Hlutverk aðstandenda

31. janúar 2007

Í veikindum reynir oftar en ekki á nánustu aðstandendur en þeir vilja oft “gleymast” þegar mikið gengur á.  Þó eru gjarnan gerðar þær kröfur til þeirra að “þeir standi sig” og bogni ekki, sama hvað bjátar á.  Ég hef margoft rekið mig á þessa staðreynd í starfi mínu þar sem aðstandendum er eiginlega settur ákveðinn hlutverkarammi sem þeim ber að fylgja og halda sig innan við.  Óskráðar reglur, mætti segja um hegðun, tilfinningar og viðbrögð. Á þetta ekki síst við um aðstandendur geðsjúkra þar sem “ramminn” virðist stífari en í öðrum veikindum og dómharkan meiri.

Geðsjúkdómar birtast í mörgum myndum, á mismunandi tímum en eiga það flestir sameiginlegt að hafa víðtkæk áhrif á líf oog lífsgæði þess sjúka sem og aðstandenda.  Þeir hafa tilhneigingu að hafa hamlandi áhrif á getu og dómgreind einstaklinga, þó þeir sjái það etv. ekki sjálfir.  Það að vera aðstandandi einstaklings sem á við geðræn vandamál að stríða, er erfitt hlutskipti á allan hátt.  Hann þarf að “taka þátt” í öllum sveiflum; hæðum og lægðum, oflætinu, framkvæmdargleðinni, dómgreindarskortinum, þunglyndinu og sjálfsvígshótunum á meðan “köstunum” stendur.  Tryggur, trúr og þolinmóður þarf aðstandandinn að bíða þar til ástandið lagast og vera tilbúin að fyrirgefa og gleyma því sem undan er gengið hverju sinni.  Oft er honum stillt upp við vegg; annað hvort…….   eða…….! Enda hefur hinn sjúki oft ekkert sjúkdómsinnsæi, ” það er ekkert að mér”, “af hverju eru allir svona við mig”, “hvað hef ég gert” og svo lengi mætti halda áfram. Á meðan sjúkdómsinnsæið er ekkert, sér hann enga ástæðu til að breyta einhverju nema þá helst öðrum. 

Auðvitað á þetta ekki alltaf við en of oft, að mínu mati. Aðstandandinn getur ekki leyft sér að hundsa hótanirnar hverju sinni né einkennin; hann verður að bregðast við áður en illa fer; kalla út lögreglu og björgunarsveitina, senda nágrannana heim að leita, láta rekja símann og svo lengi mætti telja.  Á sama tíma eiga tilfinningar aðstandenda að standast köstin, áföllin, misgjörðirnar, hótanirnar, stóryrðin, höggin, vanþrifin og lyktina.  Oftar en ekki eru það aðstandendur sem þurfa að leiðrétta mistökin eftir dómgreindarleysið, fyrirgefa og láta eins og ekkert hafi í skorist.  “Hann er, jú, bara veikur” er gjarnan viðkvæðið.

Það þarf sterk bein til að komast heill í gegnum slíkt hlutverk.  Oftar en ekki verða aðstandendur meðvirkir og ýta ómeðvitað undir veikindin.  Það er of erfitt að sporna gegn þeim, reyna að halda einstaklingnum í raunveruleikatengslum og stöðugt byrja upp á nýtt.  Það er hreinlega þægilegra að láta köstin ganga yfir, dofna upp, og leiða þau hjá sér.  Auk þess mæta aðstanendur ekki alltaf nauðsynlegum skilningi, fagmanna sem annarra.  Því er stundum betra að þegja en að bera upp vandamálin. Það fellur enginn dómur á meðan.

Sumir einstaklingar sem eiga við geðræna sjúkdóma að stríða, gera sér vel grein fyrir því og “spila inn á það”.  “Það er eðlilegt að láta svona ef ég  verð kvíðinn, ég segi alltaf svona þegar ég panika, ég ætlaði bara að hræða þig með rifflinum en ekki nota hann, ég faldi mig í kjallaranum svo þú færir að leita að mér……. en ég meinti ekkert með því”! Slík samskipti fara yfirleitt fram á milli tveggja eða inna fjölskyldunnar.  Aðrir verða ekki varir við slíka hegðun enda getur einstaklingurinn sem og aðstandendur verið ansi leikin við að fela vandamálin og staðreyndir.  En hver trúir aðstandandanum??

