Skriðin undan teppinu

25. maí 2007

Heilsan heldur að skána.  Nennti ekki með nokkru móti að fara í gegnum flöskuhálsa heilbrigðiskerfisins í þetta skiptið og nýtti mér eigin bjargráð.  Hvort það sé skynsamlegt er svo annað mál.  Mæli eiginlega ekki með þeirri aðferð, svona almennt séð.

Alla vega skriðin undan teppinu og aðeins farin að sýsla.  Er auk þess skapbetri en í gær, var fremur fúl og leiðinleg við allt og alla. Fannst súrt í broti að komast ekki á Málstofuna í ljósmóðurfræðinni þar sem Auja skvís var að kynna lokaverkefnið sitt.  Búin að heyra í henni og gekk henni vel, eins og hennar er von og vísa.  Þá er þetta nám að baki og hún tekur við hjúkrunarstjórastöðu á Klaustri. Þar eru menn heppnir að fá hana, pottþéttur hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir, “acut” manneskja fram í fingurgóma :)

Ætla að halda mér inni við í dag enda veðrið ekki til að hrópa húrra fyrir. Vil ekki að mér slái niður enda löngu, löngu orðið tímabært að leggjast í ferðalag heim á leið. Er orðin ansi langeyg eftir því að komast heim.

Kata að lesa undir síðasta prófið; munnleg stærðfræði í þetta sinnið. Hafsteinn er hálf steiktur í sól og hita úti í Debrechen. Próf í lífeðlisfræði og “Biochem” framundan, það fyrsta eftir rúma viku.  Var heldur brattur að velja þann prófdag en veitir sér stíft aðhald með því að setja pressu á sjálfan sig.

Er komin á fult að undirbúa sumarið og haustið m.t.t vinnu, hlakka verulega til að geta hafið störf á ný. Veit að þrekið kemur þegar ég fer að vera meira úti í sveitinni og í kringum vini. Spennandi tímar framundan í heilbrigðismálum, nýju lögin og ný ríkisstjórn gefa fögur fyrirheit um ný og spennandi tækifæri á þeim vettvangi sem ég mun, að sjálfsögðu skoða og reyna að nýta mér :)

Það er svo einkennilegt að í öllum áföllum og erfiðleikum felast ný tækifæri.  Aðalatriðið er að koma auga á óg nýta þau. Það ætla ég mér að gera :)Lokað er fyrir ummæli.