Kveðja frá syni o.fl.

24. febrúar 2007

Minn elskulegi sonur var að senda mér kveðju; ljóð sem hann orti í nótt. Get ekki stillt mig um að setja það hér, þrátt fyrir að það sé inni í ummælum enda að rifna úr stolti:

Oft þá erfitt er
ílla á dyrum ber
mundu skaltu það
hverja áttu að.
Saman við stöndum
sameinuð gegn því sem fellur höndum.

Skiptir engu við hvað er að etja
markið skulum við setja
að sjá það bjarta
saman skulum við skarta
öllu því sem býr oss í hjarta.

Áföll þó þau telji hundrað
ekkert getur okkur sundrað.
Því verður ekki leynt
að margt hefur á okkur reynt
en sundurslitin verðum við seint.

þú skalt ei gráta
né undan láta
dimmum drungum
höggum þungum.
Mundu elsku móðir mín
að við elskum þig.
…börnin þín
                       (Hafsteinn Daniel, 24.feb. 2007)

Það er ekkert lítið sem við höfum saknað hans.  Hann er sönn hetja! Við munum aldrei gefast upp.

Önnur kveðja barst mér í gærkvöldi frá Sigríði Skúladóttur í Borganesi sem ég met afar mikils en hana má einnig sjá í ummælum:

“Væri ég beðin að gefa eitt allsherjar heilræði
handa öllu mannkyni yrði það þetta”:
“Gerðu ráð fyrir erfiðleikum
sem óhjákvæmilegum þætti lífsins.
Berðu höfuðið hátt þegar þeir
bresta á og segðu:
„Þið hafið ekki roð við mér”
                                       (Ann Landers)
Ótrúlega hvetjandi baráttukveðja!

Morgundagurinn

23. febrúar 2007

Heisufarið er ennþá bágborið, leyfi mér að fullyrða að ég sé með pest þessa dagana.  Kalt, kvefuð, með hita og beinverki.  Hef reynt að halda mér sem mest inni við til að versna ekki.  Ég get ekki hugsað það til enda ef meðferðinni verður aftur frestað á miðvikudaginn. 

Ég kvíði morgundeginum og veit að hann verður okkur öllum erfiður.  Við leggjum af stað í býtið í fyrramáið og hefst athöfnin kl. 11. Allt verður svo endanlegt og kaldur veruleikinn blasir við, veruleiki sem við getum ekki breytt.  Það er vond tilfinning að standa frammi fyrir staðreyndum sem maður getur ekki með neinu móti haft áhrif á.  Þær bara eru og ekkert haggar þeim.  Það er svo ríkt í eðli okkar að vilja hafa stjórn á aðstæðum en stundum er það einfaldlega ekki hægt.

Vona að okkur takist að standa okkur í athöfninni, við eigum góða að sem gerir gæfumuninn.  Allt hefst þetta að lokum með góðra manna hjálp.

Þín bíður fegurri dagur
á stað þar sem sólin skín.
Ég veit þér líður betur,
við tekur nýtt líf.

Dagurinn hefur verið þungur og langur.  Hef litlu komið í verk og þráðurinn stuttur. Finnst ég ekki orka meir, þetta er orðið of mikið.  Ég hef ekki getað verið uppörvandi við aðra sem eiga erfitt og bitnaði það á Kötu minni í dag.  Þessi líðan á ekkert að koma mér á óvart, en hún gerir það. 

Mér finnst næstu dagar vera óyfirstíganlegir.  En ég kemst auðvitað í gegnum þá eins og aðrir en einhvern veginn virkar sagan um fílinn og litlu skrefin ekki í dag. Í dag er einhvern veginn allt á hvolfi og drungalegt.

Líf okkar hefur tvisvar tekið óvænta stefnu á síðustu 6 mánuðum.  Við vorum rétt að ná einhverju jafnvægi eftir greininguna sem kúventi öllu hjá okkur og nú er lífið aftur komið á hvolf.  Við getum ekkert gert annað en að sætta okkur við það og vinna okkur í gegnum breytingarnar.  Ég hef hins vegar ekki hugmynd um það hvernig við gerum það en einhvern veginn tekst það. 

