Horfum fram á veginn

2. mars 2007

Ég hef aldeilis fengið að finna það hversu marga góða ég á að. Frammistaða barna minna er undraverð, ég hreinlega skil ekki hvaða þá hafa þennan styrk sem þau hafa sýnt.  Systkini mín og fjölskyldur þeirra hafa verið eins og klettar í hafinu, ég veit ekki hvernig ég get nokkurn tíman þakkað þeim.  Það sama má segja um vini og nágranna fyrir vestan sem annast féð fyrir mig á meðan ákvarðanir eru teknar, þvílík þolinmæði sem þeir sýna mér.  Sigurbjörg, vinkona mín í Búðardal heldur mér gjörsamlega niðri á jörðinni og Heiðar boðinn og búinn, jákvæður og úrræðagóður. 

Síðustu dagana hef ég verið að fá kveðjur frá fyrrum nemendum mínum á sjúkraliðabraut FVA, nemendur sem ég auðvitað þykist eiga hvert bein í.  Þær eru allar eftirsóttar til vinnu og standa sig frábærlega vel, enda er mín að rifna úr stolti.  Sakna mikið kennslunnar og samskiptanna við nemendur mína, finnst ég vera að missa af svo miklu þennan veturinn með nýja hópinn “minn” sem eru ekki síður að standa sig vel.  Þó að heilsufarið hafi ekki boðið upp á starfsþrek síðustu mánuði, finn ég vel hversu vinnan gegnir mikilvægu hlutverki í lífi manns. Það er einhvern veginn svo erfitt að fóta sig í tilveru þar sem þann fasta punkt vantar.  Ég sakna vinnustaðar míns, við FVA starfar frábært starfsfólk og ég er stolt af því starfi sem þar fer fram.  Stjórnvöld mættu styðja betur við starfsemina þar en það er svo annað mál sem bíður betri tíma.

Eins og við mátti búast, var þessi dagur erfiðari en gærdagurinn, er að taka inn 6 hylki á dag af Vepesid krabbameinslyfi sem framkallar ansi hvimleiðar aukaverkanir eins og áður hefur komið fram.  Í dag hélt ég bókstaflega engu niðri og þurfti að bregðast við því.  Er heldur að rétta úr kútnum og tek síðustu 3 hylkin fyrir nóttina.  Ætti að vera orðin sæmilega á sunnudag, mánudag.  Búin að fá einhvern vökva þannig að allt ætti að vera á uppleið.  Á svona dögum er lítið annað að gera en að breiða upp fyrir haus og bíða eftir því að þessi tími líði.  Hann líður hins vegar hægt, eins og alltaf þegar manni líður illa :(

En nóg af þessum harmkvælum, þarf heldur betur að bretta ermar eftir helgi.  Framundan heilmikil skrifinnska og pappírsvinna út af dánarbúinu og skattinum.  Allir reikningar lokaðir og næstu skref eru sýslumaðurinn og skattstjórinn.  Vildi óska að mér hefði dottið í hug að hugsa út í þessi mál fyrr og nýtt tímann en það þýðir ekkert að sýta það, það tækifæri er flogið.  Mér sýnist mér ekki veita af fagaðstoð í þessum efnum sem öðrum.

Það verður seint sagt að það sé einhver lognmolla í kringum mig og virðist dóttir mín “erfa” það frá móður sinni.  Enn eitt áfallið hjá henni, blessaðri; ástarsorg bættist við í dag, nú þegar lífið var farið að komast í einhverjar skorður.  Úff, ætlar þetta engan endi að taka?  Við sem eldri og reyndari erum og þekkjum þessa sorg vel, vitum að hún er þáttur í þroska okkar og í raun sem flestir, ef ekki allir, þurfa einhvern tíman að ganga í gegnum.  Ég vildi svo sannarlega að tímasetningin hefði verið önnur en það er með þessa sorg sem aðra, við ráðum ekki falltaf ferðinni. Það kemur sér vel að stelpan er með sterk bein, kippir í “Stekkjarflatarkynið og hef ég alla trú á því að hún vinni sig út úr þessu máli á heilbrigðan hátt.

Við horfum nú fram á veginn, daginn er að lengja og styttist í vorið.  Leysum verkefnin eftir bestu getu, jafnóðum og þau koma upp og reynum að sjá aðeins fram í tímann.  Lærum af reynslunni og nýtum lærdóminn til að verða betri manneskjur.  Annað er ekki í stöðunni :)   3 ummæli við „Horfum fram á veginn“

 1. Kata ritaði:


  bara að kvitta. Bestu kveðjur til Kötu minnar. Man að þetta voru erfiðar sorgir þegar maður var enn bara 19 en svo lærist manni að það sem gengur ekki á ekki að verða:)

  Breytt útlit og endilega hafðu letrið í stærri kantinu..fyrir fólk á fullorðinsaldri:)

  kv.
  kata sys

 2. gudrunjona svaraði:

  Takk fyrir komuna, mín kæra og ábendinguna. Var búin að velta fyrir mér að breyta útlitinu á síðunni, fannst hún óþarflega dökk. Svart hefur hins vegar alltaf verið liturinn minn.
  Prófa mig áfram næstu dagana:)
  Bkv. Gunna

 3. Kata ritaði:

  Mér finnst þetta fínt. Ljóst og bjart í samræmi við yfirskriftina..Horfum fram á veginn!!!
  Gangi ykkur sem best á vegferðinni framundan. VEgir verða sjálfsagt enn um stund holóttir en síðan lengist á milli…líkt og í Djúpinu.:)

  Kv.
  Kata