Ungamamma

30. júní 2007

Er gjörsamlega í skýjunum eftir heimkomu Haffa. Systkinin ótrúleg saman tvö:) Er eins og stolt gæsamamma, rosalega eru þau flott :)

Hafinn lenti heldur betur í ævintýri á heimleið frá Köben í gær. Í stuttu máli lenti hann í neyðartilviki skömmu eftir flugtak, tæklaði málin þannig að hann var sá sem stjórnaði vettvangi. Ótrúlegt en satt, ekki kominn með þann grunn sem til þarf undir slíkum aðstæðum, hvað þá læknisfræðilega þekkingu enda einungis búinn með 2 ár. Allt fór vel og það sem mér finnst ótrúlegt með drenginn; hann hefur upp á viðkomandi sem er erlendur ríkisborgari, og heimsækir hann í morgunn áður en hann fer á vaktina í dag. Er einhver á réttri hillu í lífinu :) ??????????

Stolt af mínum tveim ungum og sjálfri mér, ekki alveg handónýt úr því mér hefur tekist að alið þessa unga upp:)

Er drusla ef ég á að vera hreinskilin, en voða sátt. Kláraði vinnuvikuna og systkinin hreint út sagt frábær. Frétti í kvöld að aðalfundinum hjá Veiðfélagi Hörðudalsá hefur verið frestað þannig að ég mun örugglega sofa eitthvað í fyrramálið. Annað verður að ráðast.

Í öllu falli er allt á uppleið, lít ekki til baka því ég get engu þar um breytt. Búin að kvelja sjálfa mig og Kötuna með eilífum spurningum og vangaveltum án þess að fá svör.  Þau fást ekki. Nú horfi ég einungis fram á við :)

Alltaf jafn undrandi

16. júní 2007

Ég er óttalega bláeyg, hef vitað af því lengi en ég virðist ekki sjóast í þeim efnum.  Treysti fólki úti það endalausa enda “af hverju ekki”? Ég er einu sinni þannig alin upp að okkur ber að treysta nánunganum, gefa fólki “sjensa”, það er rangt að fara eftir almannarómi og öðrum kjaftagangi; manni ber alltaf að reyna hlutina á eigin skinni; fordómalust. Þeir sem hafa “kjaftasögur” að segja ber ekki að treysta enda undir virðingu manns að taka þátt í slíku!

Er alltaf að uppgötva nýja hluti og reynslu á hverjum degi, endalaust undrandi.  Af hverju? Jú, bláeyg og með mitt uppeldi: ég skil ekki í fólki og það er málið!

Það er kannski bara hið besta mál, er ekki lífið þannig að maður er alltaf að læra? En þegar maður hefur fengið þau högg að ekkert væri framundan en fær svo annað tækifæri, þá hugsar maður öðruvísi. Áherslurnar verða aðrar og svo einkennilegt sem það virðist; maður hefur meiri biðlund, skilning en að sama skapi þá snerpu sem þarf til að taka ákvarðanir.

Undanfarið hef ég fengið þau “spörk” sem til þarf til að fara í gang. Löngu tímabært en ég veit það sjálf að þegar sorgarferlið er margfalt þá er maður ekki til stórræðana. Ekkert óeðlilegt við það.  Aðrir sem standa við hlið manns eru boðnir og búnir til að aðstoða mann og ýta manni áfram enda oft brýn þörf á. Skilja hafnvel ekkert í “rólegheitunum” hjá viðkomandi.  Vagninn fer hins vegar ekki í gang fyrr en bílstjórinn er tilbúinn til að starta. Svo einfalt er það.  Aðrir verða að skilja það

Ég þakka fyrir það uppeldi sem ég fékk, tel mig vera betri menneskju fyrir vikið. Hef lagt á það ríka áherslu í uppeldi Hafsteins og Katrínar að dæma ekki eftir kjaftagangi heldur út frá eigin reynslu og forsendum.  Ég veit að mér hefur tekist vel í þeim efnum; þau eru fordómalaus og meta einstaklinga út frá eigin reynslu og forsendum, ekki út frá því sem ég eða aðrir segja. Hef meira að segja stundum þurft að bíða eftir stuðningi þeirra þar til þau hafa metið málin, út frá eigin forsendum :)  Þannig á það líka að vera og er ég ekki undanskilin í þeim efnum. Ég er mjög stolt af því  og sátt við ungana mína :)

Viðutan

12. júní 2007

Á morgun hefst inntökuprófið inn í læknadeildina og verða prófin 3 á morgunn og annað eins á fimmtudaginn.  Vona að Kötunni gangi vel, hún á það sannarlega skilið.

