Send heim

14. febrúar 2007

Ég var send heim í morgun og ekki treyst í meðferðina. Allt of lág í hvítum blóðkornum þannig lyfjaskammtur í dag hefði getað verið mér skaðlegur.  Vissulega súrt í broti, því er ekki að neita.  Ég er sársvekkt.  Hins vegar má einnig líta á það sem svo að mér veitir ekki af kröftunum næstu daga og vikur til mæta því sem framundan er.  Aukaverkanirnar af lyfjunum eru það miklar að þær lama alla getu mína í viku til tíu daga.  Mæti eftir 2 vikur þegar allt er um garð gengið og tekst á við framhaldið.  Seinkunin er ekki talin hafa áhrif á batahorfur.

Nú er bara að einbeita sér að litlu skrefunum og halda utan um krakkana.

Sorgin

13. febrúar 2007

Mig skorti orð núna og veit ekki hvernig ég á að bregðast við atburðum síðustu daga. Hugsanirnar eru á fullu og gefa engin grið.  Spurningarnar eru margar en engin eru svörin.  Þögnin er óbærileg og ég forðast hana eins og heitan eldinn.  Við erum að reyna að koma einhverju skipulagi á hugsunina sem er samhengislaus og fer um víðan völl.  Við tökum eitt skref í einu, við getum ekki horft fram í tímann ennþá.  Skipuleggjum eitt í einu, smátt og smátt en það er svo margt sem þarf að huga að og ákveða. Sumt þolir ekki bið, annað virðist óyfirstíganlegt núna.

Við höfum átt góða að síðasta sólahringinn, systkini mín og makar þeirra hafa verið veitt okkur ómetanlega styrk, samúð og aðstoð.  Við gætum þetta ekki án hennar.  Vinir og nágrannar hafa sýnt ótrúlega samhyggð og leggjast á eitt að veita okkur aðstoð við það sem við erum ekki fær um að sinna núna.  Allir leggjast á eitt, ég veit ekki hvernig við kæmumst í gegnum þessa erfiðu reynslu án þeirra.  Hafsteinn er ekki lánsamur og við mægður, hann þarf að takast á við áfallið og sorgina einn, fjarri ástvinum en á sem betur fer yndislega vinu sem stendur með honum.  Hann er ótrúlega sterkur og heilsteyptur einstaklingur og saman munum við ganga í gegnum það erfiða ferli sem framundan er.  Skjólstæðingar heilbrigðiskerfið eru lánsamir að fá hann til liðs við sig í náinni framtíð. 

Sorgin birtist í ýmsum myndum og mennirnir bregðast misjafnlega við.  Eitt er þó víst, hún nístir.  Við munum öll gera okkar besta og komast í gegnum þetta.

Ég bið og vona að þú friðinn finnir
og að meinið eigi á sig minnir.
Þú ákvaðst að fara
og ekki leyfa drottni að svara.
Drottinn bendir á lausn og gleði.
því átta ég mig ekki á,
hvað í höfði þínu skeði.
                   (Jóhann Hilmar Haraldsson)

Sælan búin í bili

12. febrúar 2007

Jæja, þá er Haffi lagður af stað til Debrechen og fríið búið.  Ekki var svefninn mikill hjá honum þessa nóttina og um 20 tíma ferðalag framundan.  Hann flýgur til Kaupmannahafnar og þarf að arka um Strikið fram á kvöld og flýgur svo til Búdapest..  Þaðan þarf hann að ferðast með bíl í 2 1/2 klst. áður en hann er kominn til síns heima.  Þeir leggja mikið á sig námsmennirnir þarna úti til að komast heim en þeim fjölgar stöðugt í læknanáminu þarna.  Ekki er boðið upp á beint flug til Búdapest nema á vorin og haustin á þá með Heimsferðum, held ég.

Rosalega var erfitt að kveðja hann, ég er bara pínulítil.  Eins og ég er sátt við dvöl hans úti og stolt af stráknum þá held ég að þetta sé erfiðasta kveðjustundin, hingað til.  Grunar mig að Katan mín eigi erfitt þessa stundina.  Ég kórónaði gærkvöldið með því að sofa megnið af því af mér :(   Reyndi þó allt hvað ég gat til að vaka en Þyrnirósin náði yfirhöndinni.  Ég veit að Haffi fyrirgefur það.

En ég á margt að þakka, þetta er búið að vera frábær tími. Við komumst reyndar ekki yfir nærri allt sem við ætluðum að gera en þá er enn og aftur spurning um hvort markmiðin hafi verið raunhæf :)   Það góða við markmið er að þau má alltaf endurskoða og setja ný.

Ég hugga mig við það að tíminn er fljótur að líða, stutt er í sumarið og meira en nóg að gera þangað til.  Hafsteinn er aftur væntanlegur heim upp úr miðjum júní, ef allt gengur að óskum í prófunum. Í millitíðinni er ég ákveðin í að heimsækja hann út þegar ósköpin eru búin og skoða herlegheitin.  Þá verður fjör hjá minni :)

Nú er bara að setja undir sig haus og spýta í lófana!

Aldrei fór ég vestur

11. febrúar 2007

Ekki komst ég vestur á þorrablótið í gær.  Þvílík vonbrigði  :(   En svona er lífið, maður fær víst ekki allt.  Heilsan bauð einfaldlega ekki upp á langferð og trall, ég varð að vera skynsöm og kyngja því.  Trúlega ekki raunhæft markmið í upphafi.

