Á bremsunni
30. júní 2007
Gugnaði á vesturferð í dag, krakkarnir fóru einir. Sá mitt ráð vænna að hlaða batteríin fyrir næstu vinnuviku sem verður í lengri kantinum.
Við mæðgurnar réðumst í það að mála skjólveggi og pall í gærkvöldi og mín búin á því í dag. “Beinverkirnir” eru hvimleiðir og fj…. verri. Ég kemst ekki hjá því að rifja upp líðanina síðustu 3 árin fyrir greininguna. Á þeim tíma fóru þessir “beinverkir” og liðverkir vaxandi og oft komst ég ekki á fætur í fyrstu lotu, þurfti að bryðja bólgueyðandi lyf og önnur gigtarlyf til að komast af stað. Var greind með slitgigt þannig að þetta var nærtækasta meðferðin. Ég beit á jaxlinn og bölvaði í hljóði þar til ég gat ekki meir.
Eftir aðgerðina í nóvember hurfu þessi einkenni sem og önnur eins og dögg fyrir sólu en eru verkirnir komnir aftur og þeim mun verri eftir því sem ég hamast meira. Gjörsamlega óþolandi og aftra mér nokkuð. Vissulega er blessuð slitgigtin enn til staðar og verður alltaf en fyrr má nú aldeilis vera segi ég nú!
Í öllu falli er skynsamlegt að hægja aðeins á sér og fara vel með sig. Reyna að sinna einhverjum heimilisstöfum og fara í göngutúra. Í raun er sólahringur of stutt stopp til að leggja á sig ferðalagið þó það sé ekki langt, úthaldið leyfir ekki meira ennþá.
Verð nú samt að monta mig aðeins, mældi hjá mér súrefnismettun í fyrradag og viti menn; mín með 97% mettun. Á því átti ég aldrei von og get því ekki kvartað.
Vona að sólin skíni á morgunn, kominn tími til að kíkja aðeins á hana öðru vísi en út um gluggann. Stefni að heimferð næst, væntanlega fer sláttur að hefjast, ég get ekki hugsað mér að missa af honum þó ég sjái ekki um hann sjálf. Kjartan og Hörður redda honum eins og svo mörgu öðru hjá okkur.
Það er á planinu að byrja girðingavinnu í sumar, ætla að smala góðu fólki með mér til að drífa hana af stað og svo er það skógræktin. Get ekki beðið, búin að þrá það verkefni í mörg ár
12 dagar í tékk hjá Sigga Bö, spennt að fá að vita hver staðan er. Trúi því fastlega að ég sé laus við sjúkdóminn, a.m.k. í bili og ætla að njóta hvers augnabliks. Mun því biðja um kröftuga meðferð við þessum verkjum mínum svo ég geti notið mín enn betur.
Krakkarnir á leið á hlöðuball og afmælisfagnað, vinir Haffa frá Ejum skelltu sér með. Þröngt mega sáttir sitja segir máltækið, húsið okkar er algjört dúkkuhús og aðstaðan ekki beinlínis frábær:) Er orðin ansi spennt fyrir því að skella mér á dansiball við tækifæri, hef ekki tekið sporið í 3 ár eða lengur ef ég man rétt. Kominn tími til.
Ungamamma
30. júní 2007
Er gjörsamlega í skýjunum eftir heimkomu Haffa. Systkinin ótrúleg saman tvö:) Er eins og stolt gæsamamma, rosalega eru þau flott
Hafinn lenti heldur betur í ævintýri á heimleið frá Köben í gær. Í stuttu máli lenti hann í neyðartilviki skömmu eftir flugtak, tæklaði málin þannig að hann var sá sem stjórnaði vettvangi. Ótrúlegt en satt, ekki kominn með þann grunn sem til þarf undir slíkum aðstæðum, hvað þá læknisfræðilega þekkingu enda einungis búinn með 2 ár. Allt fór vel og það sem mér finnst ótrúlegt með drenginn; hann hefur upp á viðkomandi sem er erlendur ríkisborgari, og heimsækir hann í morgunn áður en hann fer á vaktina í dag. Er einhver á réttri hillu í lífinu ??????????
