Prinsinn mættur !

29. júní 2007

Þá er Hafsteinn mættur á svæðið, lenti í gærkvöldi og tóm sæla hjá öllum fjölskyldumeðlimum:) Búinn að standa sig frábærlega vel og kominn sem sé á 3. ár í læknisfræðinni. Mætti á kvöldvakt á geðdeild LSH í dag! Ekki að tvínóna við hlutina á þeim bænum. Ótrúleg þessi börn mín.

Ég skreið á fætur í hádeginu, þurfti “nauðsynlega”að leggja mig aftur þannig að dagurinn fór í ekkert; þessi líka frábæri dagur. Rosalega er ég fúl út í sjálfa mig! Enn og aftur. Er samt ekki frá því að einkennin séu eitthvað minni en síðasta föstudag eftir vinnuvikuna. Nú er að nota helgina og hlaða batteríin fyrir næstu törn.

Ætlum að eyða helginni saman, öll þrjú og ferfætlingarnir. Vonandi helst veðrið áfram svona gott og ég skal drattast fyrr á fætur en í dag! Hver dagur er dýrmætur og á það ber að leggja áherslu. Hver veit nema að maður renni fyrir bleikju um helgina í sveitinni, Hafsteini myndi ekki leiðast það. Aðalfundur hjá veiðifélaginu á morgun, hef ótal spurningar og vangaveltur í þeim efnum.

Bæring, Hörður, Sólveig og Andrea redduðu hestamálum fyrir okkur, ótúlega yndislegt fólk. Bæring ekki lengi að setja upp girðingu fyrir okkur. Tvímælalaust traustir vinir og fáir þeim líkir. Við erum ótrúlega heppin, á því er enginn vafi.

Nú er bara að bretta upp ermar og lágmarka þann skaða sem ég gerði í dag með þessari bjév…. leti! Út í sólina :)

Spennufall

3. júní 2007

Ekki laust við spennufall síðustu dagana, gjörsamlega “punkteruð” eftir allt stressið í síðustu viku.  Engu að síður hæstánægð með hvernig allt hefur gengið vel, er bara þreytt og úthaldslítil.

Fórum í fermingaveislu hjá systursonum mínum í dag, ótrúlegt hvað tíminn er fljótur að líða. Mér finnst engin 14 ár síðan tvíburarnir voru í vöggu! En staðreyndir tala sínu máli og ég verð að kyngja því að tíminn líður hratt.  Aldrei hefur mér dottið í hug að ég eldist jafnhratt og blessuð börnin…………….

Virkilega gaman að hitta fjölskylduna og aðra ættingja og vini og það undir öðrum kringumstæðum en í jarðaför eins og mér er tíðrætt um.  Veislan var til fyrirmyndar og maturinn frábær, held ég hafi hesthúsað jafnmiklu þar og allan síðasta mánuð, svei mér þá!

Er bara lurkum laminn eftir síðustu dagana sem segir mér hversu úthaldið er lítið í raun, ég verð að fara að herða mig í þeim efnum!  Framundan eru fleiri veislur; skírnarveisla, útskriftarveisla, fermingarveisla og ég veit ekki hvað og hvað. Nóg að gera alla vega :)

Ég hef verið nokkuð þungt hugsi um trúnað og það hvernig sögur geta breyst í meðförum manna á milli.  Húsfluga er orðin að risafiðrildi áður en maður veit af.  Trúnaður er nokkuð sem er vandmeð farinn og ber að virða sem slíkan.  Menn líta hins vegar á það hugtak með misjöfnum augum og sýnist sitt hverjum í þeim efnum.