Hins vegar var okkur krökkunum boðið á mat til Tóta og Systu í gærkvöldi.  Grillað lambalæri a la Systa og Tóti með öllu tilheyrandi.  Þvílíkt hvað maturinn var góður, ég sat hreinlega á beit, hann var svo góður! Við áttum frábæra stund saman sem fyllilega bætti upp vonbrigðin, svo mikið er víst.  Mér gengur mun betur að borða þann mat sem ég elda ekki sjálf, á því er enginn vafi.

Krakkarnir drifu sig síðan vestur og skelltur sér á blótið, þ.e.a.s. á ballið og skemmtu sér konunglega.  Voru að koma heim rétt í þessu og heilsan heldur bágborin………

Mér bárust margar kveðjur að vestan sem mér þótti afar vænt um að fá og góð ráð.  ”Þolinmæði, þrjóska og þrautseigja” voru þau ráð sem mér bárust frá Ernu og Vésteini á Fellsenda.  Þau vita svo  sannarlega hvað þau eru að segja enda hafa þau heldur betur lent í erfiðum veikindakafla sem þau stóðu af sér með undraverðum hætti.  Ég mun tileinka mér þessi góður ráð, þau hjónin hafa sýnt fram á að það er allt hægt með réttu hugafari.

Fæ 3. skammtinn á miðvikudaginn, ballið er að byrja  á ný og nú fer að verða óhætt að telja niður, það fer að líða á seinni hlutann!  Ætla að reyna að njóta það sem eftir er dagsins með krökkunum, Haffi er að fara út eldsnemma í fyrramálið þannig að sælan er búin í bili. Úff, hvað mér finnst alltaf sárt að kveðja hann, á erfitt með að fylgja honum á flugvöllinn, finnst skemmtilegra að sækja hann. En hann kemur heim í sumar og tíminn er fljótur að líða :)

Á þorrablót fer ég að ári!!!

Um daginn og veginn

10. febrúar 2007

Ég er bara ánægð með þennan dag, svona á heildina litið.  Var reyndar léleg og verkjuð fyrripartinn og svaf eins og sveskja fram til kl.14.00 (geri aðrir betur) en mun betri seinni partinn. 

Við Kata fórum út á Geirsnef með tíkurnar og mín fékk sér fínan göngutúr, án þess að blása úr nös.  Varð þó að gefast upp fyrr en ég vildi þar sem ég var ekki nógu vel klædd miðað við kuldann úti.  Hörkufjör hjá Díönu og Slaufu enda ekki fengið að hlaupa og tralla í all nokkurn tíma.  Svei mér ef Díana hefur ekki tvöfaldað, jafnvel þrefaldað þyngd sína.  Nú verður tekið á því!

Inflúensan hefur verið að herja á heimilismenn, Kata búin að vera veik í tæpar 2 vikur og nú komin á sýklalyf.  Búin að missa þvílíkt úr skólanum en hefur samviskusamlega reynt að lesa heima og búa sig udnir þau skyndipróf sem hafa verið hverju sinni.  Ég kenni flensunni slöku heilsufari hjá mér, óttalegt kæruleysi að fá ekki bólusetningu, þó ég hafi þurft að fara upp í Borganes til að fá hana á heilsugæslunni þar, það hefði borgað sig.  Hafsteinn hefur sloppið hvað best enda fékk hann Tamiflu fljótlega eftir að einkennin gerðu vart við sig þannig að hann hefur ekki orðið jafn veikur og við mægður. 

Þegar ég lít yfir síðustu 2 vikur og ber þær saman við vikurnar eftir fyrstu meðferð, myndi ég segja að líðanin hafi verið almennt verri.  Ógleðin meiri og lengur viðloðandi, svefinn og slappleikinn og verkirnir meiri þannig að ég geri ráð fyrir því að ástandið versni eftir því sem líður á meðferðina.  Ég mæti í 3. meðferð á miðvikudag og ef allt er í lagi með blóðstatusinn, byrjar fjörið aftur.  Ég get ekki sagt að ég hlakki til en það jákvæða er að nú fer að síga á seinni hlutann á meðferðinni.  Siggi Bö lofaði mér því að ég yrði eins og nýsleginn túskildingur í sumar og tek ég hann á orðinu :)

Sæluvikunum hér heima fer senn að ljúka, Hafsteinn er á förum út til Ungverjalands á mánudagsmorgunn :(    Tíminn hefur flogið áfram og höfum við hvergi nándar nærri gert allt sem við ætluðum að gera á meðan á fríinu stæði.  Þetta er þó búið að vera frábær tími enda eru þessi börn mín algjörir gullmolar :)

Eitt hefur vakið furðu mína síðustu vikur og það er hárið!  Siggi Bö sagði að það myndi örugglega fjúka, annað væri kraftaverk. Um daginn fór eitt og eitt að falla og ég undir það búin að taka Jósefínu fram.  En viti menn, það er ósköp lítið að gerast í þessum málum.  Hárið enn á sínum stað en ég fæ ekki betur séð en að hársrótin sé grá/hvít!  Vissulega er auðveldara að fást við litinn en hárleysi :)

Við höfum stefnt að mætingu á þorrablót vestur í Suðurdölum annað kvöld.  Mikil tilhlökkun og auðvitað nokkuð mikið bjartsýni í minni en mig langar svo mikið………. Mig langar svo að skreppa heim, hitta vini og kunningja og eiga góða kvöldstund.   Það er hins vegar það mikill dagamunur á mér að ég get ekki fastákveðið neitt fram í tímann, verð að láta nægja að taka ákvarðanir frá degi til dags.  Vona að ég verði nógu hress á morgun til að fara.  Það kemur allt í ljós. Ég mun alla vega reyna að nýta næstu 4 daga til fulls áður en ballið byrjar aftur.