Stolt af mínum tveim ungum og sjálfri mér, ekki alveg handónýt úr því mér hefur tekist að alið þessa unga upp:)
Er drusla ef ég á að vera hreinskilin, en voða sátt. Kláraði vinnuvikuna og systkinin hreint út sagt frábær. Frétti í kvöld að aðalfundinum hjá Veiðfélagi Hörðudalsá hefur verið frestað þannig að ég mun örugglega sofa eitthvað í fyrramálið. Annað verður að ráðast.
Í öllu falli er allt á uppleið, lít ekki til baka því ég get engu þar um breytt. Búin að kvelja sjálfa mig og Kötuna með eilífum spurningum og vangaveltum án þess að fá svör. Þau fást ekki. Nú horfi ég einungis fram á við
Prinsinn mættur !
29. júní 2007
Þá er Hafsteinn mættur á svæðið, lenti í gærkvöldi og tóm sæla hjá öllum fjölskyldumeðlimum:) Búinn að standa sig frábærlega vel og kominn sem sé á 3. ár í læknisfræðinni. Mætti á kvöldvakt á geðdeild LSH í dag! Ekki að tvínóna við hlutina á þeim bænum. Ótrúleg þessi börn mín.
Ég skreið á fætur í hádeginu, þurfti “nauðsynlega”að leggja mig aftur þannig að dagurinn fór í ekkert; þessi líka frábæri dagur. Rosalega er ég fúl út í sjálfa mig! Enn og aftur. Er samt ekki frá því að einkennin séu eitthvað minni en síðasta föstudag eftir vinnuvikuna. Nú er að nota helgina og hlaða batteríin fyrir næstu törn.
Ætlum að eyða helginni saman, öll þrjú og ferfætlingarnir. Vonandi helst veðrið áfram svona gott og ég skal drattast fyrr á fætur en í dag! Hver dagur er dýrmætur og á það ber að leggja áherslu. Hver veit nema að maður renni fyrir bleikju um helgina í sveitinni, Hafsteini myndi ekki leiðast það. Aðalfundur hjá veiðifélaginu á morgun, hef ótal spurningar og vangaveltur í þeim efnum.
Bæring, Hörður, Sólveig og Andrea redduðu hestamálum fyrir okkur, ótúlega yndislegt fólk. Bæring ekki lengi að setja upp girðingu fyrir okkur. Tvímælalaust traustir vinir og fáir þeim líkir. Við erum ótrúlega heppin, á því er enginn vafi.
Nú er bara að bretta upp ermar og lágmarka þann skaða sem ég gerði í dag með þessari bjév…. leti! Út í sólina
Stutt og laggott
27. júní 2007
Í stuttu máli skemmtilegur en langur dagur í vinnunni, frábært starfsfólk og góður starfsandi Hlakka til að mæta á morgun. Heilsan fremur skrykkjótt, bév…. þreyta, slen og slappleiki
Hóst! Sniff! Ái!
Framkvæmdi nákvæmlega ekkert af því sem ég ætlaði fyrir utan vinnu, líkt og síðustu 2 vikurnar en styttist í helgarfrí og Haffinn að koma heim annað kvöld. Ég er þess fullviss að öll einkenni hverfi eins og dögg fyrir sólu. Ætla að vera myndarleg og dugleg á morgun, hvernig sem mér líður Get sofið út á föstudaginn þannig að mér verða allir vegir færir á morgun………….
Það verður alltént gott að skríða undir sæng. Nýr dagur framundan og eintóm hamingja Hálfur mánuður í tékk hjá Sigga Bö. Spennt og óþreyjufull, farin að merkja við dagana á dagatalinu og telja niður.
Urr
26. júní 2007
Ætla rétt að henda inn línum. Skreið heim úr vinnu seinni partinn, algjörlega búin á því. Verkirnir hreinlega að gera út af við mig. Mér finnst hver einasta fruma í líkamanum öskra! Finn meira að segja til í fingur-og táliðum! Ég hreinlega skil þessa líðan ekki og er ekki sátt. En hver segir að lífið eigi að vera auðvelt?
