Heim í heiðardalinn

11. júní 2007

Skrapp heim um helgina og mjög sátt yfir því að hafa drifið mig. Ætlaði að staldra lengur við og ganga frá málum en þurfti suður.   Skrepp aftur á næstu dögum í samráði við “mína menn”

Ég upplifði mikinn létti þegar heim var komið.  Fann hins vegar vel fyrir mínum manni og fannst þetta erfitt að mörgu leyti, ekki síst þar sem ég var ein en þetta var eitthvað sem ég varð að gera og er mjög sátt við sjálfa mig.

“Mínir menn”hafa heldur betur reynst mér vel, ótrúlegt hvað menn eru tilbúnir til að leggja á sig til að aðstoða aðra; í þessu tilfelli mig. Ég hef ekki hugmynd um það hvernig ég get þakkað þeim nógsamlega fyrir en ég mun reyna mitt besta.

Skrepp aftur á næstu dögum og veit að þá verður það auðveldara.  Helst hefði ég viljað vera heima alveg í sumar en verð að kyngja því að þurfa að fara að vinna. 

Fannst ótrúlega erfitt að fara í fjárhúsin sem standa nú auð. Gerði það viljandi að loka ekki hliðinu heima þannig að ókunnugar kindur komust á túnin hjá mér.  Mér fannst það ómetanlegt að heyra í þeim, svo ekki sé minnst á lömbin :)

Þarf að fara að taka ákvarðanir varðandi slátt o.þ.h. Þarf auðvitað að hafa hrossin okkar í huga áður en ég tek einhverjar ákvarðanir en langar mest til að slá og hirða heyið.  Allt kemur þetta í ljós á næstunni.

Mætti í fermingarveislu hjá Fjólu Björgu, er bit yfir því hversu hratt tíminn líður, man eftir henni sem stelpuskottu en orðin hálffullorðin, ung skvísa í dag. Gullfalleg sem og yngri systirin :)

Er ofboðslega þreytt, endalaust þreytt þannig að nú er það koddinn og sængin. Að mörgu að huga á næstunni og ótal mál að leysa. Sumt hreinlega skil ég ekki og vona að ég hafi rangt fyrir mér þegar ég hugsaði málin heima. Það leit ekki vel út :(

Vertu alltaf hress í huga

hvað sem kann að mæta þér.

Lát ei sorg né böl þig buga.

Baggi margra þungur er.

Treystu því að þér á herðar

þyngri byrði ei varpað er

en þú hefir átt að bera.

Orka blundar næg í þér.  ( höf.óþekktur) 

Vona að þessi orð séu sönn, er pínu slegin :)



Lokað er fyrir ummæli.