Ekki til stórræðana

19. júní 2007

Dagarnir ansi stuttir upp á síðkastið. Byrja kl. 06.00 og búin á því þegar ég kem heim kl.17.00. Sofna þá því miður oftast og ríf mig upp með herkjum síðla kvölds svona rétt til að bursta tennurnar og skipta um stellingar. Blómin orðin ansi döpur, a.m.k. sum hver og þvotturinn hleðst upp. Ég geri ekkert annað en að sinna vinnunni, punktur og basta!

Verð að sætta mig við þetta ástand til að byrja með á meðan þrekið er að koma og aðrir að sýna mér vonandi umburðarlyndi. Ég er óttalega viðutan þegar heim er komið.

Hef óskaplega gaman af því að vera komin í vinnu við mitt fag; hjúkrunina og reyndar svolítið hissa hve litlu ég hef gleymt síðan 2003! Átti von á því að þurfa lengri aðlögun og upprifjun til að ná upp töpuðum tíma en svei mér þá; ég hef engu gleymt á heilsugæslusviðinu.  Auðvitað er ég rígmontin af  því:) Viðurkenni það þó að mér líkar mun betur á smærri stöðvum en þeim stærri þó fínt sé að vera á þeim líka.  Kostirnir eru auðvitað til staðar; fleira fólk, meiri fagmennska og nýjungar og meiri samskipti.  Frábært í alla staði :)

En sem stendur er vinnudagurinn ærið verkefni fyrir mig, er þó ekki eins “lemstruð” eftir daginn og ég var fyrstu dagana. Treysti mér reyndar ekki í fulla vinnu í sumar, verð að láta hlutastarf duga svona í fystu lotu en það munar um allt. Fer á fullt skrið í ágúst þegar skólinn byrjar.

Katan á fullu á Bogganum að leysa læknaritara af, bókstaflega hent út í djúpu laugina þar án nokkurar aðlögunar sem heitir en ég veit að hún ræður vel við það og er fljót að koma til.

Það styttist heldur betur í stóra prófið hjá Haffanum sem verður á föstudag. Gott hljóð í honum í gærkvöldi og vonandi hefst þetta hjá honum í fyrstu lotu. Nú, ef ekki þá er ekkert annað að gera en að reyna aftur að viku liðinni. En það seinkar heimkomunni sem því nemur.  Þetta er þó allt að hafast og það er aðalatriðið :)

Búið að vera nóg af útskriftum í stórfjölskyldunni, yngsti bróðirin var að klára MBA námið þannig að nú verðum við systkinin að fá “brilliant” viðskiptahugmynd. Ég er reyndar búin að fá eina “lánaða” frá Veigu, vinkonu mömmu; að opna skemmtilegt elliheimili! Ögrandi verkefni þar.

Nú svo var það Aujan, systurdóttir mín, að klára embættispróf í ljósmóðurfræðinni með frábærum árangri og Binna, bróðurdóttir mín að ljúka stjórnmálafræðinni. Elsa lauk diploma prófi í Opinberri stjórnsýslu þannig að allir hafa haft nóg fyrir stafni síðustu dagana, á því er enginn vafi.

Reyni að öðru leyti að klóra í bakkann með þau verkefni sem bíða enn eftir farsælli lausn. Er háð öðrum með lausn á sumum þeirra og vona að allt fari að skila sér. Það myndi létta lífið og bæta líðanina mjög mikið. Ég mun ekki gefast upp þó á móti blási á stundum!  Það er ekki til neins og bætir fátt en það verður gott að geta sofnað áhyggjulaus eitthvert kvöldið:)

Rólegt

17. júní 2007

Ansi rólegt yfir öllu þessa dagana, er að venjast þeirri staðreynd að vera byrjuð að vinna.  Er eins og ég hafi orðið undir valtara en ég veit að þrekið kemur smátt og smátt. Nokkur viðbrigði að fara á fætur kl.06.00, ekki það að ég er ekki óvön því en þá til að lesa Moggann og leysa krossgátur þar til mig syfjar og ég legg mig aftur.

