Bitið á jaxlinn

20. júní 2007

Fátt annað en að bíta á jaxlinn og bölva í hljóði þessa dagana. Orðin framlág eftir 3 vinnudaga. Langar stundum að öskra af verkjum. Þykist vita að þeir stafi af því að þrekið og úthaldið er of lítið enda ekki búin að fara í neina eiginlega endurhæfingu.  Auðvitað bratt að rjúka beint í vinnu án þess að vera komin vel af stað í henni en mér stóð hún einfaldlega ekki til boða.  Ekkert annað í stöðunni hjá mér en að fara að vinna, hvernig sem ástandið er.

En vinnuvikan styttist í annan endan þannig að stutt er í hvíld og rólegheit. Það eru mikil viðbrigði að hafa allt í einu meira að gera en ég ræð við þannig að enn sitja tiltektir og þrif á hakanum.  Ég hugga mig við að draslið fer ekkert þó ég bölvi því í leiðinni. Veit að þetta verður mun skárra í næstu viku, enn betra í þar næstu o.s.frv.

Það rignir inn allra handa glaðningi til mín þessa dagana, þvílíkt fjör og pappírsflóð! Ekki mjög upplífgandi en hlakkar ugglaust í einhverjum.  Ekkert annað að gera en að leysa þau verkefni sem önnur og spýta í lófana.  Mér er engu að síður hugsað til Jóns og Séra Jóns, einhverra hluta vegna. Einhver er ekki kátur, alla vega. Ástandið fer vonandi að skána, hlakka til að geta sofnað áhyggjulaus í það minnsta. En mikil vinna bíður þó margt sé áunnið.

Ótrúlegt hvað veikindi og síðan ástvinamissir setja strik í reikninginn og gera mann óstarfhæfan. Ekki einungis í nokkra daga heldur í langan tíma. Að vinna upp verkefni sem safnast hafa upp er í raun 100% starf, ef ekki meira. Ég segi það enn og aftur að maður ætti að fara á námskeið til að læra að höndla afleiðingar slíkra áfalla. Ekki er sýndur skilningur á þeim í kerfinu þannig að þörfin á fræðslu og stuðning er ærin. Einhver gæti hagnast vel á því að halda utan um slík  námskeið, svo mikið er víst.

Reyni að halda mig í litlu skrefin, lengi þau smátt og smátt.  Sumir dagar góðir, aðrir hábölvaðir. Sveiflurnar ævintýralegar, ýmist bjartsýn, kát og glöð, tilbúin í hvað sem er eða lítil, aum og vex allt í augum. Það er öll flóran, í stuttu máli. 

Krossgöturnar eru flóknar, það er erfitt að velja “réttu” eða bestu leiðina og því tek ég mér þann tíma sem ég þarf til að ákveða mig. 2 ummæli við „Bitið á jaxlinn“

 1. Sirrý ritaði:

  Heil og sæl Gunna mín! Rataði hingað af síðunni hennar Kötu og hef reyndar kíkt hérna stöku sinnum eftir að ég uppgötva’i síðuna hennar Kötu ekki svo alls fyrir löngu.
  Það var gaman að hitta þig í fermingu tvíburanna og Kötu hina yngri (sem og alla).
  Ég hef löngum heyrt að þú værir mikill dugnaðarforkur en farðu varlega og vel með þig!
  Láttu nú verða af því að koma við hjá mömmu nú þegar þú ert að flækjast milli Reykjanesbæjar og höfuðbogarinnar! Valgerður kæmi þá líka og jafnvel ég?!
  Óska þér góðs bata og alls hins besta! Baráttukveðjur! Sumarkveðjur frá Sirrý

 2. Guðrún Jóna svaraði:

  Elsku Sirrý mín,
  Það var sömuleiðis frábært að hitta þig. Engin spurning að ég mun heyra í mömmu þinni og auðvitað panta ég ykkur Völu með! Við höfum ansi margt að spjalla um og hlakka ég ekki lítið til :)
  Bestu kveðjur til ykkar allra þangað til
  Gunna