Rósirnar

6. júní 2007

Ég las það síðustu nótt að ein blómarósin hefði fellt sín blöð, í þetta sinnið blómarós að vestan.  Krabbamein líkt og hjá Ástu Lovísu.  Blómarósin liðlega tvítug og Ástan þrítug. 

Það er svo einkennilegt að fyrir 8 mánuðum vissi ég ekki af þessum rósum, rambaði á síður þeirra þegar ég var að leita eftir svörum sjálf og beið eftir niðurstöðum. Þessar rósir voru mér hvatning og fyrirmynd á margan hátt, átti sjálf ekki von á því að komast eins langt og ég er komin í dag. Útskrift Kötunnar fjarlægur draumur, hvað þá að ég hugsaði lengra. Þessar ungu hetjur veittu mér ótrúlegan stuðning, ómeðvitað.  Kjarkurinn og vonin skinu í gegn um allt þeirra líf.  Þær voru mér sem fyrirmynd á margan hátt enda leið ekki sá dagur sem ég kíkti í “heimsókn” á síðurnar þeirra.

Úff, hvað er ég, tæplega fimmtug manneskjan að kvarta og vola, ég hef þó fengið öll þessi ár sem er meira en sagt verður um rósirnar og hvunndagshetjurnar.  Ég blátt áfram skammast mín fyrir allt vælið.

Það er einkennilegt hvernig þessi bloggheimur getur haft áhrif á mann; að taka þátt í sorg og gleði bloggverja, skilyrðislaust og af lotningu en halda á sama tíma í vonina sjálfur og vera í hlutverki Pollýönu. 

Átti fróðleg símtöl í kvöld og komst að því að enn er mér ætlað að vera kyngimögnuð kona, ekki síður nú og fyrir uppskurð og meðferð! Mér er enn ætlaður tími á þessari kringlu, í einhvern tíma enn. Ég komst hins vegar enn og aftur að því að mér er ætlað eitthvað yfirnáttúrlegt í augum annarra og er ansi hrædd um að ég standi ekki undir þeim krafti og ákvörðunarvaldi sem mér er ætlað.  Hins vegar er minn tími ekki kominn.

Ótrúlegt hvað menn ætla mér; ég ekki einungis ræð yfir eigin örlögum heldur og einnig örlögum annarra. Ansi fjölskrúðugur karakter sem ég er.  Finnst það reyndar vafasöm viðurkenning , ég er jú bara mannleg og ég á ekki svar/lausnir við öllu :(    Það búa ekki allir yfir þeim hæfileikum sem menn telja mig búa yfir.  Eitt er þó alveg víst; ég ræð ekki yfir lífi annarra og ég tek ekki ákvarðanir fyrir aðra.  Það getur enginn. Ótrúlegt hvað menn geta verið grunnhyggnir og ljóstrað því upp án þess að roðna.

Kerfið!

5. júní 2007

Mér barst langþráð umslag um lúguna á föstudaginn 1. júní 2007 frá Tryggingastofnun ríkisins. Horfði meira að segja lengi og vel á póststimpilinn; 28.maí 2007!

Vildi vera viss og leit aftur á nafn viðtakanda. Var þetta örugglega stílað á mig? Jú, heldur betur, meira að segja fullt nafn á umslaginu.  Hafði engan tíma til að skoða innihaldið, var að útskrifa Kötuna þennan daginn.   Opnaði það í dag, 4. júní 2007.  Innihaldið var svar við umsókn minni vegna svonefnds endurhæfingalífeyris.  Svarið var jákvætt, umsóknin var samþykkt :)   Vá, loksins, dagsetning læknisvottorðs í lok nóvember 2006!

Horfið lengi á bréfið og las það spjaldanna á milli. Ég trúði vart mínum eigin augum, loksins komið svar og það jákvætt! Nógu andsk………….. fannst mér erfitt að sækja um rétt minn; það hafði greinilega borgað sig.

Ég mun örugglega setja bréfið og skírteinið inn í ramma, helst gylltan með útflúri og skrauti :)   Skírteinið sem er ávísun á lægra verð til lækna og sérfræðinga, lyf og tannlækningar, rann út 06.2007!

Svona er íslenska heilbrigðiskerfið. Brandari :) Ég vænti þess að fá svar við umsóknum vegna umönnunarbóta og dánarbóta einhvern tímann í haust enda sumarfrí þegar hafin.  Örugglega ekki afturkræft.  Kerfið?  Er það ekki klikkað? Starfsmenn þess; þeir eiga verulega bágt.

