Dalirnir heilla
26. maí 2007
Ég tókst heldur betur á loft í gærkvöldi þegar ég spjallaði við Dalamann um heima og geima. Auðvitað barst talið að sveitarstjórnarmálum en lítið þarf til að kveikja í mér í þeim efnum.
Mér finnst alveg með ólíkindum hvernig málum sláturhússins er komið. Ég var orðlaus þegar fráfarandi sveitarstjórn tók sig til og gerði upp húsið á sínum tíma, alfarið á kostnað okkar íbúanna án þess að nokkuð samráð væri viðhaft við okkur. Opinberar tölur vegna framkvæmdanna hljóðuðu upp á 66 milljónir kr. en ég veit með vissu að sú upphæð var mun hærri og var vel á annað hundrað milljónir. Kostnaðurinn var “falinn” hér og þar í bókhaldi sveitarfélagsins og skilst mér að núverandi starfsmenn sveitafélagsins hafi haft fullt í fangi með að finna þær tölur og kostnað og þótt nóg um. Mig skal ekki undra.
Í mínum huga koma aldrei annað til greina en að koma sláturhúsinu í útflutningshæft ástand og tryggja starfsemi þar áfram. Ég var hins vegar ekki á því að sveitarfélagið tæki þann kostnað alfarið á sig nema að höfðu samráði við íbúa og kynningu. Ég treysti þáverandi stjórn sláturhússins ekki til að standa vörð um reksturinn, hvað þá stjórn Dalalambs og var ærin ástæða til tortryggni. Menn skilja það betur nú, er mér sagt, þó öll kurl séu vart komin til grafar.
Næsta klúður varðandi sláturhúsið var að ganga til samninga við Norðlenska. “Allt frekar en Skagfirðingar” var viðkvæðið og í raun einu rökin fyrir þeirri ákvörðun. Í stuttu máli gekk Norðlenska á bak orða sinna og braut samningsákvæðin, framseldi samninginn til Skagfirðinga sem kæra sig ekkert um að nýta húsið nema til geymslu á kjöti sem er slátrað fyrir norðan. Núverandi sveitarstjórn samþykkti þennan ráðahag og er ég ansi hrædd um að menn eigi eftir að súpa seiðið af því, reyndar byrjaðir á því. Ég saup alla vega hveljur þegar ég frétti af þeirri ákvörðun. Þvílíkt klúður og ábyrgðarleysi!
Til að mæta öllum “duldu” skuldunum sem smátt og smátt hafa verið að koma upp á yfirborðið, greip sveitarstjórn á það ráð að óska eftir úreldingu á húsinu enda allt komið í óefni. Norlenska svo að segja á hausnum og Skagfirðingar búnir að tryggja það að hvorki Borgnesingar né aðrir komi nálgt húsinu. Landbúnaðaráðuneytið búið að samþykkja úreldingu; 30 milljónir kr.! Af þeim 30 milljónum fær Dalabyggð harla lítið, ef þá nokkuð.
Hrikaleg staða, annað er ekki hægt að segja. Búið að fjárfesta í framkvæmdum, húsið klárt en búið að rústa öllum grundvelli fyrir starfsemin og rekstur í húsinu. Sem betur fer hafa einhverjir bændur og aðrir Dalamenn risið upp og veitt þessari þróun mótspyrnu. Sveitarstjórn hefur tekið sér frest til að íhuga betur möguleikana en ég spyr; til hvers? Ég heyri ekki annað en að sveitarstjóri og nokkrir aðrir sveitarstjórnarmenn séu mjög neikvæðir og vilji ekkert með húsið hafa. Algjört ábyrgðarleysi, satt best að segja og illa farið með þá fjárfestingu sem fjármögnuð var á kostnað íbúanna og þjónustu við þá.
Það er engin töfralausn í stöðunni. Hingað til hefur ekki verið góð reynsla af því þegar sveitarfélagið hefur annast reksturinn, þeir aðilar sem þar hafa ráðið höfðu einfaldlega ekki burði til að sinna honum sem skyldi. En eitt mega þeir þó eiga; loforð við bændur stóðust sem allir fengu greitt fyrir innlegg sitt. Það er meira en hægt er að segja um fyrri rekstraraðila og nú Króksfjarðarmenn.
Mér sýnist enginn annar kostur í stöðunni en að menn taki sig saman ásamt sveitarfélaginu og tryggi áfram starfsemi í húsinu. Þó ég sé alfarið á móti því að sveitarfélagið standi í slíkum rekstri þá er hann það mikið hagsmunamál fyrir Dalina að nú verða menn að standa saman! Atvinnulífið er ekki það fjölskrúðugt að við getum endalaust reitt af okkur fjaðrirnar. Í þetta skiptið þarf að vanda valið á þeim sem halda um stjórnartaumana.
Menn kvarta og kveina yfir því að það sé skortur af starfsfólki. Hvernig má annað vera þegar fólk er nánast handvalið til búsetu. Annað hvort er því tekið með blómum og kossum eða hrakið með skömm í burt! Hrokinn virðist vera þvílíkur hjá sumum “klíkum” að menn blikna hvorki né blána við slíkt handval. Hver er svo staðan núna? Jú, fólk leitar annað, bæði eftir atvinnu og búsetu þar sem skilyrðin eru vinsamlegri og launin hærri.
Við Dalamenn verðum að koma okkur upp í 21. öldina og fagna öllum þeim sem hjá okkur vilja búa. Við getum ekki endalaust grisjað þá einstaklinga úr sem okkur hugnast ekki eða “eru öðruvísi” eins og ein fróm kona skrifaði forðum daga, mér til sælla minninga. Einstaklingarnir eru misjafnir eins og þeir eru margir, þannig er samfélagið fjölskrúðugt en ekki einsleitt. Handval á einstaklingum flokkast undir einelti, nokkuð sem menn þurfa að hugleiða vel.
“Dalirnir heilla” eru hugtök sem hafa loðað við Dalina frá ómunatíð. Er ekki löngu tímabært að gera þau orð að sönnu og byggja upp þá sérstöðu sem svæðið býður upp á? Loforðin voru mörg fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar og ugglaust meintu sumir eitthvað með þeim. Væri ekki ráð að blása nýju lífi og krafti í Dalamenn og stuðla að betra samfélagi? Eins og málin hafa þróast sl. ár eru sveitarstjórnarmenn ekki að standa sig sem skyldi og óttinn um klíkumyndanir reyndist réttur. Menn verða að setja eiginhagsmuni til hliðar og einbeita sér að hagsmunum sveitarfélagsins. Ef fram fer sem horfir, verða Dalirnir orðnir sumarbústaðabyggð með einstaka bændum innan nokkurra ára.
