Örlög?

21. maí 2007

Margt er skrítið í henni veröld. Hér sit ég kl. 01.30 við tölvunni og bíð eftir nýjum ættingja í ofvæni.  Systurdóttir mín komin í keisara og ég fjarri góðu gamni.  Öðru vísi mér áður brá! Ekki varð svo gott að ég gæti verið hjá henni eða systur minni í þetta sinnið.

Ég gat hins vegar vonandi orðið að liði á öðrum vettvangi síðustu daga. Önnur systurdóttir mín er að ljúka embættisprófi í ljóðsmæðrafræðum og ég var svo heppin að fá að lesa yfir lokaverkefni hennar.  Ótrúlega gott verkefni og faglega unnið við ákaflega erfiðar aðstæður. Mín var ekki lítið ánægð að vera beðin um að lesa yfir, mér finnst það mikil viðurkenning. Hún er hins vegar, nokkrum klst. eftir að hafa sent frá sér lokaverkefnið, að sinna frænku sinni og stendur keisarann! Er ég að rifna úr stolti og “abbó”?

Sérfræðingurinn á vakt sem framkvæmir keisaraskurðinn er æskuvinkona mín og skólasystir úr Garðahreppi; Hildur Harðar.  Einn sá færasti kvensjúkdómalæknir sem við eigum.  Tilviljun????

Það er svo einkennilegt hvernig örlögin haga hlutum. Ég tel mig eiga ansi mikið í þessum tveim systurdætrum mínum og var sú eldri hjá mér í mörg sumur frá 9 ára aldri að gæta minna barna.  Síðar tók hún sín fyrstu skref í starfi innan heilbrigðisgeirans undir mínum verndarvæng og þótti mér ekki leiðinlegt að geta “skólað hana til”.  Var á meðan var :) Ætli dæmið sé ekki að snúast við?

Sú yngri er 2 árum yngri en Katan mín og er að fæða sitt fyrsta barn. Þær frænkur voru eins og systur í “den”.  Auðvitað pantaði hún hina væntanlegu ljósmóður að taka á móti sínu barni. Saran hefur alltaf verið okkur nátengd, líkt og Aujan þannig að ég er í þeirri einkennilegu stöðu að vera fjarri þeim báðum.

Er búin að stefna markvisst á vesturferð um helgina en staldraði við, bæði til að hjálpa Aujunni og vera til taks fyrir “Sys” og Söruna.  Auk þess stóð Katan í stórræðum, tók sjúkrapróf á laugardag og búin að vera stanslaust að síðan fyrir eðlisfræði síðan sem hún tekur próf í eftir nokkrar klukkustundir. Ekki voru beinverkir og hitavella hvetjandi

Í öllu falli tel ég að manni sé stundum stjórnað af “öðrum”. Mér var greinilega ekki ætlað að fara vestur eins og til stóð. Mér þótti það ekki gott til að byrja með, búin að vera á leiðinni svo lengi og nú skyldi það standa. Mér fannst það hins vegar engin spurning að verða að liði þegar til þess kom og ekkert lítið ánægð með það.

En rosalega er það súrt að sitja heima og vera fjarri nú, þegar Saran er í keisara og litla skottan væntanleg.  Ég neita því ekki að ég verð pínu reið út af veikindunum. Þau svipta manni öllu í raun. Að vera eins og einhver puntudúkka fer ekki vel í mína. Ég ætla rétt að vona að það dæmi snúist við og það hið snarasta! Það hefur aldrei farið vel í mig að láta stoppa mig; allra síst í starfi og í því sem lýtur að fjölskyldunni.

Ef eitthvað er hefur þessi staða hert mig í því að komast út úr þessum fj………….. veikindum. Ég skal ná fyrri getu og þrótti, ef ekki meiri! Ég urra á beinverkina og hitavelluna sem pirra mig meir en margt annað. Ég skal :)   Ég hef þolað þessa “beinverki” og hitavellu í meira en 20 ár, mig munar ekkert um önnur 20.

En vestur fer ég, segi ekki aukatekið orð um þær áætlanir; ég bara mæti þegar að því kemur :)  Ég sé það hins vegar eftir á að það virðist alltaf vera skýring á öllu og við ráðum ekki við allt.

Kl. 02.32: var að fá fréttir: lítil dama fædd kl. 01.45, dökkhærð með spékoppa báðum megin. Til hamingju Sara mín og Sigrún!

Ný tækifæri

19. maí 2007

Mér var mikið létt þegar ný lög um heilbrigðisþjónustu voru samþykkt á nýafstöðnu þingi. Tel ég það fyrirkomulag sem lögin kveða á um breytta skipan heilsugæsluumdæma, stuðla að öflugri heilbrigðisþjónustu.  Á það ekki síst við um víðfeðm og strjálbýl byggðalög. 