Þar kom að því!

8. febrúar 2007

Jæja, þar kom að því að bróðir segði sig úr Framsóknarflokknum eftir að hafa helgað honum krafta sína í 2 kjörtímabil.  Ég dreg ekki dul á því að sjónarsviptir er af honum úr flokknum enda hefur Kristinn verið einn sá ötulusti þingmaður sem Norðvesturkjördæmi hefur átt í áraraðir.  Engan þingmanninn hef ég hitt né þekkt sem hefur verið jafn trúr sínum kjósendum og duglegan að fara um kjördæmið til a hlusta á ALLAR raddir íbúa þess.  Hefur mér reyndar oft blöskrað hvað hann hefur lagt á sig að ferðast um kjördæmið, í öllum veðrum, til að hitta fólk og leggja fram krafta sína.

En er einhver undrandi á því að Kristinn yfirgefi flokkinn og rói á önnur mið?  Ef litið er til síðasta kjörtímabils, þá á þessi ákvörðun hans ekki að koma á óvart.  Engum hefur dulist sú fæð sem flokksforystan hefur lagt á hann, ekki síst eftir að hann lýsti yfir andstöðu sinni við Íraksstríðið og stuðningsyfirlýsingu þá sem Davíð og Halldór sendu Bandaríkjamönnum fyrir hönd Íslendinga og án samráðs við þingflokka sína.  Önnur mál hafa einnig verið eldfim; fjölmiðlafrumvarpið, öllum til sælla minninga, sala og einkavæðing Símans svo örfá dæmi séu tekin en í þeim málum hefur Kristinn tekið eindregna afstöðu gegn ákvörðun flokksforystunnar.  Af hverju? Jú, einfaldlega af því að þær samræmdust hvorki  ekki stefnu Framsóknarflokkins né samþykktum flokksþings og í sumum tilfellum alls ekki þeim stjórnarsáttmála sem gerður var á milli Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokksins við myndun núverandi ríkisstjórnar.  Kristinn hefur alla tíð verið mikill “prinsipmaður” og lagt ríka áherslu á heiðarleika og að vera sjálfum sér samkvæmur.  Hann býr yfir mikilli innri sannfæringu og er traustur og trúr sínum fylgendum.  Það á illa við hann að segja eitt og meina annað, eins og virðist vera hluti af hinni frægu framsóknarmennsku.   Það er hreinlega ekki í hans eðli að sveiflast til eins og vingull eftir duttlingum forystunnar hverju sinni, ekki síst ef það samræmist ekki stefnu flokksins og loforðum til kjósenda.

Margir hafa hnýtt í Kristinn fyrir það að hafa skipt um flokk, nú síðast í kvöld var fyrirsögn frétt um brotthvarf hans úr Framsóknarflokkum undir þeim formerkjum að hann væri nú genginn í þriðja flokkinn á þrem árum!  Ekki lítur það vel út og fjölmiðlarnir eru ekki beinlínis að dekra við hann heldur blása fréttina upp og það heldur neikvæða. Það er svo  sem ekkert nýtt.

En bíddu nú við, hugsaði ég; er nokkuð eðlilegra að hann skipti um flokka, fyrst árið 1999 þegar hans flokkur, Alþýðubandalagið, var lagður niður og nú árið 2007 úr Framsóknarflokknum þar sem honum var gert nánast ókleift að starfa og koma sínum sjánarmiðum á framfæri? ‘Eg fór að rifja upp afdrif annarra stjórnmálamanna. Hvert fór Steingrímur J. og Margrét Frímannsdóttir þegar Alþýðubandalagið var lagt niður?  Hvaðan kom Ingibjörg Sólrún inn í Samfylkinguna eða Hjálmar Árnason inn í Framsóknarflokkinn?? Komu þau ekki öll inn í núverandi flokka úr öðrum flokkum?  Ég man ekki betur.  En hver er þá munurinn á þeim og Kristni??  Af hverju nær þessi umfjöllun einungis til hans í þessum efnum?  Einhver hlýtur að leggja línurnar í þeim efnum sem öðrum, það er ég viss um.

Síðustu tvö kjörtímabilin hefur Kristinn helgað Framsóknarflokknum krafta sína og fáir þingmennirnir í þingflokknum hafa trúað og tileinkað sér betur þá stefnu flokksins sem við, kjörnir fulltrúar, höfum tekið þátt í að móta.  “Manngildi ofar auðgildi” lýsa best þeirri stefnu sem við höfum aðhyllst og viljað fara eftir.  Þeirri stefnu hefur þingflokkur og flokksforystan ekki fylgt og augljóst að talsverður hluti framsóknarmanna fylgir þeim að málum.  Síðasta kjörtímabil hefur Kristinn mátt starfa í heldur nöturlegu umhverfi þingflokksins, sviptur að stórum hluta því umboði sem kjósendur veittu honum í síðustu kosningum.  Finnst mér margur framsóknarmaðurinn í Norðvestukjördæmi lítt velta sér upp úr þeirri staðreynd að þar með minnkaði vægi hvers atkvæðis sem hann hlaut til þings og þar með áhrif hans í einstakum málaflokkum.

