra en aldrei eins og nú, allt væri auðveldara ef þau væru hér enn.  Ráð þeirra voru alltaf trúverðug enda búin að upplifa marga raunina sjálf.  Mér finnst mitt hlutskipti stundum hundfúlt og lífið ósanngjarnt, ég get ekki neitað því :(

Framkoma sumra síðustu daga og vikur hefur farið fyrir brjóstið á mér og í raun hneykslað mig.  Hvernig getur fólk verið svo grunnhyggið að trúa því að allt slæmt sem gerist, sé öðrum að kenna?? Ég hef velt því fyrir mér hvort mér myndi líða eitthvað betur ef ég fyndi sökudólg fyrir öllu því neikvæða sem fyrir mig hefur komið. Að vera uppi á rósrauðu skýi, með geislabaug, einfaldar ugglaust tilveruna enda væri maður þá á eins konar stalli, horfði niður og benti á aðra þegar miður fer.  Vissulega skapast þær aðstæður að aðrir beinlínis skaða okkur með hegðun sinni og gjörðum og við getum lítt haft þar áhrif á.  Við verðum að láta slíkt yfir okkur ganga.  Hins vegar höfum við heilmikið um það að segja hvaða áhrif meiðandi hegðun annarra hefur á okkur þegar upp er staðið.  Við getum einnig valið að umgangast ekki slíkt fólk.  Svo ég fái að láni orð móður Teresu; “Fólk er oft ósanngjarnt, óskynsamt og eigingjarnt: Fyrirgefðu því, þrátt fyrir það. Það getur stundum verið erfitt og tekið tíma.

Það stoðar hins vegar lítt að væla og vorkenna sér.  Við þurfum að ganga í gegnum veikindin og sorgina hvað sem tautar og raular.  Þá er eins gott að gera það með heilbrigðu hugafari í stað þess að detta ofan í einhvern pytt sjálfsmeðaumkunar sem gerir illt verra. Það er einu sinni í eðli mannsins að leita innra jafnvægis, við reynum það alltaf eftir áföll, sorg og vonbrigði. 

Á morgun hefst nýr dagur og mál bíða úrlausnar.  Hann verður vonandi betri en sá sem nú er liðinn, vandamálin hverfa ekki fyrr en þau eru leyst :)

Oft er erfiðara að flýja vandamálin en að takast á við þau.  Að takast á við þau krefst vitsmuna okkar, kjarks og visku.  Að flýja þau gerir okkur einungis taugaveikluð.            (David Baird)Ein ummæli við „Slæmur dagur“

  1. Sigga sis ritaði:

    Gunna mín. Þetta verður bara að hafa sinn gang, eitt skref í einu. Hvort sem það er tekið fyrir andlát, jafnvel löngu áður, eða á eftir.. skrefin eru erfið og það reynir á þrautseigju, þolinmæði, styrk, sál og líkama. Kúrfan er brött en svo dregur úr sveiflunum hægt og rólega. Lífið heldur áfram og það er í anda foreldra okkar og forfeðra að halda haus og stefna óhikað á framtíðina. Knús og kossar til ykkar allra þriggja. Heyrumst fljótlega.