Ef ég hef skilið skiptingu landsins í heilsugæsluumdæmi rétt, verður Sjúkrahúsið og heilsugæslustöðin á Akranesi með “yfirstjórn” þannig að heilsugæslustöðvarnar á Hólmavík, í Búðardal, í Borganesi, á Snæfellsnesi o.frv. starfa ekki lengur sem sjálfstæðar einingar, rekstrarlega og stjórnunalega séð.  Þetta fyrirkomulag hefur verið prófað á Vestfjörðum og Austurlandi þar sem það hefur gefið góða raun.

Þjónustan þykir samfelldari og auðveldara er að tryggja mönnun stöðugilda. Á það ekki síst við um þau læknishéruð þar sem einungis 1-2 læknar eru starfandi og stöðugt á bakvakt, hvort heldur heima í héraði eða í fríum sínum erlendis.  Alltaf á vaktinni, árið um kring eins og við þekkjum með okkar lækna.

Vaktabyrðin minnkar sem sé og reynslan sýnir að fagmennskan er meiri enda fleiri tækifæri til sí- og endurmenntunar o.s.frv. Einhverjir kunna að vera súrir við að missa spón úr eigin aski en staðreyndin er sú að hagvæmni er mikil skatttekjum betur varið.

En það eru fleiri ljósir punktar í lögunum, ekki síst fyrir mig.  Kannski get ég farið að starfa fyrr í heimabyggð en mig óraði fyrir og þá við mitt fag og í samræmi við mína menntun.  Í septmeber nk. aukast möguleikar hjúkrunarfræðinga til sjálfstæðs reksturs. Þeir geta tekið að sér afmarkaða þætti í heilbrigðisþjónustunni líkt og aðrir heilbrigðisstarfsmenn. Þá þjónustu myndu þeir vinna í samræmi við þjónustusamninga.

Ég gæti sem sé hugsanlega opnað sjálfsætt starfandi hjúkrunarstofu og tekið á móti sjúklingum til meðferðar, eftirlits og fræðslu. Auk þessa gæti ég veitt sérhæfða hjúkrunarþjónustu á heimili sjúklinga.  Með þessum hætti getum við, hjúkrunarfræðingar,  komið að sveigjanlegri hjúkrunarþjónustu sem kæmi til móts við þarfir og getu hvers sjúklings á hverjum tíma.  Og það mikilvæga er að sjúklingurinn fengi valkost í hjúkrunarþjónustu líkt og þegar er til staðar í læknisþjónustu, þjónustu sjúkraþjálfara, sálfræðinga o.s.frv.

Það skyldi þó ekki skapast tækifæri til að nýta menntunina í hjúkrun, stjórnun, kennslu og meistaranámið í viðskiptafræðinni? Í öllu falli er þetta kostur fyrir mig í stöðunni sem er vert að skoða vel, ekki síst í ljósi þess að hjúkrunarþjónusta er af skornum skammti hjá okkur.  Ekki er gert ráð fyrir nema örfáum stöðugildum sem anna með engu móti þeirri þörf sem er í raun fyrir þjónustunni.

Tíminn flýgur

18. maí 2007

Það er aldeilis hvað tímin  flýgur, laugardagur á morgun og mér finnst eins og mánudagur hafi verið í gær.

Gríðalegt álag á Kötunni minni, er gjörsamlega að drukkna í próflestrinum. Mætir í sjúkrapróf í íslensku á morgun sem gat ekki hitt á verri tíma. 7 ein. próf í eðlisfræði á mánudag!  Krakkarnir verða að lesa 4 ára pensúm til stúdentsprófs þannig að það er meira en nóg að gera hjá minni. Eina sem ég get gert er að tryggja að hún borði og taki inn vítamín, ekki veitir af.´

Heilsan hefur ekki verið til að hrópa húrra fyrir, verkjuð og með hita síðustu daga.  Fer samt ekki ofan af því að þetta er allt að koma þó hægt gangi.  Mér hættir til að gleyma því að ég er að fara í gang eftir 7 mánaða töff meðferð og skurð þar áður. Þrekið kemur ekki einn og tveir, þó ég hefði hefði helst kosið það! Eitt skref í einu…………

Ekki laust við að ég kvíði næstu 4 árum ef sjálfstæðismenn og samfylkingarfólk taka við völdum. Ansi hrædd um að einkavæðing haldi áfram af gríðalegum krafti, ekki síst í heilbrigðiskerfinu.  Hvorugur þessa flokka ber hag landsbyggðarinnar fyrir brjósti, þeim er í raun nokk sama hvernig fer á þeim málefnum. Suðvesturhornið er það eina sem skiptir máli.  Ég sé fyrir mér enn meira kvótabrask og vaxandi erfiðleika í sjávarbyggðum landsins. Lengi getur vont versnað! Það kemur til með að harðna í dalnum hjá bændum er ég hrædd um og spái ég því að innflutningur verði gefinn frjáls áður en langt um líður. Biðlistar eiga eftir að  lengjast svo um munar, reynslan af Ingibjörgu Sólrúnu í Reykjavíkurbog, segir allt sem segja þarf í þeim efnum.  ÚFFF!!!!!!!!!