Ég er einu sinni þannig að ég tek því alltaf alvarlega þegar trúnaður er brotinn og er oft æði lengi að jafna mig á því og versna með árunum.  Tek trúnaðarbrot kannski allt of nærri mér.  Það sama má segja þegar orð mín eru endursögð manna á milli, slitin jafnvel úr samhengi og sett í allt annan búning en til þeirra var stofnað.  Mér finnst það fjandi sárt.  Ekki hjálpar það til að verða síðan vör við að “sagan” hefur farið eins og eldur um sinu áður en ég hef náð að snúa mér við.  Einhvern veginn minnir slík “flugferð” mig á kjaftakerlingar í gömlu pakkhúsunum sem höfðu fátt annað fyrir stafni en að kjafta um nánungann. Mér er einnig hugsað til litlu plássana á landsbyggðinn þar sem einstaklingar reyna að krydda upp á tilveruna með auka salti, pipar eða aromati hér og þar enda fjölbreytileikanum ekki fyrir að fara.

Sumir segja að heimildalausar sögur, ummæli og sögusagnir séu marklausar og get ég tekið undir þá skoðun en engu að síður eru þær skaðandi og hvimleiðar, vægast sagt. Hvað varðar trúnað þá tekur það tíma að byggja hann upp aftur.

Stúdína Katarína

2. júní 2007

Þá er Katan orðin stúdent frá MR :)   Þriðji ættliðurinn sem skrifast þaðan út, ég er ekki lítið stolt af henni.  Flaug yfir áttuna í meðaleinkunn þrátt fyrir alla erfiðleikana í vetur g sorgina.  Mér varð hugsað til þess tíma þegar ég var uppi á sviði í Háskólabíó fyrir 28 árum síðan og lítið hafði breyst. Stúdentsefnin fengu þó að sitja í athöfninni á meðan minn hópur stóð upp á endann allan tímann.  Skvísan var gullfalleg á sviðinu og geislaði þó álagið hafi verið yfirþyrmandi rétt fyrir útkskrift enda fáliðaðar í veisluundirbúningnum.

Það skyggði hins vegar mikið á daginn að Haffi skyldi ekki komast, það munar svo um hvert okkar í þessari litlu einingu. Ekki laust við að ég felldi nokkur tár, bæði af gleði og stolti yfir minni konu og söknuði eftir stráknum.  Við höfum ekki verið aðskilin í gleði og sorg fyrr en síðustu 2 árin og það tekur á okkur öll. Fyrir 8 mánuðum síðan var ég ekki viss um að getað verið viðstödd útskrfitina hennar en það hafðist og fyrir það er ég þakklát. Ég veit að það var erfitt fyrir Haffa að vera fjarri þennan dag og hefur tekið á. Mér finnst hann ótrúlega sterkur karakter, það sýnir sig ekki síst á stundum sem þessum.  Það verður ótrúlega gaman þegar hann kemur heim í sumar og tekið á því.  Það bíður hans langur verkefnalisti og síðan auðvitað ætla ég að njóta samvista við hann í botn :)

Veislan gekk mjög vel og frábært að hitta ættingja og vini undir þessum  kringumstæðum en vissulega vantaði marga.  Stórfjölskyldan hittist nánast eingöngu við jarðafarir síðustu árin og löngu tímabært að breyta því og efla tengslin. Það getur verið og seint á morgun. Frábært að fá vini úr Dölunum þó ég hafi vissulega saknað margra sem ekki áttu heimangengt. En svona er sveitalífið, sauðburðurinn og allt sem þeim álagspunkti fylgir, það þekki ég og skil mætavel.

Er búin að vera algjört sófadýr í allan dag, gjörsamlega búin á því en ofboðslega stolt og ánægð með allt.  Það kemur mér sífellt á óvart hversu yndisleg börn ég á, engin orð lýsa þeim tilfinningum og stolti sem ég upplifi vegna þeirra.

Þessi prófatörn Katrínar tók verulega á hana og í raun okkur og framundan er inntökupróf í læknisfræðina um miðjan júní.  Vonandi gengur það upp hjá henni.