Er rétt skriðin fram úr sófanum, sofnaði yfir fréttum. Ekki það að maður missir ekki af miklu í þeim efnum upp á síkastið. Fyrir utan þarft framtak hjúkrunarfræðinga í dag, virðist það eina sem er markvert vera 180° viðsnúningur formanns Samfylkingarinnar í stóriðjumálum sem og ýmsum öðrum málum enda kosningar afstaðnar.
Hrikalegt að missa af þessum dýrlega sumarveðri. ? hvort ég þurfi að endurskoða þessa ákvörðun mína um vinnuna, hábölvað að þurfa að gefast upp þegar maður er búinn að taka ákveðið verkefni að sér. Mér líst illa á það enda fleiri ástæður en sú að standa sig, á bak við þá ákvörðun að fara að vinna. Urr………….!
Hafsteinn væntanlegur heim á fimmtudagskvöld. Við mæðgur tökum að sjálfsögðu fagnandi á móti honum Hlakka mikið til, farin að telja niður
Farin í bólið og ætla að vakna hress og verkjalaus í fyrramálið kl.06! Þetta hlýtur að koma smátt og smátt þannig að frístundir verði einhverjar. Hef af nógu að taka þegar kemur að áhugamálum og verkefnum.
Gleði og gaman
25. júní 2007
Hafsteinn náði lífefnafræðinni í fyrstu tilraun Þeir voru 3 Íslendingarnir sem náðu skriflega prófinu í morgun sem er undanfarinn af hinu eiginlega prófi sem var síðan munnlegt og reyndist þeim öllum erfitt en þeir náðu. Hinir þurftu að fara heim, lesa betur og fá að endurtaka leikinn.
Hafsteinn er sem sé væntanlegur heim, þarf að ganga frá íbúðinni úti og finna flug þannig að hann ætti að vera kominn fyrir vikulokin Ofboðslega hlakka ég til! Stoppið verður hins vegar ekki langt hjá mínum, verður farinn aftur upp úr 20. ágúst en þá bíður hans próf í erfðafræði og svo skólinn á fullt eftir 1. vikuna í september. Ég er nokkuð viss um að sumarið dugi ekki til þess að framkvæma allt sem er á óskalistanum, svo mikið er víst.
Ástandið er svipað hjá mér, punkteruð eftir daginn en montin eftir hvern vinnudag. Er ekki frá því að úthaldið sé að koma smátt og smátt. Er nokkuð viss um að það hefði komið fyrr ef ég hefði getað verið heima og úti við. Reyni kannski að stytta vinnutímabilið til að fá einhvern samfelldan tíma heima.
Verst að geta ekki nýtt seinni part dagsins að lokinni vinnu í að vera úti við, skríð í bókstaflegri merkingu upp í sófa eins og fýsibelgur. Ég tala nú ekki um þegar veðrið er jafn gott og í dag enda ætla ég mér út í garð á eftir og reyta arfa. Sú vinna er allra meina bót í fleiri en einum skilningi:)
Þreytt en ánægð
24. júní 2007
Við mægður skruppum heim um helgina enda nóg að gera. Hrossin strokin og lentu á Hóli þar sem þau eru í góðu yfirlæti. Það reyndist meira mál en við ætluðum að sækja þau og koma þeim fyrir heima. Girðingin farin auk þess sem einhvern meiri mannskap þurfti til að flytja þau.
Fundum sökudólginn fyrir strokinu en eru ekki með það sem til þarf til að fara í girðingavinnunna. Það var vond tilfinning að fara aftur suður með það mál ófrágengið enda ekki hægt að ætlast til að menn geymi hross fyrir mann út í það endalausa. Traffíkin mikil hjá Guðmundi á Hóli og óteljandi hross sem eiga viðdvöl hjá honum. Hann þarf að losna við okkar sem fyrst til að “hýsa” önnur. Við mæðgur þurfum því að senda neyðarkall á menn og biðja um aðstoð er ég hrædd um.