Öllum er ljóst að Kristinn á sína óvildarmenn innan Framsóknarflokksins og hafa þeir hæst sem koma úr Skagafirðinum.  Þeir hafa verið iðnir við kolann þegar kemur að svívirðingum og meiðyrðum enda kappsmál að losna við hann úr flokknum. Ein skólasystir mín frá Akranesi kom með þá yfirlýsingu við mig undir húsvegg fyrir 2 árum að Kristni og Magnúsi yrði sparkað út fyrir næstu kosningar og fylgdi orðum sínum eftir af miklum sannfæringarkrafti.  Að hluta til hefur óvildarmönnum Kristins náð sínu markmiði en hvað skyldi verða um Magnús?  Ég hef reyndar trú á því að hann sé búinn að kaup sér frið og semja um áframhaldandi bandalag og samstarf við Skagfirðinga o.fl. og tryggja sér þar með áframhaldandi þingsetu.  Það má sjá best á nýjustu tilnefningu stöllu hans, Herdísar Sæmundardóttir úr Skagafirði, í Jöfnunarsjóð sveitarfélagana enda ljóst að tæpt verður um 2. þingsæti framsóknarmanna í Norvesturkjördæmi eftir kosningar í vor. Þessi skólasystir mín sem er formaður framsóknarmanna á Akranesi og skipaði 5. sæti á framboðslista kjördæmisins, hefur hafnað því sæti og er nú komin með fasta stöðu í Iðnaðarráðuneytinu.  Tilviljun?  Nei, þokkaleg laun fyrir hundstryggðina þar!              Guðni er einnig búinn að semja við Skagfirðingana; Herdís fékk jafnframt Háskólaráð Hólaskóla, eins og fyrr greinir.  Nú ættu allir framsóknarmenn að vera sáttir, ekki síst innan þingflokksins.

“Enginn veit hvað átt hefur” segir máltakið og eru orð með sönnu.  Menn ættu að varast að gera lítið úr þeim styrk og stuðning sem Kristinn hefur sem stjórnmálamaður í kjördæminu og víðar. Hefur sá stuðningur ekki verið bundinn við Framsóknarflokkinn.   Hann hefur tvímælalaust sýnt mikinn styrk  síðustu 3 1/2 árin, í því umhverfi sem hann hefur mátt starfa við.  Einhver kynni að hafa bognað en hann hefur kosið að nýta þá reynslu á jákvæðan hátt fyrir sjálfa sig og þá sem fylgja honum að máli.  Frjálslyndir eru heppnir að fá hann til liðs við sig en Framsóknarflokkurinn mun gjalda þess í komandi alþingiskosningum!  Vestfirðingar eru þekktir fyrir eitthvað annað en uppgjöf og sundrung :)

Svei mér þá; ég bara finn ekkert orðið fyrir inflúensunni né öðrum krankleika :)   Nú fer loksins að verða fjör!

Formleg kosningabarátta Framsóknarflokksins er greinilega hafin og hefur heilbrigðisráðherra ekki hvað síst, haldi merki flokksins á lofti.  Sitt sýnist hverjum um aðferðafræði ráðherrans og hafa margri gagnrýnt hann síðustu daga, t.d. fyrir að nota fé úr framkvæmdarsjóði aldraðra, til að koma stefnu sinni í öldrunarmálum á framfæri. 

Það hefur verið afar athyglisvert að fylgjast með umræðunni á Alþingi síðustu daga og vikur.  Í dag dró heldur betur til tíðinda hjá háttvirtum heilbrigðisráðherra og stöllu hennar, Sæunni Stefánsdóttir, reyndar fyrir nánast tómum sal Alþingis.  Ráðherra veitti frjálsyndum heldur betur tiltal og skammaðist út í þá vegna innflytjendastefnu flokksins með tilvísun í “rasisma”.  Sæunn tók í sama streng.  Helstu umkvörtunarefni ráðherrans voru heilbrigðisvottorð og sakavottorð innflytjenda.  Mig rak í rogastans!  Bíddu, af hverju var Sif að fjargviðrast út af kröfu um heilbrigðisvottorð sem forsendu fyrir atvinnu- og búsetuleyfi hér á landi?? Hvar hefur ráðherran verið þá mánuði sem hann hefur gegnt embætti??  Ég hélt að Siv Friðleifsdóttir veitti heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu forstöðu.

Staðreyndin er nefnilega sú, að til fjölda ára hefur það verið skilyrði fyrir atvinnuleyfi útlendinga að fara í læknisskoðun og fá heilbrigiðsvottorð áður en slíkt leyfi er veitt. Hefur heilsugæslan í landinu verið hornsteinninn í þeirri þjónustu en Landlæknisembættið fylgir henni eftir.   Ástæðan er einföld, berklar, lifrabólga, mænusótt og margir aðrir sjúkdómar eru landlægir víða úti í heimi.  Eru þá ótaldir smitsjúkdómar eins og Salmonella, Camphylobakter og fleira “gúmmelaði” í þeim dúr.  Á þetta við um ýmiss lönd í Austur-Evrópu og Asíu, svo fátt eitt er nefnt. 

Stór hluti erlends vinnuafls, hér á landi, ræðst til starfa við matvælaiðnaðinn, t.d. í sláturhúsin, kjúklingabúin, fiskvinnsluna og í heilbrigðisgeiran við þrif og ummönnun.  Nú, ef útlendingur greinist með einhverja sjúkdóma, t.d. berkla, þá er hann einfaldlega meðhöndlaður á kostnað ríkisins í þeim tilfellum og fær sitt atvinnuleyfi þegar það er talið óhætt af lækni.  Mönnum er ekki vísað úr landi, greinist þeir með smitsjúkdóma, þeir eru einfaldlega meðhöndlaðir áður en þeir fá atvinnuleyfið!