Umræðuna um hlutskipti og hlutverk aðstandenda geðsjúkra þarf að opna.  Hún þarf að vera sveigjanlegri og mannúðlegri.  Sú dómharka sem virðist ríkja á okkar tímum er ótrúleg.  Aðstandendur eiga ekki að þurfa að standa einir og berjast fyrir tilveru sinni.  Þeir þurfa meira umburðarlyndi og það sem meira er, þeir þurfa að getað leitað eftir styrk og aðstoð fagmanna í heilbrigðiskerfinu. Slíkt er af skornum skammti í dag; heilbrigðiskerfið er fyrir hinn sjúka, hann á allan rétt.  Aðstandandinn er réttlítill og vanmáttugur.

Þessar hugleiðingar eiga, auðvitað, ekki við um all sem eiga við geðræn vandamál að stríða.  Sem betur fer eru það fleiri en færri sem leita sér hjálpar og takast á við veikindin sín.  En þeir eru til sem gera það ekki og eru meðvitaðir um það.  Úrræðin eru fá, hlutverkaskipan aðstandanda skýr og ósveigjanleg og um það snúast þessar hugleiðingar.

Minningabrot

31. janúar 2007

Einkennilegt hvað minningarnar streyma síðustu vikurnar.  Það að sjá færslu í kvöld frá einni af mínum elstu og bestu vinkonu hrundi af stað þvílíku minningaflóði.  Rosalega er langt síðan að við vorum stelpuskottur á Vífilsstöðum, heil 40 ár eða þar um bil.  Ótrúlegt hvað tíminn hefur flogið og hvað margt hefur á daga okkar drifið síðan þá.  Þær voru ófáar stundirnar úti í hrauni þar sem við Hrefna létum okkur dreyma stóru draumana.  Sumir þeirra hafa reyndar ræst, aðrir ekki eins og gengur og gerist.  Ég fór auðvitað ekki troðnar slóðir, þurfti að hafa hlutina öðruvísi en aðrir og uppskar náttúrlega eftir því.  En minningarnar eru óteljandi, sumar súrar, aðrar sætari.  Æskan kemur fram í huga mér eins og í kvikmynd.  Allt er ljóslifandi og öll smáatriðin til staðar. Ótrúlegt, ég get ekki sofið, það er svo mikið að gera.

Það er svolítið sérstakt að fylgjast með því hvernig veikindin breyta þankaganginum.  Tregablandnar hugsanir aðra stundina, bjartsýni og kraftur hina.  Maður fer ósjalfrátt yfir farinn veg og hugsar hvað hefði mátt fara öðruvísi.  Auðvitað þýðir ekkert að velta sér upp úr orðnum hlutum en samt….  sumu hefði ég vilja breyta og gera á annan hátt. Á hinn bóginn er ég stolt af mörgu sem ég hef áorkað og ég er stolt af þeim þroska sem ég hef náð. Stoltust er ég af börnunum mínum tveim sem eru ótrúlega sterkir persónuleikar.  En ég á margt eftir og það er það sem skiptir máli nú.  Og það sem meira er, ég get breytt ýmsu.

Ég er ekki með neitt ábyrgðarskírteini upp á bata en ég á nægan baráttukraft og vilja til að halda áfram.  Ég verð hins vegar að leggja mig betur fram við að sætta mig við sveiflurnar og getuleysið.  Svona er ástandið og svona verður það fram á vorið.  Það er nóg að gera framundan:)

Pólitíkin og fleira

30. janúar 2007

Miklar hræringar eru í stjórnmálum þessa dagana og vikurnar.  Allt virðist loga í illdeilum og klofiningi. Samfylkingafólk skýtur á og gagnrýnir hvort annað, framsóknarmenn klofnir í Suðurkjördæmi sem og annars staðar og frjálslyndir klofnir í herðar niður.  Ég veit ekki alveg hvað mér á að finnast með bekkjasystur mína, hana Möggu Sverris en tel hana hafa gert rétt með því að segja skilið við forystuna, miðað við ríkjandi aðstæður.  Ég er ekki bjartsýn á að hún, ein og sér, nái nægu fylgi fyrir komandi kosningar til að fara inn á þing enda tíminn naumur.  Auk þess bendir margt til þess að ný framboð muni koma fram á næstunni, ef marka má Jón Baldvin og Ómar. 

