Nú kárnar gamanið!

1. mars 2007

Lengi getur vont versnað, stendur einhvers staðar.  Það á svo sannarlega við þessa 3. meðferð mína!  Það var svo sem búið að vara mig við og ég á að vita þetta sjálf, líðanin versnar eftir því sem á líður :)

Með öðrum orðum þá hef ég verið hundveik síðan í gær, með skerandi höfuðverk, bullandi ógleði og svima þannig að nánasti félagi minn hefur verið ruslafatan! þetta er verri en nokkur sjóveiki og hef ég kynnst henni nokkuð vel í gegnum tíðina á Ms. Herjólfi. 

Sterarnir sem ég átti að fá með mér heim í gær virðast hafa gleymst og þegar ég uppgötvaði það í morgun voru góð ráð dýr.  Maður þarf að fara í gegnum ansi marga aðila og verkferla til að fá samband við hjúkrunarfræðing á göngudeildinni og það tekur TÍMA!   Fékk sterana seinni partinn og þakka þeim að ég sit uppi núna um stund.  Komst reyndar aðeins í tölvuna í morgun og kvöld en varð fljótt frá að hverfa. 

Eyddi deginum sem sé í sófanum með vinkonu minni; ruslafötunni, reyndi að horfa á sjónvarpið með litlum árangri en reis reyndar upp við dogg við umræður á hinu háa Alþingi.  Þar voru framsóknarmenn að grátbiðja þjóðina um fyrirgefningu vegna Íraksstríðsins sem sjálfstæðismönnum var helst kennt um sem og Halldóri.  Var reyndar skemmt þegar ég hlustaði á bróður í pontu, hann var í essinu sínu og kom til dyranna eins og klæddur.  Heyrði ekki betur en að Guðni kveinkaði sér undan sínum góða vini til 9 ára sem nú væri búinn að yfirgefa flokkinn!  Ég hreinlega “gleymdi” minni líðan á meðan.

Staðan er sem sé þessi, ég þarf að sætta mig við þessar aukaverkanir, a.m.k. fram á sunnudag á meðan ég er að taka krabbameinslyfin.  Sterarnir eru ekki að gera nein kraftaverk og velgjustillandi lyfin verka lítið.  Matarlykt má ég ekki finna, aumingja Kata verður að láta sér snarl duga, ljósin trufla og allur hávaði nístir.  Kertaljós eru einu ljósin tendruð í kringum mig, önnur eru of sterk.

Í öllu þessu volæði mínu get ég ekki stillt mig um að hugsa enn og aftur um okkar “ágætis” heilbrigðiskerfi. Fyrir um áratug lá fólk inni á sjúkrahúsum á meðan rannsóknir og meðferðir fóru fram.  Nú fer sú þjónusta að mestu leyti fram á göngudeildum og fólk liggur heima hjá sér, hvernig sem það er á sig komið.  Vissulega hafa meðferðarúrræðin batnað til muna og fólk í krabbameinsmeðferð trúlega minna veikt af aukaverkunum en áður.  Mér finnst þó reyndar alveg nóg um þegar maður heldur engu niðri og skiptir einungis um legustelingar vegna þrýstingsóþæginda þegar maður hefur legið of lengi á sömu stellingunni.    Innlögn er reyndar alltaf inni í myndinni ef ástandið verður slæmt, ég má ekki gera lítið úr því en viðurkenni það fúslega að þeir ranghalar sem við þurfum að fara í gegnum til að komast inn á bráðamóttökuna og þaðan inn á krabbameinsdeildina, eru ekki fýsilegir.  Maður pínir sig heldur aðeins lengur heima.

Mér virðist báknið á LSH of stórt, boðleiðir allt of langar og kræklóttar og stjórnsýslan langt frá starfsmönnum.  Álagið á þeim er gríðalegt og mikill skortur á fagfólki, ekki síst hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum.  Skriffinskan virðist yfirgengileg, þrátt fyrir alla upplýsingatæknina. Það fer helmingurinn af þeim tíma sem ég fæ hjá mínum lækni í að skrifa lyfseðla og alltaf þá sömu! Mér sýnist virkilega þörf á því að taka stjórnsýsluna í gegn og grípa til úrræða til að auka vellíðan heilbrigðisstarfsmanna í starfi og þá um leið sjúklinganna. 