Ég hnaut um ágætis vísu sem við ættum að hafa að leiðarljósi;

Að vilja er vissasta leiðin.
Að vona er starfsorkan hálf.
Að efast er hörmungaheiðin.
Að hopa er glötunin sjálf.

                              (Aðalbjörn Pétursson frá Hafnardal)

Það er ekkert annað í stöðunni en að spýta í lófana og harka þetta af sér. Það er auðvelt að detta niður í sjálfsvorkunn en hún eykur einungis á vandann. En svo bregðast krosstré sem önnur tré, það er í lagi að kikna á stundum svo fremi sem maður réttir fljótt úr sér á ný.  Það mun ég gera!

“Utangátta”

21. febrúar 2007

Ég er sennilega komin með einhverja pest, stöðugt slöpp, með hita og beinverki.  Sofið út í það endalausa í dag og ekkert gert af viti. Vona að þetta gangi yfir sem fyrst, ég má ekkert vera að því að liggja í rúminu núna. Ég er utangátta og kem engu í verk.

Ég finn hvað litla fjölskyldan er að brotna saman og bjargráðum fækkar.  Kata er mjög langt niðri á erfitt með að stunda námið enda hefur hún misst mikið úr skólanum, fyrst vegna inflúenzu og nú er það eitt annað áfallið.  Fjallið er einfaldlega of hátt til að klífa það í einni atrennu.  Hafsteinn rétt þraukar úti, á erfitt með að vera fjarri okkur og vantar stórfjölskylduna.    Ég get ekki sagt að líðan þeirra komi mér á óvart, hvert áfallið hefur dunið á fætur öðru og þau skilja ekki af hverju svo mikið er á þau lagt.  Það geri ég svo sem ekki heldur en hef lært það af langri ævi að sumt fær maður ekki breytt og þá verður maður að takast á við hlutina.  Erfiðleikarnir og vandamálin hverfa nefnilega ekki af sjálfu sér.  Auðvitað eru viðbrögð krakkana eðlileg og þau verða að fá að ganga yfir, ég trúi því og treysti að þau þrauki á meðan á því versta stendur.  Það er ótrúlega seigt í þeim og þau eru dugleg þannig að ég trúi því að þau gefist ekki upp.

Hvað sjálfa mig snertir, þá finn ég það vel að dagarnir eru misjafnlega slæmir.  Suma daga tekst ég á við þau verkefni og vandamálin sem bíða úrlausnar, aðra daga geri ég mest lítið, allt eftir líðaninni hverju sinni.  Ég reyni að takast á við hlutina sem verkefni sem þarf að leysa af hendi, set mér markmið sem ég næ stundum, en stundum ekki.  Þá byrja ég einfaldlega upp á ný.  Auðvitað finnst mér ég vera að klífa hæsta fjall í heimi og þegar ég horfi alla leið upp á toppinn, fallast mér hendur, ég sé ekki fram úr hlutunum og ógjörningur að fara alla leið upp.  Stundum koma tímar þar sem ég fer tvö skref aftur á bak fyrir hvert skref áfram og það hefur komið fyrir að ég renn marga metra niður en ég þakka það móður minni að ég leyfi mér ekki að gefast upp.  Það tók hana mörg ár að brýna mig og kenna en það hafðist og ég er enn að læra enda “late bloomer”.

Það er auðvitað stórfjölskyldan, vinir og aðrir sem hvetja okkur til að halda áfram þessa dagana.  Við finnum það mæta vel hversu hlýjar baráttukveðjur og stuðningur þeirra ýta við okkur.  Ég veit að ég hefði ekki áorkað því sem ég hef gert síðustu vikuna nema með aðstoð fjölskyldunnar sem hefur verið ötul að aðstoða við allan undirbúning og stutt okkur með ráð og dáð. 