Mun ég sækja aftur um ef ég veikist aftur? JÁ, POTTÞÉTT! Þó ekki væri nema til að láta hafa fyrir mér. Hef ég sagt mitt síðasta orð? NEI!   :) Fyrr má nú rota en dauðrota, segi ég.

Í öllu falli kominn upp á lappirnar aftur, var ansi framlág og hliðholl sófanum síðustu dagana.  Örmagna að mér fannst.  Fékk “lifni við pillu” með þessum pósti, kannski sparkið sem ég þurfti.  Kominn tími til að ráðast í það sem bíður á öllum vígstöðvum. Mín komin í gang sem þýðir 5. gír.  Nóg komið af lognmollu í bili.  Við urrum á mínum bæ við slíkum uppákomum og aðstæðum!

Ég er alla vega stolt af því að hafa sparað fyrir heilbrgðiskerfið síðustu mánuði, ég get alla vega státað mig af því :)

Spennufall

3. júní 2007

Ekki laust við spennufall síðustu dagana, gjörsamlega “punkteruð” eftir allt stressið í síðustu viku.  Engu að síður hæstánægð með hvernig allt hefur gengið vel, er bara þreytt og úthaldslítil.

Fórum í fermingaveislu hjá systursonum mínum í dag, ótrúlegt hvað tíminn er fljótur að líða. Mér finnst engin 14 ár síðan tvíburarnir voru í vöggu! En staðreyndir tala sínu máli og ég verð að kyngja því að tíminn líður hratt.  Aldrei hefur mér dottið í hug að ég eldist jafnhratt og blessuð börnin…………….

Virkilega gaman að hitta fjölskylduna og aðra ættingja og vini og það undir öðrum kringumstæðum en í jarðaför eins og mér er tíðrætt um.  Veislan var til fyrirmyndar og maturinn frábær, held ég hafi hesthúsað jafnmiklu þar og allan síðasta mánuð, svei mér þá!

Er bara lurkum laminn eftir síðustu dagana sem segir mér hversu úthaldið er lítið í raun, ég verð að fara að herða mig í þeim efnum!  Framundan eru fleiri veislur; skírnarveisla, útskriftarveisla, fermingarveisla og ég veit ekki hvað og hvað. Nóg að gera alla vega :)

Ég hef verið nokkuð þungt hugsi um trúnað og það hvernig sögur geta breyst í meðförum manna á milli.  Húsfluga er orðin að risafiðrildi áður en maður veit af.  Trúnaður er nokkuð sem er vandmeð farinn og ber að virða sem slíkan.  Menn líta hins vegar á það hugtak með misjöfnum augum og sýnist sitt hverjum í þeim efnum.

Ég er einu sinni þannig að ég tek því alltaf alvarlega þegar trúnaður er brotinn og er oft æði lengi að jafna mig á því og versna með árunum.  Tek trúnaðarbrot kannski allt of nærri mér.  Það sama má segja þegar orð mín eru endursögð manna á milli, slitin jafnvel úr samhengi og sett í allt annan búning en til þeirra var stofnað.  Mér finnst það fjandi sárt.  Ekki hjálpar það til að verða síðan vör við að “sagan” hefur farið eins og eldur um sinu áður en ég hef náð að snúa mér við.  Einhvern veginn minnir slík “flugferð” mig á kjaftakerlingar í gömlu pakkhúsunum sem höfðu fátt annað fyrir stafni en að kjafta um nánungann. Mér er einnig hugsað til litlu plássana á landsbyggðinn þar sem einstaklingar reyna að krydda upp á tilveruna með auka salti, pipar eða aromati hér og þar enda fjölbreytileikanum ekki fyrir að fara.

Sumir segja að heimildalausar sögur, ummæli og sögusagnir séu marklausar og get ég tekið undir þá skoðun en engu að síður eru þær skaðandi og hvimleiðar, vægast sagt. Hvað varðar trúnað þá tekur það tíma að byggja hann upp aftur.

Stúdína Katarína

2. júní 2007

Þá er Katan orðin stúdent frá MR :)   Þriðji ættliðurinn sem skrifast þaðan út, ég er ekki lítið stolt af henni.  Flaug yfir áttuna í meðaleinkunn þrátt fyrir alla erfiðleikana í vetur g sorgina.  Mér varð hugsað til þess tíma þegar ég var uppi á sviði í Háskólabíó fyrir 28 árum síðan og lítið hafði breyst. Stúdentsefnin fengu þó að sitja í athöfninni á meðan minn hópur stóð upp á endann allan tímann.  Skvísan var gullfalleg á sviðinu og geislaði þó álagið hafi verið yfirþyrmandi rétt fyrir útkskrift enda fáliðaðar í veisluundirbúningnum.