Ein stolt :)

25. mars 2007

Greinilega komin “vökutími” og ég að vafra á netinu.  Sú var tíðin að ég skemmti mér með krökkunum, nú er öldin önnur! Læt mig duga að skoða myndir af þeim.  Gyða Lind, vinkona Kötu og Heiðrún Harpa ótrúlega duglegar að taka myndir.  Leyfi mér að fá nokkrar lánaðar… :) Ótrúlega gaman að skoða myndirnar, svakalega hef ég misst af miklu síðustu mánuðina…………………….. Kann auðvitað ekkert að setja upp myndaalbúm og skutla myndunum einhvern veginn inn, lagfæri síðar :)

Engin Fyrirsögn

Félagar í Árbliki

Stoltin mín á þorrablóti í Árbliki í febrúar sl.  Auðvitað sat ég heima :(

Engin Fyrirsögn

Skal einhvern undra að móðir sé stolt?  Úff hvað ég sakna Haffa  Crying 

Engin Fyrirsögn

Sætust………………………

and again

Vinkonurnar og skólasysturnar úr Búðardal.  Hér vantar þó Gyðu Lind sem væntanlega tók myndina.

Litlu skrefin

15. febrúar 2007

Þetta eru einkennilegir dagar. Þessi þó skárri en í gær, ég er farin að geta séð hluti í einhverju samhengi.  Síminn hringdi látlaust í gærkvöld og var ég í símanum til kl. að verða tvö  í nótt.  Ég átti góð samtöl við fjölskylduna sem og nokkra nána vini okkar.  Það var  ótrúlega gott að ræða við þá, fá aðra sýn og nýja fleti á málin. Ég var hins vegar rotuð fram að hádegi í dag eftir fremur slitróttan svefn í nótt.

Systa færði okkur yndisleg blóm frá fjölskyldunni og sat hjá okkur stutta stund en ég var búin að lofa mér í viðtal um kvöldið sem ég reyndar frestaði svo.  Stuttu seinna koma Ingigibjörg frá Hömrum með hlýjar kveðjur að heiman og annan yndislegan blómvönd. Hún sat lengi hjá Kötu sem gaf Kötu heilmikinn styrk og tókst að dreifa huganum.  Þar er á ferðinni ótrúlega þroskuð, ung stúlka með mikla útgeislun.                        

Tóti bróðir kominn á fullt að arrangera” málum, skipuleggja og leggja okkur lið enda sterkur í þeim efnum.

Við mæðgur eru báðar lurkum lamdar í dag, líðanin líkist helst því að hafa verið í erfiðri fjallgöngu og ofreynt okkur.  Strengir, “beinverkir” , ógleði og höfðuverkur þannig að við höfum tekið því rólega.  Drifum okkur út úr húsi í tvo tíma svona til að anda að okkur hreinu lofti og skipta um umhverfi.  Hafsteinn sýnir ótrúlegan styrk, mætir í sinn skóla sem er kominn á fullt og ber sig vel, miðað við aðstæður.  Ekki er tekið tillit til aðstæðna sem þessa þarna úti, þar verða menn að harka af sér.

Við erum farin að hugsa í einhverju samhengi og sjá fram fyrir tærnar á okkur.  Röðum pússlispilinu smátt og smátt saman þannig að einhver mynd er að koma á það sem brýnast liggur við.  Sumt liggur ljósar fyrir en í gær en fátt er enn um svör.  Sum þeirra fást trúlega aldrei en alltaf mun maður spyrja, á því er enginn vafi.

Það er ótrúlegt hvað við erum “utan við okkur”, leggjum frá okkur hluti og týnum þeim, gleymum jafnóðum hvar við settum þá og munum ekki hvað sagt var fyrir stuttu. Ég er búin að “týna” tvennum gleraugum og ótal pappírum og sneplum.  Það er eins og maður standi við hliðina á sér og horfi á atburðarásina án þess að vera þátttakandi.  Þetta ku þó ekki vera óvanalegt.