Læt þetta volæði duga í bili, verð lítt viðræðuhæf næstu 1-3 daga, vona að fólk misvirði það ekki við mig.  Verð manna fyrst að láta í mér heyra og hækka í símum þegar skánar.  Minni þó á að ég er ekki með númerabirti í heimasímanum, hef ekki komið því í verk að fá mér slíkan en sé öll númer í GSM símanum!

Slæmt að missa af flokksþingi Framsóknarmanna þessa helgina en þar á bæ virðast menn gera ráð fyrir því að ég sé hætt þar Kristinn hefur yfirgefið flokkinn.  Eða var það flokkurinn sem yfirgaf hann??  En það sem er gott við þennan dag er annars vegar það að ég get talið niður þær vikur sem eftir eru og hins vegar sú staðreynd að þessi dagur kemur aldrei aftur :)6 ummæli við „Nú kárnar gamanið!“

 1. Fanney ritaði:

  Sæl Guðrún
  Mér var bennt á bloggið þitt og vildi bara votta þér innilega samúð mína. Datt í hug að láta fylgja með sálminn sem afi minn samdi. Sálmurinn heitir Ó ljúfi Guð.

  Ó ljúfi Guð ég leita þín
  Þú læknar græðir meinin mín
  Þú geymir mig, ég gleði finn
  og gætir mín ó drottinn minn

  Þú ert mitt skjól, og skjöldur hér
  ég skal því reyna að fylgja þér
  Þú ert mín líkn og ljós í þraut
  og leiðir mig á lífsins braut

  Ég legg minn faðir líf og önd
  með ljúfum hug í þína hönd
  Drottinn blessa land og lýð
  oss leiði hönd þín alla tíð.

  (Lag: Í bljúgri bæn)
  (Finnbogi G Lárusson)

  Gangi þér vel. Þú stendur þig eins og HETJA !

  bestu kveðjur

  Fanney (fyrrverandi sjúkraliðanemi FVA)

 2. gudrunjona svaraði:

  Sæl Fanney mín, þakka þér innilega fyrir kveðjuna og sálminn, hann er mjög fallegur.
  Virkilega gaman að heyra frá þér, gangi þér sem best í þínu starfi.
  Bkv. Guðrún Jóna

 3. Kata ritaði:

  Gunna mín, þú átt góða nemendur:)

  En veistu ég held ég sé ekki með rétt netfang hjá þér. viltu senda mér það á katrin@misa.is eða hér í gestabókinni þinni??

  takk
  Kata

 4. gudrunjona svaraði:

  Já, Kata mín, mér finnst ég eiga hvert bein í stelpunum “mínum”. Þær þurftu þó að umbera tíðar “pestar” hjá mér, ekki síst á síðasta árinu sínu. Nú vitum við skýringuna. Þær stóðu sig eins og hetjur og gera enn.
  Bkv. Gunna

 5. Sigga sis ritaði:

  Sæl Gunna mín, gott að heyra að það sé lífsmark með þér þótt þetta sé skítt í kringum þig þessa dagana! Ég get alla vega “heyrt” þurru hæðnina þína og þá er margt í lagi ;-)
  Hvers lags rugl er þetta að hjúkkan þín skuli gleyma sterunum! ekki alveg að standa sig, sú elska.
  Verð eitthvað að vesenast í bænum um helgina og ræðst inn á ykkur mæðgurnar, bara svona til að bera ykkur augum. Verst að þú getur ekki pínt þá svolítið í Framsóknarflokknum!
  Heyrumst hressar.
  Sigga sis

 6. gudrunjona svaraði:

  Já, ég klikkað heldur betur á blessuðum sterunum. Fæ nokkra plastpoka með bland í poka með mér heim og áttaði mig ekki á því að Decadronið vantaði fyrr en ég þurfti að taka það inn. Er skelfing pirruð og fúl yfir heilsufarinu, þetta versnar svo um munar með hverju skiptinu en ég er svo sem ekkert að gefast upp. Vertu velkomin í heimsókn, mín kæra :)
  Bkv. Gunna