Ég skynja það vel að ómaklegar ásakanir fara illa í krakkana, þær bætast ofan á alla vanlíðanina og sorgina, þau eiga erfitt með að skilja hvað fólki gengur til.  Eru þó býsna sjóuð eftir reynslu fyrri ára heima í héraði þegar ég slysaðist í sveitarstjórn.  Það er eins og fólk átti sig ekki á því að þegar ráðist er á foreldrið, snertir það krakkana ekki síður enda fullorðið fólk og fátt fer fram hjá þeim, ekki síst í litlum samfélögum. En eins og ég hef oft bent þeim á, þá ræður skynsemin ekki alltaf för hjá fólki.  Það sem skiptir mestu máli nú, er að einbeita sér að litlu skrefunum sem ég vitna alltaf í, horfa fram á við og vera sjálfum okkur samkvæm.  Það er eðlilegt að kikna á stundum undan álagi en við megum ekki falla í þá gryfju að sjá allt svart og vonlaust.  Sumir dagar eru verri en aðrir og þessi var einn af þeim.  Þannig er lífið einfaldlega, við verðum að sætta okkur við það sem við getum ekki breytt. 

Mér finnst 1. erindi í ljóðinu “Fjallganga” eftir Tómas Gðmundsson, eiga ágætlega við núna:

Urð og grjót.
Upp í mót.
Ekkert nema urð og grjót.
Klífa skriður.
Skríða kletta.
Velta niður.
Vera að detta.
Hrufla sig á hverjum steini.
Halda, að sárið nái beini.
Finna, hvernig hjartað berst,
holdið merst
og tungan skerst.
Ráma allt í einu í Drottin:
,,Elsku Drottinn,
núna var ég nærri dottinn!
Þér ég lofa því að fara
þvílíkt aldrei framar, bara
ef þú heldur í mig núna!'’
Öðlast lítinn styrk við trúna.
Vera að missa vit og ráð,
þegar hæsta hjalla er náð.
                     (Tómas Guðmundsson)

Það er allt í lagi að vera stundum “utangátta”.  Morgundagurinn verður betri og við eigum góða að :)

Dagurinn í dag

20. febrúar 2007

Þá er þessi dagur á enda.  Erfiður en ákveðinn léttir eða “lokun”.  Athöfnin var mjög falleg og munaði miklu um tónlistina sem söngstjóri og organisti Fríkirkjunnar sáu um.  Þau systkini mín sem áttu heimangengt og fjölskylda þeirra ásamt systurdóttur minni, voru viðstödd og enn og aftur segi ég; við gætum ekki gengið í gegnum ferlið án þeirra. Tóti og Systa buðu öllum gestum heim í kaffi eftir athöfn, þau eru hreint út sagt ótrúleg. 

Við Kata áttum litla orku eftir þegar leið á daginn, gjörsamlega búnar.  Þrekið er ekkert á þessum bænum.  En við erum mjög sáttar við okkar frammistöðu í lok dags, við komumst í gegnum daginn skammlaust og á morgun höldum við áfram.  Var að heyra í Hafsteini rétt áðan, honum líður illa að vera fjarri okkur en sýnir ótrúlegan styrkleika.

Framundan er áframhaldandi undirbúningur, jarðaförin verður á laugardag á Kvennabrekku.  Þangað til eru það litlu skrefin enda eru þau mikilvæg og viðráðanleg. En mikið er langt í að langtímamarkmiðum verður náð.  Við verðum að gæta okkar á því að hugsa ekki mikið út í þau strax og minna okkur á söguna um fílinn. 

Ég orka ekki meira í dag.

Áfram heldur lífið

20. febrúar 2007

Eins og við mátti búast var heilsufarið ekki upp á marga fiska í dag.  Seint farið að sofa eftir strembinn dag og vaknað seint í morgun.  Ég hreinlega komst ekki á fætur, var lurkum laminn og verkjuð.  Komst aðeins á skrið seinni partinn og skrapp út í stutta stund til að útrétta. Kvöldið svaf ég eiginlega af mér, ég sem ætlaði að nýta það vel.

Það er að mörgu að hyggja við undirbúninginn og ótal endar sem þarf að hnýta.  Allt er þetta þó að hafast með dyggri aðstoð Tóta og Elsu.  Kistulagningin fer fram á morgun í Fossvogskapellu. Morgundagurinn verður því erfiður; þá verður allt svo endanlegt. 