Búin að vera óttalega viðutan síðustu daga, var að muna allt í einu eftir símtali sem ég ætlaði að hringja síðasta föstudagsmorgunn til Systu mágkonu! Er greinilega ekki í lagi en ýmiss atriði hafa farið forgörðum undanfarið :(   Verð að taka upp dagbókina, það er greinilegt. Hringja auðvitað í Systu! Hvað skyldi hún halda, hm……….?????

Dagurinn fór í alls slags stúss vegna dánarbúsins, ótrúlegt hve viðmót starfsmanna í bönkum getur verið kaldranalegt. Þessi mál taka á og eru tímafrek, ekki hjálpar “Hrollauga” upp á. En smátt og smátt er þetta að koma.  Mér finnst að eftirlifandi makar ættu að eiga kost á námskeiði eftir fráfall hins makans, svo mikið er torfið og kerfið þungt í vöfum. Allt rifjast auðvitað upp og ýfist, það tekur svolítið á.

Staflinn á eldhúsborðinu lækkar smátt og smátt og ég farin að ná fleiri, settum markmiðum en áður. Nú er bara að krossleggja fingur og vona að allt fari á besta veg. Framundan er áframhaldandi pappírsvinna, fundarhöld og heimsókn á Skagann til að hitta minn skólameistara.  Svei mér ef lífið er ekki að taka á sig eðlilega mynd á ný :)

Vona að Kötunni gangi vel á morgunn, Haffa farið að líða betur í 30°C hitanum og próflestrinum en stóra prófið hans í lífefnafræðinni er þann 22. júní. Allt er þetta að hafast :)

Beggja blands

12. júní 2007

Búin að vera beggja blands eftir helgina. Vil taka ákvarðanir á eigin forsendum. ÚFF!! Og hverjar eru þær??? Ég veit það ekki og það er einmitt málið!

Ég þarf í öllu falli tíma til að hugleiða málin, er ekki þekkt fyrir það að gefast upp og fer ekki að taka upp á því núna; á síðustu og verstu tímum :)

Búin að vera í hálfgerðu sjokki að sumu leyti, þarf að vinna mig úr því. Veit að allt fer vel á endanum.

Haffi minn búinn að standa í stórræðum úti og ástandið erfitt. Líkur mömmu sinni og þraukar úti það endalausa.  Á góða að sem munu fylgja honum alla leið í orðsins fyllstu merkingu :) Við það er ég afar sátt, meira en orð fá lýst :)

Katan þraukar einnig í sínum prófum, orðin örmagna síðan í byrjun apríl. Það vill svo til að ég á einnig helming í henni og veit að hún gefst ekki upp en ansi er þetta strembið :(

Við erum ekki þekkt fyrir að gefast upp þessi litla “famelia” þó á móti blási. Náum við ekki markmiðum okkar; þá breytum við þeim einfaldlega og lærum af reynslunni :) Ég er ekki hætt né búin að gefast upp og það sama á við Haffann og Kötuna :)

Ég skal. get og vil og ætla mér að nota þann tíma vel sem mér er ætlaður. Byrjuð á “skáldsögunni” og bíð spennt eftir viðbrögðum :) Gleðilegu fréttirnar þær að einhverjir lesendur eru til staðar og útgefandinn klár. Nú stendur á mér en komin í gírinn :)

Lufsa

7. júní 2007

Búin að vera óttalegur aumingji síðustu daga. Kemst varla á fætur á morgnana vegna liðverkja og “beinverkja”. Verið skást seinni partinn og á kvöldin. Kæmist ekki í sokka á morgnana, hvað þá meira.