Eins og staðan er nú hefur Samfylkingin hrunið, Vinstri Grænir lafa ennþá inni á umhverfisstefnu sinni en eru algjörlega blankir og stefnulausir í öðrum málaflokkum.  Frjálslyndir hafa misst flugið en Sjálfstæðisflokkurinn á blússandi ferð upp á við.  Framsóknarflokkurinn er að þurrkast út.  Hvaða valkosti hafa þá menn fyrir utan íhaldið?  Fara aldraðir og öryrkjar í framboð og hversu vænlegt er það til árangurs? 

Þegar stórt er spurt, er fátt um svör og verð ég, líkt og aðrir að láta mér nægja að spá í spilin og bíða. Upp á síðkastið hef ég beðið spennt eftir öllum fréttatímum enda alltaf einhverjar nýjar fréttir af pólitíkinni og ógjörningur að ráða í leikflétturnar. 

Af mér er annars fátt að frétta, maður verður að taka hlutunum eins og þeir eru.  Mikill svefn og leti, lítil matarlyst og engin framkvæmdargeta.  Lyfin eru að svínvirka, það er augljóst og ber að fagna því.  Trúlega verður á brattan  að sækja þegar fram líða stundir og kemur sér vel að eiga skilningsríka að og himneskt rúm :) Ég held hins vegar að ég sé hreinlega orðin leið á því að hangsa heima síðan í október og vil fara gera eitthvað almennilegt!

Síðustu dagar hafa verið frábærir með Haffa heima og komnar ljósaperur í öll perustæðin á ný!  Framkvæmdagleði hans er með eindæmum:) Katarína hefur hins vegar verið með pest, vonandi ekki flensuna þó, þannig að við höfum verið ámóta hressar.  Hún er vonandi að koma til.  Krakkarnir fóru á kostum í kvöld, hér var margmenni til að horfa á leik Íslendinga og Dana og mikið fjör.  Svei mér, ef stemningin minnti mig ekki á Stekkjarflötina hér í “den”, þakið ætlaði af húsinu um tíma. Ferlegt að tapa leiknum en frábært kvöld.

Allt að koma

29. janúar 2007

Eitthvað er ástandið að lagast, heldur minni ógleði og vanlíðan.  Lady Josephine býður tilbúin eftir sínu hlutverki.  Þarf líklega að finna einhverja hárgreiðslustofu sem minnkar heysátuna á hausnum á mér þannig að óþægindin verði minni.  Ég þyrfti nú eiginlega að taka mynd af vinkonunni., svona áður en hún tekur formlega við :)   Auðvitað leggst þetta ekkert vel í mig, ég viðurkenni það fúslega en hárið kemur aftur!

Annars er ég satt best að segja steinhissa á þeim sveiflum sem ég upplifi þessa dagana.  Annan daginn er ég spræk andlega, hinn daginn meyr og í lægstu lægðum.  Líkamlega er ég algjör drusla og ólík sjálfri mér.  Í dag var ég hreinlega pirruð yfir því að geta ekki farið út með ruslið með góðu móti.  Uppsafnaðir 5 pokar!! En út fóru þeir með illu og mér leið, að sjálfsögðu, miklu betur. 

Ég finn hvað ég á erfitt með að biðja aðra um hluti sem ég ræð illa við.  Ég veit að fólk er boðið og búið að hjálpa til, ég hreinlega á eitthvað erfitt með þetta.  Kannski af því maður hefur þurft að vera sér sjálfum sér nógur svo lengi;  búsettur úti á hjara verlaldar í áratugi, fjarri stórfjölskyldunni og vinum.  Einhvern veginn virðist ég ætla að loka mig ómeðvitað af, um það fékk ég þarfa ábendingu í dag.  Ég varð eiginlega hvumsa í fyrstu og hafði ekkert velt þessum möguleika fyrir mér en eftir því sem ég hugsa málin betur þá tel ég þessa ábendingu rétta.  Skýringuna má eflaust að hluta til finna í þeirri staðreynd að við; þessi litla fjölskylda höfum verið einangruð í mörg ár vegna búsetu o.fl. Við “kunnum ekki” að leita út fyrir eftir stuðningi og hjálp, höfum ekki vanist því.  Þegar ég velti þessum fleti fyrir mér kemst ég að þeirri niðurstöðu að ég hef verið leiðinleg við mína nánustu fjölskyldu og það alveg óvart. Veikindi mín eru ekki einkamál okkar litlu fjölskyldu, þau varða alla “fameliuna”, vini og vandamenn. Svo einfalt er það þannig að ég mun taka mér tak og breyta áherslum.  Ég bið alla hlutaðeigandi afsökunar á þessari meinloku minni og vona að misskilningi hafi verið eytt.