Nú hafa óreyndir sveitarstjórnarmenn haft rúmt ár til að setja sig í störf sín og tileinka sér sveitarstjórnarlögin. Er þá ekki orðið tímabært að þeir bregðist við þeim vanda sem blasir í atvinnu- og búsetumálum sem skyldi? Nú verða menn að fara að hysja upp um sig buxurnar, ekki seinna vænna og sinna starfi sínu með hagsmuni íbúanna í huga. Það yrði góð byrjun að hafa stjórnsýsluna í lagi.
Heldur nöturlegt
24. maí 2007
Það er heldur nöturlegt vorið okkar, skítakuldi með tilheyrandi hagléljum af og til. Ekki nýtt í kringum hvítasunnuna, svo mikið er víst. Verst hvað veðrið setur strik í reikninginn í sauðburði. Útilokað að setja ærnar og lömbin út sökum kulda. Síðasta vor var ansi kalt, mér til sælla minninga. Fór í húsin með bullandi lungnabólgu og skil ekki enn hvernig ég fór að því. Man að það var erfitt en einhvern veginn hafðist það. Ekki beið sauburðurinn þó ég væri veik sem er eitt af því sem bændur verða enn að lifa með. Þegar þeir veikjast verða þeir að standa vaktina fram í fulla hnefana. Ekki er auðvelt með afleysingafólk sem er auk þess kostnaðarsamt og ekki af miklum tekjum að taka.
Ég hef greinilega gleymt mér í góða veðrinu um daginn. Verið með glugga opna og ekkert gætt að því að það kólnaði heldur betur innandyra enda orðin lasin, enn aðra ferðina. Hóstandi og geltandi og hitinn rokinn upp. SKyldi ekkert í því að ég gat eiginlega ekki hreyft einn einasta lið í morgun, ekki einu sinni fingurliðina. Kjagaði eins og gömul, þreytt gæs. Nokkuð viss um að það hafi veri spaugileg sjón Hef reyndar verið óttaleg lufsa um nokkurn tíma en áberandi verri núna. Trúlega týpísk, gamaldags ofkæling. Hugsa að flottu göngutúrarnir um daginn hafi eitthvað hjálpa til.
Enn og aftur hafa áætlanir sem ég hef gert í huganum, út um veður og vind. Enda löngu hætt að gera þær opinberar, þær standast aldrei. Það mætti halda að þetta væru álög eða í besta falli farsi í lygasögu.
Það styttist í próflok há Kötu, er í munnlegri íslensku í dag. Búið að vera ansi erfiður tími hjá minni konu. Haffi á kafi í próflestri í allt að 30°C hita, ómótt og heitt en fullur bjartsýni enda ekkert annað í stöðunni. Ég er viss um að við myndum þiggja helming af þeim hita hér, ef ekki meira.
Auja að flytja lokaverkefni sitt til embættisprófs í ljósmóðurfræði. Ekki smá fúlt að komast ekki og hlusta á fyrirlestur hennar. Mjög þarft og spennandi viðfangsefni er lýtur að áhrifum ofþyngdar og offitu á fæðingar. Þar er heilsugæslan í lykilaðstöðu að hafa áhrif og þá á alla aldurshópa. Verulega spennandi verkefni.
Ekkert annað að gera að hnipra sig undir teppi núna og vona að þetta gangi fljótt yfir. Nóg er að gera í pólitískri umræðu þessa dagana þannig að manni ætti ekki að leiðast. Var ánægð að heyra að Kristinn H er orðinn formaður þingflokks frjálslyndra. Hef alla trú á því að hann standi sig vel þar enda hópurinn ekki eins gegnum sýktur af samkeppni og spillingu og sá síðasti sem hann veitti formennsku.
Ég er ansi hræd um að stjórnarandstöðunni eigi eftir að leiðast næstu 4 árin, ef að líkum lætur. Stjórnarmeirhlutinn það sterkur að stjórnarandstaðan hefur lítið eða ekkert vægi. Trúlega beina þeir flokkar kröftum sínum að uppbyggingu síns eigins flokks og styrkja innviðina fyrir næstu sveitarstjórnarkosninar. Ég hef alla trú á því að þær kosningar eigi eftir að koma á óvart.
Næstu skref hjá mér felast í því að skríða undir teppi, með poppskál og Tab og láta fara vel um mig. Ekkert annað að gera í stöðunni, þetta gengur yfir eins og allt annað
Borga meira…..
23. maí 2007
Nú liggur fyrir að sjálfstæðismenn taki við heilbrigðisráðuneytinu. Er enn að kyngja þeirri staðreynd sem kom mér ekkert á óvart svo sem. Við stöndum, því miður, frammi fyrir þeirri staðreynd að komugjöld á heilsugæsluna munu hækka og gjaldtaka á LSH mun aukast verulega fyrir skjólstæðinga. Þeir ætluðu sér þetta sjálfstæðismenn fyrir kosningar og fengu. Það verður þannig von bráðar að þeir sem geta borgað, fá fyrstir þjónustuna!
Ekki það að það virðist ekki skorta fé í samfélaginu, það safnast hins vegar á fárra hendur og ekki fá allir sömu tækifærin og aðrir. Þeir máttu eiga það framsóknarmennirnir að þeir stóðu fastir á því að tryggja öllum JAFNAN aðgang að heilbrigðisþjónustunni.
Ótrúlegur viðsnúningur hjá Ingibjörgu Sólrúnu; fyrir kosningar kom ekkert annað til greina en að senda sjálfstæðismenn í langt frí. Daginn fyrir kjördag hófst daður við sjálfstæðismenn sem þróaðist upp í rembingskoss við Geir og nú eru þau komin undir eina sæng. Fljótt skiptast veður á lofti, erkifjendurnir búnir að semja!
Ég tel reyndar að Steingrímur hafi heldur betur klúðrað samstarfi svonefnds ,,kaffibandalags” í beinni og ekki bætti félagi hans, Ögmundur úr skák. Ótrúlegt klúður hjá þeim og flokknum að glopra þessu tækifæri. Mig skal ekki undra þó mönnum sé tíðrætt um að skipta um forystu í VG. Brautiðjendurnir búnir að vinna sitt starf og farnir að vera dragbítar. Kominn tími á nýja leiðtoga.
Ég hlýt, eins og, að hugsa til framtíðarinnar með ugg í brjósti. Vonandi reynist ég sannspá um það að fljótlega sjóði upp úr.