Það þarf enga pólitík til að átta sig á því að heilsugæslan er einfaldlega að fylgja eftir sóttvarnarlögum til að fyrirbyggja útbreiðslu ýmissa sjúkdóma.  Sumum sjúkdómum hefur okkur tekist að útrýma hér á landi, t.d. gin- og klaufaveiki, holdsveiki, barnaveiki og mænusótt,  með góðri eftirfylgni sóttvarnarlaganna og samstilltu átaki sem heilbrigðisráðuneytið ber ábyrgð á.  Okkur hefur tekist að halda niðri nýgengi berkla í áraraðir og er árangurinn talinn það góður að það sé of kosnaðarsamt að viðhalda því berklaeftirliti sem áður tíðkaðist, t.a.m. í skólum, þar sem það svarar ekki kosnaði. Telja forsvarsmenn sóttvarna nægilegt að fylgjast með öllum útlendinum sem hingað vilja flytja.  Ótrúleg glæframennska þar, að mínu mati, í ljósi þess hversu fjölda nýbúa hefur aukist hér á landi, en það er svo önnur saga.

En hvað kemur það “rasisma” og fordómum almennt við að vilja tryggja eftirfylgni við sóttvarnalögin? Ég botna ekkert í ráðherranum.  Ég spyr því einfaldlega; hvar hefur Sif Friðleifsdóttir verið, sjálfur heilbrigðisráðherran? Hún virðist ekki vera meðvituð um sóttvarnarlögin. Er það vilji hennar að gera Ísland af einhverju “góssenlandi” fyrir smitsjúkdóma??  Það yrði heldur betur gúrkutíð fyrir heilbrigðisþjónustuna og myndi skapa ótal ný störf í heilbriðgisgeiranum?  Skyldi ráðherrann og Sæunn Stefánsdóttir sjá fyrir sér einkavæðingu í þeim efnum til að standa straum af öllum þeim kostnaði sem af gúrkutíðinni hlytist?  Svo ekki sé minnst á öll þau afleiddu störf sem skapast.  Ætti að einkavæða þau einnig?

Það hefur verið ansi erfitt að verja stefnu og aðgerðir flokkssystkina minna síðustu mánuði og ár.  Er af nógu að taka í þeim efnum; Írakstríðið, fjölmiðlalögin, innanflokksdeilur og einelti og nú síðast Byrgismálið og Breiðavíkurmálið.  Nú er einfaldlega svo komið að ég get ekki varið aðferðir og aðgerðir né áróður þeirra í kosningabaráttunni.  Hvorutveggja einkennist af þvílíku fáfræði og vankunnáttu um málefni innflytjenda í skilningi heilbrigðislöggjafarinnar og sóttvarnarlaganna, að það einfaldlega ekki hægt að réttlætta framferði þeirra í dag.

Framsóknarflokkurinn rær nú sinn lífróður.   Fylgishrunið er sögulegt, ímynd flokksins hrunin, traustið farið, flokksmenn og aðrir kjósendur hafa róið á önnur mið.   Því liggur mikið við að endurheimta, þó ekki væri nema hluta, af fyrra fylgi.  Núverandi formanni hefur ekki tekist sem skyldi að sætta innri deilur og átök flokksins, þrátt fyrir hátíðleg loforð á síðasta flokksþingi.  Það var svo sem ekki við því að búast, handvalinn eftirmaður Halldórs sem viðheldur stefnu fráfarandi formanns eins og þægur rakki.  Hann er hvorki sterkur leiðtogi né nógu “karaismatíksur” til að fá fólk í lið með sér. Honum hefur hvorki tekist að skapa sterka framtíðarsýn né trúverðugleika flokksins og á það bæði við um innanhús og utan hans. 

Mig skal því ekki að undra þó einhver örvænting og “panik” sé gripinn um sig í Framsóknarflokknum.  Innanbúðarmenn gera sér fyllilega grein fyrir því sem koma skal í kosningunum í vor enda ekki hægt annað að koma auga á “björgunaraðgerðir” síðustu daga.  Gagnrýni á aðra flokka sem byggir á fádæma fáfræði, er ekki til þess að auka hróður þingmanna og ráðherra flokksins.  Það er jafnframt athyglisvert að fylgjast með því hvernig mönnum eru tryggð ákveðin störf og stjórnarsetur til næstu 4-5 ára. T.a.m. er búið að veita Herdísi Sæmundardóttur stjórnarformennsku í Jöfnunarsjóði sem er ærið starf og Háskólaráði Hólaskóla auk ýmissa annarra bitlinga þannig að menn reikna greinilega ekki með því að hún sé á leið inn á þing eftir kosningarnar í vor.  Það verður spennandi að fylgjast með fleiri tilnefningum á næstu vikum.  Hjálmar hlýtur að fá einhverja sendiherrastöðu, Sæunni verður trúlega tryggð störf á næsta kjörtímabili en hvað menn ætla formanninum, get ég ekki ímyndað mér. 

Eins og ég sagði, þá hefur oft verið erfitt að verja Framsóknarflokkinn.  Ég hef þó alltaf sýnt honum tryggð og borið þá von í brjósti, líkt og margir flokksmenn, að forystan færi að sýna stefnu og gildum flokksins tilheyrilega virðingu og hysja upp um sig buxurnar.  Mér sýnist sú von úr takti við raunveruleikann.  Í dag skammaðist ég mín fyrir flokkinn minn, ég hreinlega seig niður ú stólnum þegar ég hlustaði á heilbrigðisráðherran og Sæunni Stefánsdóttur.  Það jákvæða við þessa hneisu er óneitanlega það að ég fékk þvílíkan kraft og orku að flensan sem hefur verið að hrjá mig að undanförnu, vék bókstaflega.  Hingað og ekki lengra, nú er mælirinn fullur! Það er óþefur af þessari kosningabaráttu sem ég varð vitni af í dag.  Oj bara :(     Að slíkar umræður og skítkast skuli vera heimilaðar inni á hinu háa Alþingi, það skil ég ekki!