Ég þykist vita það að ég er ekki sú eina sem lætur það fara í taugarnar á sér að geta ekki sinnt daglegum störfum og sínu hlutverki.  EIns og ég hef áður sagt, hefur mér fundist hvað erifiðast að sætta mig við að geta ekki stundað mína vinnu og hugsað um heimilið og áhugamálin.  Mér ferst það fremur illa úr hendi að vera í “sjúklingahlutverkinu” og sætti mig illa við það en auðvitað ætti ég einmitt að nýta mér þekkingu og menntun mína til að aðlagast því betur og nýta mér styrkleikana til að komast betur í gegnum þessa reynslu sem mér er ætluð.  Er slík aðlögun ekki einmitt merki um þroska og framþróun?

“Batnandi manni er best að lifa” verða einkunarorðin mín á næstunni og ekkert “mehe” með það  :)

Hárin falla…..

27. janúar 2007

Þá kom að því; hárin falla, á allt og alla…… Sem sé á 24. degi eftir að meðferðin hófst.  Býsna gott, þykir mér. Þá er bara að stóla á Jósefínu og öll fínu höfuðfötin.

Mér finnst nú sterarnir ekki vera nein kraftaverkalyf, svo ég væli nú. Dagurinn er alla vega langt undir væntingum, ætlaði að vera arfahress þegar Haffi kæmi heim, uppástríluð og í fínasta pússi.  Komst ekki einu sinni út á flugvöll, sit hér heima og bíð komu hans. Hann ætti að vera lentur núna :)

Ekki finnst mér löggælan vera til fyrirmyndar í höfuðborginni.  Mikið hefur verið um alls slags innbrot hér og þar, ekki síst í Breiðholtinu.  Auðvitað kom að okkur, eins og öðrum, brotist var inn í Honduna hennar Kötu í nótt.  Allt á tjá og tundri en engu stolið, að því er virðist við fyrstu sýn. Maður býr við stöðug partýhljóð hér um helgar, hróp og köll ungmenna í nágrenninu.  Ég var vör við þetta í nótt en orðin svo vön þessu um helgar að ég leit ekki einu sinni út um glugga, hafði nóg með að róa tíkurnar sem telja sig mestu varðhunda heims.  Þær höfðu greinilega tilefni til gelts í nótt, blessaðar. Hins vegar hef ég aldrei séð lögregluna fara um svæðið hér, eingöngu á Breiðholtsbrautinni á bláum ljósum ef árekstrar eða annað er á seiði.  Eftirlit virðist ekkert. 

Gríðalegur fjöldi nýbúa eru hér í Seljahverfinu, fólk sem lætur lítið yfir sér svona daglega,er reyndar nokkuð frekt á bílastæðin hér. Um helgarnar breytist þetta og sjá má að stór hluti þessa unga fólks sem er að skemmta sér og angra okkur hin, er af erlendu bergi brotið. Stundum hafa brotist út átök og fór svo um þarsíðustu helgi. Kata rauk út til að skakka leikinn þegar hún var búin að horfa upp á einn drenginn berja “kærstu” sína sem þorði þó ekki öðru en að fylgja honum hlýðin eftir. Skólaus, á sokkabuxununum og í hörkugaddi og snjó.  Sú ferð endaði reyndar með því að sjúkrabíll var kallaður til enda drengurinn búinn að berja allt sem á vegi hans varð, strætóskýlin ekki þar undanskilin.  Svona uppákomur og búsetuskilyrði er býsna erfið reynsla fyrir landsbyggðartúttur eins og okkur Kötu. Má ég þá biðja um sveitina og kyrrðina.