Kata stóð sig vel þegar vestur var komið. Hvítnaði þó hressilega upp og fékk mikla ógleði í fyrstu en vann á þessum einkennum á skynsamlegan hátt. Dreif sig síðan á hestamannaball þar sem hún skemmti sér konunglega. Var hins vegar framlág í dag vegna eftirkastanna
Komum seint heim í kvöld, ferðin tók 4 klst. og var meðalhraðinn á okkur um 2-4 km/klst frá Grundatanga og í Mosfellsbæinn Hvenær skyldi lögreglan sekta menn fyrir of hægan akstur og taka vanhæfa ökumenn úr umferð? Ég hélt ég yrði ekki eldri.
Okkur fannst erfitt að fara, vildum báðar vera áfram enda vill maður vera heima hjá sér. Verð alltaf bitur þegar ég hugsa til þess að geta ekki stundað vinnu í eigin heimabyggð. Völd sumra eru ótrúleg og geta reynst beinlínis hættuleg! En þeir uppskera eins og þeir sá, líkt og allir aðrir. Er það ekki lögmálið?
Hitti mína menn í morgunn, Kjartan, Guðrúnu og Hörð. Virðing er það orð sem flýgur í gegn um huga mér; virðing, traust, þakklæti og lotning. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að ég mun aldrei getað þakkað þeim að fullu.
Frábært að hitta Bæring og fjölskyldu, hann lét sig ekki muna um það að skjótast inn í Hörðudalinn til að liðsinna okkur vegna hrossana, fann sökudólginn fyrir strokinu. Áin hafði rutt niður árbakkann og girðinguna þar með. Nú þarf bara að gera við.
Sigurbjörg og stelpurnar komnar til Írlands, ég ætla rétt að vona að þær eigi eftir að skemmta sér vel. Heiðar mættur, sprækur og hress um hádegið, reddaði Toyotunni í gang og snöggur að rjúka með ruslið í næsta gám. Hvar væri ég án þessa vina minna? Rosalega sakna ég þess að vera ekki í daglegum samskiptum við þá. Bölva ég sumum núna, það mega allir vita. Þetta er fúlt en ég mun aldrei láta buga mig.
Tíkurnar kvöddu sveitina með stæl eða þannig. Blóðug slagsmál og Katan með Lafði Díönu uppi á dýraspítala í saumaskap og sýklalyfjagjöf. Ótrúlegar, geta samt ekki án hvor annarrar verið. Slaufa skælandi hér eftir hinni. Hér þarf hins vegar greinilega að taka ákvarðanir.
Vinna í fyrramálið, upp kl. 06. Úff, ofboðslega þreytt en ánægð í heildina. Þó mér finnist gaman í vinnunni skyggir það á að geta ekki verið meira heima. Krosslegg fingurnar fyrir Hafstein, stóra prófið í lífefnafræðinni í fyrramálið. Vona að hann nái því, ég verð að fara að fá hann heim, get ekki beðið.
Bitið á jaxlinn
20. júní 2007
Fátt annað en að bíta á jaxlinn og bölva í hljóði þessa dagana. Orðin framlág eftir 3 vinnudaga. Langar stundum að öskra af verkjum. Þykist vita að þeir stafi af því að þrekið og úthaldið er of lítið enda ekki búin að fara í neina eiginlega endurhæfingu. Auðvitað bratt að rjúka beint í vinnu án þess að vera komin vel af stað í henni en mér stóð hún einfaldlega ekki til boða. Ekkert annað í stöðunni hjá mér en að fara að vinna, hvernig sem ástandið er.
En vinnuvikan styttist í annan endan þannig að stutt er í hvíld og rólegheit. Það eru mikil viðbrigði að hafa allt í einu meira að gera en ég ræð við þannig að enn sitja tiltektir og þrif á hakanum. Ég hugga mig við að draslið fer ekkert þó ég bölvi því í leiðinni. Veit að þetta verður mun skárra í næstu viku, enn betra í þar næstu o.s.frv.
Það rignir inn allra handa glaðningi til mín þessa dagana, þvílíkt fjör og pappírsflóð! Ekki mjög upplífgandi en hlakkar ugglaust í einhverjum. Ekkert annað að gera en að leysa þau verkefni sem önnur og spýta í lófana. Mér er engu að síður hugsað til Jóns og Séra Jóns, einhverra hluta vegna. Einhver er ekki kátur, alla vega. Ástandið fer vonandi að skána, hlakka til að geta sofnað áhyggjulaus í það minnsta. En mikil vinna bíður þó margt sé áunnið.