Vinir og nágrannar tóku að sér að sinna fénu til að byrja með, þvílíkt hvað þeir reynast vel og ekki í fyrsta skiptið. Það hjálpar ótrúlega mikið að þurfa ekki að hafa áhyggjur af þeim verkum fyrstu dagana og vikuna á meðan það erfiðasta er að ganga yfir.  Þeim verður seint fullþakkað.  Menn leggjast allir á eitt og rétta hjálparhönd í þrengingum, nokkuð sem borgarbúar hafa fæstir fengið að kynnast.  Hér er gott dæmi um það hvað Dalamenn standa saman þegar erfiðleikar steðja að.

Ég er betur í stakk búin í dag til að takast á við brýnustu málin en ég var í gær, þrátt fyrir spennufall og mun reyna að heyra í þeim sem hafa haft samband síðustu daga og vilja leggja okkur lið.  Þetta er smátt og smátt að koma. Vona að vinir og vandamenn sýni okkur biðlund og þolinmæði á meðan. Ég stefni að því að fara vestur um helgina með góðra vina hjálp en veit að það verður erfitt.  Það er eins og margt annað þessa dagana óumflýjanlegt og eins og ein mæt kona sem er mér mjög kær, skrifaði í gestabókina mína og ég leyfi mér að setja hér inn:

Höfuðdyggð í lífinu
er raunverulegt hugrekki
sem horfist í augu við staðreyndir
og lætur þær ekki buga sig.
(D.H.lawrence)

Orð að sönnu, við verðum að horfast í augu við staðreyndir lífsins hverju sinni, það er ekki umflúið.

Sorgin

13. febrúar 2007

Mig skorti orð núna og veit ekki hvernig ég á að bregðast við atburðum síðustu daga. Hugsanirnar eru á fullu og gefa engin grið.  Spurningarnar eru margar en engin eru svörin.  Þögnin er óbærileg og ég forðast hana eins og heitan eldinn.  Við erum að reyna að koma einhverju skipulagi á hugsunina sem er samhengislaus og fer um víðan völl.  Við tökum eitt skref í einu, við getum ekki horft fram í tímann ennþá.  Skipuleggjum eitt í einu, smátt og smátt en það er svo margt sem þarf að huga að og ákveða. Sumt þolir ekki bið, annað virðist óyfirstíganlegt núna.

Við höfum átt góða að síðasta sólahringinn, systkini mín og makar þeirra hafa verið veitt okkur ómetanlega styrk, samúð og aðstoð.  Við gætum þetta ekki án hennar.  Vinir og nágrannar hafa sýnt ótrúlega samhyggð og leggjast á eitt að veita okkur aðstoð við það sem við erum ekki fær um að sinna núna.  Allir leggjast á eitt, ég veit ekki hvernig við kæmumst í gegnum þessa erfiðu reynslu án þeirra.  Hafsteinn er ekki lánsamur og við mægður, hann þarf að takast á við áfallið og sorgina einn, fjarri ástvinum en á sem betur fer yndislega vinu sem stendur með honum.  Hann er ótrúlega sterkur og heilsteyptur einstaklingur og saman munum við ganga í gegnum það erfiða ferli sem framundan er.  Skjólstæðingar heilbrigðiskerfið eru lánsamir að fá hann til liðs við sig í náinni framtíð. 

Sorgin birtist í ýmsum myndum og mennirnir bregðast misjafnlega við.  Eitt er þó víst, hún nístir.  Við munum öll gera okkar besta og komast í gegnum þetta.

Ég bið og vona að þú friðinn finnir
og að meinið eigi á sig minnir.
Þú ákvaðst að fara
og ekki leyfa drottni að svara.
Drottinn bendir á lausn og gleði.
því átta ég mig ekki á,
hvað í höfði þínu skeði.
                   (Jóhann Hilmar Haraldsson)