En það þýðir ekkert volæði, verð að spýta í lófana. Verið dugleg að vinna í ákveðnum málum sem hafa verið að íþyngja mér og náð árangri í sumum þeirra.  Er löngu hætt að vera með yfirlýst markmið, læt duga að hafa þau yfir í hljóði.  Er að ná þeim smátt og smátt.

Hef grun um að einhver pest sé að angra mig miðað við líðanina en veit að þreyta og álag síðustu daga hefur sitt að segja. URRRRRRRRR!!!!!!!!!!!! Vinn mig úr þessu, ég skal!

Katan á fullu í lestri fyrir inntökuprófðið í læknisfræðinni og Hafsteinn búinn að taka eitt prófið með trompi.  Erfitt próf framundan hjá honum, vona að hann ætli sér ekki of nauman tíma í undirbúning.

Það styttist í að ég fari að vinna; ég hlakka ekkert smá til, hefði viljað vera búin að fá meira þrek en svona er lífið einfaldlega.  Ég einfaldlega verð.  Þökk sé kerfinu og ýmsum “vinum og fyrri samherjum” :) Menn uppskera eins og þeir sá, eins og mér er tíðrætt um.  Það á við okkur öll. Hefði viljað eyða sumrinu með öðrum hætti og safna kröftum en staðan er einfaldlega þannig að ég verð að bregðast við. Það geri ég og ekki orð um það meir. Ég er ekki þekkt fyrir það að gefast upp án baráttu :)

Rósirnar

6. júní 2007

Ég las það síðustu nótt að ein blómarósin hefði fellt sín blöð, í þetta sinnið blómarós að vestan.  Krabbamein líkt og hjá Ástu Lovísu.  Blómarósin liðlega tvítug og Ástan þrítug. 

Það er svo einkennilegt að fyrir 8 mánuðum vissi ég ekki af þessum rósum, rambaði á síður þeirra þegar ég var að leita eftir svörum sjálf og beið eftir niðurstöðum. Þessar rósir voru mér hvatning og fyrirmynd á margan hátt, átti sjálf ekki von á því að komast eins langt og ég er komin í dag. Útskrift Kötunnar fjarlægur draumur, hvað þá að ég hugsaði lengra. Þessar ungu hetjur veittu mér ótrúlegan stuðning, ómeðvitað.  Kjarkurinn og vonin skinu í gegn um allt þeirra líf.  Þær voru mér sem fyrirmynd á margan hátt enda leið ekki sá dagur sem ég kíkti í “heimsókn” á síðurnar þeirra.

Úff, hvað er ég, tæplega fimmtug manneskjan að kvarta og vola, ég hef þó fengið öll þessi ár sem er meira en sagt verður um rósirnar og hvunndagshetjurnar.  Ég blátt áfram skammast mín fyrir allt vælið.

Það er einkennilegt hvernig þessi bloggheimur getur haft áhrif á mann; að taka þátt í sorg og gleði bloggverja, skilyrðislaust og af lotningu en halda á sama tíma í vonina sjálfur og vera í hlutverki Pollýönu. 

Átti fróðleg símtöl í kvöld og komst að því að enn er mér ætlað að vera kyngimögnuð kona, ekki síður nú og fyrir uppskurð og meðferð! Mér er enn ætlaður tími á þessari kringlu, í einhvern tíma enn. Ég komst hins vegar enn og aftur að því að mér er ætlað eitthvað yfirnáttúrlegt í augum annarra og er ansi hrædd um að ég standi ekki undir þeim krafti og ákvörðunarvaldi sem mér er ætlað.  Hins vegar er minn tími ekki kominn.

Ótrúlegt hvað menn ætla mér; ég ekki einungis ræð yfir eigin örlögum heldur og einnig örlögum annarra. Ansi fjölskrúðugur karakter sem ég er.  Finnst það reyndar vafasöm viðurkenning , ég er jú bara mannleg og ég á ekki svar/lausnir við öllu :(    Það búa ekki allir yfir þeim hæfileikum sem menn telja mig búa yfir.  Eitt er þó alveg víst; ég ræð ekki yfir lífi annarra og ég tek ekki ákvarðanir fyrir aðra.  Það getur enginn. Ótrúlegt hvað menn geta verið grunnhyggnir og ljóstrað því upp án þess að roðna.