Ótrúlegt hvað veikindi og síðan ástvinamissir setja strik í reikninginn og gera mann óstarfhæfan. Ekki einungis í nokkra daga heldur í langan tíma. Að vinna upp verkefni sem safnast hafa upp er í raun 100% starf, ef ekki meira. Ég segi það enn og aftur að maður ætti að fara á námskeið til að læra að höndla afleiðingar slíkra áfalla. Ekki er sýndur skilningur á þeim í kerfinu þannig að þörfin á fræðslu og stuðning er ærin. Einhver gæti hagnast vel á því að halda utan um slík námskeið, svo mikið er víst.
Reyni að halda mig í litlu skrefin, lengi þau smátt og smátt. Sumir dagar góðir, aðrir hábölvaðir. Sveiflurnar ævintýralegar, ýmist bjartsýn, kát og glöð, tilbúin í hvað sem er eða lítil, aum og vex allt í augum. Það er öll flóran, í stuttu máli.
Krossgöturnar eru flóknar, það er erfitt að velja “réttu” eða bestu leiðina og því tek ég mér þann tíma sem ég þarf til að ákveða mig.
Ekki til stórræðana
19. júní 2007
Dagarnir ansi stuttir upp á síðkastið. Byrja kl. 06.00 og búin á því þegar ég kem heim kl.17.00. Sofna þá því miður oftast og ríf mig upp með herkjum síðla kvölds svona rétt til að bursta tennurnar og skipta um stellingar. Blómin orðin ansi döpur, a.m.k. sum hver og þvotturinn hleðst upp. Ég geri ekkert annað en að sinna vinnunni, punktur og basta!
Verð að sætta mig við þetta ástand til að byrja með á meðan þrekið er að koma og aðrir að sýna mér vonandi umburðarlyndi. Ég er óttalega viðutan þegar heim er komið.
Hef óskaplega gaman af því að vera komin í vinnu við mitt fag; hjúkrunina og reyndar svolítið hissa hve litlu ég hef gleymt síðan 2003! Átti von á því að þurfa lengri aðlögun og upprifjun til að ná upp töpuðum tíma en svei mér þá; ég hef engu gleymt á heilsugæslusviðinu. Auðvitað er ég rígmontin af því:) Viðurkenni það þó að mér líkar mun betur á smærri stöðvum en þeim stærri þó fínt sé að vera á þeim líka. Kostirnir eru auðvitað til staðar; fleira fólk, meiri fagmennska og nýjungar og meiri samskipti. Frábært í alla staði
En sem stendur er vinnudagurinn ærið verkefni fyrir mig, er þó ekki eins “lemstruð” eftir daginn og ég var fyrstu dagana. Treysti mér reyndar ekki í fulla vinnu í sumar, verð að láta hlutastarf duga svona í fystu lotu en það munar um allt. Fer á fullt skrið í ágúst þegar skólinn byrjar.
Katan á fullu á Bogganum að leysa læknaritara af, bókstaflega hent út í djúpu laugina þar án nokkurar aðlögunar sem heitir en ég veit að hún ræður vel við það og er fljót að koma til.
Það styttist heldur betur í stóra prófið hjá Haffanum sem verður á föstudag. Gott hljóð í honum í gærkvöldi og vonandi hefst þetta hjá honum í fyrstu lotu. Nú, ef ekki þá er ekkert annað að gera en að reyna aftur að viku liðinni. En það seinkar heimkomunni sem því nemur. Þetta er þó allt að hafast og það er aðalatriðið
Búið að vera nóg af útskriftum í stórfjölskyldunni, yngsti bróðirin var að klára MBA námið þannig að nú verðum við systkinin að fá “brilliant” viðskiptahugmynd. Ég er reyndar búin að fá eina “lánaða” frá Veigu, vinkonu mömmu; að opna skemmtilegt elliheimili! Ögrandi verkefni þar.
Nú svo var það Aujan, systurdóttir mín, að klára embættispróf í ljósmóðurfræðinni með frábærum árangri og Binna, bróðurdóttir mín að ljúka stjórnmálafræðinni. Elsa lauk diploma prófi í Opinberri stjórnsýslu þannig að allir hafa haft nóg fyrir stafni síðustu dagana, á því er enginn vafi.