Andlega hef ég verulega gott af því að vera orðin “gildur þjóðfélagsþegn”, hver dagur hefur meiri tilgang nú. Hefði samt ekki unnið í sumafríinu nema af illri nauðsyn enda gríðalega margt sem þarf að gera, inni sem úti.  Ætlaði mér að vera fyrir vestan í sumar enda af nógu að taka þar en verð þess í stað að láta mér nægja styttri viðdvöl í senn. Kennslan hefst svo í krinum 20 ágúst og ætti ég að vera komin með gott úthald þegar að henni kemur. Ég hlakka ótrúlega til að byrja aftur :)

Ekki laust við að það sé þungt yfir mér þessa dagana, gengur illa að sætta mig við það þegar fólk kemur ekki fram af hreinlyndi. Virðist seint ætla að sjóast í þeim efnum; bláeyg sem fyrr. Tvöfeldni og það að menn séu ekki sjálfum sér samkvæmir er ekkert nýtt undir sólinni, við lifum við það alla daga. Það kennir manni hins vegar að vanda valið, treysta fáum og brynja sig betur. Mér lætur það best að skríða inn í mína skel þegar ég er sár og það er bara allt í lagi. Við tökum öll á málum með mismunandi hætti, skelin er mín leið. Menn skulu þó ekki halda að ég sé buguð, þvert á móti. Styrkist ef eitthvað er.

Ég tek mér þann tíma sem ég þarf til að vígbúast, lífið er ekki dans á rósum, svo einfalt er það. Sumir fá stærri skammta af mótlæti en aðrir og þá er bara að taka því. Ég mun hins vegar ekki nota bláar augnlinsur framvegis.

Einkennilegt að sumir skulu trúa því í raun að hægt sé að nota aðra sem tímabundna dyramottur hjá sér og síðan sé ekkert mál að henda þeim þegar orðnar slitnar eða skítugar. Þetta sér maður alls staðar í kringum sig, nær og fjær. Ég lifi lífinu fyrir mig sjálfa, ekki aðra og þannig á það að vera. Ég get litið stolt um öxl, mér hefur tekist vel með uppeldi minna barna, a.m.k. á flestum sviðum. Þau orðin vel fiðruð og fleyg þannig að ég þarf ekki að hafa áhyggjur af þeim. Eru bæði tvö sjálfstæðir og sterkir einstaklingar, tilbúnir að takast á við lífið. Hvað er hægt að óska sér meira?

Ég er sjálf á ákveðnum krossgötum, verð að taka ákvarðanir um það hvert skuli stefna, hvernig og hvenær. Þær ákvarðanir mun ég taka þegar ég hef gert upp minn hug og stend þá líka við þær.  Í öllu falli ætla ég að nýta tækifærið sem ég fékk og byggja ákvarðanirnar á þeirri reynslu sem ég bý yfir, bæði fyrir og eftir veikindin. Ég hlakka til þegar ég hef ákveðið stefnuna. Til þess er jú lífið; til að hafa gaman af því, alla vega svona að öllu jöfnu. Lífið er auðvitað sætt og súrt í bland :)

Alltaf jafn undrandi

16. júní 2007

Ég er óttalega bláeyg, hef vitað af því lengi en ég virðist ekki sjóast í þeim efnum.  Treysti fólki úti það endalausa enda “af hverju ekki”? Ég er einu sinni þannig alin upp að okkur ber að treysta nánunganum, gefa fólki “sjensa”, það er rangt að fara eftir almannarómi og öðrum kjaftagangi; manni ber alltaf að reyna hlutina á eigin skinni; fordómalust. Þeir sem hafa “kjaftasögur” að segja ber ekki að treysta enda undir virðingu manns að taka þátt í slíku!

Er alltaf að uppgötva nýja hluti og reynslu á hverjum degi, endalaust undrandi.  Af hverju? Jú, bláeyg og með mitt uppeldi: ég skil ekki í fólki og það er málið!