Ég veit eiginlega ekki hvernig mér líður þessa dagana sem hafa liðið líkt og í þoku. Maður reynir að einbeita sér að þeim ótalmörgu atriðum sem þarf að ganga frá og skipuleggja athafnirnar.  Mikill tími hefur farið í símtöl sem hafa í flestum tilfellum verið mjög styrkjandi.  Þreytan er hins vegar óendanleg.  Ég hef því ekki náð að tala við alla sem hafa reynt að ná á mig að undanförnu.  Ég týni minnismiðum og gleraugum hingað og þangað, gleymi að setja þvottavélina í gang og maturinn hálf eldaður. Aumingja Kata mín að umbera móður sína þessa dagana.

Krakkarnir standa sig eins og hetjur, við öðru var ekki að búast. En mikið líður þeim illa, það skynja ég vel.  Hafsteinn er eirðalaus og skortir einbeitingu úti, á erfitt með að beina athyglinni að náminu og Kata beitir sig hörku til að mæta í skólann eftir svefnlitlar nætur.  Ég vildi að ég ætti einhver ráð til að draga úr högginu og áfallinu svo þeim liði betur, en ég á engin. Sem betur fer fær Kata góðan stuðning og skilning á aðstæðum í skólanum en það sama verður ekki sagt með skólann hans Haffa.  Þar verða menn að harka af sér og dugir ekkert væl!  Hljómar reyndar líkt og hjá okkur Íslendingum. Harkan sex er það sem dugir. 

Við verðum öll að sætta okkur við þessa líðan, hún er eðlileg miðað við aðstæður og sorgarferlinu getum við ekki sleppt.  Framundan eru erfiðir tímar og við verðum að taka því með einhverri skynsemi. Mér er það minnistætt þegar einn frómur maður sagði við mig árið 2003 þegar ég gekk í gegnum mikla erfiðleika; Guðrún mín, ef þú ætlar að borða heilan fíl, verður þú að gera það í smábitum og það tekur tíma! Við getum ekki stytt okkur leið í þessum efnum, þannig er það einfaldlega. Systkini mín og fjölskyldur þeirra standa eins og klettar við hliðina á okkur, ég veit ekki hvernig við værum, nyti þeirra ekki við.  Ég hefði hins vegar ekkert á móti því að geta stöðvað tímann og spólað til baka en lífið heldur áfram og við fáum því engu breytt.

Stutt heimferð

19. febrúar 2007

Ég skrapp heim að Seljalandi í dag.  Fékk Hafstein bróður til að skutla mér.  Hef verið að manna mig upp í að fara vestur síðustu daga, eitthvað sem ég varð að gera og var óumflýjanlegt.  Það eitt að taka ákvörðunina í morgunn tók verulega á, ég reyndi hvað eftir annað að finna ástæður til að fara ekki.  Dagurinn byrjaði heldur ekki vel, heilsufarslega séð en skánaði eftir því sem á leið.

Eftir því sem við nálguðumst Dalina, fann ég herpinginn í maganum og hjartslátturinn jókst.  En það var góð tilfinning þegar við keyrðum í gegnum Suðurdalina, ég fann þá hversu mikið ég hef saknað þeirra og finnst ég hafa tapað miklum tíma í “útlegðinni”.