Vildi óska að framsóknarmennn hefðu haft gæfu til þess að taka betur á sínum málum fyrir nokkrum árum. Það kom auðvitað að skuldadögunum hjá þeim eins og öllum öðrum. Hvar er flokkurinn staddur nú? Fráfarandi formaður öruggur í sessi á nýjum vettvangi og háttsettur embættismaður í dag, núverandi formaður strandaður á skeri eftir að hafa lagt allt undir, þ.á.m stöðu seðlabankastjóra. Svakalegt dæmi sem við almennir flokksmenn gerðu ekkert í! Hvernig stendur á því að grasrótin lét þetta yfir ganga? Einungis einstaka boffs sem kæft var í fæðingu, menn hreinlega létu stilla sér upp við vegg og kúga sig. Ég viðurkenni það að ég er bitur og svekkt. Fórninar voru of miklar á sama tíma og sökudólgarnir tryggðu sig í sessi á öðrum vettvangi.
Þessi dagur hófst seint og byrjaði illa. Hálf pirruð yfir hitavellu, verkjum og sleni en reyni að horfa fram hjá því. Fer samt ekki ofan af því að ástandið fer batnandi. Afrekaði 2 göngutúra í “vorhretinu” í dag og tel mig nokkuð góða með það Held áfram á þeirri braut.
Tíminn flýgur
18. maí 2007
Það er aldeilis hvað tímin flýgur, laugardagur á morgun og mér finnst eins og mánudagur hafi verið í gær.
Gríðalegt álag á Kötunni minni, er gjörsamlega að drukkna í próflestrinum. Mætir í sjúkrapróf í íslensku á morgun sem gat ekki hitt á verri tíma. 7 ein. próf í eðlisfræði á mánudag! Krakkarnir verða að lesa 4 ára pensúm til stúdentsprófs þannig að það er meira en nóg að gera hjá minni. Eina sem ég get gert er að tryggja að hún borði og taki inn vítamín, ekki veitir af.´
Heilsan hefur ekki verið til að hrópa húrra fyrir, verkjuð og með hita síðustu daga. Fer samt ekki ofan af því að þetta er allt að koma þó hægt gangi. Mér hættir til að gleyma því að ég er að fara í gang eftir 7 mánaða töff meðferð og skurð þar áður. Þrekið kemur ekki einn og tveir, þó ég hefði hefði helst kosið það! Eitt skref í einu…………
Ekki laust við að ég kvíði næstu 4 árum ef sjálfstæðismenn og samfylkingarfólk taka við völdum. Ansi hrædd um að einkavæðing haldi áfram af gríðalegum krafti, ekki síst í heilbrigðiskerfinu. Hvorugur þessa flokka ber hag landsbyggðarinnar fyrir brjósti, þeim er í raun nokk sama hvernig fer á þeim málefnum. Suðvesturhornið er það eina sem skiptir máli. Ég sé fyrir mér enn meira kvótabrask og vaxandi erfiðleika í sjávarbyggðum landsins. Lengi getur vont versnað! Það kemur til með að harðna í dalnum hjá bændum er ég hrædd um og spái ég því að innflutningur verði gefinn frjáls áður en langt um líður. Biðlistar eiga eftir að lengjast svo um munar, reynslan af Ingibjörgu Sólrúnu í Reykjavíkurbog, segir allt sem segja þarf í þeim efnum. ÚFFF!!!!!!!!!
Í raun er þessi Baugsstjórn það versta sem getur komið yfir okkur landsmenn. Ég ber þó þá von í brjósti að samstarfið springi áður en langt um líður. Geir og Ingibjörg vilja bæði ráða og stjórna en það er einungis pláss fyrir einn leiðtoga. Sú staðreynd að bæði fóru á bak við sína viðmælendur kann ekki góðri lukku að stýra. Allar líkur eru á því að falsið haldi áfram. Ég get ekki annað en tekið undir orð Guðna Ágústssonar; stjórnarviðræður við framsóknrmenn var farsi og aldrei nein meining á bak við viðræðurnar. Svona gera menn ekki án þess að fá það aftur í hausinn.
Ég treysti ekki þessum tveim flokkum til að stjórna landinu næstu 4 árin. Ég hefði viljað sjá kaffibandalagið halda, með framsókn innanborðs. Flókin stjórn að vísu, en áherslur á margan hátt svipaðar og unnt að veita Samfylkingunni aðhald. Löngu tímabært að hvíla sjálfstæðismenn frá stjórnarsamstarfi. Þeir virðast hafa ótakmarkað vald sem þeir beita óspart sér og sínum til handa og ekkert virðist geta stöðvað þá spillingu.
Stjórnarandstaðan verður núll og nix á þingi, einungis 20 þingmenn á móti 43. Hún getur vissulega látið í sér heyra en ég er ansi hrædd um að kraftar stjórnarandstöðunnar fari í að reyna að svipta hulunni af ýmsum misfellum. Ótrúlegt hvað Ingibjörg Sólrún var fljót að snúa við blaðinu og það strax á kosninganóttinni. Menn hljóta að sjá í gegnum hana, fyrr en síðar. Geir er refur, það hefur hann svo sannarleg sýnt síðustu sólahringana. Fer hljótt og læðist þar til að hann tekur stökkið! Skiptir þá engu hverjir liggja í valnum. Hann fer sínu fram.
Framsóknarmenn þurfa að snúa sér að því að byggja upp innra starf og endurheimta fyrri trúverðugleika. Margir hafa yfirgefið sökkvandi skútuna en forystan hlustaði ekki. Ég fer aldrei ofan af því að framkoma forystunnar í garð Kristins H verður þeim þungur baggi enda sýndu þeir sitt rétta eðli í þeim málum. Verði engin breyting á, er einungis spurning um það hver verður næstur. Þeir hljóta að verða að finna einhvern blóraböggul nú þega Kristinn er farinn. Færri þingmenn hafa hins vega verið jafn trúir stefnu og sýn Framsóknarflokksins og hann.
Ég get ekki séð hvernig Jón Sigurðsson ætlar að leiða flokkinn áfram, komst ekki inn á þing og hefur því lítil áhrif. Hann gerði þau mistök að lofa að ná sáttum og einingu innan flokksins en gleymdi þeim loforðum jafnharðan. Ekki er að finna neinn sterkan einstakling til að taka við formennsku í flokknum. Guðni búinn að glata því tækifæri sem hann hafði til að snúa vörn í sókn. Nú sitja menn rassskelltir, með allan skaðan og þeir sem eitthvað er spunnið í, eru farnir. Sjálfstæðismenn sleppa algjörlega við gagnrýni og njóta trausts til áframhaldandi verka.
