Það hafðist!

22. mars 2007

 Jæja, þá er 4. lotan formlega hafin.  Blóðprufurnar fínar þannig að þá var bara að skella sig í herlegheitin.  Var virkilega beggja blands fyrir viðtalið hjá Sigga Bö, alveg eins tilbúin að láta þetta gott heita það sem komið var en rann strax á rassinn með þær vangaveltur.  Þótti klappið gott þegar hann hrósaði mér fyrir að hafa þraukað og sagði að margir hefðu gefist upp í þessari meðferð. Ég er ekkert hissa á því, hún er virkilega andstyggileg en ég hefði aldrei orðið sátt við sjálfa mig ef ég hefði hætt áður en ráðlagðri meðferð væri lokið, ekki síst ef eitthvað kæmi upp á síðar meir. Ég var og er hins vegar orðin verulega þreytt, meðferðin hefur virkilega gengið nærri mér líkamlega og andlega hefur statusinn ekki verið góður, ekki síst eftir að Guðjón fór.

Dagurinn gekk sem sé ágætlega, varð reyndar strax hundveik af blessuðum lyfjunum en fékk þessa líka fínu stera í æð í dag sem eru að auðvelda mér lífið núna í kvöld, enda upprifin og “hámanísk” þessa stundina.  Veit alveg hvað býður mín í fyrramálið, ógleði og allur pakkinn sem ég þekki of vel þannig að nú nýt ég líðandi stundar í topp! Afrekað langt og gott símtal í kvöld við Auju mína og fleiri. Kvöldið entist ekki til að klára öll þau símtöl sem voru á dagskránni.  Vonandi endast þessi áhrif a.m.k fram á morgundaginn og er byrjunin á því sem koma skal :)

mania

  Custom Smiley 

Í kvöld er ég að upplifa í fyrsta skiptið, frá því meðferðin hófst, þau áhrif steranna að vera mjög ör og hátt uppi.  Mér finnst mér allir vegir færir og ekkert verkefni svo flókið að ég ráði ekki við það.  Maður fer hreinlega á flug, sannfærður um að getað hoppað niður úr fallhlíf, hvar sem er og geta allt.

 Parachute 

Það er mjög sérstök reynsla að upplifa svona “maníur” og skil ég nú betur þá einstaklinga sem eiga við slíka sjúkdóma að stríða.  Það á reyndar við alla mína reynslu í þessum veikindum; það að vera í hlutverki sjúklings gefur mér allt aðrar víddir og skilning sem koma til með að nýtast mér í starfi, svo mikið er víst.  En ég er ekki viss um að ég vilji alltaf vera svona hátt uppi, það er hætt við að dómgreindin fari eitthvað út og suður.  En, góð tilfinning í styttri tíma, ekki veitir af því að fá smá “kick” til að koma málum af stað Embarrassed  Aumingja Kata mín, að umbera mig í þessu annarlega ástandi, hún fór dauðþreytt að sofa blessunin, held henni hafi ekkert litist á blikuna um tíma; í dag gat ég ekki keyrt heim vegna aukaverkana og í kvöld stoppaði ég aldrei málæðið.  Það er í raun  ótrúlegt hvað skvísan er dugleg í þessu ferli og þau bæði, Hafsteinn og hún.  Bæði hafa tekið fullan þátt í þessu verkefni og hvergi hlíft sér eða reynt að forðast aðstæður né “stytta sér leið”. Þegar upp er staðið verða þau náttúrega mun sterkari einstaklingar fyrir vikið.  Þegar ég lít yfir farinn veg þá er óhætt að segja að líf þeirra hafi ekki alltaf verið dans á rósum og ekki auðvelt að vera börn móður sinnar, ekki síst síðustu 5 árin fyrir vestan.  Þau hafa bæði náð að nýta sér þá erfiðu reynslu á jákvæðan hátt í stað þess að verað bitur, hefnigjörn og neikvæð.  Auðvitað hafa þau oft verið reið og ósátt og viljað geta hengt ýmsum ónefndum.  En viðkvæði þeirra hefur verið það sama og mitt, sem ég lærði af foreldrum   mínum; “Þeim hefnist ævinlega fyrir sem gera öðrum illt, það kemur ævinlega í bakið á viðkomandi með einum eða öðrum hætti án þess á sá sem skaðaður er, aðhafist nokkuð“.   Kata kýs að kalla þetta “Karma”.   Í öllu falli græðir maður ekkert á því að fara í sömu skotgrafirnar með einhverja “Voodo komplexa”. Voodoo 

Að 3 vikum liðnum, eða þar um bil, stend ég á ákveðnum krossgötum.  Útskrifuð frá krabbameinsdeildinni, endurhæfing tekur við og fram undan bjartari tímar, vona ég.  Verð þakklát fyrir þann tíma sem mér verður skammtaður hér á jörð og mun leggja mig fram við það að nýta hann vel, á jákvæðan og uppilegan hátt fyrir mig, krakkana, stórfjölskylduna og vini.  Trúi því varla að ég sjái fram á þennan tíma, hann hefur verið svo fjarlægur fram til þessa og erfitt að sjá sólina fyrir sér upp úr “ruslafötunni” og sófanum.  Ég verð talin “læknuð” þar til annað kemur í ljós.  “To good to be true”, hef ekki leyft mér að hugsa þannig fyrr en nú.  Auðvitað vil ég vera bjartsýn og ætla mér að vera það en einhvern veginn er ég alltaf með varnagla á mér eftir það sem undan er gengið.  “Hvað kemur næst”? Vonandi allt gott og að ég verði nógu sterk til að takast á við það sem framundan er við breyttar aðstæður á lífi okkar.

Ég er hins vegar sannfærð um að einhverjir góðir verndarenglar hafi verið með í ráðum í mínu sjúkdómsferli og áföllum.  Hversu líklegt var það að vera með 12 cm. stórt æxli í lunganu en engin meinvörp né önnur merki um að sjúkdómurinn hafi náð að breiðast út og yfirleitt hefur meinið náð að dreifa sér þegar æxlið er orðið 2 cm. í þvermál?  Líkurnar á því eru ekki miklar þegar kemur að lungnakrabbameini.   

 Angel 2  Fairy Best Friends 

Ég hef vissulega bognað en ekki gefist upp, þrátt fyrir áföllin og mótlætið, einhvers staðar hefur sá styrkur komið.  Ég á góða að, báðum megin  :) Þessum kafla lýkur senn  Thumbs UpLokað er fyrir ummæli.