Meðferð á morgun

27. febrúar 2007

Þessi dagur var svipaður gærdeginum hvað varðar heilsuna.  Ég geri mér enga grein fyrir því hvort ég sé með flensu, einfaldlega þreytt eða eitthvað annað.  Hef verið ansi úthaldslítil og “léleg” að undanförnu. Dotta alls staðar þegar ég sest niður.  Fór í blóðprufu í dag og liggur þá væntanlega fyrir í fyrramálið hvort ég fái næsta skammt.  Ég ætla rétt að vona að meðferðinni verði áframhaldið á morgun, finnst 2 vikna frestun vera ærin þó hún hafi vissulega hjálpað mér að ganga í gegnum síðustu 2 vikurnar.  Hvítu blóðkornin ættu að vera komin upp á þessum tíma sem liðinn er frá síðustu blóðprufu. 

Ég get þó ekki sagt að ég hlakki til þeirra aukaverkana sem ég á von á en það eitt að ljúka hverjum áfanga gefur manni kraft til að halda áfram.  Ég þarf ekki að kvarta miðað við marga sem eru að berjast við krabbamein.  Mér eru gefnar góðar batahorfur sem auðveldar baráttuna á meðan aðrir eru komnir með útbreiddan sjúkdóm og litlar batahorfur.  Ég er ekki með neitt ábyrgðarskírteini fyrir fullum bata, eins og ég hef áður sagt en hef töluvert forskot á miðað við suma aðra.  Mörgum kom það á óvart að sjúkdómurinn hafði ekki náð að skjóta sér víða í önnur líffæri, svo stórt var æxlið.  Ég komst alla vega á blað hjá læknavísindunum vegna þessa en mér var sagt að aðeins ein önnur kona hafi verið í svipaðri stöðu og ég og það var fyrir 20 árum og hún er enn meðal vor! Mér hefur alltaf verið ýmislegt “til lista lagt” og af mörgum talin fær um ótrúlegustu hluti þannig að mér ætti ekki að koma þetta á óvart :)

Vissulega er þungt yfir okkur öllum, Hafsteinn þarf virkilega að bíta á jaxlinn úti og Katrín berst á hverjum degi við það að horfast í augu við verkefni dagsins.  Auðvitað eðlileg viðbrögð þegar fótunum er kippt undan manni fyrirvaralaust.  Það eina sem ég get sagt við þau er að þrauka og aftur þrauka, það birtir alltaf upp um síðir.  Það getur hins vegar verið erfitt að trúa því á meðan élin eru að ganga yfir.  Það þekki ég mæta vel sjálf en hef þó reynsluna fram yfir þau, sem betur fer og því miður, þannig að ég veit að það er satt.  Ég vildi hins vegar óska þess að ég gæti dregið úr vanlíðan þeirra og komið með einhverja töfralausn NÚNA! Hún er einfaldlega ekki til, þetta ástand verður að hafa sinn gang.  Við verðum að halda okkar striki og einbeita okkur að því að komast í gegnum þetta allt, annað er ekki í stöðunni.

Ólíkt mörgum öðrum, eigum við góða að til að styðja við bakið á okkur en sum mál eru þess eðlis að við verðum að takast á við þau sjálf.  Það sem kemur mér kannski mest á óvart í öllum þessum harmleik er sú staðreynd að okkur hefur ekki staðið til boða nein áfallahjálp né stuðningur til að komast í gegnum hann af hálfu heilbrigðiskerfisins.  Það er umhugsunarvert að ekkert ferli skuli fara í gang fyrir aðstandendur þegar einstaklingur tekur þá ákvörðun að taka líf sitt.  Það er í hróplegri mótsögn við það nám og reynslu sem ég hef tileinkað mér í starfi mínu sem hjúkrunarfræðingur, ekki síst úti á landi.  Ég velti því óneitanlega fyrir mér hvort ástæður séu einfaldlega bundnar við búsetu eða þær persónur sem eiga hlut að máli hverju sinni.  Ekki stóð á kirkjunni að bjóða fram aðstoð sína og sáluhjálp og skipti búseta engu máli í þeim efnum en fram til þessa hefur okkur ekki staðið til boða nein þjónusta af hálfu heilsugæslunnar sem á að heita hornsteinn heilbrigðisþjónustunnar í landinu.   Telst áfallahjálp þó til starfsemi heilsugæslunnar.  Ég viðurkenni það fúslega að ég á venjast meiri fagmennsku í aðstæðum sem þessum sem við fjölskyldan stöndum í.  Sjálfsvíg er harmleikur sem snertir mjög þá sem eftir standa, áfallahjálp af hálfu heilbrigðiskerfisins á að vera sjálfsögð í þeim aðstæðum og er talið nauðsynlegt að hún sé veitt inna sólahrings frá því að atburðinn á sér stað.  Þar koma heimilisæknar sterkt inn í, ekki síst vegna þekkingar sinnar.   Sumum stóð áfallahjálp til boða, óumbeðið, að morgni 12. feb. sl., öðrum ekki.  Hverju skyldi það sæta?6 ummæli við „Meðferð á morgun“

 1. Kata ritaði:

  Já það er von að þú spyrjir en líklega veist þú svarið líkt og ég. ‘Í litlum samfélögum skiptir meira máli hver þú ert en hvernig þú hefur það:( Gangi þér sem best á morgun og kveðjur til krakkanna.

  Oft er eins og fólkið sé frosið um hjartarætur,
  fóstri hjá sér hvatir, sem augun blinda.

  —-
  Merkilegt er ,að menn, sem þar hafa dvalið
  til margra ára –skuli ekki vera betri

  segir í ljóði Davíðs Stefánssonar um Bæinn við fjörðinn. Það eru víða ,,bæir við firði”

  Kv.
  Kata

 2. Rebekka Líf Karlsd ritaði:

  Kvitta fyrir mína daglegu komu. Hafðu það sem allra best elsku frænka.
  Mundu það að eftir storm koma stillur..
  Kveðja að vestan;*

 3. Dagný Kristinsd. ritaði:

  Sæl Gunna mín
  Pabbi benti mér á síðuna þína.
  Ég vildi bara láta þig vita að við hugsum til þín og barnanna. Ef við getum aðstoðað eitthvað þá ekki hika við að tala við okkur.

  kv. Dagný (og Haukur og strákaormarnir).

 4. gudrunjona svaraði:

  Sælar frænkur; Rebekka og Dagný
  Gaman að heyra frá ykkur, þakka hlýjar kveðjur. Treysti þa stillurnar Rebekka mín :) Bið að heilsa öllum
  Bkv. Gunna

 5. gudrunjona svaraði:

  Mikið rétt hjá þér Kata, þú sagðir svo sem það sem ég hugsaði! Áttu kvæðið hans Davíðs í heild sinni á tölvutækur formi’ Mér myndi ekki leiðast að lesa það allt :)
  Bestu kveðjur til strákana og supermömmu
  Gunna

 6. Kata ritaði:

  Sæl sys

  sendi það í kvöld:) Skila kveðjunni til strákanna og supermömmunnar þegar ég finn hana:)

  Kv.
  kata litla sys