Dalirnir heilla
26. maí 2007
Ég tókst heldur betur á loft í gærkvöldi þegar ég spjallaði við Dalamann um heima og geima. Auðvitað barst talið að sveitarstjórnarmálum en lítið þarf til að kveikja í mér í þeim efnum.
Mér finnst alveg með ólíkindum hvernig málum sláturhússins er komið. Ég var orðlaus þegar fráfarandi sveitarstjórn tók sig til og gerði upp húsið á sínum tíma, alfarið á kostnað okkar íbúanna án þess að nokkuð samráð væri viðhaft við okkur. Opinberar tölur vegna framkvæmdanna hljóðuðu upp á 66 milljónir kr. en ég veit með vissu að sú upphæð var mun hærri og var vel á annað hundrað milljónir. Kostnaðurinn var “falinn” hér og þar í bókhaldi sveitarfélagsins og skilst mér að núverandi starfsmenn sveitafélagsins hafi haft fullt í fangi með að finna þær tölur og kostnað og þótt nóg um. Mig skal ekki undra.
Í mínum huga koma aldrei annað til greina en að koma sláturhúsinu í útflutningshæft ástand og tryggja starfsemi þar áfram. Ég var hins vegar ekki á því að sveitarfélagið tæki þann kostnað alfarið á sig nema að höfðu samráði við íbúa og kynningu. Ég treysti þáverandi stjórn sláturhússins ekki til að standa vörð um reksturinn, hvað þá stjórn Dalalambs og var ærin ástæða til tortryggni. Menn skilja það betur nú, er mér sagt, þó öll kurl séu vart komin til grafar.
Næsta klúður varðandi sláturhúsið var að ganga til samninga við Norðlenska. “Allt frekar en Skagfirðingar” var viðkvæðið og í raun einu rökin fyrir þeirri ákvörðun. Í stuttu máli gekk Norðlenska á bak orða sinna og braut samningsákvæðin, framseldi samninginn til Skagfirðinga sem kæra sig ekkert um að nýta húsið nema til geymslu á kjöti sem er slátrað fyrir norðan. Núverandi sveitarstjórn samþykkti þennan ráðahag og er ég ansi hrædd um að menn eigi eftir að súpa seiðið af því, reyndar byrjaðir á því. Ég saup alla vega hveljur þegar ég frétti af þeirri ákvörðun. Þvílíkt klúður og ábyrgðarleysi!
Til að mæta öllum “duldu” skuldunum sem smátt og smátt hafa verið að koma upp á yfirborðið, greip sveitarstjórn á það ráð að óska eftir úreldingu á húsinu enda allt komið í óefni. Norlenska svo að segja á hausnum og Skagfirðingar búnir að tryggja það að hvorki Borgnesingar né aðrir komi nálgt húsinu. Landbúnaðaráðuneytið búið að samþykkja úreldingu; 30 milljónir kr.! Af þeim 30 milljónum fær Dalabyggð harla lítið, ef þá nokkuð.
Hrikaleg staða, annað er ekki hægt að segja. Búið að fjárfesta í framkvæmdum, húsið klárt en búið að rústa öllum grundvelli fyrir starfsemin og rekstur í húsinu. Sem betur fer hafa einhverjir bændur og aðrir Dalamenn risið upp og veitt þessari þróun mótspyrnu. Sveitarstjórn hefur tekið sér frest til að íhuga betur möguleikana en ég spyr; til hvers? Ég heyri ekki annað en að sveitarstjóri og nokkrir aðrir sveitarstjórnarmenn séu mjög neikvæðir og vilji ekkert með húsið hafa. Algjört ábyrgðarleysi, satt best að segja og illa farið með þá fjárfestingu sem fjármögnuð var á kostnað íbúanna og þjónustu við þá.
Það er engin töfralausn í stöðunni. Hingað til hefur ekki verið góð reynsla af því þegar sveitarfélagið hefur annast reksturinn, þeir aðilar sem þar hafa ráðið höfðu einfaldlega ekki burði til að sinna honum sem skyldi. En eitt mega þeir þó eiga; loforð við bændur stóðust sem allir fengu greitt fyrir innlegg sitt. Það er meira en hægt er að segja um fyrri rekstraraðila og nú Króksfjarðarmenn.
Mér sýnist enginn annar kostur í stöðunni en að menn taki sig saman ásamt sveitarfélaginu og tryggi áfram starfsemi í húsinu. Þó ég sé alfarið á móti því að sveitarfélagið standi í slíkum rekstri þá er hann það mikið hagsmunamál fyrir Dalina að nú verða menn að standa saman! Atvinnulífið er ekki það fjölskrúðugt að við getum endalaust reitt af okkur fjaðrirnar. Í þetta skiptið þarf að vanda valið á þeim sem halda um stjórnartaumana.
Menn kvarta og kveina yfir því að það sé skortur af starfsfólki. Hvernig má annað vera þegar fólk er nánast handvalið til búsetu. Annað hvort er því tekið með blómum og kossum eða hrakið með skömm í burt! Hrokinn virðist vera þvílíkur hjá sumum “klíkum” að menn blikna hvorki né blána við slíkt handval. Hver er svo staðan núna? Jú, fólk leitar annað, bæði eftir atvinnu og búsetu þar sem skilyrðin eru vinsamlegri og launin hærri.
Við Dalamenn verðum að koma okkur upp í 21. öldina og fagna öllum þeim sem hjá okkur vilja búa. Við getum ekki endalaust grisjað þá einstaklinga úr sem okkur hugnast ekki eða “eru öðruvísi” eins og ein fróm kona skrifaði forðum daga, mér til sælla minninga. Einstaklingarnir eru misjafnir eins og þeir eru margir, þannig er samfélagið fjölskrúðugt en ekki einsleitt. Handval á einstaklingum flokkast undir einelti, nokkuð sem menn þurfa að hugleiða vel.
“Dalirnir heilla” eru hugtök sem hafa loðað við Dalina frá ómunatíð. Er ekki löngu tímabært að gera þau orð að sönnu og byggja upp þá sérstöðu sem svæðið býður upp á? Loforðin voru mörg fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar og ugglaust meintu sumir eitthvað með þeim. Væri ekki ráð að blása nýju lífi og krafti í Dalamenn og stuðla að betra samfélagi? Eins og málin hafa þróast sl. ár eru sveitarstjórnarmenn ekki að standa sig sem skyldi og óttinn um klíkumyndanir reyndist réttur. Menn verða að setja eiginhagsmuni til hliðar og einbeita sér að hagsmunum sveitarfélagsins. Ef fram fer sem horfir, verða Dalirnir orðnir sumarbústaðabyggð með einstaka bændum innan nokkurra ára.
Nú hafa óreyndir sveitarstjórnarmenn haft rúmt ár til að setja sig í störf sín og tileinka sér sveitarstjórnarlögin. Er þá ekki orðið tímabært að þeir bregðist við þeim vanda sem blasir í atvinnu- og búsetumálum sem skyldi? Nú verða menn að fara að hysja upp um sig buxurnar, ekki seinna vænna og sinna starfi sínu með hagsmuni íbúanna í huga. Það yrði góð byrjun að hafa stjórnsýsluna í lagi.