Reyni að öðru leyti að klóra í bakkann með þau verkefni sem bíða enn eftir farsælli lausn. Er háð öðrum með lausn á sumum þeirra og vona að allt fari að skila sér. Það myndi létta lífið og bæta líðanina mjög mikið. Ég mun ekki gefast upp þó á móti blási á stundum! Það er ekki til neins og bætir fátt en það verður gott að geta sofnað áhyggjulaus eitthvert kvöldið:)
Rólegt
17. júní 2007
Ansi rólegt yfir öllu þessa dagana, er að venjast þeirri staðreynd að vera byrjuð að vinna. Er eins og ég hafi orðið undir valtara en ég veit að þrekið kemur smátt og smátt. Nokkur viðbrigði að fara á fætur kl.06.00, ekki það að ég er ekki óvön því en þá til að lesa Moggann og leysa krossgátur þar til mig syfjar og ég legg mig aftur.
Andlega hef ég verulega gott af því að vera orðin “gildur þjóðfélagsþegn”, hver dagur hefur meiri tilgang nú. Hefði samt ekki unnið í sumafríinu nema af illri nauðsyn enda gríðalega margt sem þarf að gera, inni sem úti. Ætlaði mér að vera fyrir vestan í sumar enda af nógu að taka þar en verð þess í stað að láta mér nægja styttri viðdvöl í senn. Kennslan hefst svo í krinum 20 ágúst og ætti ég að vera komin með gott úthald þegar að henni kemur. Ég hlakka ótrúlega til að byrja aftur
Ekki laust við að það sé þungt yfir mér þessa dagana, gengur illa að sætta mig við það þegar fólk kemur ekki fram af hreinlyndi. Virðist seint ætla að sjóast í þeim efnum; bláeyg sem fyrr. Tvöfeldni og það að menn séu ekki sjálfum sér samkvæmir er ekkert nýtt undir sólinni, við lifum við það alla daga. Það kennir manni hins vegar að vanda valið, treysta fáum og brynja sig betur. Mér lætur það best að skríða inn í mína skel þegar ég er sár og það er bara allt í lagi. Við tökum öll á málum með mismunandi hætti, skelin er mín leið. Menn skulu þó ekki halda að ég sé buguð, þvert á móti. Styrkist ef eitthvað er.
Ég tek mér þann tíma sem ég þarf til að vígbúast, lífið er ekki dans á rósum, svo einfalt er það. Sumir fá stærri skammta af mótlæti en aðrir og þá er bara að taka því. Ég mun hins vegar ekki nota bláar augnlinsur framvegis.
Einkennilegt að sumir skulu trúa því í raun að hægt sé að nota aðra sem tímabundna dyramottur hjá sér og síðan sé ekkert mál að henda þeim þegar orðnar slitnar eða skítugar. Þetta sér maður alls staðar í kringum sig, nær og fjær. Ég lifi lífinu fyrir mig sjálfa, ekki aðra og þannig á það að vera. Ég get litið stolt um öxl, mér hefur tekist vel með uppeldi minna barna, a.m.k. á flestum sviðum. Þau orðin vel fiðruð og fleyg þannig að ég þarf ekki að hafa áhyggjur af þeim. Eru bæði tvö sjálfstæðir og sterkir einstaklingar, tilbúnir að takast á við lífið. Hvað er hægt að óska sér meira?
Ég er sjálf á ákveðnum krossgötum, verð að taka ákvarðanir um það hvert skuli stefna, hvernig og hvenær. Þær ákvarðanir mun ég taka þegar ég hef gert upp minn hug og stend þá líka við þær. Í öllu falli ætla ég að nýta tækifærið sem ég fékk og byggja ákvarðanirnar á þeirri reynslu sem ég bý yfir, bæði fyrir og eftir veikindin. Ég hlakka til þegar ég hef ákveðið stefnuna. Til þess er jú lífið; til að hafa gaman af því, alla vega svona að öllu jöfnu. Lífið er auðvitað sætt og súrt í bland