Við byrjuðum á því að fara til Sigurbjargar og Heiðars í Búðardal til að sækja lykla.  Þvílíkur léttir að hitta þau.  Ég held ég geti fullyrt það að traustari vini hef ég ekki átt og segi ég það án þess að lasta aðra. Það er ekki lítið sem mér þykir vænt um þessa fjölskyldu :)      Úff hvað Sesselja Dís hefur stækkað og hvað tíminn flýgur áfram! Maður sér það best á krökkunum :)                                                                       Við stoppuðum hins vegar ekki lengi enda vildi ég fara heim að Seljalandi og til baka í björtu.  Ég vissi jafnframt að úthaldið yrði lítið.  Þegar þangað var komið fann ég fyrir miklum létti þó heimkoman væri tómleg og með öðrum hætti en ég hefði kosið. Kvíðinn var ofboðslegur. Hún reyndist ekki eins erfið og ég átti von á, það var sami góði andinn í húsinu og alltaf; kvíðahnúturinn slaknaði. Ég náði að sinna þeim erindum sem drifu mig heim.  Allt var í góðu lagi uppi í fjárhúsum enda ekki von á öðru þegar Kjartan á Dunk og Hörður í Vífilsdal eiga hlut að málum.  Ég fæ þeim seint fullþakkað sem og Ásgeiri í Blönduhlíð og feðgunum í Hlíð.  Ég mun þó reyna það í náinni framtíð.  Í þessari ferð treysti ég mér ekki til að líta inn til þeirra og vona ég að mér verði fyrirgefið það.

Við lögðum af stað suður fyrir myrkur og komum við í Snóksdal.  Þar hafa heldur betur breytingar átt sér stað síðan ég kom þar síðast, orðið snyrtilegt og fallegt.  Í heildina gekk ferðin vel ef svo má að orði komast.  Ég lauk reyndar ekki öllum erindum en hafði ástæðu til að fresta þeim sem sátu á hakanum. Ég þarf aðeins meiri umhugsunarfrest. Tilfinningarnar eru blendnar eftir “heimferðina”, það var erfitt að koma, ég upplifði ákveðinn léttir en um leið nístandi sorg þegar heim var komið og fannst erfitt að þurfa að fara.  Það að hafa ekki getað verið heima og innan um féð okkar í vetur hefur tekið á en þannig hafa aðstæður verið. Ég hef fylgt læknisráði og fyrirmælum í þeim efnum enda höfum við lagt kapp á það að leggja okkar af mörkum til að ég nái heilsu. Það þýðir þó ekki að mér hafi líkað það að þurfa að fjarri heimahögum, þvert á móti en stundum skapast þær aðstæður að maður verður að bíta í það súra epli.

Ég neita því ekki að ég leita stöðugt svara,svara við áleitnum spurningum sem klyngja stöðugt í huganum.  Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að sum svörin fæ ég aldrei.  Ég fékk þó svör við ýmsu í dag og ég á nú auðveldara með að taka ýmsar ákvarðanir en í gær.  Það var vissulega erfitt að takast á við þennan dag og margt ýfðist upp en ég verð að takast á við raunveruleikann eins og hann er, ekki eins og ég vil að hann sé.  Fengi ég að ráða, væri staðan önnur en hún er, hvað svo sem aðrir segja um það.

Ég sá hins vegar eftir því að leyfa Kötu ekki að koma með vestur.  Ég taldi það ekki tímabært og betra fyrir hana að vera kyrr fyrir sunnan og reyna að koma rútínu á líf sitt enda styttist í stúdentsprófin í vor.  Ég hélt að heimferðin myndi ýfa of mikið upp en mig grunar að sú ákvörðun hafi verið röng, trúlega hefði það verið betra fyrir hana, tilfinningalega, að koma heim og líta á féð sitt og hrossin í leiðinni. Hún á verulega erfitt þó hún beri sig vel út á við. Höggin eru einfaldlega of mörg síðustu mánuði og ekki bæta ómaklegar ásakanir annarra, líðanina.  Í þeim efnum vísa ég aftur á vef Landlæknisembættisins en þar er að finna ýmsan fróðleik, m.a. um þann harmleik sem okkar litla fjölskylda, aðrir aðstandendur, vinir og nágrannar, eru að upplifa. Þar segir m.a:

“Þeir sem eftir lifa sitja eftir uppfullir af sárum tilfinningum, undrun, dofa, afneitun, ákafri sorg, reiði, sjálfsásökunum og/eða ásökunum á aðra. Sjálfsmynd aðstandenda brotnar og þeir sitja uppi með áleitnar spurningar. Þeir kenna sér um og hafa oft tilhneigingu til að einangra sig. Erfitt getur reynst að vinna úr sársaukanum og sumir losna aldrei undan honum. Því er alltaf mjög mikilvægt að sinna eftirlifendum vel” http://www.landlaeknir.is/template1.asp?PageID=756