Það er kannski bara hið besta mál, er ekki lífið þannig að maður er alltaf að læra? En þegar maður hefur fengið þau högg að ekkert væri framundan en fær svo annað tækifæri, þá hugsar maður öðruvísi. Áherslurnar verða aðrar og svo einkennilegt sem það virðist; maður hefur meiri biðlund, skilning en að sama skapi þá snerpu sem þarf til að taka ákvarðanir.

Undanfarið hef ég fengið þau “spörk” sem til þarf til að fara í gang. Löngu tímabært en ég veit það sjálf að þegar sorgarferlið er margfalt þá er maður ekki til stórræðana. Ekkert óeðlilegt við það.  Aðrir sem standa við hlið manns eru boðnir og búnir til að aðstoða mann og ýta manni áfram enda oft brýn þörf á. Skilja hafnvel ekkert í “rólegheitunum” hjá viðkomandi.  Vagninn fer hins vegar ekki í gang fyrr en bílstjórinn er tilbúinn til að starta. Svo einfalt er það.  Aðrir verða að skilja það

Ég þakka fyrir það uppeldi sem ég fékk, tel mig vera betri menneskju fyrir vikið. Hef lagt á það ríka áherslu í uppeldi Hafsteins og Katrínar að dæma ekki eftir kjaftagangi heldur út frá eigin reynslu og forsendum.  Ég veit að mér hefur tekist vel í þeim efnum; þau eru fordómalaus og meta einstaklinga út frá eigin reynslu og forsendum, ekki út frá því sem ég eða aðrir segja. Hef meira að segja stundum þurft að bíða eftir stuðningi þeirra þar til þau hafa metið málin, út frá eigin forsendum :)  Þannig á það líka að vera og er ég ekki undanskilin í þeim efnum. Ég er mjög stolt af því  og sátt við ungana mína :)

Gekk of langt!

15. júní 2007

Reisti mér burðarás um öxl og fjandi erfitt að viðurkenna það. Vissi að ég tók sjensa en átti ekki von á því að þrekið væri svona lítið og að ég grenjaði af verkjum. Held þó að ég hafi staðið mig.

Margblendnar tilfinningar, annars vegar ofboðslega sár og hins vegar glöð að fá tækifæri á því að vera ég.  Hver sagði að lífið væri auðvelt? Ekki ég, mér finnst það töff á stundum. Leyfi mér að vera sár og væla! Tiltölulega nývöknuð eftir að hafa sofið í allt kvöld og seinni partinn :)  

En ég SKAL enda “neyðin kennir nakti konu að spinna” eins og ég hef áður sagt! Það mega menn vita og eiga að vita; ég gefst ekki auðveldlega upp ! Ég er samt sár og úr því þarf ég að vinna á næstu dögum. Ce la Vie ! Ég skal höndla þetta en það verða ekki allir viðmælendur vinir mínir…………… hvorki nær né fjær!

Uppbrettar ermar

13. júní 2007

Allt búið að vera á fullu síðustu dagana og mín komin í gang.  Úrvinda eftir daginn, búin að sofa síðan seinni partinn og nýskriðin, svona rétt til að kíkja í tölvuna og hátta mig. Þrekið er samt að aukast dag frá degi.

Margt sýslað og grúskað í pappírsmálum áfram. Hitti mína skólameistara uppi á Skaga í dag sem og fleira starfsfólks.  Ég veit ekki hvað það fólk heldur um mig en ég var svo glöð að hitta alla að ég gekk á fólk og bókstaflega knúsaði það.  Réði hreinlega ekki við mig.  Ofboðslega var gott að koma á vinnustaðinn aftur, hlakka mikið til að hefja kennsluna í haust.

Ekki þótti mér verra að fá hrós:) Hrós fyrir að líta vel út enda veit ég það sjálf að mér líður betur núna en síðustu 2-3 árin.  Veikindin hafa pottþétt verið að grassera í allan þann tíma. Hrósið lyfti mér auðvitað upp á hæstu hæðir:) Ekki þarf mikið til að gleðja mann þessa dagana………………….

