Þunglyndi

26. febrúar 2007

Þunglyndi hefur trúlega fylgt manninum frá upphafi. Sjúkdómurinn fer ekki í manngreiningarálit og er talið að þúsundir Íslendinga þjáist af honum dag hvern. Um 25% kvenna og 10% karla uppifa einkenni þunglyndis á einhverjum tímapunkti ævinnar.Einkennin eru margvíseg og engir tveir sjúklingar hafa sömu sjúkdómsmyndina.  Fjöldi fólks þjáist af þunglyndi án þess að leita sér meðferðar með alvarlegum afleiðingum.  Meðferð er hins vegar afar árangursrík þar sem allt að 90% fá fullan bata innan mánaðar.  Ómeðhöndlað þunglyndi varir hins vegar lengi, allt frá 4 mánuðum upp í 2 ár.

Öll upplifum við einhvern tímann vonbrigði, ástvinamissi, óhóflegt álag, atvinnuleysi o.s.frv. og finnum þá fyrir leiða og vanlíðan. Það eru eðlileg viðbrögð og ganga oftast yfir en þegar einkennin eru farin að skerða líf einstaklingsins og breyta háttum hans eru allar líkur á því að hann þjáist af þunglyndi sem þarf að bregðast við.

Einkenni þunglyndis eru bæði andleg og líkamleg.  Auk þungyndis getur borið á einkennum oflætis en miðað er við að ef einstaklingur er með > 3 geðræn einkenni og > 1 líkamlegt er hætt við því að hann þjáist af þunglyndi.  Beri á a.m.k. 3 einkennum oflætis má telja líklegt að hann þjáist af oflæti.

Helstu geðrænu einkenni þunglyndis eru: 

 • Depurð - allt verður dapurt og þungt.
 • Vonleysi um bata. Tilgangslaust að leita hjálpar, til hvers þá? 
 • Hjálparleysi - fyllist af vanmáttartilfinningu, finnst hann vera ósjálfbjarga og fá ekki stuðning.
 • Kvíði - oft óraunhæfur eða án þess að einvher skýring finnist
 • Óróleiki eða eirðarleysi - af tilefnisalausu að því er virðist og skapast af innri vanlíðan.
 • Ánægja og áhugi dvín eða hverfur alveg.
 • Svefntruflanir.  Koma fram með misjöfnum hætti, t.d. erfitt verður að sofna, stundum vaknað oft á nóttu, stundum vaknað 2-3 klukkutímum fyrr að morgni en venjulega, stundum of mikill svefn.
 • Kynlíf minnkar, stundum ekkert.
 • Matarlyst - minnkar oftast en er stundum aukin.
 • Þreyta eða slen  verða áberandi og oft túlkað sem einkenni um alvarlegan sjúkdóm
 • Tregða.  Kemur t.d  fram í hægum viðbrögðum, hreyfingum, tali og hugsun.
 • Vanmáttarkennd eða sektarkennd.  Viðkomandi finnst hann vera einskis nýtur, óþarfur, erfiður fjölskyldu sinni, jafnvel skaðlegur og syndugur.
 • Hugsun verður hægari.  Hugarflug snautt, oft bundið við sérstakar hugsanir. Erfitt að taka ákvarðanir, ákvarðanataka verður meir efablandin og óörugg.
 • Tómleiki.  Viðkomandi finnst hann vera dofinn eða dauður í hugsun, tómur.
 • Sjálfsvígshugsanir.  Viðkomandi finnst hann verðskulda að deyja eða að dauðinn einn lini þjáningarnar

Helstu líkamlegu einkennin eru:

 • Höfuðverkur
 • Magaverkir
 • Verkir almennt
 • Tregar hægðir
 • Svitaköst

Verkjalyf koma að litlum notum, slá lítið eða ekkert á verkina. 

Eins og þegar hefur komið fram, getur jafnframt borið á oflæti en helstu einkenni þess eru:

 • Ofvirkni.  Viðkomandi er á fullu, sífellt að, gerir margt í einu og  unir sér ekki hvíldar.
 • Óþolinmæði.  Allt verður að gerast í einum grænum og vinnast hratt.  Málin þola enga bið.  Úthald mjög lítið.
 • Svefnleysi.  Viðkomandi “þarf ekki” að sofa.
 • Málæði.  Viðkomandi talar stanslaust og út í það endalausa.  Þarf stöðugt að grípa fram í fyrir öðrum.
 • Stórmennskukennd.  Finnst vera yfir alla hafinn, vita allt og geta allt.
 • Sundurleysi í tali og gjörðum. Veður úr einu í annað.
 • Marghuga.  Hefur mörg járn í eldinum hverju sinni en oft er minna um framkvæmdir. Viðkomandi virðist seint eða ekki þreytast.
 • Dómgreind skerðist. Er of viss í sinni sök og gefur sér lítinn tíma til hugsunar.
 • Innsæið er skert, einkum sjúkdómsinnsæi.
 • Trufluð samskipti vegna þess að aðrir þreytast á ástandinu og forðast samskipti.
 • Hreyfing er á sífelldu iði oftast án markvissra aðgerða.
 • Kynlíf meira en áður.

Orsakir þunglyndis eru margvíslegar og geta ýmist verið af ytri ástæðum eða af innri orsökum og kallast þá innlægt.  Meðferðin er háð orsökum en felst oftast í lyfjameðferð og/eða samtalsmeðferð og raflækningum. Því miður vill það brenna allt of oft við að einstaklingar sem þjást af þunglyndi þiggja ekki ráð, hafna aðstoð og eru vanþakklátir og óþolinmæðir.  Sjúkdómurinn bitnar því ekki síst á aðstandendum og þeim sem standa sjúklingnum næst.  Því er mikilvægt að allir þekki einkennin og viti hvernig bregðast eigi við sjúkdómnum.  Þunglyndi á ekki að vera eitthvað feimnismál og öll umræða þarf að vera opin og laus við fordóma.  Hægt er að lesa nánar um sjúkdóminn, orsakir og helstu meðferðarúrræði á slóðinni: http://www4.landspitali.is/lsh_ytri.nsf/htmlpages/index2.html#fraedsla_thunglindi.htmlEin ummæli við „Þunglyndi“

 1. Erna ritaði:

  Fannst þetta góð lesning og gaf mér þó nokkra innsýn í hvað ég gæti gert til að þunglyndum vini liði hugsanlega betur. En verð að viðurkenna…sbr. 2 síðustu línur áður en kemur að “rita ummæli”
  Hvað þýðir RSS veita?
  Og hvað þýðir bakvísun?
  Sjálfsagt eitthvað tölvumál sem allir skilja og vita hvað er, nema ég.
  Og ég sem hélt ég kynni íslensku :)