Í raun er þessi Baugsstjórn það versta sem getur komið yfir okkur landsmenn.  Ég ber þó þá von í brjósti að samstarfið springi áður en langt um líður.  Geir og Ingibjörg vilja bæði ráða og stjórna en það er einungis pláss fyrir einn leiðtoga. Sú staðreynd að bæði fóru á bak við sína viðmælendur kann ekki góðri lukku að stýra.  Allar líkur eru á því að falsið haldi áfram.  Ég get ekki annað en tekið undir orð Guðna Ágústssonar; stjórnarviðræður við framsóknrmenn var farsi og aldrei nein meining á bak við viðræðurnar.  Svona gera menn ekki án þess að fá það aftur í hausinn.

Ég treysti ekki þessum tveim flokkum til að stjórna landinu næstu 4 árin. Ég hefði viljað sjá kaffibandalagið halda, með framsókn innanborðs.  Flókin stjórn að vísu, en áherslur á margan hátt svipaðar og unnt að veita Samfylkingunni aðhald. Löngu tímabært að hvíla sjálfstæðismenn frá stjórnarsamstarfi.  Þeir virðast hafa ótakmarkað vald sem þeir beita óspart sér og sínum til handa og ekkert virðist geta stöðvað þá spillingu.

Stjórnarandstaðan verður núll og nix á þingi, einungis 20 þingmenn á móti 43.  Hún getur vissulega látið í sér heyra en ég er ansi hrædd um að kraftar stjórnarandstöðunnar fari í að reyna að svipta hulunni af ýmsum misfellum. Ótrúlegt hvað Ingibjörg Sólrún var fljót að snúa við blaðinu og það strax á kosninganóttinni. Menn hljóta að sjá í gegnum hana, fyrr en síðar.  Geir er refur, það hefur hann svo sannarleg sýnt síðustu sólahringana. Fer hljótt og læðist þar til að hann tekur stökkið! Skiptir þá engu hverjir liggja í valnum. Hann fer sínu fram.

Framsóknarmenn þurfa að snúa sér að því að byggja upp innra starf og endurheimta fyrri trúverðugleika.  Margir hafa yfirgefið sökkvandi skútuna en forystan hlustaði ekki. Ég fer aldrei ofan af því að framkoma forystunnar í garð Kristins H verður þeim þungur baggi enda sýndu þeir sitt rétta eðli í þeim málum. Verði engin breyting á, er einungis spurning um það hver verður næstur.  Þeir hljóta að verða að finna einhvern blóraböggul nú þega Kristinn er farinn.  Færri þingmenn hafa hins vega verið jafn trúir stefnu og sýn Framsóknarflokksins og hann.

Ég get ekki séð hvernig Jón Sigurðsson ætlar að leiða flokkinn áfram, komst ekki inn á þing og hefur því lítil áhrif. Hann gerði þau mistök að lofa að ná sáttum og einingu innan flokksins en gleymdi þeim loforðum jafnharðan.  Ekki er að finna neinn sterkan einstakling til að taka við formennsku í flokknum.  Guðni búinn að glata því tækifæri sem hann hafði til að snúa vörn í sókn.  Nú sitja menn rassskelltir, með allan skaðan og þeir sem eitthvað er spunnið í, eru farnir.  Sjálfstæðismenn sleppa algjörlega við gagnrýni og njóta trausts til áframhaldandi verka.

Mér finnst það synd hvernig komið er fyrir Framsóknarflokknum.  Stefnumál hans sem miðjuflokkur, með áherslur á velferð einstaklingsins ofar auðgildi, eiga virkilega erindi til.  þjóðarinnar.  Ég veit að ég sannfærðist á sínum tíma.  Forystan hefur hins vegar ekki borið þá gæfu síðasta áratuginn að fylgja henni eftir, hvorki í orði né á borði.  Spilling og klíkumyndanir hafa í raun étið innviði flokksins upp að innan. Hann er hruninn eftir 90 ára sögu í íslensku stjórnmálalífi og hann einn fær skellinn fyrir sameiginlega verk fráfarandi ríkisstjórnar. 

Það er nefnilega alltaf svo að menn uppskera eins og þeir sá og það á jafnt við um alla!

Eitt og annað

16. maí 2007

Mér skilst að gárungar hafi sent út eftirfarandi vefslóð til heiðurs Geirs Haarde fyrir kosningar.  Hvet alla til að kíkja á hana :)   Svei mér ef það er ekki gott að hlæja stundum!

http://www.carmex-kiss.de/index.php?meintanz=247640513837

Svipað hérna megin og síðustu daga.  Fremur verkjuð og áfram bölv….. aumingi þegar kemur að framkvæmdum.  Ef ég skúra í kringum mig, ber ég þess ekki bætur þann daginn og finn fyrir því þann næsta.  Gaman, gaman :(    Ég hef það oft á tilfinningunni að ég sé eins og kjagandi gæs sem kemst vart áfram úr sporunum.

