Eitt skref til…..

22. maí 2007

Eitt skref til vinstri og eitt skref til hægri lærði ég einhvern tíman.  Nú er það tvö skref áfram og eitt til tvö afturábak.  Þannig má lýsa deginum í dag, sem sé afturábak :(

Vakti náttúrlega frameftir öllu síðustu nótt og búin að vera óttaleg lufsa í dag. Sofið Þyrnirósasvefni með reglulegu millibili og í nánast allt kvöld. Búin að berjast við ógleði síðan seinni partinn sem ég skil reyndar ekkert í.  Vonandi er þetta einhver umgangspest sem gengur fljótt yfir. Það hlýtur eiginlega að vera úr því Kata hefur fundið svipuð einkenni af og til í dag.  Hún er hins vegar orðin ansi þreytt skvísan.  Fer þó að styttast í annan endan á próftörninni. Tvö munnleg róf eftir; íslenska og stærðfræði.

Haffi kominn á kaf í próflestur, veit að hann á eftir að standa sig, pollrólegur (a.m.k. á yfirborðinu :=) ) og yfirvegaður.  Þetta verður ansi stíft næstu vikurnar og það í um 30°C hita! Mér finnt erfitt að vera ekki til staðar fyrir hann á meðan þessari törn stendur, þó hann sé orðinn fullorðinn maður.  Við erum óttalega háð hvort öðru, þessi þrjú. 

Er ekki búin að kíkja á nýju prinsessuna í fjölskyldunni en Auja hafði það að orði að hún væri eitt það fallegasta barn sem hún hefur augum litið.  Þá er mikið sagt :)

Mikið verður mér létt þegar tilveran fer að snúast um skemmtilegri hluti en heilsufarið og veikindi!  Allt gengur út á hænuskrefin; ,,skyldi þessi dagur vera betri en í gær”, ,,hverju næ ég að áorka í dag”?  Það hefur gjarnan verið sagt að þegar fólk reskist og hættir að vinna, snúist allt lífið um meltinguna og heilsuna.  Harla lítið spennandi áherslur í lífinu, a.m.k. finnst okkur sem yngri eru, það vera fremur snautt og dapurt.  En hvernig má annað vera þegar hægir á öllu og hlutverkin breytast?

Sumum reynist erfitt að skipta um hlutverk og vera ekki lengur gjaldgengur á vinnumarkaðinum.  Aðrir hafa búið sig undir það með öflugum áhugamálum sem þeir hella sér út í af miklum krafti.  Þegar manni er kippt út úr hlutverkunum vegna veikinda er hvorki ráðrúm til slíks undirbúnings né geta til að framkvæma það sem maður vill.  Mörgum gengur illa að aðlagast svo breyttum aðtæðum, öðrum gengur betur.

Ég tilheyri svo sannarlega fyrrnefnda hópnum.  Skammast mín eiginlega fyrir þá litlu þolinmæði sem ég hef, er óttaleg frekja í þessum efnum; vil árangur og úrbætur NÚNA en ekki á morgun, hvað þá eftir einhverja mánuði.  Það er eins og ég hef áður sagt, þroski er það sem ég græði á þessum leiðindakafla og etv. meiri þolinmæði.  Mér finnst ég hins vegar alveg drepleiðinleg og vil fara að henda þessum veikindakafla út úr mínu lífi.  Þetta er orðið alveg ágætt.

Hef þó verið undur þolinmóð gagnvart heilbrigðiskerfinu fram til þessa svo ekki sé minnst á Tryggingastofnun ríkisins.  Þar er stofnun sem þyrfti að skoða betur og þar þarf að laga verkferla innanhúss. Starfsfólk þar er augljóslega af misjöfnu sauðahúsi og þyrftu sumir að fara í langt frí.  Í öllu falli að átta sig á því að þegar það er ekki að skila vinnu sinni og fer ekki eftir verkferlum og yfirlýstum markmiðum stofnunarinnar, er tímabært að fara að leita af nýju starfi. Það kæmi mér ekki á óvart þó einhver fái tiltal, hugsanlega áminningu fyrir slæleg og vítaverð vinnubrögð þar. Ég verð föst á mínu.

Ég er ekki alveg að skila veðurguðina þessa dagana, hér hefur snjóað af og til síðan seint í gærkvöldi og víða hálka í dag.  Ég hlýt af velta fyrir mér sem landsbyggðarmanneskja, hvort lögreglan sé ekki heldur fljót á sér að sekta fyrir nagladekkin.  Það er greinilega allra veðra von ennþá þó vorið sé heldur skárra en í fyrra. Í öllu falli lagði ég ekki í langferð í dag, kannski eins gott úr því líðanin var ekki betri.  Örlögin enn og aftur á ferðinni??

Í öllu falli þá er þessi dagur liðinn og kemur aldrei aftur, ég dvel ekki lengur við hann.  Horfi bjartsýn fram á veginn og vona að dagurinn á morgun verði áhugaverðari og skili meiru af sér. Nú ætla ég þrjú skref áfram, ekkert ,,afturábak” :)2 ummæli við „Eitt skref til…..“

  1. haffidan ritaði:

    þolinæði þrautir vinnur allar mútta mín…þetta hefur allt sinn gang eins og maðurinn sagði…upp með brosið og bjartsýnina, það flýtir fyrir. segi ég, óþolinmóðasti maður veraldar, auðvelt að segja öðrum til :) þetta hefst allt saman mútta mín, styttist líka í að ég komi heim…

  2. Guðrún Jóna svaraði:

    Þú átt meiri þolinmæði en þú lætur uppi, minn kæri :)
    Mér er smátt og smátt að lærast það á gamals aldri að ég fæ ekki öllu ráðið er sjálfa mig varðar. Pínu erftitt að kyngja því en Ce la vie!
    Hlakka mikið til að fá þig heim, stefni hins vegar ótrauð á heimsókn í sól og sumaryl…. :)