Ekki hafa hlutirnir gengið eins og ég hefði kosið síðustu daga og vikur. Ég verð að viðurkenna það að ég er ekki nafli alheimsins, það snýst ekki allt um veikindin og ég hef ekki tök á að ráða við allar aðstæður.  Sumt er einfaldlega ekki í mínum höndum og það eru fleiri en ég sem þarf að taka tillit til. Mér finnst það reyndar fúlt en svona er þetta!

Þannig er lífið einmitt í hnotskurn. Það þýðir ekki að rjúka áfram og setja eigin þarfir og metnað ofar þörfum annarra.  Lífið er línudans og við þurfum að taka tillit til annarra. Hef verið allt of uppekin við að hugsa um eigin bata, markmið og framkvæmdir síðustu vikurnar.  Mér hefur legið svo á að ég hef stundum gleymt þeim sem standa mér næst.  Er verulega miður mín vegna flumburgangsins í mér að undanförnu.

Ég verð að fara læra það í eitt skipti fyrir öll; mínar þarfir og forgangsröðun þurfa ekki að fara saman við þarfir annarra og því brýnt að fara einhvern milliveg. Hlusta og skynja, með öðrum orðum.  Ég þarf að taka mig á.

Síðasta prófið hjá Kötunni minni í fyrramálið; munnleg stærðfræði.  Í fyrsta sinn í þessum stúdentspróum skynja ég kvíða hjá minni konu.  Uppáhaldsfagið hennar, búin að vera með topp einkunnir í 4 ár. Mætir í munnlegt próf í fyrramálið og happa og glappa hvað hún dregur.  Auðvitað kann hún sitt fag, spurningin er hins vegar sú hvort hún láti kvíðann ná yfirtökum.

2 dagar í stórt próf hjá Haffa.  Setti sér ansi þröngan tímaramma með það próf, byrjar í skriflegu og ef hann nær því, fer hann í munnlegt próf samdægurs hjá sínum fornaldarmönnum.  Þar dugar ekki elsku mamma! Hrikalegt að geta ekki bakkað hann upp á staðnum, hann stendur einn og óstuddur með sálfum sér. Þau eru hetjur bæði tvö, á því er enginn vafi í mínum huga.

Fékk annars góða heimsókn í dag. Sigga sys kom og klippti sem óð runna og tré og djöflaðist úti í garði.  Auðvitað kom moldvarpan upp í mér, var úti töluverða stund.  Náði að gleyma hita og verkjum allan þann tíma. Fékk það reyndar svo í bakið á mér í kvöld en það er allt í lagi. Þetta var svo sannarlega þess virði. Ekki síst ánægð með það að vea komin af stað og byrjuð.  Vonandi er þetta byrjunin á því sem koma skal.  Finn fjandi mikið til núna í öllum liðum og “beinum” en fer sáttari að sofa en þegar ég vaknaði. Þetta er allt í rétta átt, einungis spurning um að vinna upp þrek og gefa þessu ferli raunhæfan tíma :)

6. maí liðinn

7. maí 2007

Afmælisdagur Guðjóns var í gær.  Átti ekki auðvelt með að blogga né hafa samband við aðra enda hugurinn út um víðan völl.   

Fastir punktar eins og afmælisdagar ýfa gjarnan upp sárin og maður er minntur á að ekkert er fast í hendi í þessu lífi.  Þó liðnir séu 2 1/2 mánuður frá andláti hans get ég ekki sagt að sársaukin sé eitthvað minni. Sagt er að tíminn lækni öll sár og má það vel vera en ég veit að það ferli getur tekið mörg ár. Nú eru liðin rúm 7 ár síðan að móðir mín fór en vantar 3 mánuði upp á 7 árin frá því að faðir minn fór.  Enn er sársaukinn óbærilegur á stundum og lítið þarf til að kalla fram tárin.  