Er samt óþreyjufull og hreinlega NENNI ekki að vera einhver postulínsdúkka uppi í sofuskáp, íklædd bómul og fíneríi. Læt mig frekar hafa verkina og slappleikann og píni mig, hef þá komið einhverju í verk og áorkað einhverju.

Langar að hlaupa út í vorið og sveitina. Ég fæ ábyggilega víðáttubrjálæði þegar heim er komið. Neita því ekki að ég kvíði samt fyrir, ekki síst til að byrja með. Finnst nöturlegt að vera ekki í sauðburði. Þó hann sé erfiður er ekkert sem toppar þær vikur. 

Í staðinn verð ég að láta mig duga að “moldvarpast” og hamast í garðvinnu þegar að því kemur.  Þess á milli að halda áfram með “skáldsöguna” mína, svei mér ef hún verður ekki nokkur bindi ef allt er tekið með ……

Hætt að plana fram í tíman, læt hvern dag nægja sína þjáningu og tek ákvarðanir að morgni hvers dags eða um hádegi. Hef nefnilega þann hvimleiða ósið að vakna á milli 5-6 á morgnana, bíða eftir blöðunum og lesa þau spjaldanna á milli.  Það er auðvitað svo lýjandi að ég hreinlega “verð að leggja mig” á eftir.  Stundum teygist einum og úr þeim lúr sem á að vera stuttur hænublundur.  Dagurinn vill því verða heldur stuttur í annan endann…..

Dagamunur

15. maí 2007

Það er ansi mikill dagamunur ennþá heilsufarslega séð. Suma dagana finnst mér ég fær í flestan sjó en aðra eru afköstin rýr.  Tíminn flýgur áfram og mér finnst ekkert ganga hjá mér.

Þó er það svo að allt er þetta á uppleið eins og ég hef áður sagt en stundum eru skrefin aftur á bak en ekki áfram.  Þó mjakast þetta í rétta átt og auðvitað á ég að vera ánægð með það.  Ég hef löngum verið þekkt fyrir bunugang og litla þolinmæði. Vil bara hespa hlutum af. Úff, hvað er erfitt stundum að bíða eftir því að allt fari í eðlilegan farveg…….. :(

Ekki ætti ég að vera að kvarta miðað við marga sem svipað er ástatt um.  Ekki blæs byrlega hjá Ástu Lovísu þessa dagana, búin að fá sinn úrskurð; ólæknandi.  Er rúmlega þrítug.  Vinkona hennar, 38 ára með lungnakrabamein, átti að vera í góðu bataferli. Það snérist upp í öndverðu sína á skömmum tíma.  Hún er einnig ólæknandi. Báðar með lítil börn.  Slíkar fréttir hrista upp í manni. Hvað er ég að væla þó ég komist ekki á fjöll og ekki sé allt í tipp topp ástandi heima hjá mér! Auðvitað á ég að skammast mín og þakka fyrir þann tíma og tækifæri sem ég fæ.

Vissulega hugsa ég um sjúkdóminn og innst inni reikna ég alltaf með því versta.  Horfurnar eru góðar, tölfræðilega séð og ég get vel við unað.  En ósjálfrátt lít ég ekki á þann tíma sem mér er úthlutaður sem sjálfsagðan hlut. Hann er afmarkaður hjá mér eins og öllum öðrum. Ég var einfaldlega minnt á það. Allt getur gerst í stöðunni; ég get náð 5 ára lífslíkunum, fengið þess vegna 10-20 ár og jafnvel orðið allra kerlinga elst. En ég geng ekki að því vísu og finnst ekkert sjálfsagt og sjálfgefið í lífinu.

Því vil ég nýta tíman vel. Hef verið óvinnufær síðan í byrjun október en var í raun orðin það sl. vor.  Ég hékk á þrjóskunni held ég!  Varð auðvitað loks að gefa eftir en það var ekkert auðvelt að lúffa enda með greiningu upp á slitgigt!  Það er svo önnur saga sem bíður betri tíma og er í líkingu við allt annað sem ég hef upplifað í heilbrigðiskerfinu. Það hefði óneitanlega verið auðveldara að kljást við veikindin, hefðu þau greinst fyrr og afleiðingarnar vafalaust orðið minni.

Í öllu falli langar mig ekki til að eyða fleiri vikum og mánuðum í veikindi, vil endurheimta þrek og styrk til að halda áfram.  Ég verð enn og aftur að bíta á jaxlinn og þreyja þorrann. Hænufet eru ekki löng skref en á meðan þau eru áfram, svona á heildina litið, verð ég að sætta mig við þá smá sigra. En ósköp er ég fegin að þessi dagur er að baki og kemur aldrei aftur.

Að loknum kosningum

14. maí 2007

Þá liggja kosningaúrslitin fyrir eftir ansi spennandi kosninganótt.  Alveg með ólíkindum hvernig talningu er háttað í Norðvesturkjördæmi. Frétti að engin gögn hefðu farið frá Vestfjörðum fyrr en um miðnætti og þá með flugi til Reykjavíkur.  Þaðan var keyrt með kjörkassana í Borganes.  Ótrúleg hringavitleysa allt saman enda lágu úrslitin í kjördæminu ekki fyrir fyrr en á 10. tímanum í morgun.