Mér finnst það synd hvernig komið er fyrir Framsóknarflokknum. Stefnumál hans sem miðjuflokkur, með áherslur á velferð einstaklingsins ofar auðgildi, eiga virkilega erindi til. þjóðarinnar. Ég veit að ég sannfærðist á sínum tíma. Forystan hefur hins vegar ekki borið þá gæfu síðasta áratuginn að fylgja henni eftir, hvorki í orði né á borði. Spilling og klíkumyndanir hafa í raun étið innviði flokksins upp að innan. Hann er hruninn eftir 90 ára sögu í íslensku stjórnmálalífi og hann einn fær skellinn fyrir sameiginlega verk fráfarandi ríkisstjórnar.
Það er nefnilega alltaf svo að menn uppskera eins og þeir sá og það á jafnt við um alla!
Að loknum kosningum
14. maí 2007
Þá liggja kosningaúrslitin fyrir eftir ansi spennandi kosninganótt. Alveg með ólíkindum hvernig talningu er háttað í Norðvesturkjördæmi. Frétti að engin gögn hefðu farið frá Vestfjörðum fyrr en um miðnætti og þá með flugi til Reykjavíkur. Þaðan var keyrt með kjörkassana í Borganes. Ótrúleg hringavitleysa allt saman enda lágu úrslitin í kjördæminu ekki fyrir fyrr en á 10. tímanum í morgun.
Okkar maður fór inn, ég er ekkert lítið ánægð með það enda þurfum við á honum að halda. Hún er hins vegar einkennileg staðan eftir kosningarnar, stjórnin hélt velli með eins manns meirihluta. Jón, formaður Framsóknarflokksins komst ekki inn á þing og fylgi flokksins í sögulegu lágmarki. Engu að síður er formaðurinn kominn í stjórnarmyndunarviðræður við sjálfstæðismenn en biðlar um leið til vinstri flokkanna.
Einhvern veginn finnst mér ekki lýðræðislegt að Jón fari í ríkisstjórn þar sem hann nýtur ekki það traust kjósenda sem til þarf til að komast á þing. Mér finnst það siðlaust að hann skuli yfir höfuð vera að íhuga slíkan möguleika og finnst hann ekki koma til greina sem ráðherra. Kjósendur hafa hafnað honum og skilaboðin þess efnis eru mjög skýr. Nú eiga menn að huga að innra starfi flokksins og byggja hann upp. Það eitt er ærið starf.
Annars hafði ég gaman af því þegar hann nefndi það í Kastljósi að það væri búið að vera stefnan innan Framsóknarflokksins lengi að ráðherrar afsöluðu sér þingmennsku þannig að varamenn kæmu inn. Flott leið til að fjölga þingmönnum en það sem stingur í stúf er að Kristinn hefur ítrekað lagt fram tillögu þessa efnis við dræmar undirtektir flokksforystunnar. Tilgangur hans var þó annar, þ.e. að auka vægi almennra þingmanna. Þær eru orðnar nokkrar hugmyndirnar hans Kristins sem flokkurinn hefur gert að sínum upp á síðkastið. Þær féllu hins vegar í grýttan jarðveg þegar hann setti þær fram. Mjög athyglisvert að fylgjast með þeim málum.
Aldrei fór ég vestur …………. eins og ég hafði látð mig dreyma um þessa helgi. Það er alveg með ólíkindum hversu áætlanir mínar standast illa. Nú er ég steinhætt að plana, ég legg bara af stað, þegjandi og hljóðalaust þegar ég er það hress að geta það. Ég er þess fullviss að heilsufarið sé á uppleið, svona almennt séð. Auðvitað koma dagar sem eru vondir, þessi er t.d. einn af þeim en yfirleitt er ástæðan sú að ég hef verið að bardúsa eitthvað og farið fram úr sjálfri mér. Þá fer næsti dagurinn í slappleika og verki sem eru býsna miklir ennþá, svona löngu eftir aðgerð. Það var svo sem búið að vara mig við því að verkirnir yrðu til staðar í langan tíma.
Í öllu falli er ég farin að reyna að grynnka eitthvað á draslinu og rykinu í kringum mig sem hefur safnast upp í allan vetur. Sé það alltaf betur og betur hversu mikið það hefði hjálpað ef ég hefði fengið heimilishjálp þegar ég var sem verst. Enn á ég erfitt með sum heimilisstörfin, t.d að ryksuga sem mér gengur illa með. En allt er þetta að koma, hænufetin safnast saman þannig að mikill munur er á mér í dag miðað við síðustu viku.
Mér er greinilega ætlaður lengri tími hér á jörð og nú er bara að nota þann tíma vel. Ég er ansi hrædd um að áherslur og forgangsröðun verði með öðrum hætti en áður en ég veiktist. Ég hef yfirleitt unnið 130-150% starf utan heimilis síðustu 26 ár enda þurft þess. Ég hef aldrei tekið mér sumarfrí í þeirri merkingu orðsins, hef alltaf farið annað að vinna í fríum. Vissulega yrði allt auðveldara ef ég gæti unnið í heimabyggð en mér er það ljóst að það verður ekki í bráð, a.m.k. ekki á meðan “vinir mínir” verða við völd. Hæfni hefur þar ekkert að segja. Mér er því ljóst að ég verð að starfa utan héraðs líkt og síðustu 3 1/2 árin og þannig er það einfaldlega. Ég er hins vegar ekkert á förum. Sumir verða að því bíða enn um stund eftir því.
Ég hef verið spurð að því hvort ég sé haldin sjálfseyðingahvöt með því að fara ekki úr Dölum en það er nú einu sinni svo að mér þykir vænt um Dalina og þar vil ég vera. Fæstir skilja það hins vegar eftir allt sem undan er gengið en meirihluti Dalamanna er öndvegis fólk. Völdin hafa hins vegar safnast á fárra hendur sem ekki hafa borið gæfu til að fara rétt með þau og setja eigin hagsmuni ofar hagsmunum íbúanna og byggðalagsins. Þeim verður einhvern tímann á, einungis spurning um tíma. Þeir verða ekki öfundsverðir þá, það kemur alltaf að skuldadögunum.
