27. mars 2007

Legið sem skotin í rúma 21 klst.  Rugguveiki sem aldrei fyrr, hrundi tvisvar í gólfið þegar reyndi að fara fram úr.  Slæmar byltur og marblettir en engin brot.  Man lítið eftir því sem og öðru þennan daginn.  Kata reyndi að “hella” vökva, af og til í dag en illa gekk. 

Hef núna náð að halda mér uppi í rúma 3 klukkutíma, japlað á velgjustillandi lyfjum og drukkið í gríð og erg.  Klukkan orðin rúmlega 02.30!  Finn hvað mér líður betur, næ þó alla vega að fara í tölvuna, vafra um á netinu og láta vita af mér.   Veit ekki hvað ég gerði ef, tölvunnar og netsins nyti ekki við.  Suma dagana er tölvan eina samskiptaleiðin mín við aðra en krakkana.

Var heldur fljót á mér áðan, dreif mig í sturtu og steinleið yfir mig!  Í þriðja sinn í dag!  Kata í sundi og engin til að stumra yfir mér nema tíkurnar.  Það er enginn vafi á því að menntun mín nýtist í þessum veikindum, nú sem oftar. Ansi var kalt að “ranka” við sér.

  Tripping 

Ég veit að það skiptir höfuðmáli að koma einhverju niður; vökva og næringu, með einhverjum ráðum.  Ábyrgðin er fyrst og fremst mín og undir mér sjálfri komið að rétta úr kútnum.  Hef lært það á síðustu vikum að mikilvægast er að koma niður vökva, sykri og söltum og það hef ég lagt ofuráherslu á.  Komist þannig smátt og smátt í gegnum þessar aukaverkanir.

Sem betur fer skilja flestir að ég er ekki til stórræðanna á meðan þetta ástand varir og virða það þó ég heyri ekki í símanum eða sinni ekki hefðbundnum hlutverkum mínum.  Þó eru til þeir sem skilja hreinlega ekki neitt í neinu og telja trúlega að maður sé að gera sér þessi veikindi upp. Þeir eru til sem halda að maður gangi til allra verka eins og ekkert sé, í stakk búinn til alls.  Urr…., ég get orðið svo pirruð þegar ég verð vör við slíkt viðmót og ranghugmyndir. Ég er nokkuð viss um að ef maður lægi inni á sjúkrahúsi, væri viðhorfið annað.  Á meðan maður liggur heima hjá sér, eru kröfurnar meiri, það finn ég vel.

Ekki hafa allir sýnt mér skilning á aðstæðum og veikindunum.   Ég hef  stundum mætt þeim kröfum síðustu vikurnar að ég sinni, nú þegar, málum sem ég er algjörlega ófær um vegna aukaverkanna og veikinda.  Ég þekki t.a.m. engan sem er  fær um að sinna, af einhverju viti, viðskiptasímtölum eða mæta í viðtöl þegar sá hinn sami liggur óvígur, t.d. með uppköst eða 40°C og inflúensu?   Í kvöld las ég tölvuóst sem skrifaður var í morgun, þar sem þess var beinlínis krafist  að ég tæki á tilteknu máli strax þrátt fyrir að viðkomandi væri búinn að fá skýringar á ástandinu og veikindum.  Bíddu, hugsaði ég með mér; hvenær og hvernig átti ég að geta það í dag?  Er sumt fólk búið til úr steini?  Les það ekki póstinn sem ég skrifaði?  Eða er ég algjör aumingi?  Rosalega þarf lítið til að brjóta mig niður, hugsaði ég með mér.  Mér féllust hreinlega hendur, var ofboðið.   Ég sem hélt að ég væri að komast upp brekkuna, missti fótanna, rann óðar niður hana og komin á byrjunarreit.   Allt svart.   Kjarkurinn og þrekið sem hefur verið að byggjast upp, hrundi.  Traustið og trúnaðurinn; farið eins og hendi væri veifað. Og ég sem er búin að telja sjálfri mér trú um að ég væri taka á málum, væri sterk og dugleg.  Þetta væri allt að koma.  Ég er bara flak og það þurfti ekki mikið til.  Rosalega er þetta sárt.

 Fall To Pieces 

Hvað er til ráða?  Reyna að rísa aftur á fætur, byrja upp á nýtt, leita enn og aftur aðstoðar, fá hjálp í gegnum ferlið og læra af reynslunni, fyrir lífstíð.   Það er ekkert annað í stöðunni.  Framkoma sem þessi vekur mann hins vegar til umhugsunar og endurskoðunar á ýmsri þjónustu sem við sækjum sem einstaklingar.  Við höfum flest öll val þegar kemur að þeim efnum.