Fyrri dagurinn í inntökuprófunum hjá Kötunni búin og hún sjálf alveg búin á því. Erfitt að spá um árangur dagsins, allt verður þetta að koma í ljós.  Seinni dagurinn á morgun og nú mikilvægt að hún mæti vel sofin og hvíld.  Báðar áttum við fremur svefnlitla nótt út af spenningi þó misjafnar ástæður lægju þar á baki hjá okkur mæðgum.

Er sem sé að komast í góðan gír, afköstin að aukast og ákvarðanir að líta dagsins ljós, smátt og smátt. Allt skal þetta hafast, auðvitað kemur upp bakslag af og til en er ekki lífið þannig alltaf?

Viðutan

12. júní 2007

Á morgun hefst inntökuprófið inn í læknadeildina og verða prófin 3 á morgunn og annað eins á fimmtudaginn.  Vona að Kötunni gangi vel, hún á það sannarlega skilið.

Búin að vera óttalega viðutan síðustu daga, var að muna allt í einu eftir símtali sem ég ætlaði að hringja síðasta föstudagsmorgunn til Systu mágkonu! Er greinilega ekki í lagi en ýmiss atriði hafa farið forgörðum undanfarið :(   Verð að taka upp dagbókina, það er greinilegt. Hringja auðvitað í Systu! Hvað skyldi hún halda, hm……….?????

Dagurinn fór í alls slags stúss vegna dánarbúsins, ótrúlegt hve viðmót starfsmanna í bönkum getur verið kaldranalegt. Þessi mál taka á og eru tímafrek, ekki hjálpar “Hrollauga” upp á. En smátt og smátt er þetta að koma.  Mér finnst að eftirlifandi makar ættu að eiga kost á námskeiði eftir fráfall hins makans, svo mikið er torfið og kerfið þungt í vöfum. Allt rifjast auðvitað upp og ýfist, það tekur svolítið á.

Staflinn á eldhúsborðinu lækkar smátt og smátt og ég farin að ná fleiri, settum markmiðum en áður. Nú er bara að krossleggja fingur og vona að allt fari á besta veg. Framundan er áframhaldandi pappírsvinna, fundarhöld og heimsókn á Skagann til að hitta minn skólameistara.  Svei mér ef lífið er ekki að taka á sig eðlilega mynd á ný :)

Vona að Kötunni gangi vel á morgunn, Haffa farið að líða betur í 30°C hitanum og próflestrinum en stóra prófið hans í lífefnafræðinni er þann 22. júní. Allt er þetta að hafast :)

Beggja blands

12. júní 2007

Búin að vera beggja blands eftir helgina. Vil taka ákvarðanir á eigin forsendum. ÚFF!! Og hverjar eru þær??? Ég veit það ekki og það er einmitt málið!

Ég þarf í öllu falli tíma til að hugleiða málin, er ekki þekkt fyrir það að gefast upp og fer ekki að taka upp á því núna; á síðustu og verstu tímum :)

Búin að vera í hálfgerðu sjokki að sumu leyti, þarf að vinna mig úr því. Veit að allt fer vel á endanum.

Haffi minn búinn að standa í stórræðum úti og ástandið erfitt. Líkur mömmu sinni og þraukar úti það endalausa.  Á góða að sem munu fylgja honum alla leið í orðsins fyllstu merkingu :) Við það er ég afar sátt, meira en orð fá lýst :)

Katan þraukar einnig í sínum prófum, orðin örmagna síðan í byrjun apríl. Það vill svo til að ég á einnig helming í henni og veit að hún gefst ekki upp en ansi er þetta strembið :(

Við erum ekki þekkt fyrir að gefast upp þessi litla “famelia” þó á móti blási. Náum við ekki markmiðum okkar; þá breytum við þeim einfaldlega og lærum af reynslunni :) Ég er ekki hætt né búin að gefast upp og það sama á við Haffann og Kötuna :)