Nú er frost á Fróni

6. febrúar 2007

Það hefur heldur betur kólnað aftur síðustu dagana eftir rysjótta tíð sem minnir á haustið. Ég hef svo sem ekkert á móti því að það sé snjór og frost úti á meðan veður eru stillt.  Það er, jú, vetur og þannig ætti veðrið einmitt að vera.

Heimþrá hefur verið að plaga mig undanfarnar vikur og mánuði en m.a. vegna veikindanna og aðgengis míns að læknisþjónustu í heimabyggð, hefur verið ráðlagðara að dvelja í borg skarkalans, mér til mikillar armæðu.  Ég hef ekki dregið dul á því að ég kýs fremur sveitina.

Ég fékk hins vegar athyglisverðar frétti í gær sem vöktu mig til umhugsunar og rifjuðu upp fremur óþægilega minningar.  Eins og allir vita, eykst heitavatns- og/eða rafmagnsnotkun þegar kólnar hjá úti og minnkar að sama skapi þegar hlýnar.  Flest sveitarfélög búa það vel, að nóg er af hvorutveggja og hægt að mæta þörfinni hverju sinni. Þessi mál hafa, hins vegar, verið ákveðið vandamál vestur í Dölum en eins og menn muna, stóð sveitarstjórn, á sínum tíma, að því að bora eftir heitu vatni í Reykjadal og  lagði hitaveitu sem þjónaði þéttbýli og að hluta dreifbýli.  Framkvæmdin var sveitarfélaginu og íbúum sem greiddu feikiháan stofnkostnað,  kostnaðarsöm og margt fór úrskeiðis, Dalamönnum til sælla minninga.  Sveitarfélagið annaðist framkvæmdir og rekstur veitunnar með ærnum tilkostnaði og skuldasöfnun sem var að sliga það fjárhagslega.  Reksturinn var erfiður og ljóst að hitaveitan annaði ekki fyllilega eftirspurn, sérstaklega í miklum frostum auk þess menn tæmdu holuna vegna vankunnáttu. Eitt af stefnumálum mínum og L-lista, sálugum, var að selja veituna og koma rekstrinum í hendur fagmanna enda taldi ég mig þekkja nokkuð til hitaveitna vegna starfa föður míns við Hitaveitu Reykjavíkur.  Auk þess var það nú “common sense” að losa sveitarfélagið undan þessum þunga rekstri, ekki síst í ljósi þess að trúlega þyrfti að fara bora aftur fyrir heitu vatni eða finna önnur úrræði, fyrr en síðar.  Þegar kom að því að meirihluti sveitarstjórnar tók þá ákvörðun að selja hitaveituna til Orkubús Vestfjarða, eftir viðræður við ýmsar veitustofnanir, ætlaði allt um koll að keyra í meðal “gömlu valdaklíkunnar” samfélaginu. Veituna mátti ekki selja!  Hræðsluáróðri var beitt og eins konar múgæsing greip um sig í samfélaginu.  Gengu menn svo langt að samstarfsmenn mínir á vinnustað ruku á mig á vinnutíma með hótunum og svívirðingum.  Ráðist var að mér í búðinni þar sem menn heltu sig yfir mig með óbótum og skömmum og verð ég að segja eins og er að ég var dauðhrædd að fara um þorpið ein.  Stuttu síðar sat ég uppi með feiknar glóðarauga eftir kosningavöku 2003, mér til sælla minningar.  Fór þó svo að hitaveitan var seld enda kom í ljós að allir kjörnir fulltrúar sveitarstjórnar voru búnir að átta sig á því að salan var lífsspursmál fyrir sveitarfélagið.  Hins vegar var minnihlutinn ekki á því að selja neinum veituna öðrum en RARIK, ekki síst vegna eigin hagsmuna og náðist síðar samkomulag um þá sölu.  RARIK tók við rekstri hitaveitunnar og neytendum tók að fjölga. Fyrirtækið skuldbatt sig m.a að sjá íbúum sveitarfélagsins fyrir nægri orku og allir sáttir.

Hvað er svo að gerast?  Jú, í kuldaköflum annar veitan ekki því hlutverki að kynda hús viðskiptavina sinna. Síðastliðinn vetur fór heitt vatn inn í húsið hjá mér í Búðardal niður í 26 gráður.  Úff, þá var kalt!  RARIK hafði greinilega ekki farið út í neinar framkvæmdir til að tryggja notendum viðunandi hita en heitt vatn inn í húsin ætti aldrei að vera undir 60 gráðum.  Til stóð að veitan myndi “bæta upp” þann hita sem á vantaði, með rafmagni ef því var að skipta enda skuldbundnir til að sinna þessari þjónustu.  Mér sýnist lítið hafa verið um framkvæmdir og áfram sé kalt í Búðardal og dreifbýli.  Nú er svo komið að KS þarf að leggja niður starfsemi sína í slátuhúsinu í einhverja daga þar sem heita vatnið er BÚIÐ!  Að heyra á eindæmi!  Ég á hreinlega ekki til orð!  Ég get rétt ímyndað mér að það sé víða kalt þessa dagana. 