Annars er annatími framundan. Það styttist óðfluga í útskriftina hennar Katrínar sem verður 1. júní og við ekki komnar almennilega af stað í undirbúningnum. Stendur allt á sal þessa stundina en hlýtur að fara að skýrast. Skvísan er hálfnuð í prófunum sem eru farin að taka toll af minni enda er prófað úr námsefni 4 ára í hverju fagi. Hún kemst í gegnum það eins og hennar er von og vísa. Haffi á fullu úti og bráðlega skýrist hvenær hann sér fram á heimkomu sem verður þó aldrei fyrr en eftir miðjan júní. Lífið er smátt og smátt að taka á sig hefðbundna mynd en ég mun forgangsraða á annan hátt en áður og áherslurnar breytast. Maður er sífellt að læra og þroskast. ,,Minn tími mun koma” sagði einhver………………….
Nóg komið!
11. maí 2007
Nú segi ég stopp með Evróvision! Íslendingar eiga að draga sig út úr keppninni eftir niðurstöður gærkvöldins. Það er augljóst, líkt og fyrri ár, að Austantjalds blokkin á keppnina. Aðrir Evrópubúar eiga ekki möguleika. Við þurfum ekki frekari sannanir =(
Ég hef fylgst með Evróvision frá því sendingar hófust hér heima og aldrei misst úr keppni. Alltaf verið stolt af framlagi okkar nema í fyrra en þá hafði ég greinilega ekki réttan húmorinn. Mér fannst Eiríkur og félagar hans stada sig frábærlega vel og engin spurning,miðað við lagaúrvalið og ekki síst frammistjöðu þeirra, að þeir áttu að komast upp úr undanúrslitunum. Það er hins vegar á kristaltæru að það hefði engu máli skipt hvernig okkar framlag hefði verið, það hefði aldrei dugað til. Ekki einu sinni þó við sendum Garðar Cortes, Eirík Fjalar eða Björk. Við tilheyrum ekki rétta hluta Evrópu. Ég er sármóðguð fyrir hönd okkar Íslendinga.
Hins vegar er eitt jákvætt við stöðuna. Nú getur maður einbeitt sér að kosningunum og öllu þeim tengdum og minni hætta á því að Evróvision hafi neikvæð áhrif á kjörsókn. Í fyrsta skipti, EVER, mun ég ekki horfa á Evróvision og stend við það. Þá er fokið í öll skjól!
Nú er að einbeita sér að því að leggja sitt á vogaskálarnar og hafa áhrif á myndun næstu ríkisstjórnar. Vilja menn óbreytt ástand eða breytingar? Í öllu falli skiptir hvert einasta atkvæði máli. Við viljum Kristinn inn á þing, hann er einn af fáum sem ber hag kjósenda og landsbyggðarinnar í brjósti. Öll hans vinna og í raun hans líf helgast af þeim markmiðum að tryggja framgang byggðalaganna og tryggja jafnrétti í víðasta skilning þess orðs.
Fáum treysti ég betur til að stuðla að sanngjarnari úthlutun og fyrirkomulagi í sjávarútvegi. Engum betur treysti ég til að vera málsvara landbúnaðarins og tryggja velferð bænda, í fullu samráði við þá. Hann hefur ekki legið á liði sínu gagnvart sláturhúsamalum okkar Dalamanna. Ég er ansi hrædd um að hlutur Byggðastofnunar væri meiri í húsinu og skuldrinar löngu búnar að drekkja okkur, ef hans hefði ekki notið við.
Heilbrigðismál þarf vart að nefna, stefna hans er skýr í þeim efnum sem öðrum. Við eigum m.a. honum að þakka viðurkenningu á hjúkrunarrýmum á Fellsenda og þeim leiðréttingum sem við fengum þar fyrir nokkrum árum og síðar á Silfurtúni. Mér skilst að þau mál séu í uppnámi í Silfurtúni sem segir allt sem segja þarf um þá sem ráða nú för. Hann hefur beitt sér af alefli í byggðamálum og svona get ég lengi talið. Við þurfum einfaldlega á honum að halda, það er engin spurning! Trúverðugleiki og traust skiptir öllu máli og hann býr yfir hvorutveggja í ríkum mæli.
Hvet alla til að fara inn á síðu Kristins; www.kristinn.is. Snúum neikvæðri byggðaþróun og fjársvelti við.
Málefni innfytjenda
9. maí 2007
Ég hef að undanförnu verið að skoða málefni innflytjenda og ýmislegt rekið á fjörur mínar í þeim efnum. Þar á meðal hef ég komst yfir nokkrar skýrslur nefnda sem félagsmálaráðuneytið hefur skipað á síðustu 12 árum, m.a. til að kanna stöðu innflytjenda í landinu og koma með tillögur. Í þessum skýrslum sem eru nokkur hundruð blaðsíðna, benda nefndarmenn stjórnvöldum á að mikill vandi sé til staðar í þessum efnum og í raun eru niðurstöður þeirra samhljóma fyrstu skýrslunum sem voru gefnar út fyrir 12 árum! Sem sagt, engar framfarir í málefnum innlfytjenda, heldur allt niður á við.
Það sem m.a. kemur fram í þessum skýrslum er að innflytjendur, sem vinna “óþrifalegustu” og lægst launuðu störfin í flestum tilfellum, hafa ekki fengið tækifæri til að aðlagast íslensku samfélagi. Það sem meira er, Íslendingar hafa ekki aðlagast þeim!. Í landinu eru töluð yfir 50 tungumál enda koma innflytjendur víða að, með ólíkan bakgrunn, menningu og gildi. Þeim hefur ekki verið vel tekið hér.
Engin einn opinber aðili hefur haft yfirumsjón og eftirlit með málefnum innflytjenda frá því að þeir fóru að koma hingað til landsins. Mörg ráðuneyti koma að málefnum þeirra, s.s Dómsmálaráðuneytið, Menntamálaráðuneytið, Félagsmálaráðuneytið og Heilbrigðsiráðuneytið. Í skýrslunum er aftur og aftur bent á að engin samræming sé á milli ráðuneytanna og samvinnan lítil ef þá nokkur.
Lög um útlendinga, sóttvarnir o.fl. eru í gildi hér á landi en minna virðist vera um eftirfylgni. Fyrir nokkru breyttust t.d. lög sem kveða á um heilbrigðsvottorð þannig að þeir innflytjendur sem koma frá löndum innan EES svæðisins er ekki lengur skylt að undirgangast læknisrannsókn hér á landi. Þeir geta einfaldlega komið með heilbrigðsivottorð að heiman, einu kröfurnar eru þær að það sé búið að þýða þau á íslensku. Læknar og fleiri heilbrigðsstarfsmenn hafa haft miklar áhyggjur af þessum málum og telja hættuna á aukningu smitsjúkdóma mikla.
