20 tíma svefn!

24. mars 2007

Já, 20 tíma svefn og rúmlega það, geri aðrir betur.  Hef greinilega brunnið yfir eftir “fídónskraftinn” í gærkvöldi þegar ég las fréttina um sláturhúsið heima   Mad 

Er í því að slá eigin met, hvert á fætur öðru.  Hef “rumskað” þrisvar á þessu tímabili, svona rétt til að skipta um stellingar og bæta faðmlögin við sófann og koddann. Slengst meðfram veggjum til að halda mér uppistandandi og frá því að hrynja í gólfið.   Hef ég ekki sagt þetta áður…….?

  Fainting 

Í þessu ástandi finnst mér maður ekki vera “kandidat” til að vera heima og sjá um sig sjálfur.  Lítill vökvi, engin næring, svitarkóf, yfirlið og ógleði sem ekkert fær hamið. Háður öðrum með allar bjargir, í raun og veru.  Það kemur sér að líkamlegt ástand er þokkalegt, fyrir utan sjúkdóminn og meðferðina þannig að ég ætti alveg að þola 1-2 sólahringa svona en hvernig er með aðra, t.d. eldra fólk með skerta nýrnastarfsemi, hjarta- og æðasjúkdóma o.s.frv.??  Eða þá sem búa algjörlega einir? Ég ætti ekki að kvarta en ég er undrandi á því hversu áherslur heilbrigisþjónustunnar hafa breyst.  Svo virðist sem frumskógarlögmálið; “þeir sterkustu lifa af”, eigi við í vaxandi mæli.  Arm 

Ekkert eftirlit, göngudeildin lokuð um helgar, engin símanúmer.  Hægt að hringja í bráðamóttökuna við Hringbraut í neyðartilfellum.  En hvað eru neyðartilfelli?  Í mínum huga er það lífshótandi ástand eða ástand sem þolir enga bið. Líðan mín er slæm en hún flokkast ekki undir slíkar skilgreiningar.

Hvað er þá til ráða? Jú, það sem ég hef hingað til gert;taka inn velgjustillandi lyfin, borða smá bita af banana eða prins pólo; fá einhvern sykur! Dreypa aðeins á, smátt og smátt og fá fylgd um húsið svo það líði ekki yfir mig. Liggja, hvíla mig og vera þakklát fyrir að geta SOFIÐ og látið sig dreyma….!

   Dreaming 

Tók síðasta lyfjaskammtinn í gærkvöldi þannig að kannski get ég borðað einhvern “mat” annað kvöld eða á mánudag.  Síðan tekur við eitt hænufetið á fætur öðru, þrótturinn og matarlystin kemur smátt og smátt.   

Chicken 2 

Ætti að vera farin að sjá fyrir endann á aukaverkunum um miðjan apríl, ef allt gengur að óskum.  Þekki ferlið óþægilega vel, sem betur fer er þetta lokaspretturinn í lyfjameðferðinni.  Lyfin drepa ekki einungis krabbameinsfrumurnar, þau ráðast einnig á heilbrigðar frumur og því fer sem fer.  Ég fæ annars vegar Vepesid bæði í æð og töfluformi eftir að heim er komið en aukvaerkanir þess lyfs koma fram á allt að 14 dögum eftir meðferð. Hins vegar fæ ég Cisplatinum í æð og eru aukaverkanir þess lyfs að koma fram allt að 3 vikum eftir meðferð. Því þarf maður að burðast með a.m.k. 3 vikna aukaverkanir eftir að lyfin eru gefin.

 Sickly 

Það veit sá sem allt veit, ég mun hugsa mig tvisvar áður en ég geng aftur í gegnum slíka meðferð aftur. Auðvitað á ég að vera þakklát fyrir það að þessi meðferðarmögueiki sé til staðar, annars væri allt búið og ekki unnt að berjast gegn þessum vágesti.  Í minni stöðu kom ekkert annað til greina en að leggja þessa meðferð á sig, það var til alls að vinna. Meðferð sem þessi, verður hins vegar að gefa fyrirheit um árangur.  Um er að ræða 3 mánaða törn við herfilega heilsu og átök auk annarra 3 mánaða í endurhæfingu eftir öll ósköpin, samtals 6 mánuðir í það heila, ef allt gengur upp.  Ég skil hins vegar það fólk sífellt betur sem hefur ákveðið að hafna meðferð þegar líkurnar á bata eru minni en meiri og kjósa gæði fram yfir tímalengd, þegar svo er komið. Fólk ætti almennt að skilja slíkar ákvarðanir og val einstaklinga sem við eigum, jú, öll rétt á.

Hvað varðar heilbrigðiskerfið, þá ligg ég ekki á þeirri skoðun minni að það bregst í tilfellum sem þessum og á það ugglaust við um mörg önnur tilfelli.  Ábyrgð heislusgæslunnar er mikil sem og félagsþjónusta sveitarfélaganna og þarf hver og einn að spyrja sig hvernig þessir þættir virka á hverjum stað.  Formlegt eftirlit af hálfu hins opinbera er í raun ekkert, helst þá á nafninu til af hálfu Landlæknisembættisins sem heldur utan um skráninguna.  En um gæði, umfang og eðli þjónustunnar; EKKERT!  Það ætti að vera umhugsunarefni fyrir stjórnmálamenn í komandi kosningum

 Election Day !

Ég man þá tíð þegar starfsmenn heilsugæsunnar heima í héraði, héltu ekki vatni yfir þeirri fásinnu minni að koma á laggirnar heimahjúkrun á árunum 2001-2003.  Þjónusta sem bundin er í lögum og þykir sjálfsögð víðast hvar.  Auðvitað töldu sumir mig ruglaðaða í þeim efnum og ófáir árekstrar þar!  Eiginlega efni í heila “skáldsögu”.  Leyfi mér að trúa því að fram undan séu bættir tímar með “blóm í haga” í þeim efnum sem og öðrum í grunnheilbrigðisþjónustunni með hinni nýju löggjöf um heilbrigðisþjónustu í landinu sem ég hef áður vitnað til. 

 Clapping Hands 

Stjórnmálamenn verða hins vegar að taka sig á, það er ekki nóg að setja lög, það þarf að fylgja þeim eftir. Kjósendur eru í auknum mæli, meðvitaðir um rétt sinn, sem betur fer!  Ótrúlegt en satt, að núverandi heilbrigðisráðherra skuli vera fyrrum starfsmaður heilbrigðisþjónustunnar! Í hans fagi; sjúkraþjálfun, er rík áhersla á forvarnir, heilsueflingu og endurhæfingu………Umhugsunarefni…….

 Scared 1Lokað er fyrir ummæli.