Rólegt
17. júní 2007
Ansi rólegt yfir öllu þessa dagana, er að venjast þeirri staðreynd að vera byrjuð að vinna. Er eins og ég hafi orðið undir valtara en ég veit að þrekið kemur smátt og smátt. Nokkur viðbrigði að fara á fætur kl.06.00, ekki það að ég er ekki óvön því en þá til að lesa Moggann og leysa krossgátur þar til mig syfjar og ég legg mig aftur.
Andlega hef ég verulega gott af því að vera orðin “gildur þjóðfélagsþegn”, hver dagur hefur meiri tilgang nú. Hefði samt ekki unnið í sumafríinu nema af illri nauðsyn enda gríðalega margt sem þarf að gera, inni sem úti. Ætlaði mér að vera fyrir vestan í sumar enda af nógu að taka þar en verð þess í stað að láta mér nægja styttri viðdvöl í senn. Kennslan hefst svo í krinum 20 ágúst og ætti ég að vera komin með gott úthald þegar að henni kemur. Ég hlakka ótrúlega til að byrja aftur
Ekki laust við að það sé þungt yfir mér þessa dagana, gengur illa að sætta mig við það þegar fólk kemur ekki fram af hreinlyndi. Virðist seint ætla að sjóast í þeim efnum; bláeyg sem fyrr. Tvöfeldni og það að menn séu ekki sjálfum sér samkvæmir er ekkert nýtt undir sólinni, við lifum við það alla daga. Það kennir manni hins vegar að vanda valið, treysta fáum og brynja sig betur. Mér lætur það best að skríða inn í mína skel þegar ég er sár og það er bara allt í lagi. Við tökum öll á málum með mismunandi hætti, skelin er mín leið. Menn skulu þó ekki halda að ég sé buguð, þvert á móti. Styrkist ef eitthvað er.
Ég tek mér þann tíma sem ég þarf til að vígbúast, lífið er ekki dans á rósum, svo einfalt er það. Sumir fá stærri skammta af mótlæti en aðrir og þá er bara að taka því. Ég mun hins vegar ekki nota bláar augnlinsur framvegis.
Einkennilegt að sumir skulu trúa því í raun að hægt sé að nota aðra sem tímabundna dyramottur hjá sér og síðan sé ekkert mál að henda þeim þegar orðnar slitnar eða skítugar. Þetta sér maður alls staðar í kringum sig, nær og fjær. Ég lifi lífinu fyrir mig sjálfa, ekki aðra og þannig á það að vera. Ég get litið stolt um öxl, mér hefur tekist vel með uppeldi minna barna, a.m.k. á flestum sviðum. Þau orðin vel fiðruð og fleyg þannig að ég þarf ekki að hafa áhyggjur af þeim. Eru bæði tvö sjálfstæðir og sterkir einstaklingar, tilbúnir að takast á við lífið. Hvað er hægt að óska sér meira?
Ég er sjálf á ákveðnum krossgötum, verð að taka ákvarðanir um það hvert skuli stefna, hvernig og hvenær. Þær ákvarðanir mun ég taka þegar ég hef gert upp minn hug og stend þá líka við þær. Í öllu falli ætla ég að nýta tækifærið sem ég fékk og byggja ákvarðanirnar á þeirri reynslu sem ég bý yfir, bæði fyrir og eftir veikindin. Ég hlakka til þegar ég hef ákveðið stefnuna. Til þess er jú lífið; til að hafa gaman af því, alla vega svona að öllu jöfnu. Lífið er auðvitað sætt og súrt í bland