Okkar maður fór inn, ég er ekkert lítið ánægð með það enda þurfum við á honum að halda. Hún er hins vegar einkennileg staðan eftir kosningarnar, stjórnin hélt velli með eins manns meirihluta.  Jón, formaður Framsóknarflokksins komst ekki inn á þing og fylgi flokksins í sögulegu lágmarki.  Engu að síður er formaðurinn kominn í stjórnarmyndunarviðræður við sjálfstæðismenn en biðlar um leið til vinstri flokkanna.

Einhvern veginn finnst mér ekki lýðræðislegt að Jón fari í ríkisstjórn þar sem hann nýtur ekki það traust kjósenda sem til þarf til að komast á þing.  Mér finnst það siðlaust að hann skuli yfir höfuð vera að íhuga slíkan möguleika og finnst hann ekki koma til greina sem ráðherra.  Kjósendur hafa hafnað honum og skilaboðin þess efnis eru mjög skýr. Nú eiga menn að huga að innra starfi flokksins og byggja hann upp. Það eitt er ærið starf.

Annars hafði ég gaman af því þegar hann nefndi það í Kastljósi að það væri búið að vera stefnan innan Framsóknarflokksins lengi að ráðherrar afsöluðu sér þingmennsku þannig að varamenn kæmu inn.  Flott leið til að fjölga þingmönnum en það sem stingur í stúf er að Kristinn hefur ítrekað lagt fram tillögu þessa efnis við dræmar undirtektir flokksforystunnar. Tilgangur hans var þó annar, þ.e. að auka vægi almennra þingmanna.  Þær eru orðnar nokkrar hugmyndirnar hans Kristins sem flokkurinn hefur gert að sínum upp á síðkastið.  Þær féllu hins vegar í grýttan jarðveg þegar hann setti þær fram.  Mjög athyglisvert að fylgjast með þeim málum.

Aldrei fór ég vestur ………….  eins og ég hafði látð mig dreyma um þessa helgi. Það er alveg með ólíkindum hversu áætlanir mínar standast illa.  Nú er ég steinhætt að plana, ég legg bara af stað, þegjandi og hljóðalaust þegar ég er það hress að geta það. Ég er þess fullviss að heilsufarið sé á uppleið, svona almennt séð. Auðvitað koma dagar sem eru vondir, þessi er t.d. einn af þeim en yfirleitt er ástæðan sú að ég hef verið að bardúsa eitthvað og farið fram úr sjálfri mér.  Þá fer næsti dagurinn í slappleika og verki sem eru býsna miklir ennþá, svona löngu eftir aðgerð.  Það var svo sem  búið að vara mig við því að verkirnir yrðu til staðar í langan tíma.

Í öllu falli er ég farin að reyna að grynnka eitthvað á draslinu og rykinu í kringum mig sem hefur safnast upp í allan vetur.  Sé það alltaf betur og betur hversu mikið það hefði hjálpað ef ég hefði fengið heimilishjálp þegar ég var sem verst.  Enn á ég erfitt með sum heimilisstörfin, t.d að ryksuga sem mér gengur illa með. En allt er þetta að koma, hænufetin safnast saman þannig að mikill munur er á mér í dag miðað við síðustu viku.

Mér er greinilega ætlaður lengri tími hér á jörð og nú er bara að nota þann tíma vel.  Ég er ansi hrædd um að áherslur og forgangsröðun verði með öðrum hætti en áður en ég veiktist.  Ég hef yfirleitt unnið 130-150% starf utan heimilis síðustu 26 ár enda þurft þess.  Ég hef aldrei tekið mér sumarfrí í þeirri merkingu orðsins, hef alltaf farið annað að vinna í fríum.  Vissulega yrði allt auðveldara ef ég gæti unnið í heimabyggð en mér er það ljóst að það verður ekki í bráð, a.m.k. ekki á meðan “vinir mínir” verða við völd. Hæfni hefur þar ekkert að segja. Mér er því ljóst að ég verð að starfa utan héraðs líkt og síðustu 3 1/2 árin og þannig er það einfaldlega. Ég er hins vegar ekkert á förum.  Sumir verða að því bíða enn um stund eftir því. 

Ég hef verið spurð að því hvort ég sé haldin sjálfseyðingahvöt með því að fara ekki úr Dölum en það er nú einu sinni svo að mér þykir vænt um Dalina og þar vil ég vera.  Fæstir skilja það hins vegar eftir allt sem undan er gengið en meirihluti Dalamanna er öndvegis fólk. Völdin hafa hins vegar safnast á fárra hendur sem ekki hafa borið gæfu til að fara rétt með þau og setja eigin hagsmuni ofar hagsmunum íbúanna og byggðalagsins. Þeim verður einhvern tímann á, einungis spurning um tíma. Þeir verða ekki öfundsverðir þá, það kemur alltaf að skuldadögunum.

