Spennufall

3. júní 2007

Ekki laust við spennufall síðustu dagana, gjörsamlega “punkteruð” eftir allt stressið í síðustu viku.  Engu að síður hæstánægð með hvernig allt hefur gengið vel, er bara þreytt og úthaldslítil.

Fórum í fermingaveislu hjá systursonum mínum í dag, ótrúlegt hvað tíminn er fljótur að líða. Mér finnst engin 14 ár síðan tvíburarnir voru í vöggu! En staðreyndir tala sínu máli og ég verð að kyngja því að tíminn líður hratt.  Aldrei hefur mér dottið í hug að ég eldist jafnhratt og blessuð börnin…………….

Virkilega gaman að hitta fjölskylduna og aðra ættingja og vini og það undir öðrum kringumstæðum en í jarðaför eins og mér er tíðrætt um.  Veislan var til fyrirmyndar og maturinn frábær, held ég hafi hesthúsað jafnmiklu þar og allan síðasta mánuð, svei mér þá!

Er bara lurkum laminn eftir síðustu dagana sem segir mér hversu úthaldið er lítið í raun, ég verð að fara að herða mig í þeim efnum!  Framundan eru fleiri veislur; skírnarveisla, útskriftarveisla, fermingarveisla og ég veit ekki hvað og hvað. Nóg að gera alla vega :)

Ég hef verið nokkuð þungt hugsi um trúnað og það hvernig sögur geta breyst í meðförum manna á milli.  Húsfluga er orðin að risafiðrildi áður en maður veit af.  Trúnaður er nokkuð sem er vandmeð farinn og ber að virða sem slíkan.  Menn líta hins vegar á það hugtak með misjöfnum augum og sýnist sitt hverjum í þeim efnum.

Ég er einu sinni þannig að ég tek því alltaf alvarlega þegar trúnaður er brotinn og er oft æði lengi að jafna mig á því og versna með árunum.  Tek trúnaðarbrot kannski allt of nærri mér.  Það sama má segja þegar orð mín eru endursögð manna á milli, slitin jafnvel úr samhengi og sett í allt annan búning en til þeirra var stofnað.  Mér finnst það fjandi sárt.  Ekki hjálpar það til að verða síðan vör við að “sagan” hefur farið eins og eldur um sinu áður en ég hef náð að snúa mér við.  Einhvern veginn minnir slík “flugferð” mig á kjaftakerlingar í gömlu pakkhúsunum sem höfðu fátt annað fyrir stafni en að kjafta um nánungann. Mér er einnig hugsað til litlu plássana á landsbyggðinn þar sem einstaklingar reyna að krydda upp á tilveruna með auka salti, pipar eða aromati hér og þar enda fjölbreytileikanum ekki fyrir að fara.

Sumir segja að heimildalausar sögur, ummæli og sögusagnir séu marklausar og get ég tekið undir þá skoðun en engu að síður eru þær skaðandi og hvimleiðar, vægast sagt. Hvað varðar trúnað þá tekur það tíma að byggja hann upp aftur.



Lokað er fyrir ummæli.