Um 12 þús. innflytjendur komu til landsins á síðasta ári og eru það opinberar tölur. Enginn veit með fullri vissu hvort þær eru réttar. Nefndarmenn á vegum Félagsmálaráðuneytisins hafa haft af þessu nokkrar áhyggjur. Atvinnurekendur þurfa að greiða fyrir dvalar- og atvinnuleyfi sinna starfsmanna. Auk þess ber þeim að greiða fyrir læknisrannsóknir og heilbrigðisvottorð og kaupa sjúkratryggingu upp á 30-60.000 kr. fyrir hvern starfsmann þar sem innflytjendur komast ekki inn í sjúkratryggingakerfið fyrr en í fyrsta lagi eftir 6 mánuði. Þetta er kostnaðarsamt fyrir atvinnurekendur og mikill misbrestur á að þessum verklagsreglum sé fylgt eftir. Sterkur grunur er því um að mönnum sé “smyglað” fram hjá kerfinu en enginn gerir sér grein fyrir fjöldanum.
Stjórnvöld, atvinnurekendur og stéttarfélög bera ábyrgð á aðlögun innflytjenda hér á landi. Þeim ber, skv. lögum að tryggja þeim tungumálakennslu og jafnan aðgang að menntakerfinu. Stjórnvöld bera einnig ábyrgð á því að innflytjendur hafi greiðan aðgang að velferðarmálum, s.s. húsnæði sem og greiðan aðgang að heilbrigðiskerfinu. Niðurstöður allra þeirra nefnda sem hafa verið skipaðar af Félagsmálaráðuneytinu eru á sama veg; mikill misbrestur er á því að lögum um innlfytjendur sé framfylgt. Brotið er á mannréttindum innflytjenda, þeir sitja ekki við sama borð og við Íslendingar.
Afleiðingar koma ekki á óvart, vandamál hafa skapast í víðum skilningi þess orðs. Innflytjendur hópa sig saman í hverfum og einangrast frá Íslendingum, mikið brottfall er úr skólum, ekki síst út af tungumálaörðugleikum og bágri fjárhagslegri stöðu. Í mörgum tilfellum er innfluttum verka- og iðnaðarmönnum hrúgað inn í ólöglegt húsnæði og búa við þröngan kost. Innflytjendur hafa ekki greiðan aðgang að heilsugæslunni og heimilislæknum, laun innflytjenda eru lægri en almennt gerist hjá Íslendingum og svona má lengi telja.
Í öllu falli eru niðurstöðurnar daprar og skömm fyirir þjóðina. Stjórnvöldum og atvinnurekendum hefur mistekist að framfylgja hlutverki sínu og stéttafélögin ráða ekki við neitt.
Staða innflytjenda hefur farið hljótt enda skal engan undra. Það hentar ekki stjórnarflokkunum að staðreyndirnar komi fram. Það hentar heldur ekki atvinnurekendum sem hafa hagsmunum að gæta. Þeir spara á meðan þögn ríkir.
Mig skal ekki undra þó heilbrigðisráðherra og stalla hennar, Sæunn, skyldu leggja sig fram við það að skapa múgæslingu og kalla “rasismi” þegar frjálslyndir reyndu að benda á þessar nöturlegu staðreyndir og fengu dyggan stuðning frá forsvarsmönnum Samtaka atvinnulífsins. Að slá ryki í augu kjósenda með þessum hætti þjónar auðvitað þeim tilgangi að breiða yfir “skítverkin”. En sannleikurinn kemur alltaf í ljós, það er nú bara þannig. Hann verður stjórnarflokkunum ekki til framdráttar þegar upp kemst, hvorki sem stjórnmálaafli né þeim persónum sem standa að baki vanefndum og í raun misþyrmingu á þeim útlendingum sem hér vilja búa!
Ég geri mér alltaf betur og betur grein fyrir því að frjálslyndir sýndu fádæma kjark þegar þeir hófu umræðuna um innlfytjendur og málefni þeirra sem sumir þeirra þekkja af eigin raun. Þeir lögðu mikið undir þetta réttlætismál til að freista þess að koma réttindum og öðrum málefnum innflytjenda í viðunandi horf. Uppskeran hefur ekki verið í samræmi við þá viðleitni og þeir ranglega dæmdir fyrir að ,,daðra við kynþáttahatur”. Ótrúleg herkænska framsóknarmanna. Ég hef ekki trú á því að kjósendur láti blinda sig til langframa af slíkum ranghugmyndum. Þeir eru farnir að sjá í gegnum þetta óþveraplott sem er hin mesta hneisa fyrir þá kjörnu fulltrúa sem komu þessum ranghugmyndum af stað.
Eins og maður segir gjarnan við börnin sín; Skamm! Svona gerir maður ekki!
Kastljós
1. maí 2007
Horfði á Kastljós í dag og fannst umræðuefnin áhugaverð; ekki síst heilbrigðismálin. Það var svolítið skondið á hlusta á ráðherra og skoðanir hennar á málaflokknum. Henni finnst svo sem engin ástæða til að breyta neinu, hvorki auka fjármagn í málaflokkinn, lækka hlutdeild sjúklinga vegna þjónustu og lyfjakaupa né auka framlög til LSH.
Þetta var athyglisverð afstaða, ekki síst í ljósi þess að framlög til LSH hafa ekki hækkað í raun í 7 ár. Allt logar í óánægju innan stofnunarinnar, nýútskrifaðir hjúkrunarfræðingar og ljósmæður fást ekki til að sækja um störf vegna lágra launa og sjúkraliðar af skornum skammti. Framundan er stöðvun á iðjuþjálfun fyrir geðfatlaða þar sem launin eru það lág að fagmenntað starfsfólk flýr annað. Að mati ráðherra eru engin alvarleg vandamál í kerfinu, af frátöldu plássleysi fyrir aldraðra skjólstæðinga.
Ásta Möller úr Sjálfstæðisflokki var í raun á sama máli og ráðherra en vildi hins vegar færa út kvíarnar og einkavæða þjónustuna í auknu máli. Þannig mætti stytta biðlistana o.s.frv. Hún skapar náttúrlega tekjur á sama tíma fyrir fyrirtækið sitt.
Allir hinir frambjóðendurnir voru á þeirri skoðun að vandamál væri til staðar í heilbrigðiskerfinu og biðlistarnir margir og langir. Það kom því verulega á óvart að fæstir voru með raunhæfar tillögur um það hvernig mætti taka á þeim vanda sem að steðjaði. Flest svörin voru opin og “rúm” en innihéldu ekki fastmótaðar tillögur.