Hvað varð um öll fyrirheit RARIK manna og eftirfylgni við samning þann sem var undirritaður af sveitarstjórn?? Samningurinn skulbindur fyrirtækið til að tryggja íbúum og öðrum notendum nægan hita.  Hvar er nýkjörin sveitarstjórn nú?  Ég geri mér fulla grein fyrir því að hana skipa óreyndir einstaklingar en ég ætla rétt að vona að þeir hafi brett upp ermarnar til að tryggja íbúum og fyrirtækjum þá grundvallarþjónustu sem RARIK hefur skuldbundið sig til að veita.  Hvernig má það vera að fyrirtæki í rekstri lætur það yfir sig ganga að þurfa að leggja niður starfsemina vegna skorts á heitu vatni?  Einkennileg rekstrarstjórnun þar.  Hvað þá með stærri fyrirtæki eins og Mjólkusamsöluna?  Er hægt að leggja niður starfsemi fyrirtækisins í einhverja daga af sömu ástæðu?  Það eru ekki litlir hagsmunir þar í húfi.  Ég get ekki ímyndað mér það.

Hvernig bregðumst við Dalamenn við nú?? Þvílíkur léttir að vita til þess að sveitarfélagið þarf ekki að leggja út þann kostnað sem framundan er til að tryggja viðunandi kyndingu heimamanna. Ég er enn sannfærðari en áður um að það hafi verið hárrétt ákvörðun að selja hitaveituna. Við gætum aldrei staðið undir þeim framkvæmdum sem fram undan eru.

Íbúaþróun í Dalabyggð

4. febrúar 2007

Ég hef verið að velta fyrir mér þeirr neikvæðu þróun sem orðið hefur í minni heimbyggð; Dalabyggð á síðustu árum.  Sem sveitarstjórnarmaður hafði ég miklar áhyggjur af þessari þróun sem og máttlausri byggðastefnu stjórnvalda.  Framsóknarflokkurinn hefur mótað byggðstefnu í gegnum tíðina en svo virðist sem eftirfygni hennar sé af skornum skammti ef litið er á staðreyndir, ekki síst í ljósi þess að ráðherra byggðamála kemur úr þeim flokki. Hvað sem því líður þá gerði ég það að tillögu minni að Dalamenn horfðu til nágranna sinna fyrir sunnan Bröttubrekku þegar kæmi að sameiningaviðræðum enda eðlilegt að horfa til sterkara svæðis, atvinnulega séð og m.t.t samgangna.  Auðvitað var sú tillaga kolfelld og Dalabyggð sameinuð Surbæjarhreppi á síðasta ári.

Þegar ég skoða tölur frá Hagstofu Íslands, kemur í ljós að fólksfækkun heldur enn áfram á svæðinu.  Fækkunin nemur 11% ef litið er til síðustu 10 ára, en 13.8% ef litið er á fólksfækkun frá árinu 2000. Á síðasta ári nam hún 4.62% og miðast allar tölur við Dalabyggð og Saurbæjarhrepp samanlagt.  Maður veltur fyrir sér; hvað er að gerast?  Hvað veldur þessari hröðu fólksfækkun? Ástandið er orðið það slæmt flytja þarf inn erlent vinnuafl til að manna stöður við Mjólkursamsöluna, Fellsenda og Silfurtún svo fátt eitt sé nefnt.  Ekki það að ég hafi neitt á móti erlendu vinnuafli, þvert á móti en það stingur mann óneitanlega að þannig sé ástandið og ekki sé hægt að halda úti almennilegri starfsemi við Sláturhúsið í Búðardal vegna skorts á vinnuafli.  Það eru ekki ýkja mörg ár síðan færri komust að en vildu á þessum vinnustöðum.  Alkunna var að menn voru “valdir” inn á stærsta vinnustaðinn; Mjólkursamsöluna, þannig að þeir sem ekki voru forstjóranum þóknanlegir, fengu ekki vinnu. Nú er öldin önnur, nú fást heimamenn ekki í störfin.

Ástæður þessarar þróunar eru ekki einfaldar né einhlítar en það sem spilar mikið inn í ákvörðun Dalamanna um brottflutning eru þættir eins og einhæft atvinnulíf, gríðalega lág laun og erfitt aðgengi að framhaldsskóla svo fátt eitt sé nefnt.  Atvinnulífið hefur og breyst.  Árið 1985 var hlutfall þeirra íbúa sem voru starfandi í landbúnaði tæplega 50% en komið niður í ríflega 20% árið 2005.  Fleiri starfa nú í iðnaði og þjónustu og skyldi maður ætla að launakjör myndu batna við þær breytingar.  En það er öðru nær; fyrir 6 árum námu meðaltekjur íbúa Dalabyggðar og Saurbæjarhrepps einungis 996 þús. kr. sem eru með þeim lægstu sem þekktustt á Vesturlandi. Þarna erum við að horfa á 83. þús. kr. á mánuði!!!   Höfðu þær þá lækkað úr 1390 þús. kr, frá árinu 1995 eða sem nemur rúmum 115. þús. kr. á mán!  Ég finn ekki nýrri tölur til samanburðar en þykist þess fullviss að meðallaunin hafa ekki hækkað hlutfallslega né í takt við aðra landshluta.  Sveitarfélagið er öll síðustu árin talsvert undir meðaltali miðað við landið allt og landið fyrir utan höfuðborgarsvæðið. Þetta eru sláandi tölur og kalla á skoðun. 