Annars er annatími framundan.  Það styttist óðfluga í útskriftina hennar Katrínar sem verður 1. júní og við ekki komnar almennilega af stað í undirbúningnum.  Stendur allt á sal þessa stundina en hlýtur að fara að skýrast. Skvísan er hálfnuð í prófunum sem eru farin að taka toll af minni enda er prófað úr námsefni 4 ára í hverju fagi.  Hún kemst í gegnum það eins og hennar er von og vísa.  Haffi á fullu úti og bráðlega skýrist hvenær hann sér fram á heimkomu sem verður þó aldrei fyrr en eftir miðjan júní.  Lífið er smátt og smátt að taka á sig hefðbundna mynd en ég mun forgangsraða á annan hátt en áður og áherslurnar breytast.  Maður er sífellt að læra og þroskast. ,,Minn tími mun koma” sagði einhver………………….

Nóg komið!

11. maí 2007

Nú segi ég stopp með Evróvision!  Íslendingar eiga að draga sig út úr keppninni eftir niðurstöður gærkvöldins. Það er augljóst, líkt og fyrri ár, að Austantjalds blokkin á keppnina. Aðrir Evrópubúar eiga ekki möguleika. Við þurfum ekki frekari sannanir =(

Ég hef fylgst með Evróvision frá því sendingar hófust hér heima og aldrei misst úr keppni. Alltaf verið stolt af framlagi okkar nema í fyrra en þá hafði ég greinilega ekki réttan húmorinn. Mér fannst Eiríkur og félagar hans stada sig frábærlega vel og engin spurning,miðað við lagaúrvalið og ekki síst frammistjöðu þeirra,  að þeir áttu að komast upp úr undanúrslitunum.  Það er hins vegar á kristaltæru að það hefði engu máli skipt hvernig okkar framlag hefði verið, það hefði aldrei dugað til.  Ekki einu sinni þó við sendum Garðar Cortes, Eirík Fjalar eða Björk.  Við tilheyrum ekki rétta hluta Evrópu. Ég er sármóðguð fyrir hönd okkar Íslendinga.

Hins vegar er eitt jákvætt við stöðuna. Nú getur maður einbeitt sér að kosningunum og öllu þeim tengdum og minni hætta á því að Evróvision hafi neikvæð áhrif á kjörsókn. Í fyrsta skipti, EVER, mun ég ekki horfa á Evróvision og stend við það. Þá er fokið í öll skjól!

Nú er að einbeita sér að því að leggja sitt á vogaskálarnar og hafa áhrif á myndun næstu ríkisstjórnar. Vilja menn óbreytt ástand eða breytingar? Í öllu falli skiptir hvert einasta atkvæði máli.  Við viljum Kristinn inn á þing, hann er einn af fáum sem ber hag kjósenda og landsbyggðarinnar í brjósti.  Öll hans vinna og í raun hans líf helgast af þeim markmiðum að tryggja framgang byggðalaganna og tryggja jafnrétti í víðasta skilning þess orðs.

Fáum treysti ég betur til að stuðla að sanngjarnari úthlutun og fyrirkomulagi í  sjávarútvegi.  Engum betur treysti ég til að vera málsvara landbúnaðarins og tryggja velferð bænda, í fullu samráði við þá. Hann hefur ekki legið á liði sínu gagnvart sláturhúsamalum okkar Dalamanna. Ég er ansi hrædd um að hlutur Byggðastofnunar væri meiri í húsinu og skuldrinar löngu búnar að drekkja okkur, ef hans hefði ekki notið við.

Heilbrigðismál þarf vart að nefna, stefna hans er skýr í þeim efnum sem öðrum. Við eigum m.a. honum að þakka viðurkenningu á hjúkrunarrýmum á Fellsenda og þeim leiðréttingum sem við fengum þar fyrir nokkrum árum og síðar á Silfurtúni.  Mér skilst að þau mál séu í uppnámi í Silfurtúni sem segir allt sem segja þarf um þá sem ráða nú för.  Hann hefur beitt sér af alefli í byggðamálum og svona get ég lengi talið.  Við þurfum einfaldlega á honum að halda, það er engin spurning! Trúverðugleiki og traust skiptir öllu máli og hann býr yfir hvorutveggja í ríkum mæli. 

Hvet alla til að fara inn á síðu Kristins; www.kristinn.is. Snúum neikvæðri byggðaþróun og fjársvelti við.

Góðar fréttir

10. maí 2007

Fékk loks niðurstöðurnar úr rannsókninni sem ég fór í út af rifbeinsbrotinu.  Allt í eðlilegum gír og engin merki um meinvörp þannig að ég slepp í þetta sinn. Mikill léttir, leyfði mér ekki að vera bjartsýn í þessum efnum. En.. hjúkett…………! Eins og unglingarnir segja.