Það skyggði hins vegar mikið á daginn að Haffi skyldi ekki komast, það munar svo um hvert okkar í þessari litlu einingu. Ekki laust við að ég felldi nokkur tár, bæði af gleði og stolti yfir minni konu og söknuði eftir stráknum.  Við höfum ekki verið aðskilin í gleði og sorg fyrr en síðustu 2 árin og það tekur á okkur öll. Fyrir 8 mánuðum síðan var ég ekki viss um að getað verið viðstödd útskrfitina hennar en það hafðist og fyrir það er ég þakklát. Ég veit að það var erfitt fyrir Haffa að vera fjarri þennan dag og hefur tekið á. Mér finnst hann ótrúlega sterkur karakter, það sýnir sig ekki síst á stundum sem þessum.  Það verður ótrúlega gaman þegar hann kemur heim í sumar og tekið á því.  Það bíður hans langur verkefnalisti og síðan auðvitað ætla ég að njóta samvista við hann í botn :)

Veislan gekk mjög vel og frábært að hitta ættingja og vini undir þessum  kringumstæðum en vissulega vantaði marga.  Stórfjölskyldan hittist nánast eingöngu við jarðafarir síðustu árin og löngu tímabært að breyta því og efla tengslin. Það getur verið og seint á morgun. Frábært að fá vini úr Dölunum þó ég hafi vissulega saknað margra sem ekki áttu heimangengt. En svona er sveitalífið, sauðburðurinn og allt sem þeim álagspunkti fylgir, það þekki ég og skil mætavel.

Er búin að vera algjört sófadýr í allan dag, gjörsamlega búin á því en ofboðslega stolt og ánægð með allt.  Það kemur mér sífellt á óvart hversu yndisleg börn ég á, engin orð lýsa þeim tilfinningum og stolti sem ég upplifi vegna þeirra.

Þessi prófatörn Katrínar tók verulega á hana og í raun okkur og framundan er inntökupróf í læknisfræðina um miðjan júní.  Vonandi gengur það upp hjá henni.

Ekki hafa hlutirnir gengið eins og ég hefði kosið síðustu daga og vikur. Ég verð að viðurkenna það að ég er ekki nafli alheimsins, það snýst ekki allt um veikindin og ég hef ekki tök á að ráða við allar aðstæður.  Sumt er einfaldlega ekki í mínum höndum og það eru fleiri en ég sem þarf að taka tillit til. Mér finnst það reyndar fúlt en svona er þetta!

Þannig er lífið einmitt í hnotskurn. Það þýðir ekki að rjúka áfram og setja eigin þarfir og metnað ofar þörfum annarra.  Lífið er línudans og við þurfum að taka tillit til annarra. Hef verið allt of uppekin við að hugsa um eigin bata, markmið og framkvæmdir síðustu vikurnar.  Mér hefur legið svo á að ég hef stundum gleymt þeim sem standa mér næst.  Er verulega miður mín vegna flumburgangsins í mér að undanförnu.

Ég verð að fara læra það í eitt skipti fyrir öll; mínar þarfir og forgangsröðun þurfa ekki að fara saman við þarfir annarra og því brýnt að fara einhvern milliveg. Hlusta og skynja, með öðrum orðum.  Ég þarf að taka mig á.

Síðasta prófið hjá Kötunni minni í fyrramálið; munnleg stærðfræði.  Í fyrsta sinn í þessum stúdentspróum skynja ég kvíða hjá minni konu.  Uppáhaldsfagið hennar, búin að vera með topp einkunnir í 4 ár. Mætir í munnlegt próf í fyrramálið og happa og glappa hvað hún dregur.  Auðvitað kann hún sitt fag, spurningin er hins vegar sú hvort hún láti kvíðann ná yfirtökum.

2 dagar í stórt próf hjá Haffa.  Setti sér ansi þröngan tímaramma með það próf, byrjar í skriflegu og ef hann nær því, fer hann í munnlegt próf samdægurs hjá sínum fornaldarmönnum.  Þar dugar ekki elsku mamma! Hrikalegt að geta ekki bakkað hann upp á staðnum, hann stendur einn og óstuddur með sálfum sér. Þau eru hetjur bæði tvö, á því er enginn vafi í mínum huga.

