Alltaf jafn undrandi

16. júní 2007

Ég er óttalega bláeyg, hef vitað af því lengi en ég virðist ekki sjóast í þeim efnum.  Treysti fólki úti það endalausa enda “af hverju ekki”? Ég er einu sinni þannig alin upp að okkur ber að treysta nánunganum, gefa fólki “sjensa”, það er rangt að fara eftir almannarómi og öðrum kjaftagangi; manni ber alltaf að reyna hlutina á eigin skinni; fordómalust. Þeir sem hafa “kjaftasögur” að segja ber ekki að treysta enda undir virðingu manns að taka þátt í slíku!

Er alltaf að uppgötva nýja hluti og reynslu á hverjum degi, endalaust undrandi.  Af hverju? Jú, bláeyg og með mitt uppeldi: ég skil ekki í fólki og það er málið!

Það er kannski bara hið besta mál, er ekki lífið þannig að maður er alltaf að læra? En þegar maður hefur fengið þau högg að ekkert væri framundan en fær svo annað tækifæri, þá hugsar maður öðruvísi. Áherslurnar verða aðrar og svo einkennilegt sem það virðist; maður hefur meiri biðlund, skilning en að sama skapi þá snerpu sem þarf til að taka ákvarðanir.

Undanfarið hef ég fengið þau “spörk” sem til þarf til að fara í gang. Löngu tímabært en ég veit það sjálf að þegar sorgarferlið er margfalt þá er maður ekki til stórræðana. Ekkert óeðlilegt við það.  Aðrir sem standa við hlið manns eru boðnir og búnir til að aðstoða mann og ýta manni áfram enda oft brýn þörf á. Skilja hafnvel ekkert í “rólegheitunum” hjá viðkomandi.  Vagninn fer hins vegar ekki í gang fyrr en bílstjórinn er tilbúinn til að starta. Svo einfalt er það.  Aðrir verða að skilja það

Ég þakka fyrir það uppeldi sem ég fékk, tel mig vera betri menneskju fyrir vikið. Hef lagt á það ríka áherslu í uppeldi Hafsteins og Katrínar að dæma ekki eftir kjaftagangi heldur út frá eigin reynslu og forsendum.  Ég veit að mér hefur tekist vel í þeim efnum; þau eru fordómalaus og meta einstaklinga út frá eigin reynslu og forsendum, ekki út frá því sem ég eða aðrir segja. Hef meira að segja stundum þurft að bíða eftir stuðningi þeirra þar til þau hafa metið málin, út frá eigin forsendum :)  Þannig á það líka að vera og er ég ekki undanskilin í þeim efnum. Ég er mjög stolt af því  og sátt við ungana mína :)



Lokað er fyrir ummæli.