Ómaklegar ásakanir eru mikil einföldun á málum.  Í þeim felast gjarnan flótti frá raunveruleikanum og jafnvel friðþæging fyrir eigin samvisku.  Þær koma ekki frá neinni rökhugsun, eru til þess eins ætlaðar að særa og meiða og lýsa betur þeim er ásakar en þeim sem ásakaður er.  Við munum ekki feta þá braut heldur einbeita okkur að því að vinna okkur í gegnum sorgina og reyna að koma einhverju jafnvægi á líf okkar með heilbrigðri hugsun, ekki síst gagnvart nánunganum.

Ég hvet alla til að lesa pistilinn í heild sinni, í honum má finna ýmiss svör.

Hroki og dómharka

17. febrúar 2007

Þessi síðasta vika hefur verið mjög erfið og tekið á okkur öll.  Við sitjum uppi með ótal spurningar en fá svör, sektarkendin hefur leitað á okkur líkt og hjá öðrum í svipuðum aðstæðum og eilífar vangaveltur um ef ég hefði……., hvað ef ég……….  Vanlíðanin hefur verið mikil, eirðaleysi, svefninn slitróttur og líkamleg einkenni, s.s. hjartsláttur, höfuðverkur, ógleði, svimi, kaldsviti o.s.frv. verið áberandi.  Auðvitað eðlileg viðbrögð og einkenni sorgarferlisins en engu að síður yfirþyrmandi.

Undanfarna daga hef ég átt mörg og góð samtöl við vini, nágranna, systkini og aðstandendur.  Samskipti sem hafa verið gefandi og styrkjandi og gefið okkur kraft til að halda áfram.  Hlýjar kveðjur, yndisleg blóm og kerti hafa og borist.  Allt þetta hefur verið ómetanlegt og hjálpað okkur í gegnum erfiða tíma.  Á það ekki síst við um Katrínu og Hafstein.

Aðrar kveðjur og sendingar hafa verið kaldar og miður góðar.  Þær nísta og svíður okkur sárt undan þeim, því er ekki að neita enda væntanlega til þess ætlast.   Vissulega leitar maður skýringa á slíkri framkomu og hvað liggi að baki.

Ég hnaut um ágætis pistil á síðu Landlæknisembættisins sem fjallar um holl ráð fyrir heilsuna og tel ég að við höfum öll gott af því að lesa.  Ég leyfi mér að setja inn nokkrar málsgreinar úr pistlinum sem er eftir Salbjörgu Bjarnadóttur, geðhjúkrunarfræðing;

“Þeir sem eru bjartsýnir og raunsæir að eðlisfari eiga auðveldara með að setja sér raunhæf markmið. Þeir hafa trú á eigin styrk, eru meðvitaðir um eigin tilfinningar, þora að taka ákvarðanir og hafa hugrekki til að standa með sjálfum sér. Þeir spyrja spurninga ef eitthvað er óljóst og þeir horfa á mistök sem tilraun, nýta þau til framþróunar eða að sjá í þeim nýtt tækifæri. Þeir eru meðvitaðir um eigin framkomu, hafa útgeislun, leggja sig fram við að vera í góðum tengslum við sína nánustu, treysta öðrum og njóta þess að deila velgengni sinni. Oftar en ekki geta þeir sett sig í spor annarra, og síðast en ekki síst virðast þeir eiga auðvelt með að biðjast fyrirgefningar ef þeir gera á hlut annarra.
En svo eru það hinir sem virðast ávallt geta gert allt að engu. Þeir sjá oftar ógn í hverju horni, æða áfram án þess að spyrja, kenna öðrum um og eru oft ásakandi í garð þeirra sem næst þeim standa. Dómharka þeirra, yfirgangur og niðrandi orðaval gerir það að verkum að þeir einangrast. Þeir hafa sín markmið, en þau eru ómarkviss og loðin og þeir eiga erfitt með að biðja um aðstoð fyrr en allt er komið í þrot. Þessir einstaklingar sjá oft mistök sín sem eitthvað óyfirstíganlegt, þrjóskast við að viðurkenna vanmátt sinn, þora illa að takast á við mótbyr, draga sig í hlé, fyllast jafnvel öfund út í þann sem hefur það betra eða flýja á náðir Bakkusar”. (http://www.landlaeknir.is/template1.asp?pageid=1094)