Fékk annars góða heimsókn í dag. Sigga sys kom og klippti sem óð runna og tré og djöflaðist úti í garði.  Auðvitað kom moldvarpan upp í mér, var úti töluverða stund.  Náði að gleyma hita og verkjum allan þann tíma. Fékk það reyndar svo í bakið á mér í kvöld en það er allt í lagi. Þetta var svo sannarlega þess virði. Ekki síst ánægð með það að vea komin af stað og byrjuð.  Vonandi er þetta byrjunin á því sem koma skal.  Finn fjandi mikið til núna í öllum liðum og “beinum” en fer sáttari að sofa en þegar ég vaknaði. Þetta er allt í rétta átt, einungis spurning um að vinna upp þrek og gefa þessu ferli raunhæfan tíma :)

Dalirnir heilla

26. maí 2007

Ég tókst heldur betur á loft í gærkvöldi þegar ég spjallaði við Dalamann um heima og geima.  Auðvitað barst talið að sveitarstjórnarmálum en lítið þarf til að kveikja í mér í þeim efnum.

Mér finnst alveg með ólíkindum hvernig málum sláturhússins er komið. Ég var orðlaus þegar fráfarandi sveitarstjórn tók sig til og gerði upp húsið á sínum tíma, alfarið á kostnað okkar íbúanna án þess að nokkuð samráð væri viðhaft við okkur.  Opinberar tölur vegna framkvæmdanna hljóðuðu upp á 66 milljónir kr. en ég veit með vissu að sú upphæð var mun hærri og var vel á annað hundrað milljónir. Kostnaðurinn var “falinn” hér og þar í bókhaldi sveitarfélagsins og skilst mér að núverandi starfsmenn sveitafélagsins hafi haft fullt í fangi með að finna þær tölur og kostnað og þótt nóg um. Mig skal ekki undra.

Í mínum huga koma aldrei annað til greina en að koma sláturhúsinu í útflutningshæft ástand og tryggja starfsemi þar áfram. Ég var hins vegar ekki á því að sveitarfélagið tæki þann kostnað alfarið á sig nema að höfðu samráði við íbúa og kynningu.  Ég treysti þáverandi stjórn sláturhússins ekki til að standa vörð um reksturinn, hvað þá stjórn Dalalambs og var ærin ástæða til tortryggni.  Menn skilja það betur nú, er mér sagt, þó öll kurl séu vart komin til grafar.

Næsta klúður varðandi sláturhúsið var að ganga til samninga við Norðlenska.  “Allt frekar en Skagfirðingar” var viðkvæðið og í raun einu rökin fyrir þeirri ákvörðun. Í stuttu máli gekk Norðlenska á bak orða sinna og braut samningsákvæðin, framseldi samninginn til Skagfirðinga sem kæra sig ekkert um að nýta húsið nema til geymslu á kjöti sem er slátrað fyrir norðan. Núverandi sveitarstjórn samþykkti þennan ráðahag og er ég ansi hrædd um að menn eigi eftir að súpa seiðið af því, reyndar byrjaðir á því. Ég saup alla vega hveljur þegar ég frétti af þeirri ákvörðun.  Þvílíkt klúður og ábyrgðarleysi!

Til að mæta öllum “duldu” skuldunum sem smátt og smátt hafa verið að koma upp á yfirborðið, greip sveitarstjórn á það ráð að óska eftir úreldingu á húsinu enda allt komið í óefni. Norlenska svo að segja á hausnum og Skagfirðingar búnir að tryggja það að hvorki Borgnesingar né aðrir komi nálgt húsinu. Landbúnaðaráðuneytið búið að samþykkja úreldingu; 30 milljónir kr.! Af þeim 30 milljónum fær Dalabyggð harla lítið, ef þá nokkuð.

Hrikaleg staða, annað er ekki hægt að segja. Búið að fjárfesta í framkvæmdum, húsið klárt en búið að rústa öllum grundvelli fyrir starfsemin og rekstur í húsinu. Sem betur fer hafa einhverjir bændur og aðrir Dalamenn risið upp og veitt þessari þróun mótspyrnu. Sveitarstjórn hefur tekið sér frest til að íhuga betur möguleikana en ég spyr; til hvers? Ég heyri ekki annað en að sveitarstjóri og nokkrir aðrir sveitarstjórnarmenn séu mjög neikvæðir og vilji ekkert með húsið hafa.  Algjört ábyrgðarleysi, satt best að segja og illa farið með þá fjárfestingu sem fjármögnuð var á kostnað íbúanna og þjónustu við þá.

