Mitt vor er komið

8. júní 2007

Þar kom loks að því að ég fann vorið og farin að viðurkenna að sumarið sé komið. Mér fannst hausta snemma í ár, miðað við veðurfarið í maí og byrjun júní. Lá á fjórum fótum og skrapaði upp illgresi á milli gangstéttahellna og fór í beðin í gær.  Veðrið yndilegt og mér leið ótrúlega vel.

Gerði heiðarlega tilraun til að snyrta trén með þessari svaka fínu hekkklippu en fljót að slökkva á henni, áður en ég eyðilagði alla runnana. Ég einfaldlega kann þetta ekki :(

Skrapp í Garðheima og keypti sumarblóm og er óvenju snemma á ferðinn með það í ár. Fyllti bílinn í bókstaflegri merkingu og var alsæl.  Eldri maður vatt sér að mér og spurði hvort ég ætlaði að opna blómabúð! Nei, ekki var það svo gott en sagði honum að vorið væri loksins komið í mínu hjarta. Hann horfði á mig drykklanga stund og sagði; það er löngu komið, ég sé það! Svo mörg voru þau orð og ég alsæl :)

Mér líður óneitanlega mun betur og er bjartsýnni á tilveruna en ég hef verið lengi. Þrátt fyrir verki og stirðleika er líðanin betri.  Vantar enn mikið upp á úthaldið, finn það alveg ef ég geri eitthvað en þannig kemur þrekið smátt og smátt með því að reyna á sig, aðeins meira í dag en í gær.  Það sem hjálpar mér mest er að hafa nóg fyrir stafni.  Ætla að reyna að pína ofan í mig pólarolíu en Systa mágkona er hörð á því að hún svínvirki við liðverkjum o.þ.h.  Ætla að láta mig hafa það að taka hana inn, þrátt fyrir að uppistaðan sé lýsi; það fyrirbæri gúlpast stöðugt upp úr mér allan daginn, taki ég það inn að morgni.  Það sakar ekki að reyna, Systa fær þá bara að eiga olíuna ef ég get ekki haldið henni niðri :)

Fer loksins heim um helgina, ekki veitir af þó fyrr hefði verið.  Mörg mál sem þar bíða og menn augljóslega farnir að hugsa gott til glóðarinnar er varðar eigur dánarbúsins. Ótrúlegt hvað menn geta lagst lágt en ég fékk æði einkennilegt símtal í fyrradag frá einum ættingja hans um þau málefni. Halda menn að maður sé alveg ga,ga og viti ekki neitt? Það ljótasta við þetta er þegar menn vitna í “meint” orð látins manns. Sem betur fer vorum við Guðjón samstíga í flestu og mér kunnugt um flesta hluti er lutu að búskap, tólum og tækjum. Auk þess var bókhaldið hans til fyrirmyndar.

Í öllu falli hlakka ég til helgarinnar, nóg að gera og loks orðin það hress að ég geti keyrt skammlaust lengri vegalengdir.  Byrja fljótlega að vinna.  Heldur í fyrra fallinu, það veit ég en “neyðin kennir naktri konu að spinna”.  Þannig er það einfaldlega og ekkert annað en að taka því.  Geri trúlega lítið annað til að byrja með en veit að þrekið og úthaldið kemur.  Andlega séð og faglega hef ég verulega gott af þessu. Næsta tékk ekki fyrr en í júlí þannig að allt er í góðum gír.



5 ummæli við „Mitt vor er komið“

  1. Jóna Heiða ritaði:

    Frábært að heyra að þér líði betur :) og ert komin í sama gír og ég.. villt hellst vera útí garði.. reyndar er ég svo heppin að ég bý við hliðina a blómasölu :) stutt að fara. :)
    En vonandi heldur þetta áfram svona.. stollt af þér

    mbk. Jóna Heiða

  2. Jóna Heiða ritaði:

    Frábært að heyra að þér líði betur :) og ert komin í sama gír og ég.. villt hellst vera útí garði.. reyndar er ég svo heppin að ég bý við hliðina a blómasölu :) stutt að fara. :)
    En vonandi heldur þetta áfram svona.. stollt af þér

    mbk. Jóna Heiða

  3. Guðrún Jóna svaraði:

    Til hamingju með íbúðina þína; aldeilis frábært hjá svo ungri stúlku :)
    Hvar er íbúðin? Alla vega ertu með garð, heyrist mér.
    Láttu endilega í þér heyra þegar kemur upp á land. Kannski ég banki upp á og mæti á goslokahátíð, aldrei að vita hvað manni dettur í hug á gamals aldri :)
    Bestu kveðjur heim til múttu og pabba

  4. Jóna Heiða ritaði:

    Já það væri bara gaman að sjá þig.. keyptum íbúð að hásteinsvegi 5 :) sem er bara frábær staðsetning gætum ekki verið ánægðari

    mbk.
    Jóna Heiða

  5. Guðrún Jóna svaraði:

    Enn og aftur til hamingju, frábært hjá ykkur. Staðsetningin æðisleg og húsið líka, ef ég man rétt:) Banka pottþétt upp á hjá þér ef ég kem til Eyja.
    Bkv. Guðrún Jóna