Stúdína Katarína

2. júní 2007

Þá er Katan orðin stúdent frá MR :)   Þriðji ættliðurinn sem skrifast þaðan út, ég er ekki lítið stolt af henni.  Flaug yfir áttuna í meðaleinkunn þrátt fyrir alla erfiðleikana í vetur g sorgina.  Mér varð hugsað til þess tíma þegar ég var uppi á sviði í Háskólabíó fyrir 28 árum síðan og lítið hafði breyst. Stúdentsefnin fengu þó að sitja í athöfninni á meðan minn hópur stóð upp á endann allan tímann.  Skvísan var gullfalleg á sviðinu og geislaði þó álagið hafi verið yfirþyrmandi rétt fyrir útkskrift enda fáliðaðar í veisluundirbúningnum.

Það skyggði hins vegar mikið á daginn að Haffi skyldi ekki komast, það munar svo um hvert okkar í þessari litlu einingu. Ekki laust við að ég felldi nokkur tár, bæði af gleði og stolti yfir minni konu og söknuði eftir stráknum.  Við höfum ekki verið aðskilin í gleði og sorg fyrr en síðustu 2 árin og það tekur á okkur öll. Fyrir 8 mánuðum síðan var ég ekki viss um að getað verið viðstödd útskrfitina hennar en það hafðist og fyrir það er ég þakklát. Ég veit að það var erfitt fyrir Haffa að vera fjarri þennan dag og hefur tekið á. Mér finnst hann ótrúlega sterkur karakter, það sýnir sig ekki síst á stundum sem þessum.  Það verður ótrúlega gaman þegar hann kemur heim í sumar og tekið á því.  Það bíður hans langur verkefnalisti og síðan auðvitað ætla ég að njóta samvista við hann í botn :)

Veislan gekk mjög vel og frábært að hitta ættingja og vini undir þessum  kringumstæðum en vissulega vantaði marga.  Stórfjölskyldan hittist nánast eingöngu við jarðafarir síðustu árin og löngu tímabært að breyta því og efla tengslin. Það getur verið og seint á morgun. Frábært að fá vini úr Dölunum þó ég hafi vissulega saknað margra sem ekki áttu heimangengt. En svona er sveitalífið, sauðburðurinn og allt sem þeim álagspunkti fylgir, það þekki ég og skil mætavel.

Er búin að vera algjört sófadýr í allan dag, gjörsamlega búin á því en ofboðslega stolt og ánægð með allt.  Það kemur mér sífellt á óvart hversu yndisleg börn ég á, engin orð lýsa þeim tilfinningum og stolti sem ég upplifi vegna þeirra.

Þessi prófatörn Katrínar tók verulega á hana og í raun okkur og framundan er inntökupróf í læknisfræðina um miðjan júní.  Vonandi gengur það upp hjá henni.



Lokað er fyrir ummæli.