Nú eru það bara hænufetin, eitt á dag og vonandi fer þetta allt af koma. Þarf svo sannarlega að fara auka þrekið og úthaldið svo ég fari að komast í vinnu.

Allt á fullu hjá Kötunni í próflestrinum, fer að verða hálfnuð :) Hún stendur sig eins og hetja en orðin ansi lúin.  Ákvað sjálf að nú væri tími kominn á vítamín!  Hörkutörn framundan hjá Haffanum, skólinn að verða búinn og styttist í lokaprófin. Drengurinn loks farinn að blogga, mér til ómældrar ánægju. Búin að uppfæra vefslóðina hans.

Það styttist heldur betur í kosningar. Spennan hlýtur að vera yfirþyrmandi á sumum vígstöðvum, alla vega.  Vona að gangi vel hjá bróður, bið alla sem til hans þekkja að hugsa til hans á  kjördag. Hann hefur reynst okkur Dalamönnum betri en enginn, við verðum að tryggja hann áfram á þingi :)

Málefni innfytjenda

9. maí 2007

Ég hef að undanförnu verið að skoða málefni innflytjenda og ýmislegt rekið á fjörur mínar í þeim efnum.  Þar á meðal hef ég komst yfir nokkrar skýrslur nefnda sem félagsmálaráðuneytið hefur skipað á síðustu 12 árum, m.a. til að kanna stöðu innflytjenda í landinu og koma með tillögur.  Í þessum skýrslum sem eru nokkur hundruð blaðsíðna, benda nefndarmenn stjórnvöldum á að mikill vandi sé til staðar í þessum efnum og í raun eru niðurstöður þeirra samhljóma fyrstu skýrslunum sem voru gefnar út fyrir 12 árum! Sem sagt, engar framfarir í málefnum innlfytjenda, heldur allt niður á við.

Það sem m.a. kemur fram í þessum skýrslum er að innflytjendur, sem vinna “óþrifalegustu” og lægst launuðu störfin í flestum tilfellum, hafa ekki fengið tækifæri til að aðlagast íslensku samfélagi.  Það sem meira er, Íslendingar hafa ekki aðlagast þeim!.  Í landinu eru töluð yfir 50 tungumál enda koma innflytjendur víða að, með ólíkan bakgrunn, menningu og gildi. Þeim hefur ekki verið vel tekið hér.

Engin einn opinber aðili hefur haft yfirumsjón og eftirlit með málefnum innflytjenda frá því að þeir fóru að koma hingað til landsins. Mörg ráðuneyti koma að málefnum þeirra, s.s Dómsmálaráðuneytið, Menntamálaráðuneytið, Félagsmálaráðuneytið og Heilbrigðsiráðuneytið.  Í skýrslunum er aftur og aftur bent á að engin samræming sé á milli ráðuneytanna og samvinnan lítil ef þá nokkur.

Lög um útlendinga, sóttvarnir o.fl. eru í gildi hér á landi en minna virðist vera um eftirfylgni.  Fyrir nokkru breyttust t.d. lög sem kveða á um heilbrigðsvottorð þannig að þeir innflytjendur sem koma frá löndum innan EES svæðisins er ekki lengur skylt að undirgangast læknisrannsókn hér á landi.  Þeir geta einfaldlega komið með heilbrigðsivottorð að heiman, einu kröfurnar eru þær að það sé búið að þýða þau á íslensku.  Læknar og fleiri heilbrigðsstarfsmenn hafa haft miklar áhyggjur af þessum málum og telja hættuna á aukningu smitsjúkdóma mikla.

Um 12 þús. innflytjendur komu til landsins á síðasta ári og eru það opinberar tölur.  Enginn veit með fullri vissu hvort þær eru réttar. Nefndarmenn á vegum Félagsmálaráðuneytisins hafa haft af þessu nokkrar áhyggjur. Atvinnurekendur þurfa að greiða fyrir dvalar- og atvinnuleyfi sinna starfsmanna.  Auk þess ber þeim að greiða fyrir læknisrannsóknir og heilbrigðisvottorð og kaupa sjúkratryggingu upp á 30-60.000 kr. fyrir hvern starfsmann þar sem innflytjendur komast ekki inn í sjúkratryggingakerfið fyrr en í fyrsta lagi eftir 6 mánuði. Þetta er kostnaðarsamt fyrir atvinnurekendur og mikill misbrestur á að þessum verklagsreglum sé fylgt eftir.  Sterkur grunur er því um að mönnum sé “smyglað” fram hjá kerfinu en enginn gerir sér grein fyrir fjöldanum.

Stjórnvöld, atvinnurekendur og stéttarfélög bera ábyrgð á aðlögun innflytjenda hér á landi. Þeim ber, skv. lögum að tryggja þeim tungumálakennslu og jafnan aðgang að menntakerfinu. Stjórnvöld bera einnig ábyrgð á því að innflytjendur hafi greiðan aðgang að velferðarmálum, s.s. húsnæði sem og greiðan aðgang að heilbrigðiskerfinu. Niðurstöður allra þeirra nefnda sem hafa verið skipaðar af Félagsmálaráðuneytinu eru á sama veg; mikill misbrestur er á því að lögum um innlfytjendur sé framfylgt. Brotið er á mannréttindum innflytjenda, þeir sitja ekki við sama borð og við Íslendingar.