Búsetuskilyrðin í sveitarfélaginu standast etv. ekki kröfur nútímans þegar horft er á þætti eins og samgöngur og fjarskipti.  Árið 2004 voru um 20% af vegakerfinu á svæðinu með bundnu slitlagi en um 80% af heildarvegakerfi fjórðungsins malarvegir! Hlutfallslega lítið hefur bæst við slitlagskaflana þrátt fyrir vaxandi umferð um svæðið með tilkomu Bröttubrekku.  Internet tengingar í dreifbýli eru lélegar, sums staðar ekki fyrir hendi og GSM símasamband af skornum skammti utan þéttbýliskjarna.  Sættir ungt fólk sig við þessi skilyrði???

Ég hef reynt að fylgjast með störfum nýkjörinnar sveitarstjórnar frá því hún tók við sl. vor og beðið spennt eftir þeim breytingum sem framboðslistar boðuðu fyrir kosningar. Kjörnir fulltrúar eru hið mætasta fólk, ungt og vel menntað sem lagði mikla áherslu á gegnsæja stjórnsýslu og gott upplýsingastreymi til íbúa.  Eitthvað virðast þau loforð standa í mönnum þar sem upplýsingastreymið er ansi takmarkað.  Bæði er það, að þær fundargerðir sem eru aðgengilegar á netinu, eru ansi hreint snubbóttar og innihalda litlar upplýsingar um málefnin hverju sinni. Og svo er það hitt, að þær berast seint og illa á vef sveitarfélagsins.  Fundum í byggðaráði virðast hafa snarfækkað það sem af er kjörtímabilinu og fjöldi þeirra virðist undir þeim mörkum sem kveður á um í Samþykktum um stjórn og fundarsköp Dalabyggðar.  Hvergi er að finna ályktanir, samþykktir eða bókanir um tillögur til úrbóta vegna hinnar öru fólksfækkunar, erfiðleika við að manna störf í sveitarfélaginu o.s.frv.  Liggja þó fyrir drög að Aðalskipulagi sveitarfélagsins sem m.a. inniheldur ákveðna sefnumörkun í þessum efnum.  Ég er kannski ein um þessar áhyggjur allar saman?

Mér er sagt að fundir sveitarstjórnar séu með allt öðrum hætti en áður tíðkaðist hjá fráfarandi sveitarstjórn.  Andrúmsloftið sé afslappaðra, öll dýrin í skóginum vinir og enginn málefnaágreiningur. Þetta eru vissulega frábærar fréttir og mikil breyting á því ástandi sem áður var sem einkenndist af valdabaráttu og Sturlungavígi þar sem menn voru klofnir í herðar niður.  Sem betur fer er sá tími liðinn og gamlir valdamenn verið fluttir til.  Ég skyldi hins vegar aldrei af hverju framboðslistarnir voru þrír sl. vor.  Flestir frambjóðendurnir voru meira og minna undir einni sæng þá og enn nánari nú.  Það voru kannski helst Vinstri Grænir sem virtust hafa einhverjar sérstöðu en ég er svo sem ekki viss lengur.  Vonandi förum við að sjá afraksturinn af þessari nánu samvinnu.  Af nógu er að taka þegar kemur að verkefnum sveitarfélagsins.  Þætti mér ekki verra að sjá breyttar áherslu í þjónustunni og heilbrigðismálum þannig að sjúkir og þeir sem minna mega sín, geti dvalið lengur heima hjá sér í stað þess að dvelja langdvölum að heiman.  Við bíðum og sjáum til, þetta fer kannski allt að koma, gefum nýju fólki tækifæri til að læra og öðlast reynslu :)

Heilsan

2. febrúar 2007

Heilsan hefur verið bágborin síðan 24. jan.  Stöðug ógleði og slappleiki til staðar allan sólahringinn.  Það jákvæða er þó að ég get sofið út í það endalausa og hefur svefninn verið að meðaltali um 14-16 klst. á sólahring síðustu dagana.  Þokkalegur “fegrunarsvefn” það :)   Ég veit ekki,satt best að segja, hvort þetta ferli er eðlilegt en það kemur mér á óvart. 

Kata skvís hefur verið með “flensu” alla vikuna sem er að ná hámarki í dag.  Við erum orðnar býsna leiðar á hvor annarri í sitthvorum endanum á sófanum. Mín megin er komin djúp hola í sófann, óafturkræf!
Sæludagarnir hafa haldið áfram hér heima eftir að Haffi kom, við Kata fáum að taka það náðugt á meðan prinsinn stjanar við okkur mæðgur. Ég er komin á 9. dag eftir 2. skammt og hárið að mestu leyti á sínum stað.  Það fellur hægt og bítandi, eitt og eitt.

Ég hef verið ósköp löt að hringja í fólk, hef einhvern veginn ekki úthaldið í það þessa dagana.  Hef því heyrt í fáum.  Harkaði af mér og fór út í búð í dag, í fyrsta sinn þessa vikuna…..  Hafði auðvitað gott af því og hresstist helling en fj….. tók það á!

Á morgun eru það svo smáskrefin, kannski ég hringi niður á göngudeild og athugi hvort hægt sé að hressa mann við.  Ég hefði ekkert á móti því.  Vestur hef ég ekki komist síðan í haust og heimsóknir til vina og vandamanna eru skammarlega fáar.  Eiginlega engar.  Úr því verð ég að bæta! Þangað til vona ég að vinir og vandamenn sýni mér þolinmæði.  Ég er alltaf að reyna að bæta mig og læra af reynslunni.  Einhver sagði við mig að ég væri “late bloomer”.  Það eru orð að sönnu.