Á stundum sem þessum finnst mér ég hreinlega vanta björgunarhringinn til að komast í gegnum þessar öldur sem mér eru úthlutaðar.  Hver er eiginlega tilgangurinn með þessu öllu saman?  Hvaða lærdóm á maður að draga af ástvinmissi og alvarlegum veikindum? Kannski þann að allt er í lífinu hverfult og að við stöldrum aðeins tímabundið hér á Móður Jörð?  það vitum við öll fyrir. Trúlega eru erfiðleikarnir til þess gerðir að gera mann sterkari og þroskaðri.  Sterkari og þroskaðri til hvers??  Ég fæ auðvitað engin svör en hvernig getur maður annað en spurt og velt vöngum?

Enn berast mér kjaftasögurnar að heiman.  Mér er svo sannarlega ætlað að vera kyngimögnuð kona með alla þræði í hendi mér. Líf og limi annarra svo fátt eitt sé nefnt.  Sögurnar eru oft með svo miklum ólíkindum að ég get ekki stillt mig um að velta fyrir mér hvers konar lífi sögusmetturnar lifa.  Það hlýtur að vanta krydd í tilbreytingalaust líf þeirra þar sem þær skapa sögusvið af þvílíku hugmyndaflugi að maður tekst hreinlega á loft og “lifir sig inn í söguna”. Andargiftina og skáldsagnahæfileikann skortir ekki á þeim bæjum. Efniviðurinn í skáldsöguna mína ,,Dalalíf” safnast upp.  Það verður vandi úr að velja.

Í öllu falli býta þessar frægðarsögur um mig grunnt enda hugurinn við önnur og alvarlegri málefni þessa dagana. Það hefur því verið gott að skríða inn í skelina og sleikja sárin þar.

Svo kaldranalegt sem það er þá snerpir andlát ástvina vitund manns á lífinu og minnir mann óþyrmilega á það að allt er breytingu háð í þessu jarðneska lífi.

Svo viðkvæmt er lífið sem vordagsins blóm

er verður að hlíta þeim lögum

að beygja sig undir þann allsherjardóm

sem ævina telur í dögum.

                                                  (Friðrik Steingrímsson) 

Candle 

Raunveruleikinn

20. apríl 2007

Allt við það sama á þessum bænum, slen og leti, fram úr hófi.  Er löngu búin að slá út öll met í svefni.

Hundleiðist, satt best að segja, finnst þetta ansi lítið spennandi og alls ekki það sem ég átti von á.  Hálf grámyglulegur raunveruleiki. 

  I'm So Bored 

Er hætt að setja fram “opinber” markmið um það sem ég hyggst ætla að gera ” á morgun” því þau standast aldrei.  Það er því betra að þegja og láta verkin tala. 

  

Kannski þetta sé allt eðlilegt; tómarúmið, eftirköstin af meðferðinni o.s.frv. en það breytir engu til um þá staðreynd að þetta ástand er leiðinlegt. Ekki bara fyrir mig sjálfa, heldur alla í kringum mig. Alltaf sama rullan. Meira segja mér finnst orðið nóg um. Mér finnst ég vera hundleiðinleg!

 Blah Blah Blah 

Líkamlegt þrek er ekki neitt, neitt. Ef ég skúra einn daginn, steinligg ég þann næsta.  Það sama gildir um göngutúrana með tíkurnar; ef ég fer út í dag, ligg ég á morgun.  Verkirnir minnka hægt.  Eitt jákvætt þó; hef þyngst nokkuð þannig að ég lít ekki út eins og “krabbameinssjúklingur”.  Brúnkan sem ég fékk úti hefur þó dvínað hressilega, þarf eiginlega að drífa mig í ljós til að fölna ekki í samræmi við ástandið.  Einhvern veginn er maður alltaf hraustlegri með einhvern lit í andlitinu.

    Tanny 

Niðurstaðan er sem sé þessi: mér hundleiðist.  Vil fara að komast í vinnu og að sinna því sem liggur á mér.  Ekki þætti mér verra  að “moldvarpast” hressilega og planta niður einhverjum gróðri. 