ÚFF!!!

26. janúar 2007

Þetta er ekki tekið út með sældinni  :( Skelfileg ógleði og vanlíðan þrátt fyrir heimsins bestu “velgjuvarnir”. Vonandi fer ástandið að skána með morgundeginum!

Netið hrundi hjá minni í gær; ég fann hvað ég er háð tækninni. Ég er búin að vera með fráhvarfseinkenni. Enginn tölvupóstur og ekkert flakk á síðum.  Tókst að koma netinu upp eftir að hafa fengið 2 “beina” eða hvað þetta heitir nú allt saman. Þetta var að smella saman rétt áðan.

Framundan eru bjartir tímar hjá minni; Hafsteinn leggur af stað í nótt, heim á leið, eftir strembin próf og erfiða lotu.  Auðvitað náði drengurinn:)  Í háskólanum í Debrechen eru öll próf munnleg, hver prófessor er “terroristi” í augum nemenda enda virðist námsgeta og ástundun lítt hafa með það að gera hvort þeir ná prófum eður ei.  Hvað ræður úrslitum er hins vegar hulin ráðgáta. Heppni?  Karakter??  Enginn veit.  Við þurfum að leggjast yfir þetta og koma með strategiu, ekki spurning.

Kata er búin að standa sig eins og hetja enda ekki við öðru að búast. Mikið skelfing held ég að þetta leggist þungt á hana; að horfa upp á krítarhvítan hörundslit og fötur út um allt. Matarlykt má ekki finnast í húsinu, þá fer allt af stað.  Ekki beinlínis það skemmtilegasta fyrir tæplega tvítuga skvísu sem hefði átt að vera á skólaballi í gærkveldi!

Jósefína er á sínum stað uppi í hillu, ekkert að gerast í “háramálum”, þau sitja öll föst á höfði mér ennþá.  Er á meðan er………

Hlakka til næstu 2 vikna, þræla Haffa auðvitað í þeim “karlmannsstörfum” sem hafa setið á hakanum síðustu vikur.  Við Kata erum samt nokkuð sjálfbjarga en sumt hefur ekki gengið….

Bíð spennt morgundeginum, klára síðasta lyfjaskammtinn í kvöld þannig að með sterunum ætti mér að vera allir vegir færir á morgun.  Áfram með smjörið.

Ein góð :)

24. janúar 2007

Get ekki stillt mig um að fá “lánaða” eina vísu sem finna má á vef Kristins H og er eftir Svein í Hvammi. Vona að ég móðgi hvorki hann né bróður.

“24. janúar 2007.

Að Hvammi í Dölum býr Sveinn Björnsson. Hann er prýðilega hagmæltur og hér kemur ein vísa eftir hann, þar sem hann dregur saman álit sitt á RÚV frumvarpinu margfræga, sem afgreitt var í gær á Alþingi”

“Öllu nauðgað engin grið
endast hér á Fróni
öllum skilst að útvarpið
íhaldinu þjóni”.

Svo mörg voru þau orð, get ég ekki annað en dáðst af hagyrðingn umog tekið undir orð hans, heilshugar!

2. lota

24. janúar 2007

Þá er 2. lota hafin í baráttunni.  Mætti um kl.09.00 í morgun og slapp út að ganga 17.00. Lúrði eins og prinsessan á bauninni megnið af deginum og fór bara vel um mig. Í þetta skiptið er ég vel byrg að alls kyns lyfjum og úrræðum gegn hvimleiðum aukaverkunum lyfjameðferðarinnar þannig að næstu dagar leggjast bara vel í mig. Auðvitað mætti Katarína á svæðið, klyfjuð af alls kyns “gúmmelaði” til að gleðja mig enda verðum við að nesta okkur á göngudeildina.

Allar blóðprufur komu vel út, allt á réttri leið og mín búin að þyngjast um 0.6 kg síðan síðast! Það verður að teljast gott miðað við ógleðina og ljóst að baráttan á milli krabbameinsfrumna og heilbrigðra um næringu, er minni. Þær heilbrigðu hafa haft betur í fyrstu lotunni!