Það er engin töfralausn í stöðunni.  Hingað til hefur ekki verið góð reynsla af því þegar sveitarfélagið hefur annast reksturinn, þeir aðilar sem þar hafa ráðið höfðu einfaldlega ekki burði til að sinna honum sem skyldi. En eitt mega þeir þó eiga; loforð við bændur stóðust sem allir fengu greitt fyrir innlegg sitt. Það er meira en hægt er að segja um fyrri rekstraraðila og nú Króksfjarðarmenn.

Mér sýnist enginn annar kostur í stöðunni en að menn taki sig saman ásamt sveitarfélaginu og tryggi áfram starfsemi í húsinu. Þó ég sé alfarið á móti því að sveitarfélagið standi í slíkum rekstri þá er hann það mikið hagsmunamál fyrir Dalina að nú verða menn að standa saman! Atvinnulífið er ekki það fjölskrúðugt að við getum endalaust reitt af okkur fjaðrirnar. Í þetta skiptið þarf að vanda valið á þeim sem halda um stjórnartaumana.

Menn kvarta og kveina yfir því að það sé skortur af starfsfólki.  Hvernig má annað vera þegar fólk er nánast handvalið til búsetu.  Annað hvort er því tekið með blómum og kossum eða hrakið með skömm í burt!  Hrokinn virðist vera þvílíkur hjá sumum “klíkum” að menn blikna hvorki né blána við slíkt handval.  Hver er svo staðan núna? Jú, fólk leitar annað, bæði eftir atvinnu og búsetu þar sem skilyrðin eru vinsamlegri og launin hærri.

Við Dalamenn verðum að koma okkur upp í 21. öldina og fagna öllum þeim sem hjá okkur vilja búa. Við getum ekki endalaust grisjað þá einstaklinga úr sem okkur hugnast ekki eða “eru öðruvísi” eins og ein fróm kona skrifaði forðum daga, mér til sælla minninga. Einstaklingarnir eru misjafnir eins og þeir eru margir, þannig er samfélagið fjölskrúðugt en ekki einsleitt. Handval á einstaklingum flokkast undir einelti, nokkuð sem menn þurfa að hugleiða vel.

“Dalirnir heilla” eru hugtök sem hafa loðað við Dalina frá ómunatíð. Er ekki löngu tímabært að gera þau orð að sönnu og byggja upp þá sérstöðu sem svæðið býður upp á?  Loforðin voru mörg fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar og ugglaust meintu sumir eitthvað með þeim.  Væri ekki ráð að blása nýju lífi og krafti í Dalamenn og stuðla að betra samfélagi? Eins og málin hafa þróast sl. ár eru sveitarstjórnarmenn ekki að standa sig sem skyldi og óttinn um klíkumyndanir reyndist réttur. Menn verða að setja eiginhagsmuni til hliðar og einbeita sér að hagsmunum sveitarfélagsins. Ef fram fer sem horfir, verða Dalirnir orðnir sumarbústaðabyggð með einstaka bændum innan nokkurra ára.

Nú hafa óreyndir sveitarstjórnarmenn haft rúmt ár til að setja sig í störf sín og tileinka sér sveitarstjórnarlögin.  Er þá ekki orðið tímabært að þeir bregðist við þeim vanda sem blasir í atvinnu- og búsetumálum sem skyldi?  Nú verða menn að fara að hysja upp um sig buxurnar, ekki seinna vænna og sinna starfi sínu með hagsmuni íbúanna í huga. Það yrði góð byrjun að hafa stjórnsýsluna í lagi.

Skriðin undan teppinu

25. maí 2007

Heilsan heldur að skána.  Nennti ekki með nokkru móti að fara í gegnum flöskuhálsa heilbrigðiskerfisins í þetta skiptið og nýtti mér eigin bjargráð.  Hvort það sé skynsamlegt er svo annað mál.  Mæli eiginlega ekki með þeirri aðferð, svona almennt séð.

Alla vega skriðin undan teppinu og aðeins farin að sýsla.  Er auk þess skapbetri en í gær, var fremur fúl og leiðinleg við allt og alla. Fannst súrt í broti að komast ekki á Málstofuna í ljósmóðurfræðinni þar sem Auja skvís var að kynna lokaverkefnið sitt.  Búin að heyra í henni og gekk henni vel, eins og hennar er von og vísa.  Þá er þetta nám að baki og hún tekur við hjúkrunarstjórastöðu á Klaustri. Þar eru menn heppnir að fá hana, pottþéttur hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir, “acut” manneskja fram í fingurgóma :)

Ætla að halda mér inni við í dag enda veðrið ekki til að hrópa húrra fyrir. Vil ekki að mér slái niður enda löngu, löngu orðið tímabært að leggjast í ferðalag heim á leið. Er orðin ansi langeyg eftir því að komast heim.