Það er nú einu sinni svo að hvorki ég né aðrir geta tekið ákvarðanir fyrir aðra.  Ákvarðanir eru í höndum hvers og eins sem ber jafnframt ábyrgð á þeim.  Það má kannski segja að lífið yrði einfaldara fyrir okkur öll ef við gætum alltaf kennt öðrum um ef illa fer en er það raunhæf og rökrétt afstaða?

Lífið er ferðalag

17. febrúar 2007

Sumir líkja lífshlaupinu við ferðalag hér á jörð.  Öll vitum við að lífið hefur sitt upphaf og sinn endi.  Við göngum við út frá því.  Við vitum hins vegar ekki hversu lengi ferðalag okkar varir né fyrirfram hvernig því verður háttað.  Flest okkar hugsa lítt um ferðalok sem okkar allra bíður og einbeita sér að líðandi stundu.  Við gerum vissulega áætlanir fram í tímann, setjum okkur markmið og höfum þannig áhrif á það hvernig líf okkar er og verður.  Við stöndum alltaf frammi fyrir vali og stundum veljum við ekki “réttan” valkost hverju sinni.  Sumir ganga hinn beina veg allt sitt líf á meðan vegurinn getur verið ansi skrikkjóttur og þyrnum stráðum hjá sumum.

Hins vegar koma fyrir atvik í okkar lífi sem við ráðum engu um og getum ekki haft áhrif á. Ýmist atvik sem aðrir eiga hlut að máli eða önnur sem enginn sér fyrir né hægt að “kenna um”, t.d. náttúruhamfarir.  Í slíkum tilfellum er fátt eitt að gera í stöðunni en að takast á við þá reynslu eftir bestu getu og draga lærdóm af henni.  En við bregðumst misjafnlega við enda engir tveir einstaklingar eins, við erum misjafnlega gerð frá náttúrunnar hendi.  Samfélagið er vissulega með skráðar og óskráðar reglur um það hvernig við eigum að bregðast við einu og öðru en í þeim reglum er sjaldnast að finna einhverja töfrauppskrift til að fara eftir.  Hver og einn verður að finna “sína” leið og þræða stíginn. 

Hvert okkar þarf að læra að þekkja sinn persónuleika og það er nú einu sinni þannig að við getum ekki valið einn þátt persónuleika okkar og hafnað öðrum.  Viðfangsefnið allt æviskeið okkar felst í því að læra að þekkja þá þætti, jákvæða sem neikvæða sem saman móta okkur og vinna í því að samræma þá.  Þetta ferli er eilíf barátta, mikil vinna og getur tekið langan tíma en er þess virði að leggja á sig.  Takist það ekki, er hætt við því að við verðum óhamingjusöm og skiljum eftir okkur slóða af hálfkláruðum athöfnum og vonbrigðum.

Mér finnst ljóð Tómasar Guðmundssonar; Hótel Jörð, lýsa vel gangi lífsins. Ég leyfi mér að fá fyrstu tvö erindin “lánuð”.

Tilvera okkar er undarlegt ferðalag.
Við erum gestir og hótel okkar er jörðin.
Einir fara og aðrir koma í dag
því alltaf bætast nýir hópar í skörðin.

Og til eru ýmsir sem ferðalag þetta þrá,
en þó eru margir sem ferðalaginu kvíða.
Og sumum liggur reiðinnar ósköp á,
en aðrir setjast við hótelgluggann og bíða.

 (Tómas Guðmundsson)

Litlu skrefin

15. febrúar 2007

Þetta eru einkennilegir dagar. Þessi þó skárri en í gær, ég er farin að geta séð hluti í einhverju samhengi.  Síminn hringdi látlaust í gærkvöld og var ég í símanum til kl. að verða tvö  í nótt.  Ég átti góð samtöl við fjölskylduna sem og nokkra nána vini okkar.  Það var  ótrúlega gott að ræða við þá, fá aðra sýn og nýja fleti á málin. Ég var hins vegar rotuð fram að hádegi í dag eftir fremur slitróttan svefn í nótt.

