Rósirnar
6. júní 2007
Ég las það síðustu nótt að ein blómarósin hefði fellt sín blöð, í þetta sinnið blómarós að vestan. Krabbamein líkt og hjá Ástu Lovísu. Blómarósin liðlega tvítug og Ástan þrítug.
Það er svo einkennilegt að fyrir 8 mánuðum vissi ég ekki af þessum rósum, rambaði á síður þeirra þegar ég var að leita eftir svörum sjálf og beið eftir niðurstöðum. Þessar rósir voru mér hvatning og fyrirmynd á margan hátt, átti sjálf ekki von á því að komast eins langt og ég er komin í dag. Útskrift Kötunnar fjarlægur draumur, hvað þá að ég hugsaði lengra. Þessar ungu hetjur veittu mér ótrúlegan stuðning, ómeðvitað. Kjarkurinn og vonin skinu í gegn um allt þeirra líf. Þær voru mér sem fyrirmynd á margan hátt enda leið ekki sá dagur sem ég kíkti í “heimsókn” á síðurnar þeirra.
Úff, hvað er ég, tæplega fimmtug manneskjan að kvarta og vola, ég hef þó fengið öll þessi ár sem er meira en sagt verður um rósirnar og hvunndagshetjurnar. Ég blátt áfram skammast mín fyrir allt vælið.
Það er einkennilegt hvernig þessi bloggheimur getur haft áhrif á mann; að taka þátt í sorg og gleði bloggverja, skilyrðislaust og af lotningu en halda á sama tíma í vonina sjálfur og vera í hlutverki Pollýönu.
Átti fróðleg símtöl í kvöld og komst að því að enn er mér ætlað að vera kyngimögnuð kona, ekki síður nú og fyrir uppskurð og meðferð! Mér er enn ætlaður tími á þessari kringlu, í einhvern tíma enn. Ég komst hins vegar enn og aftur að því að mér er ætlað eitthvað yfirnáttúrlegt í augum annarra og er ansi hrædd um að ég standi ekki undir þeim krafti og ákvörðunarvaldi sem mér er ætlað. Hins vegar er minn tími ekki kominn.
Ótrúlegt hvað menn ætla mér; ég ekki einungis ræð yfir eigin örlögum heldur og einnig örlögum annarra. Ansi fjölskrúðugur karakter sem ég er. Finnst það reyndar vafasöm viðurkenning , ég er jú bara mannleg og ég á ekki svar/lausnir við öllu Það búa ekki allir yfir þeim hæfileikum sem menn telja mig búa yfir. Eitt er þó alveg víst; ég ræð ekki yfir lífi annarra og ég tek ekki ákvarðanir fyrir aðra. Það getur enginn. Ótrúlegt hvað menn geta verið grunnhyggnir og ljóstrað því upp án þess að roðna.