Ég skal. get og vil og ætla mér að nota þann tíma vel sem mér er ætlaður. Byrjuð á “skáldsögunni” og bíð spennt eftir viðbrögðum :) Gleðilegu fréttirnar þær að einhverjir lesendur eru til staðar og útgefandinn klár. Nú stendur á mér en komin í gírinn :)

Heim í heiðardalinn

11. júní 2007

Skrapp heim um helgina og mjög sátt yfir því að hafa drifið mig. Ætlaði að staldra lengur við og ganga frá málum en þurfti suður.   Skrepp aftur á næstu dögum í samráði við “mína menn”

Ég upplifði mikinn létti þegar heim var komið.  Fann hins vegar vel fyrir mínum manni og fannst þetta erfitt að mörgu leyti, ekki síst þar sem ég var ein en þetta var eitthvað sem ég varð að gera og er mjög sátt við sjálfa mig.

“Mínir menn”hafa heldur betur reynst mér vel, ótrúlegt hvað menn eru tilbúnir til að leggja á sig til að aðstoða aðra; í þessu tilfelli mig. Ég hef ekki hugmynd um það hvernig ég get þakkað þeim nógsamlega fyrir en ég mun reyna mitt besta.

Skrepp aftur á næstu dögum og veit að þá verður það auðveldara.  Helst hefði ég viljað vera heima alveg í sumar en verð að kyngja því að þurfa að fara að vinna. 

Fannst ótrúlega erfitt að fara í fjárhúsin sem standa nú auð. Gerði það viljandi að loka ekki hliðinu heima þannig að ókunnugar kindur komust á túnin hjá mér.  Mér fannst það ómetanlegt að heyra í þeim, svo ekki sé minnst á lömbin :)

Þarf að fara að taka ákvarðanir varðandi slátt o.þ.h. Þarf auðvitað að hafa hrossin okkar í huga áður en ég tek einhverjar ákvarðanir en langar mest til að slá og hirða heyið.  Allt kemur þetta í ljós á næstunni.

Mætti í fermingarveislu hjá Fjólu Björgu, er bit yfir því hversu hratt tíminn líður, man eftir henni sem stelpuskottu en orðin hálffullorðin, ung skvísa í dag. Gullfalleg sem og yngri systirin :)

Er ofboðslega þreytt, endalaust þreytt þannig að nú er það koddinn og sængin. Að mörgu að huga á næstunni og ótal mál að leysa. Sumt hreinlega skil ég ekki og vona að ég hafi rangt fyrir mér þegar ég hugsaði málin heima. Það leit ekki vel út :(

Vertu alltaf hress í huga

hvað sem kann að mæta þér.

Lát ei sorg né böl þig buga.

Baggi margra þungur er.

Treystu því að þér á herðar

þyngri byrði ei varpað er

en þú hefir átt að bera.

Orka blundar næg í þér.  ( höf.óþekktur) 

Vona að þessi orð séu sönn, er pínu slegin :)

Mitt vor er komið

8. júní 2007

Þar kom loks að því að ég fann vorið og farin að viðurkenna að sumarið sé komið. Mér fannst hausta snemma í ár, miðað við veðurfarið í maí og byrjun júní. Lá á fjórum fótum og skrapaði upp illgresi á milli gangstéttahellna og fór í beðin í gær.  Veðrið yndilegt og mér leið ótrúlega vel.

Gerði heiðarlega tilraun til að snyrta trén með þessari svaka fínu hekkklippu en fljót að slökkva á henni, áður en ég eyðilagði alla runnana. Ég einfaldlega kann þetta ekki :(

Skrapp í Garðheima og keypti sumarblóm og er óvenju snemma á ferðinn með það í ár. Fyllti bílinn í bókstaflegri merkingu og var alsæl.  Eldri maður vatt sér að mér og spurði hvort ég ætlaði að opna blómabúð! Nei, ekki var það svo gott en sagði honum að vorið væri loksins komið í mínu hjarta. Hann horfði á mig drykklanga stund og sagði; það er löngu komið, ég sé það! Svo mörg voru þau orð og ég alsæl :)