Systa færði okkur yndisleg blóm frá fjölskyldunni og sat hjá okkur stutta stund en ég var búin að lofa mér í viðtal um kvöldið sem ég reyndar frestaði svo.  Stuttu seinna koma Ingigibjörg frá Hömrum með hlýjar kveðjur að heiman og annan yndislegan blómvönd. Hún sat lengi hjá Kötu sem gaf Kötu heilmikinn styrk og tókst að dreifa huganum.  Þar er á ferðinni ótrúlega þroskuð, ung stúlka með mikla útgeislun.                        

Tóti bróðir kominn á fullt að arrangera” málum, skipuleggja og leggja okkur lið enda sterkur í þeim efnum.

Við mæðgur eru báðar lurkum lamdar í dag, líðanin líkist helst því að hafa verið í erfiðri fjallgöngu og ofreynt okkur.  Strengir, “beinverkir” , ógleði og höfðuverkur þannig að við höfum tekið því rólega.  Drifum okkur út úr húsi í tvo tíma svona til að anda að okkur hreinu lofti og skipta um umhverfi.  Hafsteinn sýnir ótrúlegan styrk, mætir í sinn skóla sem er kominn á fullt og ber sig vel, miðað við aðstæður.  Ekki er tekið tillit til aðstæðna sem þessa þarna úti, þar verða menn að harka af sér.

Við erum farin að hugsa í einhverju samhengi og sjá fram fyrir tærnar á okkur.  Röðum pússlispilinu smátt og smátt saman þannig að einhver mynd er að koma á það sem brýnast liggur við.  Sumt liggur ljósar fyrir en í gær en fátt er enn um svör.  Sum þeirra fást trúlega aldrei en alltaf mun maður spyrja, á því er enginn vafi.

Það er ótrúlegt hvað við erum “utan við okkur”, leggjum frá okkur hluti og týnum þeim, gleymum jafnóðum hvar við settum þá og munum ekki hvað sagt var fyrir stuttu. Ég er búin að “týna” tvennum gleraugum og ótal pappírum og sneplum.  Það er eins og maður standi við hliðina á sér og horfi á atburðarásina án þess að vera þátttakandi.  Þetta ku þó ekki vera óvanalegt.

Vinir og nágrannar tóku að sér að sinna fénu til að byrja með, þvílíkt hvað þeir reynast vel og ekki í fyrsta skiptið. Það hjálpar ótrúlega mikið að þurfa ekki að hafa áhyggjur af þeim verkum fyrstu dagana og vikuna á meðan það erfiðasta er að ganga yfir.  Þeim verður seint fullþakkað.  Menn leggjast allir á eitt og rétta hjálparhönd í þrengingum, nokkuð sem borgarbúar hafa fæstir fengið að kynnast.  Hér er gott dæmi um það hvað Dalamenn standa saman þegar erfiðleikar steðja að.

Ég er betur í stakk búin í dag til að takast á við brýnustu málin en ég var í gær, þrátt fyrir spennufall og mun reyna að heyra í þeim sem hafa haft samband síðustu daga og vilja leggja okkur lið.  Þetta er smátt og smátt að koma. Vona að vinir og vandamenn sýni okkur biðlund og þolinmæði á meðan. Ég stefni að því að fara vestur um helgina með góðra vina hjálp en veit að það verður erfitt.  Það er eins og margt annað þessa dagana óumflýjanlegt og eins og ein mæt kona sem er mér mjög kær, skrifaði í gestabókina mína og ég leyfi mér að setja hér inn:

Höfuðdyggð í lífinu
er raunverulegt hugrekki
sem horfist í augu við staðreyndir
og lætur þær ekki buga sig.
(D.H.lawrence)

Orð að sönnu, við verðum að horfast í augu við staðreyndir lífsins hverju sinni, það er ekki umflúið.