Kata að lesa undir síðasta prófið; munnleg stærðfræði í þetta sinnið. Hafsteinn er hálf steiktur í sól og hita úti í Debrechen. Próf í lífeðlisfræði og “Biochem” framundan, það fyrsta eftir rúma viku.  Var heldur brattur að velja þann prófdag en veitir sér stíft aðhald með því að setja pressu á sjálfan sig.

Er komin á fult að undirbúa sumarið og haustið m.t.t vinnu, hlakka verulega til að geta hafið störf á ný. Veit að þrekið kemur þegar ég fer að vera meira úti í sveitinni og í kringum vini. Spennandi tímar framundan í heilbrigðismálum, nýju lögin og ný ríkisstjórn gefa fögur fyrirheit um ný og spennandi tækifæri á þeim vettvangi sem ég mun, að sjálfsögðu skoða og reyna að nýta mér :)

Það er svo einkennilegt að í öllum áföllum og erfiðleikum felast ný tækifæri.  Aðalatriðið er að koma auga á óg nýta þau. Það ætla ég mér að gera :)

Heldur nöturlegt

24. maí 2007

Það er heldur nöturlegt vorið okkar, skítakuldi með tilheyrandi hagléljum af og til.  Ekki nýtt í kringum hvítasunnuna, svo mikið er víst.  Verst hvað veðrið setur strik í reikninginn í sauðburði.  Útilokað að setja ærnar og lömbin út sökum kulda.  Síðasta vor var ansi kalt, mér til sælla minninga.  Fór í húsin með bullandi lungnabólgu og skil ekki enn hvernig ég fór að því. Man að það var erfitt en einhvern veginn hafðist það. Ekki beið sauburðurinn þó ég væri veik sem er eitt af því sem bændur verða enn að lifa með. Þegar þeir veikjast verða þeir að standa vaktina fram í fulla hnefana.  Ekki er auðvelt með afleysingafólk sem er auk þess kostnaðarsamt og ekki af miklum tekjum að taka.

Ég hef greinilega gleymt mér í góða veðrinu um daginn. Verið með glugga opna og ekkert gætt að því að það kólnaði heldur betur innandyra enda orðin lasin, enn aðra ferðina.  Hóstandi og geltandi og hitinn rokinn upp.  SKyldi ekkert í því að ég gat eiginlega ekki hreyft einn einasta lið í morgun, ekki einu sinni fingurliðina.  Kjagaði eins og gömul, þreytt gæs.  Nokkuð viss um að það hafi veri spaugileg sjón :) Hef reyndar verið óttaleg lufsa um nokkurn tíma en áberandi verri núna.  Trúlega týpísk, gamaldags ofkæling. Hugsa að flottu göngutúrarnir um daginn hafi eitthvað hjálpa til.

Enn og aftur hafa áætlanir sem ég hef gert í huganum, út um veður og vind. Enda löngu hætt að gera þær opinberar, þær standast aldrei. Það mætti halda að þetta væru álög eða í besta falli farsi  í lygasögu.

Það styttist í próflok há Kötu, er í munnlegri íslensku í dag. Búið að vera ansi erfiður tími hjá minni konu.  Haffi á kafi í próflestri í allt að 30°C hita, ómótt og heitt en fullur bjartsýni enda ekkert annað í stöðunni.  Ég er viss um að við myndum þiggja helming af þeim hita hér, ef ekki meira.

Auja að flytja lokaverkefni sitt til embættisprófs í ljósmóðurfræði.  Ekki smá fúlt að komast ekki og hlusta á fyrirlestur hennar.  Mjög þarft og spennandi viðfangsefni er lýtur að áhrifum ofþyngdar og offitu á fæðingar. Þar er heilsugæslan í lykilaðstöðu að hafa áhrif og þá á alla aldurshópa.  Verulega spennandi verkefni.

Ekkert annað að gera að hnipra sig undir teppi núna og vona að þetta gangi fljótt yfir. Nóg er að gera í pólitískri umræðu þessa dagana þannig að manni ætti ekki að leiðast. Var ánægð að heyra að Kristinn H er orðinn formaður þingflokks frjálslyndra. Hef alla trú á því að hann standi sig vel þar enda hópurinn ekki eins gegnum sýktur af samkeppni og spillingu og sá síðasti sem hann veitti formennsku.

