Heldur nöturlegt
24. maí 2007
Það er heldur nöturlegt vorið okkar, skítakuldi með tilheyrandi hagléljum af og til. Ekki nýtt í kringum hvítasunnuna, svo mikið er víst. Verst hvað veðrið setur strik í reikninginn í sauðburði. Útilokað að setja ærnar og lömbin út sökum kulda. Síðasta vor var ansi kalt, mér til sælla minninga. Fór í húsin með bullandi lungnabólgu og skil ekki enn hvernig ég fór að því. Man að það var erfitt en einhvern veginn hafðist það. Ekki beið sauburðurinn þó ég væri veik sem er eitt af því sem bændur verða enn að lifa með. Þegar þeir veikjast verða þeir að standa vaktina fram í fulla hnefana. Ekki er auðvelt með afleysingafólk sem er auk þess kostnaðarsamt og ekki af miklum tekjum að taka.
Ég hef greinilega gleymt mér í góða veðrinu um daginn. Verið með glugga opna og ekkert gætt að því að það kólnaði heldur betur innandyra enda orðin lasin, enn aðra ferðina. Hóstandi og geltandi og hitinn rokinn upp. SKyldi ekkert í því að ég gat eiginlega ekki hreyft einn einasta lið í morgun, ekki einu sinni fingurliðina. Kjagaði eins og gömul, þreytt gæs. Nokkuð viss um að það hafi veri spaugileg sjón Hef reyndar verið óttaleg lufsa um nokkurn tíma en áberandi verri núna. Trúlega týpísk, gamaldags ofkæling. Hugsa að flottu göngutúrarnir um daginn hafi eitthvað hjálpa til.
Enn og aftur hafa áætlanir sem ég hef gert í huganum, út um veður og vind. Enda löngu hætt að gera þær opinberar, þær standast aldrei. Það mætti halda að þetta væru álög eða í besta falli farsi í lygasögu.
Það styttist í próflok há Kötu, er í munnlegri íslensku í dag. Búið að vera ansi erfiður tími hjá minni konu. Haffi á kafi í próflestri í allt að 30°C hita, ómótt og heitt en fullur bjartsýni enda ekkert annað í stöðunni. Ég er viss um að við myndum þiggja helming af þeim hita hér, ef ekki meira.
Auja að flytja lokaverkefni sitt til embættisprófs í ljósmóðurfræði. Ekki smá fúlt að komast ekki og hlusta á fyrirlestur hennar. Mjög þarft og spennandi viðfangsefni er lýtur að áhrifum ofþyngdar og offitu á fæðingar. Þar er heilsugæslan í lykilaðstöðu að hafa áhrif og þá á alla aldurshópa. Verulega spennandi verkefni.
Ekkert annað að gera að hnipra sig undir teppi núna og vona að þetta gangi fljótt yfir. Nóg er að gera í pólitískri umræðu þessa dagana þannig að manni ætti ekki að leiðast. Var ánægð að heyra að Kristinn H er orðinn formaður þingflokks frjálslyndra. Hef alla trú á því að hann standi sig vel þar enda hópurinn ekki eins gegnum sýktur af samkeppni og spillingu og sá síðasti sem hann veitti formennsku.
Ég er ansi hræd um að stjórnarandstöðunni eigi eftir að leiðast næstu 4 árin, ef að líkum lætur. Stjórnarmeirhlutinn það sterkur að stjórnarandstaðan hefur lítið eða ekkert vægi. Trúlega beina þeir flokkar kröftum sínum að uppbyggingu síns eigins flokks og styrkja innviðina fyrir næstu sveitarstjórnarkosninar. Ég hef alla trú á því að þær kosningar eigi eftir að koma á óvart.
Næstu skref hjá mér felast í því að skríða undir teppi, með poppskál og Tab og láta fara vel um mig. Ekkert annað að gera í stöðunni, þetta gengur yfir eins og allt annað