 Rock_climber   

Ég veit að heimurinn fer ekki á bið á meðan veikindunum stendur. Lífið rúllar áfram og ekki er hægt að fresta málum vegna þess að maður er veikur eða langt niðri í sinni sorg.  Það hefur aldrei verið mín sterka hlið að biðja um aðstoð, hef orðið að gera það síðustu vikurnar og er óendanlega þakklát þeim sem hafa veitt hana.  Sem betur fer er þetta veikindaástand að styttast í annan endann og ég fer að geta gert meira sjálf auk þess að launa öðrum það sem fyrir okkur hefur verið gert.

Heilbrigðisþjónustunni hefur farið aftur, það er mín skoðun.  Ég hefði ekki trúað því að óreyndu,  að fólk lægi heima hjá sér, eftirlitslaust í því ástandi sem ég hef upplifað síðustu 3 mánuðina, fyrst eftir stóra aðgerð og síðan í erfiðri lyfjameðferð.  Kerfið bregst algjörlega í mínu tilfelli alla vega og ekki veit ég hvernig hefði farið ef ég hefði ekki notið minnar menntunar og starfsreynslu og átt góða að.  Ofuráherlsa er lögð er á göngudeildaþjónustu í einu og öllu, fólk liggur fárveikt heima hjá sér í stað þess að liggja inni en bjargráðin fá og stuðningur lítill, ef þá nokkur. Reynsla mín á kerfinu er því fremur neikvæð í heildina en það jákvæða við hana er það að ég veit núna að ég get ýmislegt sem ég vissi ekki áður og er sterkari að sumu leyti en ég taldi. Reyni að nýta mér þá vitneskju á næstu dögum.

 Strong 3 ummæli við „“

 1. Sigga sis ritaði:

  Elsku Gunna mín. Sárt er að vita af þér svona veikri og geta lítið gert til að hjálpa! Maður hangir varla sjálfur uppi og berst við eitt og annað á hverjum degi. Þarf að berja mig áfram til vinnu daglega núorðið. En við skulum sanna það að við erum af Auðbjargargeninu og berjumst áfram, ekki satt? ÁFRAM NÚ!!!!! ENGAN AUMINGJASKAP!! Manstu?
  Þetta er stórhneyksli með heilbrigðiskerfið, það hefur svo sannarlega svikið sjúklinga sína með því að skilja þá eina eftir heima, fársjúka. Hvað með heimahjúkrun, Gunna mín? Þú áttir rétt á henni! Var þér ekki boðið upp á hana? Það var það eina sem reddaði Hjölla og þær komu daglega þegar hann var sem verstur. Það gaf mér og honum ákveðið öryggi þótt meira hefði mátt gera í málum á köflum, fannst mér.
  Ég er ennþá að berjast við sorgina, reiðina og dapurleikann og hef orðið að viðurkenna að ég verð að leita mér hjálpar.. er ekkert skárri en þú að eiga erfitt með að biðja um hjálp. Við þekkjum bara ekkert annað en að standa undir þessu sjálfar!
  En það er samt til fólk sem er tilbúið að hjálpa, það veit ég.
  Fagfólk á ég þá við.. sjálfboðaliðar. Elsku, farðu varlega .. slæmt þegar líður svona yfir þig og þú ein heima!
  Heyrumst vonandi fljótlega.
  Sys

 2. Sara Björg ritaði:

  Það gerir sér enginn upp svona veikindi og það er alveg á hreinu! Tek undir með mömmu með heimahjúkrunina, það veitir manni ákveðið öryggi að vita það að einhver kíki á þig þegar Kata er í skólanum eða sínum tómstundum.
  Ekki gott að það sé að líða yfir þig frænka!
  En ég vona að þú farir að hressast og hlakka til að fá snúllurnar í heimsókn :)
  Knús og koss

  Sara frænka og bumban

 3. gudrunjona svaraði:

  Takk fyrir ykkar innlegg og heimsóknirnar, mæðgur. Búin að vera fj…. framlág síðustu dagana. Þið þekkið vel þessar aukaverkanir og vitið að það er fátt annað í stöðunni en að þreyja þorra, hversu fúlt sem það er. Er einfaldlega orðin þreytt á þessu, búin að fá upp í kok.
  Kerfið hefur vissulega brugðist í mínu tilfelli, það kemur til út af því hver ég er. Manngreiningarálit er ekki óalgengt þar sem ég bý. Nenni ekki lengur að tala eitthvert rósamál í þeim efnum.
  Verðum í sambandi
  Bkv. Gunna