Borga meira…..

23. maí 2007

Nú liggur fyrir að sjálfstæðismenn taki við heilbrigðisráðuneytinu.  Er enn að kyngja þeirri staðreynd sem kom mér ekkert á óvart svo sem. Við stöndum, því miður, frammi fyrir þeirri staðreynd að komugjöld á heilsugæsluna munu hækka og gjaldtaka á LSH mun aukast verulega fyrir skjólstæðinga.  Þeir ætluðu sér þetta sjálfstæðismenn fyrir kosningar og fengu.  Það verður þannig von bráðar að þeir sem geta borgað, fá fyrstir þjónustuna! 

Ekki það að það virðist ekki skorta fé í samfélaginu, það safnast hins vegar á fárra hendur og ekki fá allir sömu tækifærin og aðrir. Þeir máttu eiga það framsóknarmennirnir að þeir stóðu fastir á því að tryggja öllum JAFNAN aðgang að heilbrigðisþjónustunni.

Ótrúlegur viðsnúningur hjá Ingibjörgu Sólrúnu; fyrir kosningar kom ekkert annað til greina en að senda sjálfstæðismenn í langt frí. Daginn fyrir kjördag hófst daður við sjálfstæðismenn sem þróaðist upp í rembingskoss við Geir og nú eru þau komin undir eina sæng.  Fljótt skiptast veður á lofti, erkifjendurnir búnir að semja!

Ég tel reyndar að Steingrímur hafi heldur betur klúðrað samstarfi svonefnds ,,kaffibandalags” í beinni og ekki bætti félagi hans, Ögmundur úr skák.  Ótrúlegt klúður hjá þeim og flokknum að glopra þessu tækifæri. Mig skal ekki undra þó mönnum sé tíðrætt um að skipta um forystu í VG.  Brautiðjendurnir búnir að vinna sitt starf og farnir að vera dragbítar.  Kominn tími á nýja leiðtoga.

Ég hlýt, eins og, að hugsa til framtíðarinnar með ugg í brjósti. Vonandi reynist ég sannspá um það að fljótlega sjóði upp úr.

Vildi óska að framsóknarmennn hefðu haft gæfu til þess að taka betur á sínum málum fyrir nokkrum árum. Það kom auðvitað að skuldadögunum hjá þeim eins og öllum öðrum. Hvar er flokkurinn staddur nú?  Fráfarandi formaður öruggur í sessi á nýjum vettvangi og háttsettur embættismaður í dag, núverandi formaður strandaður á skeri eftir að hafa lagt allt undir, þ.á.m stöðu seðlabankastjóra. Svakalegt dæmi sem við almennir flokksmenn gerðu ekkert í!   Hvernig stendur á því að grasrótin lét þetta yfir ganga? Einungis einstaka boffs sem kæft var í fæðingu, menn hreinlega létu stilla sér upp við vegg og kúga sig. Ég viðurkenni það að ég er bitur og svekkt. Fórninar voru of miklar á sama tíma og sökudólgarnir tryggðu sig í sessi á öðrum vettvangi.

Þessi dagur hófst seint og byrjaði illa.  Hálf pirruð yfir hitavellu, verkjum og sleni en reyni að horfa fram hjá því.  Fer samt ekki ofan af því að ástandið fer batnandi. Afrekaði 2 göngutúra í “vorhretinu” í dag og tel mig nokkuð góða með það :) Held áfram á þeirri braut.Lokað er fyrir ummæli.