Ragnheiður Ásta er með nokkrar sérþekkingu á málaflokknum eftir mörg ár í starfi hjá TR. Engu að síður kom hún ekki með fastmótaðar tillögur, heldur “við stefnum” og “við viljum”……. Engin mælanleg markmið. Það kemur svo sem ekkert á óvart. Samfylkingin ásamt VG og Framsókn voru með borgina í 12 ár og aldrei hafa biðlistar eftir hjúkrunarúrræðum verið jafnlangir og úrræðin jafnfá. Það sama á við félagslegu úrræðin. Trúverðugleikinn er því lítill.
Fulltrúi VG var reyndar nokkuð málefnaleg en ekki tilbúin með neinar raunhæfar tillögur. Margrét Sverris fór úr einu í annað; “við höfum ekki fastmótað þessar skoðanir en við styðjum……” Þekking hennar á málaflokknum virðist ansi takmörkuð og hún engan veginn sannfærandi í málflutningi sínum.
Kristinn H. var, að vanda, reiðubúinn með svör, vel rökstudd og útreiknuð. Búinn að vinna heimavinnuna sína og vel að sér í málaflokknum.
Þættir sem þessir geta verið til þess fallnir að auðvelda kjósendum val sitt í vor. Frambjóðendur eru mistrúverðugir og stefnumálin ekki alltaf skýr. Slíkir veikleikar koma berlega í ljós í þáttum sem þessum. Það hlýtur að vega þungt hjá kjósendum ef flokkar hafa skýra stefnu, frambjóðendur búi yfir trúverðugleika og tillögur raunhæfar, byggðar á rökum.
Það ætti engum að dyljast það að ég tel heilbrigðiskerfið í miklum vanda. Það virkar ekki í mörgum tilfellum, það hef ég reynt á eigin skinni. Ég hef ekki farið í launkofa með það að ég treysti Kristni best til að vera leiðandi í heilbrigðismálum sem og öðrum málaflokkum.
Af mér er allt þokkalegt að frétta, ekki eins hress í dag og í gær en það er ekkert nýtt. Ef ég er “dugleg” einn daginn, bitnar það á mér þann næsta. Það er eðlilegt í bataferlinu á meðan þrekið er að byggjast upp. Náði í heimilislækni minn í gær sem vill endilega senda mig í myndatöku vegna rifbeinsbrotsins. Sjálfsagt og eðlilegt að fylgjast með því en ég hef vissulega ekki verið að flýta mér í þeim efnum. Langar ekkert sérstaklega að ganga í gegnum frumskógakerfið á ný og tilbúin að leggja ýmislegt á mig til að losna við það. En illu er best aflokið stendur einhverstaðar.
Krakkarnir á fullu í prófum, Kata að lesa fyrir Sögu en Hafsteinn í lífeðlisfræði. Hann er loksins búin að setja upp nýja bloggsíðu og tengillinn komin á þessa síðu, hægra megin. Framundan strembin tími hjá báðum fram í miðjan júní. Þegar ég horfi á Kötu liggja yfir bókunum, rifjast upp fyrir mér sú staðreynd að fyrir nákvæmlega 28 árum var ég í hennar sporum! Mikið rosalega flýgur tíminn og hratt eldist maður
Ég er ákveðin í að njóta hverrar mínútu í framtíðinni og minna mig stöðugt á að fresta aldrei til morguns það sem hægt er að gera í dag! Alltaf bætist ný reynsla í bankann, nú er að nýta hana til fulls.
Staða Vestfirðinga og blússandi ferð stjórnarflokkana í NV
28. apríl 2007
Mér var ansi brugðið þegar ég las um uppsagnir 48 starfsmanna í Bakkavör í Bolungavík. Þvílík blóðtaka fyrir sveitarfélagið þar. Enn og aftur fækkar atvinnutækifærum þar og nú er með vissu hægt að segja hver skýringin er. Hún er einfaldlega fólgin í fiskveiðistjórnun og þeirri ráðstöfun kvóta sem núverandi ríkisstjórn hefur komið á. Engum öðrum er hægt að kenna í þetta skiptið, hvorki meintum “rasistum” í þjóðfélaginu né pólitískum andstæðingum.
Hvar gera sjávarútvegráðherra og ráðherrar byggða- og félagsmála nú? Þeir hafa ekki sést, engin fjölmiðill hefur svo mikið sem tekið viðtal við þá vegna málsins né viðbragða ríkisstjórnar. Ekki hósti né stuna frá þeim. Grafaþögn. Það virðast allir hafa hagsmuni af þögninni.
Nógu mikið lá mönnum á að koma á enn annarri nefndinni fyrir nokkrum vikum til að fjalla um málefni Vestfjarða, þrátt fyrir að ítarlegar og raunhæfar tillögur lægu fyrir frá sveitarstjórnarmönnum úr öllum sveitarfélögum fjórðungsins. Blásið var í herlúðra þegar niðurstöður “Halldórsnefndarinnar” lágu fyrir og fjölmiðlar flyktust að. Nýskipuð nefnd var til umfjöllunar í nánast hverjum fréttatíma og í öllum blöðum. Gúrkutíð hjá fjölmiðlum og gaman að vera til. Flott strategia hjá stjórnarflokkunum
Hverjar voru svo niðurstöðurnar? Jú, nokkurn veginn þær sömu og þær tillögur sem þegar lágu fyrir. Óhætt er að segja að tillögur Vestfjarðarnefndarinnar (Halldórsefndar) hafi valdið einhverjum miklum vonbrigðum enda enn eitt merkið um sóun á tíma og fjármunum. Þau vonbrigði hafa þó ekki farið hátt.
Ólíuhreinsistöð og 80 störf varð skærasta stjarnan í kosningabaráttu sjálfstæðis- og framsóknarmanna sem reiknuðu greinilega með að kjósendur sæju ekki fyrir sér hrikalegar afleiðingar af slíkri starfsemi í einangruðum fjörðum, ekki síst ef einhver umhverfisslys ættu sér stað. Þetta kosningatrikk er greinilega að svínvirka
Svo er að sjá að þessar tillögur sem og aðrar kosningabrellur stjórnarflokkanna hafi heldur betur aukið fylgi þeirra í kjördæminu, ef marka má nýjustu könnun Capacent sem birt var í dag. Þar bæta sjálfstæðismenn við sig 2 mönnum og fylgi Framsóknarflokksins komið yfir 18% (> 21% las ég í Mbl. í morgun). Kjósendur Norðvesturkjördæmis virðast hæstánægðir með árangur ríkisstjórnarinnar. Á því leikur enginn vafi.
