Uppbrettar ermar

13. júní 2007

Allt búið að vera á fullu síðustu dagana og mín komin í gang.  Úrvinda eftir daginn, búin að sofa síðan seinni partinn og nýskriðin, svona rétt til að kíkja í tölvuna og hátta mig. Þrekið er samt að aukast dag frá degi.

Margt sýslað og grúskað í pappírsmálum áfram. Hitti mína skólameistara uppi á Skaga í dag sem og fleira starfsfólks.  Ég veit ekki hvað það fólk heldur um mig en ég var svo glöð að hitta alla að ég gekk á fólk og bókstaflega knúsaði það.  Réði hreinlega ekki við mig.  Ofboðslega var gott að koma á vinnustaðinn aftur, hlakka mikið til að hefja kennsluna í haust.

Ekki þótti mér verra að fá hrós:) Hrós fyrir að líta vel út enda veit ég það sjálf að mér líður betur núna en síðustu 2-3 árin.  Veikindin hafa pottþétt verið að grassera í allan þann tíma. Hrósið lyfti mér auðvitað upp á hæstu hæðir:) Ekki þarf mikið til að gleðja mann þessa dagana………………….

Fyrri dagurinn í inntökuprófunum hjá Kötunni búin og hún sjálf alveg búin á því. Erfitt að spá um árangur dagsins, allt verður þetta að koma í ljós.  Seinni dagurinn á morgun og nú mikilvægt að hún mæti vel sofin og hvíld.  Báðar áttum við fremur svefnlitla nótt út af spenningi þó misjafnar ástæður lægju þar á baki hjá okkur mæðgum.

Er sem sé að komast í góðan gír, afköstin að aukast og ákvarðanir að líta dagsins ljós, smátt og smátt. Allt skal þetta hafast, auðvitað kemur upp bakslag af og til en er ekki lífið þannig alltaf?Lokað er fyrir ummæli.