Ég er ansi hræd um að stjórnarandstöðunni eigi eftir að leiðast næstu 4 árin, ef að líkum lætur. Stjórnarmeirhlutinn það sterkur að stjórnarandstaðan hefur lítið eða ekkert vægi. Trúlega beina þeir flokkar kröftum sínum að uppbyggingu síns eigins flokks og styrkja innviðina fyrir næstu sveitarstjórnarkosninar.  Ég hef alla trú á því að þær kosningar eigi eftir að koma á óvart.

Næstu skref hjá mér felast í því að skríða undir teppi, með poppskál og Tab og láta fara vel um mig.  Ekkert annað að gera í stöðunni, þetta gengur yfir eins og allt annað :)

Borga meira…..

23. maí 2007

Nú liggur fyrir að sjálfstæðismenn taki við heilbrigðisráðuneytinu.  Er enn að kyngja þeirri staðreynd sem kom mér ekkert á óvart svo sem. Við stöndum, því miður, frammi fyrir þeirri staðreynd að komugjöld á heilsugæsluna munu hækka og gjaldtaka á LSH mun aukast verulega fyrir skjólstæðinga.  Þeir ætluðu sér þetta sjálfstæðismenn fyrir kosningar og fengu.  Það verður þannig von bráðar að þeir sem geta borgað, fá fyrstir þjónustuna! 

Ekki það að það virðist ekki skorta fé í samfélaginu, það safnast hins vegar á fárra hendur og ekki fá allir sömu tækifærin og aðrir. Þeir máttu eiga það framsóknarmennirnir að þeir stóðu fastir á því að tryggja öllum JAFNAN aðgang að heilbrigðisþjónustunni.

Ótrúlegur viðsnúningur hjá Ingibjörgu Sólrúnu; fyrir kosningar kom ekkert annað til greina en að senda sjálfstæðismenn í langt frí. Daginn fyrir kjördag hófst daður við sjálfstæðismenn sem þróaðist upp í rembingskoss við Geir og nú eru þau komin undir eina sæng.  Fljótt skiptast veður á lofti, erkifjendurnir búnir að semja!

Ég tel reyndar að Steingrímur hafi heldur betur klúðrað samstarfi svonefnds ,,kaffibandalags” í beinni og ekki bætti félagi hans, Ögmundur úr skák.  Ótrúlegt klúður hjá þeim og flokknum að glopra þessu tækifæri. Mig skal ekki undra þó mönnum sé tíðrætt um að skipta um forystu í VG.  Brautiðjendurnir búnir að vinna sitt starf og farnir að vera dragbítar.  Kominn tími á nýja leiðtoga.

Ég hlýt, eins og, að hugsa til framtíðarinnar með ugg í brjósti. Vonandi reynist ég sannspá um það að fljótlega sjóði upp úr.

Vildi óska að framsóknarmennn hefðu haft gæfu til þess að taka betur á sínum málum fyrir nokkrum árum. Það kom auðvitað að skuldadögunum hjá þeim eins og öllum öðrum. Hvar er flokkurinn staddur nú?  Fráfarandi formaður öruggur í sessi á nýjum vettvangi og háttsettur embættismaður í dag, núverandi formaður strandaður á skeri eftir að hafa lagt allt undir, þ.á.m stöðu seðlabankastjóra. Svakalegt dæmi sem við almennir flokksmenn gerðu ekkert í!   Hvernig stendur á því að grasrótin lét þetta yfir ganga? Einungis einstaka boffs sem kæft var í fæðingu, menn hreinlega létu stilla sér upp við vegg og kúga sig. Ég viðurkenni það að ég er bitur og svekkt. Fórninar voru of miklar á sama tíma og sökudólgarnir tryggðu sig í sessi á öðrum vettvangi.

Þessi dagur hófst seint og byrjaði illa.  Hálf pirruð yfir hitavellu, verkjum og sleni en reyni að horfa fram hjá því.  Fer samt ekki ofan af því að ástandið fer batnandi. Afrekaði 2 göngutúra í “vorhretinu” í dag og tel mig nokkuð góða með það :) Held áfram á þeirri braut.

Eitt skref til…..

22. maí 2007

Eitt skref til vinstri og eitt skref til hægri lærði ég einhvern tíman.  Nú er það tvö skref áfram og eitt til tvö afturábak.  Þannig má lýsa deginum í dag, sem sé afturábak :(

Vakti náttúrlega frameftir öllu síðustu nótt og búin að vera óttaleg lufsa í dag. Sofið Þyrnirósasvefni með reglulegu millibili og í nánast allt kvöld. Búin að berjast við ógleði síðan seinni partinn sem ég skil reyndar ekkert í.  Vonandi er þetta einhver umgangspest sem gengur fljótt yfir. Það hlýtur eiginlega að vera úr því Kata hefur fundið svipuð einkenni af og til í dag.  Hún er hins vegar orðin ansi þreytt skvísan.  Fer þó að styttast í annan endan á próftörninni. Tvö munnleg róf eftir; íslenska og stærðfræði.

