Á bremsunni

30. júní 2007

Gugnaði á vesturferð í dag, krakkarnir fóru einir. Sá mitt ráð vænna að hlaða batteríin fyrir næstu vinnuviku sem verður í lengri kantinum.

Við mæðgurnar réðumst í það að mála skjólveggi og pall í gærkvöldi og mín búin á því í dag. “Beinverkirnir” eru hvimleiðir og fj…. verri. Ég kemst ekki hjá því að rifja upp líðanina síðustu 3 árin fyrir greininguna. Á þeim tíma fóru þessir “beinverkir” og liðverkir vaxandi og oft komst ég ekki á fætur í fyrstu lotu, þurfti að bryðja bólgueyðandi lyf og önnur gigtarlyf til að komast af stað. Var greind með slitgigt þannig að þetta var nærtækasta meðferðin. Ég beit á jaxlinn og bölvaði í hljóði þar til ég gat ekki meir.

Eftir aðgerðina í nóvember hurfu þessi einkenni sem og önnur eins og dögg fyrir sólu en eru verkirnir komnir aftur og þeim mun verri eftir því sem ég hamast meira. Gjörsamlega óþolandi og aftra mér nokkuð. Vissulega er blessuð slitgigtin enn til staðar og verður alltaf en fyrr má nú aldeilis vera segi ég nú!

Í öllu falli er skynsamlegt að hægja aðeins á sér og fara vel með sig. Reyna að sinna einhverjum heimilisstöfum og fara í göngutúra.  Í raun er sólahringur of stutt stopp til að leggja á sig ferðalagið þó það sé ekki langt, úthaldið leyfir ekki meira ennþá.

Verð nú samt að monta mig aðeins, mældi hjá mér súrefnismettun í fyrradag og viti menn; mín með 97% mettun. Á því átti ég aldrei von og get því ekki kvartað.

Vona að sólin skíni á morgunn, kominn tími til að kíkja aðeins á hana öðru vísi en út um gluggann. Stefni að heimferð næst, væntanlega fer sláttur að hefjast, ég get ekki hugsað mér að missa af honum þó ég sjái ekki um hann sjálf. Kjartan og Hörður redda honum eins og svo mörgu öðru hjá okkur.

Það er á planinu að byrja girðingavinnu í sumar, ætla að smala góðu fólki með mér til að drífa hana af stað og svo er það skógræktin. Get ekki beðið, búin að þrá það verkefni í mörg ár :)

12 dagar í tékk hjá Sigga Bö, spennt að fá að vita hver staðan er. Trúi því fastlega að ég sé laus við sjúkdóminn, a.m.k. í bili og ætla að njóta hvers augnabliks. Mun því biðja um kröftuga meðferð við þessum verkjum mínum svo ég geti notið mín enn betur.

Krakkarnir á leið á hlöðuball og afmælisfagnað, vinir Haffa frá Ejum skelltu sér með. Þröngt mega sáttir sitja segir máltækið, húsið okkar er algjört dúkkuhús og aðstaðan ekki beinlínis frábær:) Er orðin ansi spennt fyrir því að skella mér á dansiball við tækifæri, hef ekki tekið sporið í 3 ár eða lengur ef ég man rétt. Kominn tími til.Lokað er fyrir ummæli.