Það sem vekur mesta undrun er sú staðreynd að ég hef ekki misst eitt einasta hár af höfði mér, en það mun fara, fullyrti Siggi Bö. Og það á næstu dögum :( Jósefína er stand by þannig að þetta er allt í góðum gír.

Spjallaði við Sigurð í rúmar 10 mín. LSH innheimti rúmar 6.400 kr. fyrir viðtalið! Góð tímavinna það og arðbært fyrirkomulag á vinnutíma sérfræðingana sem ekki njóta góðs af þeim gróða.  Þeir fá á einungis sín mánaðarlaun. Sértekjur LSH aukast hins vegar sem er vaxandi tekjulind spítalans eins og ég hef áður bent á.

Ég komst að því að hjúkrunarþjónusta telst ekki með þegar einstaklingar “safna upp” í aflsáttakort sín. Stórfurðulegt mál sem ég þarf að kynna mér betur!

Sem sé, allt gott að frétta af þessum vígstöðum. Ekki dregur úr “góðærinu” næstu daga þar sem frumburðurinn er á leið heim í stutt frí eftir skelfilega erfiða próflotu! Þá verður fjör á heimilinu! Verst er að komast ekki heim á Þorrablótið í Suðurdölum, þó er aldrei að vita ef heilsan verður betri í þessari lotu………..

Ég vil nota tækifærið og þakka gestum mínum sem hafa heimsótt síðuna mína. Kveðjurnar auka baráttuþrekið, á því er enginn vafi :) Þið eruð frábær :)

Eymd og volæði

23. janúar 2007

Ekki verður sagt að lyfjameðferðin sé tekin út með sældinni.  Þvílík ógleði, slappleiki og “beinverkir”! “. Það var svo sem búið að vara mig við en alltaf heldur maður að hlutirnir verði öðruvísi hjá manni sjálfum.

Ég er sem sé búin að vera algjör Þyrnirós í 3 vikur. Afköstin eru ekki til að hrópa húrra fyrir.  Meira að segja hefur síminn orðið út undan hjá mér þennan tíma og er þá mikið sagt.

Hins vegar ber að líta þessa líðan jákvæðum augum; jú, því ver sem mér líður, því betur eru lyfin að virka :) Um það snýst málið og nú er að bretta upp ermar og mæta í aðra umferð í fyrramálið. Mér skilst að hægt sé að fá töfralyf eins og stera til að draga úr ógleðinni og bæta líðanina. Ég mun að sjálfsögðu biðja Sigga Bö um vænan skammt af því.

Ekki er enn eitt einasta hár farið af höfði mér þannig að Jósefína býður uppi í hillu.  Ég skyldi þó ekki sleppa……….??

Enn gengur sú saga fjöllunum hærra heima í DÖlum að ég sé komin með krabbamein í lifrina!  Úff, ljótt er, það ef satt væri.  Sem betur fer er þessi saga ekki á rökum reist og nota ég tækifærið hér til að leiðrétta þann misskilning.

Ef af líkum lætur, verð ég lítt viðræðuhæf næstu daga. Vona ég að vinir og vandamenn sýni mér skilning á meðan. Ég sef nefnilega af mér símhringingar en er með númerabirtir á GSM símanum þannig að ég hringi til baka um leið og ég get.

Sem sé, á morgun hefst önnur umferð og mín klár í slaginn :)

Það hefur heldur betur dregið til tíðinda hjá Fraamsóknarflokknum þessa helgina.  Og allt eru það fremur “góðar” fréttir :)

Kjördæmaþing var haldið að Reykjum í Hrútafirði sl. laugardag og var heldur fátt um manninn.  Þunnskipað var nefndum og hópurinn einsleitur; Skagfirðingar, Snæfellingar, “Hólmvíkingar”, Dalamenn og einhverjir frá Borgafirði og Akranesi mættir. Rétt til þátttöku áttu 283 fulltrúar af þeim 2.305 félagsmönnum sem skráðir eru víðs vegar í kjördæminu.  Einn félagsmaður Dalamanna taldi fulltrúa í salnum og reyndist fjöldinn vera um 70 manns.  Aðspurður sagði formaður kjördæmaráðs skráðan fjölda á þinginu vera um 100 manns.  Erfiðlega gekk hins vegar að telja upp í þann fjölda, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.  Þess ber að geta að ekki var gert grein fyrir mætingu né fjölda kjörbréfa á þinginu og gerði enginn framsóknarmaður athugasemdir um það!