Haffi kominn á kaf í próflestur, veit að hann á eftir að standa sig, pollrólegur (a.m.k. á yfirborðinu :=) ) og yfirvegaður.  Þetta verður ansi stíft næstu vikurnar og það í um 30°C hita! Mér finnt erfitt að vera ekki til staðar fyrir hann á meðan þessari törn stendur, þó hann sé orðinn fullorðinn maður.  Við erum óttalega háð hvort öðru, þessi þrjú. 

Er ekki búin að kíkja á nýju prinsessuna í fjölskyldunni en Auja hafði það að orði að hún væri eitt það fallegasta barn sem hún hefur augum litið.  Þá er mikið sagt :)

Mikið verður mér létt þegar tilveran fer að snúast um skemmtilegri hluti en heilsufarið og veikindi!  Allt gengur út á hænuskrefin; ,,skyldi þessi dagur vera betri en í gær”, ,,hverju næ ég að áorka í dag”?  Það hefur gjarnan verið sagt að þegar fólk reskist og hættir að vinna, snúist allt lífið um meltinguna og heilsuna.  Harla lítið spennandi áherslur í lífinu, a.m.k. finnst okkur sem yngri eru, það vera fremur snautt og dapurt.  En hvernig má annað vera þegar hægir á öllu og hlutverkin breytast?

Sumum reynist erfitt að skipta um hlutverk og vera ekki lengur gjaldgengur á vinnumarkaðinum.  Aðrir hafa búið sig undir það með öflugum áhugamálum sem þeir hella sér út í af miklum krafti.  Þegar manni er kippt út úr hlutverkunum vegna veikinda er hvorki ráðrúm til slíks undirbúnings né geta til að framkvæma það sem maður vill.  Mörgum gengur illa að aðlagast svo breyttum aðtæðum, öðrum gengur betur.

Ég tilheyri svo sannarlega fyrrnefnda hópnum.  Skammast mín eiginlega fyrir þá litlu þolinmæði sem ég hef, er óttaleg frekja í þessum efnum; vil árangur og úrbætur NÚNA en ekki á morgun, hvað þá eftir einhverja mánuði.  Það er eins og ég hef áður sagt, þroski er það sem ég græði á þessum leiðindakafla og etv. meiri þolinmæði.  Mér finnst ég hins vegar alveg drepleiðinleg og vil fara að henda þessum veikindakafla út úr mínu lífi.  Þetta er orðið alveg ágætt.

Hef þó verið undur þolinmóð gagnvart heilbrigðiskerfinu fram til þessa svo ekki sé minnst á Tryggingastofnun ríkisins.  Þar er stofnun sem þyrfti að skoða betur og þar þarf að laga verkferla innanhúss. Starfsfólk þar er augljóslega af misjöfnu sauðahúsi og þyrftu sumir að fara í langt frí.  Í öllu falli að átta sig á því að þegar það er ekki að skila vinnu sinni og fer ekki eftir verkferlum og yfirlýstum markmiðum stofnunarinnar, er tímabært að fara að leita af nýju starfi. Það kæmi mér ekki á óvart þó einhver fái tiltal, hugsanlega áminningu fyrir slæleg og vítaverð vinnubrögð þar. Ég verð föst á mínu.

Ég er ekki alveg að skila veðurguðina þessa dagana, hér hefur snjóað af og til síðan seint í gærkvöldi og víða hálka í dag.  Ég hlýt af velta fyrir mér sem landsbyggðarmanneskja, hvort lögreglan sé ekki heldur fljót á sér að sekta fyrir nagladekkin.  Það er greinilega allra veðra von ennþá þó vorið sé heldur skárra en í fyrra. Í öllu falli lagði ég ekki í langferð í dag, kannski eins gott úr því líðanin var ekki betri.  Örlögin enn og aftur á ferðinni??

Í öllu falli þá er þessi dagur liðinn og kemur aldrei aftur, ég dvel ekki lengur við hann.  Horfi bjartsýn fram á veginn og vona að dagurinn á morgun verði áhugaverðari og skili meiru af sér. Nú ætla ég þrjú skref áfram, ekkert ,,afturábak” :)