Ekki til stórræðana

19. júní 2007

Dagarnir ansi stuttir upp á síðkastið. Byrja kl. 06.00 og búin á því þegar ég kem heim kl.17.00. Sofna þá því miður oftast og ríf mig upp með herkjum síðla kvölds svona rétt til að bursta tennurnar og skipta um stellingar. Blómin orðin ansi döpur, a.m.k. sum hver og þvotturinn hleðst upp. Ég geri ekkert annað en að sinna vinnunni, punktur og basta!

Verð að sætta mig við þetta ástand til að byrja með á meðan þrekið er að koma og aðrir að sýna mér vonandi umburðarlyndi. Ég er óttalega viðutan þegar heim er komið.

Hef óskaplega gaman af því að vera komin í vinnu við mitt fag; hjúkrunina og reyndar svolítið hissa hve litlu ég hef gleymt síðan 2003! Átti von á því að þurfa lengri aðlögun og upprifjun til að ná upp töpuðum tíma en svei mér þá; ég hef engu gleymt á heilsugæslusviðinu.  Auðvitað er ég rígmontin af  því:) Viðurkenni það þó að mér líkar mun betur á smærri stöðvum en þeim stærri þó fínt sé að vera á þeim líka.  Kostirnir eru auðvitað til staðar; fleira fólk, meiri fagmennska og nýjungar og meiri samskipti.  Frábært í alla staði :)

En sem stendur er vinnudagurinn ærið verkefni fyrir mig, er þó ekki eins “lemstruð” eftir daginn og ég var fyrstu dagana. Treysti mér reyndar ekki í fulla vinnu í sumar, verð að láta hlutastarf duga svona í fystu lotu en það munar um allt. Fer á fullt skrið í ágúst þegar skólinn byrjar.

Katan á fullu á Bogganum að leysa læknaritara af, bókstaflega hent út í djúpu laugina þar án nokkurar aðlögunar sem heitir en ég veit að hún ræður vel við það og er fljót að koma til.

Það styttist heldur betur í stóra prófið hjá Haffanum sem verður á föstudag. Gott hljóð í honum í gærkvöldi og vonandi hefst þetta hjá honum í fyrstu lotu. Nú, ef ekki þá er ekkert annað að gera en að reyna aftur að viku liðinni. En það seinkar heimkomunni sem því nemur.  Þetta er þó allt að hafast og það er aðalatriðið :)

Búið að vera nóg af útskriftum í stórfjölskyldunni, yngsti bróðirin var að klára MBA námið þannig að nú verðum við systkinin að fá “brilliant” viðskiptahugmynd. Ég er reyndar búin að fá eina “lánaða” frá Veigu, vinkonu mömmu; að opna skemmtilegt elliheimili! Ögrandi verkefni þar.

Nú svo var það Aujan, systurdóttir mín, að klára embættispróf í ljósmóðurfræðinni með frábærum árangri og Binna, bróðurdóttir mín að ljúka stjórnmálafræðinni. Elsa lauk diploma prófi í Opinberri stjórnsýslu þannig að allir hafa haft nóg fyrir stafni síðustu dagana, á því er enginn vafi.

Reyni að öðru leyti að klóra í bakkann með þau verkefni sem bíða enn eftir farsælli lausn. Er háð öðrum með lausn á sumum þeirra og vona að allt fari að skila sér. Það myndi létta lífið og bæta líðanina mjög mikið. Ég mun ekki gefast upp þó á móti blási á stundum!  Það er ekki til neins og bætir fátt en það verður gott að geta sofnað áhyggjulaus eitthvert kvöldið:)



2 ummæli við „Ekki til stórræðana“

  1. Kata ritaði:

    Hæ Gunna mín og takk fyrir síðast. Leitt að ná ekki að kveðja þig en skyndilega varstu bara horfin:) Hvar ertu að vinna? Gaman að heyra að hjúkrunin sé viðfangið enda ertu þar á heimavelli. Up with the spirit sister!

  2. Guðrún Jóna svaraði:

    Heil og sæl sys,
    Var ekki sjálfi mér lík enda illa lemstruð eftir vinnuvikuna, stóð varla í fæturnar. Hefði kannski komið til ef ég hefði fengið mér 1-2 öl eða þetta flotta freyðivín :) Helgin dugði varla til að verða verkjalaus og hress.
    ‘Atti von á því að þú staldraðir lengur við fyrir sunnan en svona er þetta bara, alltaf nóg að gera.
    Reyni mitt besta, var að klára 3. vinnudaginn í röð nú og finn að ég er búin á því. Þrauka morgundaginn og svo komin í frí :)
    Bestu kveðjur til strákanna