Sem sé, um 25% mæting eða í besta falli 35%! Þessi fjöldi vann hin ýmsu nefndarstörf og ályktaði m.a. um stjórnmálastefnu sem lögð var fram og samþykkt af þessum fulltrúum.  Hef reyndar ekki séð afrakstur þingsins en fróðlegt verður að sjá í hverju hann felst. 

 Skyldi þingið og samþykktir þess vera lögmæt??

Framboðslisti Framsóknarflokksins í kjördæminu var jafnframt samþykktur. Listan leiðir auðvitað sjálfur félagsmálaráðherra, 2. sæti skipar Herdís, stjórnarformaður Byggðarstofnunar og það þriðja, Valdimar nokkur sem fáir kunna deili á.  Kristinn hafnaði þriðja sætinu sem og Inga ÓSk sem var kosin í það fimmta enda búin að fá langþráða stöðu innan ráðuneytanna.  Nöfn annarra frambjóðenda þekki ég ekki, að undanskildum Guðbrandi nokkrum frá Sólheimum og kom sú skipan mér verulega á óvart enda hefur hann verið mjög gagnrýninn á forystu flokksins síðustu árin og ort nokkrar vísur þ.a.l. En, svona er einmitt “framsóknrmennskan”.  Allt er breytingum háð og tryggast að vera í skjóli forystunnar ef menn ætla að komast eitthvað áfram. Eigin verðleikar mann duga auðvitað ekki til, þeir eru aukaatriði eins og sjá má á framboðslistanum.

Stórfrétt helgarinnar er, án efa, tilkynning þingflokksformannsins um að hætta í pólitíkinni eftir að hafa grúttapað í prófkjöri framsóknarmanna á Suðurlandi.  Afhroð Hjálmars kom mér ekkert á óvart, hann tók verulega áhættu með því að fara gegn Guðna en ég átti etv. ekki von á að sá síðarnefndi fengi svo afgerandi kosningu eins og raun ber vitni. Hinn almenni flokksmaður hefur orðið fyrir miklum vonbrigðum með varaformanninn sem virðist ekki hafa dug og þor til að snúa flokknum villu vegar heldur kýs hanga í rófunni á eftirmanni Halldórs.

Ég get ekki sagt að það verði sjónarsviptir af Hjálmari sem hefur verið eins konar “flokksmella” flokksins í erfiðum málum og hagræðir frjálslega  segli eftir vindi.  Hjálmar hefur verið leikinn í því að skipta um skoðanir eins og nærföt og benda á þá blóraböggla sem forystan kýs að tilnefna hverju sinni.  Auðvitað hefur forystan beitt og honum og notað og sannarlega hefur hún farið illa með aumingja manninn en hann getur auðvitað sjálfum sér kennt enda leiðitamur maður með eindæmum.   Hann viðurkennir hins vegar ósigur sinn enda á hann þar sem hann á enga möguleika á þingsæti sem 3. maður listans. Hans pólitíska ferli er lokið.

Framsóknarflokkurinn mælist nú með um 7-8 % fylgi og fengi 4 þingmenn kjörna.  Spái ég því að fylgið muni dala á næstu mánuðum frekar en hitt.  Fylgið mun væntanlega mælast ívíð hærra í einstaka kjördæmum, s.s. Suðurlandskjördæmi en örugglega lægra í Norðvesturkjördæmi þar sem ég spái um 3-5% fylgi og í besta falli 1 þingmann kjörinn ef lánið leikur við menn.

Eins og ég hef þegar sagt; Framsóknarflokkurinn er deyjandi afl í andaslitrunum og á sér ekki viðreisnar von fyrr en búið er að hreinsa til og skipta út mönnum.  Svo einfalt er það! Grasrótin má hins vegar fara að hysja upp um sig brækurnar, það er ekki nóg að kvarta, kveina og sýta heima í eldhúsinu eða í mjólkurhúsinu.  Menn verða að sýna kjark og áræðni á réttum stöðum. Hvorki kýrnar né sauðirnir eru til frásagnar um óánægju manna.