  Digging 

Ég kyrja kannski bara “Sól, sól, skýn á mig” þannig að ég fari að hressast.  Trúlega einhver seretonin skortur að angra mig í ofanálag við “sjálfsmeðaumkvunina”.  Svei, mér þá!

 Sweating 2 

Þessi dagur að kvöldi kominn, vonandi ber morgundagurinn með sér lítil kraftaverk.  Þau eru, jú, alltaf að gerast. Nenni ekki að eltast við Sigga Bö, hindranirnar og girðingarnar innan okkar umdeilda háskólasjúkrahúss eru of margar og háar.  Þær eru ekki fyrir venjulegt fólk að príla yfir, hvað þá miðaldra sjúkling. 

   
Ætla að setja upp verðlaunaprógramm fyrir mig sem felst í því að fá broskarl fyrir hvert það markmið sem ég næ.  Vonandi safna ég þeim mörgum :)

 Cinco De Mayo 2 

Væl, væl

17. apríl 2007

Það er einhver barlómur í manni, því er ekki að neita.  Þó er farið að styttast í vorið, daginn farinn að lengja og allt ætti að vera bjartara.  Það er  þó enn gluggaveður, lítur afskaplega vel þega horft er út um gluggan en ansi kalt þegar út er komið.  Ekki það að ég hafi verið með eindæmum dugleg að fara út, það fjarri lagi.  Dreif mig loks í dag eftir að hafa verið inni síðan á þriðjudag í síðustu viku! Veðráttan minnir mann óneitanlega á hinn blákalda raunveruleika.

  Freezing   

Það er eins og það vanti í mig allan kraft og drift til að framkvæma nauðsynlega hluti.  Eðilegur fylgifiskur sorgarinnar segja margir og ugglaust er það rétt. En mikið skelfing er erfitt að vera í þessum sporum og komast ekki upp úr farinu. Það verður að viðurkennast eins og er að allt var auðveldara í öðru umhverfi.

Öll fáum við meira og minna skrámur á sálina, áföll fylgja lífiu, bara mismikið.  Flest okkar vinna úr þeim áföllum og reynslan bætist í reynslubanka okkar og þroska.  Við erum hins vegar misþolin gagnvart áföllunum og sum fá meira af þeim en aðrir.  Ég er búin að fá ansi mörg áföll síðustu 3-4 árin, sum þeirra svo mikil að ég hef ekki vitað hvernig ég ætti að vinna úr þeim.  Skrámurnar eru því margar og sumar hverjar rista dýpra en aðrar.  Ég hef þó verið þeirrar gæfu aðnjótandi að gefast ekki upp; að hafa nægilegt sálarþrek til að halda áfram.  Á þessum árum hef ég misst æruna, starfið mitt, eðlileg búsetuskilyrði, heilsuna og maka minn.  Ekki það að ég sé að vorkenna mér, ég græði ekkert á því.  Ég er hins vegar þreytt; ansi þreytt á þessum áföllum og finnst vera komið nóg.  Þessu virðist vera ansi misskipt, sumir komast í gegnum lífið án teljandi áfalla á meðan þau dynja stanslaust á öðrum.

 Ouch 

Andlegt þrek mitt hefur minnkað, á því er enginn vafi en ég er ekkert í uppgjafarhugleiðingum.  Það pirrar mig afar mikið að vera ekki meira drífandi og duglegri, mér liggur á að batna, sinna mínum málum og komast í VINNU.  Ég held að hluti af vandamálinu hjá mér sé of mikill tími, bæði til að hugsa og til að gera ekki neitt þar sem mig skortir líkamlegt þrek til að framkvæma.  Framkvæmdargleðin er ekki langt undan en mig skortir tólin til að komast af stað.  Verst að það skuli ekki vera hægt að kaupa sér “hressi við og driftpillu”, sá yrði ríkur sem fyndi slíka pillu upp!

 Chill Pill   

Það er því aðeins eitt að gera í stöðunni; bíta á jaxlinn, spýta í lófana og vera þolinmóður.  Ekkert annað hægt að gera.  URR………………..! 

   Grrr