Mér líður óneitanlega mun betur og er bjartsýnni á tilveruna en ég hef verið lengi. Þrátt fyrir verki og stirðleika er líðanin betri.  Vantar enn mikið upp á úthaldið, finn það alveg ef ég geri eitthvað en þannig kemur þrekið smátt og smátt með því að reyna á sig, aðeins meira í dag en í gær.  Það sem hjálpar mér mest er að hafa nóg fyrir stafni.  Ætla að reyna að pína ofan í mig pólarolíu en Systa mágkona er hörð á því að hún svínvirki við liðverkjum o.þ.h.  Ætla að láta mig hafa það að taka hana inn, þrátt fyrir að uppistaðan sé lýsi; það fyrirbæri gúlpast stöðugt upp úr mér allan daginn, taki ég það inn að morgni.  Það sakar ekki að reyna, Systa fær þá bara að eiga olíuna ef ég get ekki haldið henni niðri :)

Fer loksins heim um helgina, ekki veitir af þó fyrr hefði verið.  Mörg mál sem þar bíða og menn augljóslega farnir að hugsa gott til glóðarinnar er varðar eigur dánarbúsins. Ótrúlegt hvað menn geta lagst lágt en ég fékk æði einkennilegt símtal í fyrradag frá einum ættingja hans um þau málefni. Halda menn að maður sé alveg ga,ga og viti ekki neitt? Það ljótasta við þetta er þegar menn vitna í “meint” orð látins manns. Sem betur fer vorum við Guðjón samstíga í flestu og mér kunnugt um flesta hluti er lutu að búskap, tólum og tækjum. Auk þess var bókhaldið hans til fyrirmyndar.

Í öllu falli hlakka ég til helgarinnar, nóg að gera og loks orðin það hress að ég geti keyrt skammlaust lengri vegalengdir.  Byrja fljótlega að vinna.  Heldur í fyrra fallinu, það veit ég en “neyðin kennir naktri konu að spinna”.  Þannig er það einfaldlega og ekkert annað en að taka því.  Geri trúlega lítið annað til að byrja með en veit að þrekið og úthaldið kemur.  Andlega séð og faglega hef ég verulega gott af þessu. Næsta tékk ekki fyrr en í júlí þannig að allt er í góðum gír.

Lufsa

7. júní 2007

Búin að vera óttalegur aumingji síðustu daga. Kemst varla á fætur á morgnana vegna liðverkja og “beinverkja”. Verið skást seinni partinn og á kvöldin. Kæmist ekki í sokka á morgnana, hvað þá meira.

En það þýðir ekkert volæði, verð að spýta í lófana. Verið dugleg að vinna í ákveðnum málum sem hafa verið að íþyngja mér og náð árangri í sumum þeirra.  Er löngu hætt að vera með yfirlýst markmið, læt duga að hafa þau yfir í hljóði.  Er að ná þeim smátt og smátt.

Hef grun um að einhver pest sé að angra mig miðað við líðanina en veit að þreyta og álag síðustu daga hefur sitt að segja. URRRRRRRRR!!!!!!!!!!!! Vinn mig úr þessu, ég skal!

Katan á fullu í lestri fyrir inntökuprófðið í læknisfræðinni og Hafsteinn búinn að taka eitt prófið með trompi.  Erfitt próf framundan hjá honum, vona að hann ætli sér ekki of nauman tíma í undirbúning.

Það styttist í að ég fari að vinna; ég hlakka ekkert smá til, hefði viljað vera búin að fá meira þrek en svona er lífið einfaldlega.  Ég einfaldlega verð.  Þökk sé kerfinu og ýmsum “vinum og fyrri samherjum” :) Menn uppskera eins og þeir sá, eins og mér er tíðrætt um.  Það á við okkur öll. Hefði viljað eyða sumrinu með öðrum hætti og safna kröftum en staðan er einfaldlega þannig að ég verð að bregðast við. Það geri ég og ekki orð um það meir. Ég er ekki þekkt fyrir það að gefast upp án baráttu :)