Þrátt fyrir þetta hefur Framsóknarflokkurinn sýnt ýmiss merki um taugaveiklun og uppgjöf síðustu viku og daga og á fullu að skipa sína menn í hinar ýmsu nefndir og störf, jafnvel á kostnað eigin flokksbræðra. Virkar mótsagnakennt á mig sem leikmann en kannski er þetta ný herkænska sem formaðurinn er að beita núna, hver veit? “Öfug sálfræði” er slík herkænska gjarnan kölluð, hún er að svínvirka við að snúa kjósendum.
Ekki virðast menn kippa sér mikið upp við mismunun í málefnum innflytjenda. Einstaka boffs heyrðist frá Stöð2 þegar nýjasta mismunin var gerð opinber fyrir stuttu, þ.e ríkisborgararéttur tengdadóttur umhverfisráðherra. Stöð1 kom reyndar með aðeins ítarlegri umfjöllun um málið og Jónína tekinn á teppið af Helga Seljan. Púðrið fór hins vegar að mestu leyti í það að deila hvort hefði orðið; Helgi Seljan eða Jónína. Í sjálfu sér kom ekkert nýtt fram í málinu, auðvitað kom ráðherrann ekkert að málum þegar beiðni tengdardóttur hennar barst alsherjarnefnd, dettur einhverjum slíkt í hug af fullri alvöru? Ráðherrann sjálfur! Hún greiddi hins vegar atkvæði með afgreiðslu málsins. Þess ber að geta að afgreiðsla alherjanefndar fór fram í mars, hennar var lítilega getið í fjölmiðlum eftir afgreiðsluna á þingi en ekki orð frá fjölmiðlum um hugsanleg hagsmunatengsl og klíkuskap við umrædda afgreiðslu á beiðni tengdardóttur Jónínu. Þögn í mánuð, við skulum átta okkur á því. En fjölmiðlar eru búnir að sinna upplýsingaskyldu sinni nú með eftirminnilegum hætti og RÚV búið að launa ríkisstjórninni “fjölmiðlafrumvarpsgreiðann”. Öll dýrin í skóginum eru vinir
Fór reyndar að aðeins að bera meira á boffsi í dag, Fréttablaðið birti opið bréf til alsherjarnefndar frá Falasleen Abu Libdeh sem hefur enn ekki fengið íslenskan ríkisborgararétt eftir 12 ára búsetu í landinu. Eðlilega spyr konan hvers vegna Lucia Celeste Molna Sierra hafi verið veitt undanþága eftir einungis 15 mánaða dvöl í landinu. Hún fær aldrei svör við því bréfi, alsherjanefnd hefur lokaúrslitavald í þessum málum og þarf ekkert að rökstyðja ákvarðanir sínar. Mér er það til efs að það sé hægt að kæra þá ákvörðun sem nefndin tekur hverju sinni. Hvert ætti að kæra? Nú, Fréttablaðið er búið að leggja sitt af mörkum með því að heimila birtingu bréfsins. Ég reikna með því að þar með sé umfjölluninni lokið.
Það er hlutverk fjölmiðla að upplýsa almenning og viðhafa vönduð vinnubrögð, þeim hefur ekki verið stætt á því að þegja þessa mismunun algjörlga í hel. Samfylkingarmönnum hefur etv. ekki þótt stætt á því að þegja yfir þessari mismunun, þó það hafi hentað þeim það uppþot sem fjölmiðlar settu á svið varðandi meinta “rasistastefnu” frjálsyndra. Flott hjá þeim, þeir græddu. Þeir fulltrúar alsherjarnefndar sem samþykktu beiðni tengdardóttur Jónínu um íslenskan ríkisborgararétt voru Bjarni Benediktsson frá Sjálfstæðisflokki, Guðjón Ólafur úr Framsóknarflokki og Guðrún Ögmundsdóttir, Samfylkingunni.
Í öllu falli ætti öllum að vera það ljóst að miðað við þessa nýjustu könnun Capacent Gallup um fygli flokkanna í Norðvesturkjördæmi, eru kjósendur hæstánægðir með núverandi stjórnarflokka og vilja tryggja þeim áframhaldandi setu í ríkisstjórn. Samfylkingin er með 20,5%, VG rétt rúmlega 18% og Frjálslyndir koma ekki manni inn. Ber okkur ekki að virða vilja kjósenda í íslensku lýðræðisríki? Ég hefði nú haldið það. Þeir hafa síðasta orðið og þetta er niðurstaðan, hvort sem mér líkar hún eður ei.
Kjósendur vilja áfram stóriðju, ekkert stopp, aðgerðarleysi gagnvart innflytjendum sem hvorki fá þá íslenskukennslu sem þeim ber né eru læsir á ráðningasamninga sína, séu þeir yfir höfuð gerðir og er hrúgað saman í kojur í hin og þessi atvinnuhúsnæðin.
Kjósendur virðast aðhyllast áframhaldandi fólksfækkun úr stjrálbýlum byggðum, stuðla að uppbyggingu sumarbústaðahverfa á þeim svæðum og tryggja eignarhald einkaaðila á jörðum og landi í auknu mæli. Þeir virðast einnig hlynntir aukinni einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu og svo lengi mætti telja.
Það hentar Samtökum atvinnulífsins að hafa innflytjendur mállausa á íslenska tungu þannig að þeir geti ekki kynnt sér rétt sinn. Það kemur vel út fyrir atvinnurekandur að þurfa ekki að greiða heilbrigðisvottorð fyrir starfsmenn sína, svo ekki sé minnst á skyldusjúkratryggingu upp á 2 millj. fyrstu 6 mán. erlendra starfsmanna í landinu og auðvitað arðbært og hagkvæmt að halda launum í landinu niðri og fyribyggja þar með launaskrið í landinu.
Félagsmálaráðuneytinu hentar að taka þátt í upphrópunum í “rasistaumræðunn” enda hefur það margt að fela sökum aðgerðarleysis í þessum málaflokki síðustu 12 árin. Það kemst þá ekki upp á meðan.
Í stuttu máli; ef niðurstöður könnunar Capacent Gallups um fylgi flokkanna endurspeglar vilja kjósendur í NV kjördæmi þá er engin ástæða til að skipta ríkisstjórninni út og allir hagsmunaaðilar sáttir. Ekki satt?
Fundur
26. apríl 2007
Vek athygli á fundi Kristins H. í Dalabúð í kvöld. Hvet menn til að mæta og hlýða á hvað hann hefur fram að færa í framboðsmálum. Menn geta treyst á heiðarlega umræðu og svör.
Bkv. Guðrún Jóna