Lífið er línudans…………
29. maí 2007
Ekki hafa hlutirnir gengið eins og ég hefði kosið síðustu daga og vikur. Ég verð að viðurkenna það að ég er ekki nafli alheimsins, það snýst ekki allt um veikindin og ég hef ekki tök á að ráða við allar aðstæður. Sumt er einfaldlega ekki í mínum höndum og það eru fleiri en ég sem þarf að taka tillit til. Mér finnst það reyndar fúlt en svona er þetta!
Þannig er lífið einmitt í hnotskurn. Það þýðir ekki að rjúka áfram og setja eigin þarfir og metnað ofar þörfum annarra. Lífið er línudans og við þurfum að taka tillit til annarra. Hef verið allt of uppekin við að hugsa um eigin bata, markmið og framkvæmdir síðustu vikurnar. Mér hefur legið svo á að ég hef stundum gleymt þeim sem standa mér næst. Er verulega miður mín vegna flumburgangsins í mér að undanförnu.
Ég verð að fara læra það í eitt skipti fyrir öll; mínar þarfir og forgangsröðun þurfa ekki að fara saman við þarfir annarra og því brýnt að fara einhvern milliveg. Hlusta og skynja, með öðrum orðum. Ég þarf að taka mig á.
Síðasta prófið hjá Kötunni minni í fyrramálið; munnleg stærðfræði. Í fyrsta sinn í þessum stúdentspróum skynja ég kvíða hjá minni konu. Uppáhaldsfagið hennar, búin að vera með topp einkunnir í 4 ár. Mætir í munnlegt próf í fyrramálið og happa og glappa hvað hún dregur. Auðvitað kann hún sitt fag, spurningin er hins vegar sú hvort hún láti kvíðann ná yfirtökum.
2 dagar í stórt próf hjá Haffa. Setti sér ansi þröngan tímaramma með það próf, byrjar í skriflegu og ef hann nær því, fer hann í munnlegt próf samdægurs hjá sínum fornaldarmönnum. Þar dugar ekki elsku mamma! Hrikalegt að geta ekki bakkað hann upp á staðnum, hann stendur einn og óstuddur með sálfum sér. Þau eru hetjur bæði tvö, á því er enginn vafi í mínum huga.
Fékk annars góða heimsókn í dag. Sigga sys kom og klippti sem óð runna og tré og djöflaðist úti í garði. Auðvitað kom moldvarpan upp í mér, var úti töluverða stund. Náði að gleyma hita og verkjum allan þann tíma. Fékk það reyndar svo í bakið á mér í kvöld en það er allt í lagi. Þetta var svo sannarlega þess virði. Ekki síst ánægð með það að vea komin af stað og byrjuð. Vonandi er þetta byrjunin á því sem koma skal. Finn fjandi mikið til núna í öllum liðum og “beinum” en fer sáttari að sofa en þegar ég vaknaði. Þetta er allt í rétta átt, einungis spurning um að vinna upp þrek og gefa þessu ferli raunhæfan tíma