Afleiðingar koma ekki á óvart, vandamál hafa skapast í víðum skilningi þess orðs. Innflytjendur hópa sig saman í hverfum og einangrast frá Íslendingum, mikið brottfall er úr skólum, ekki síst út af tungumálaörðugleikum og bágri fjárhagslegri stöðu.  Í mörgum tilfellum er innfluttum verka- og iðnaðarmönnum hrúgað inn í ólöglegt húsnæði og búa við þröngan kost.  Innflytjendur hafa ekki greiðan aðgang að heilsugæslunni og heimilislæknum, laun innflytjenda eru lægri en almennt gerist hjá Íslendingum og svona má lengi telja.

Í öllu falli eru niðurstöðurnar daprar og skömm fyirir þjóðina. Stjórnvöldum og atvinnurekendum hefur mistekist að framfylgja hlutverki sínu og stéttafélögin ráða ekki við neitt.

Staða innflytjenda hefur farið hljótt enda skal engan undra.  Það hentar ekki stjórnarflokkunum að staðreyndirnar komi fram. Það hentar heldur ekki atvinnurekendum sem hafa hagsmunum að gæta. Þeir spara á meðan þögn ríkir.

Mig skal ekki undra þó heilbrigðisráðherra og stalla hennar, Sæunn, skyldu leggja sig fram við það að skapa múgæslingu og kalla “rasismi” þegar frjálslyndir reyndu að benda á þessar nöturlegu staðreyndir og fengu dyggan stuðning frá  forsvarsmönnum Samtaka atvinnulífsins. Að slá ryki í augu kjósenda með þessum hætti þjónar auðvitað þeim tilgangi að breiða yfir “skítverkin”. En sannleikurinn kemur alltaf í ljós, það er nú bara þannig. Hann verður stjórnarflokkunum ekki til framdráttar þegar upp kemst, hvorki sem stjórnmálaafli né þeim persónum sem standa að baki vanefndum og í raun misþyrmingu á þeim útlendingum sem hér vilja búa!

Ég geri mér alltaf betur og betur grein fyrir því að frjálslyndir sýndu fádæma kjark þegar þeir hófu umræðuna um innlfytjendur og málefni þeirra sem sumir þeirra þekkja af eigin raun. Þeir lögðu mikið undir þetta réttlætismál til að freista þess að koma réttindum og öðrum málefnum innflytjenda í viðunandi horf.  Uppskeran hefur ekki verið í samræmi við þá viðleitni og þeir ranglega dæmdir fyrir að ,,daðra við kynþáttahatur”. Ótrúleg herkænska framsóknarmanna.  Ég hef ekki trú á því að kjósendur láti blinda sig til langframa af slíkum ranghugmyndum. Þeir eru farnir að sjá í gegnum þetta óþveraplott sem er hin mesta hneisa fyrir þá kjörnu fulltrúa sem komu þessum ranghugmyndum af stað.

Eins og maður segir gjarnan við börnin sín; Skamm! Svona gerir maður ekki!

6. maí liðinn

7. maí 2007

Afmælisdagur Guðjóns var í gær.  Átti ekki auðvelt með að blogga né hafa samband við aðra enda hugurinn út um víðan völl.   

Fastir punktar eins og afmælisdagar ýfa gjarnan upp sárin og maður er minntur á að ekkert er fast í hendi í þessu lífi.  Þó liðnir séu 2 1/2 mánuður frá andláti hans get ég ekki sagt að sársaukin sé eitthvað minni. Sagt er að tíminn lækni öll sár og má það vel vera en ég veit að það ferli getur tekið mörg ár. Nú eru liðin rúm 7 ár síðan að móðir mín fór en vantar 3 mánuði upp á 7 árin frá því að faðir minn fór.  Enn er sársaukinn óbærilegur á stundum og lítið þarf til að kalla fram tárin.  

Á stundum sem þessum finnst mér ég hreinlega vanta björgunarhringinn til að komast í gegnum þessar öldur sem mér eru úthlutaðar.  Hver er eiginlega tilgangurinn með þessu öllu saman?  Hvaða lærdóm á maður að draga af ástvinmissi og alvarlegum veikindum? Kannski þann að allt er í lífinu hverfult og að við stöldrum aðeins tímabundið hér á Móður Jörð?  það vitum við öll fyrir. Trúlega eru erfiðleikarnir til þess gerðir að gera mann sterkari og þroskaðri.  Sterkari og þroskaðri til hvers??  Ég fæ auðvitað engin svör en hvernig getur maður annað en spurt og velt vöngum?

Enn berast mér kjaftasögurnar að heiman.  Mér er svo sannarlega ætlað að vera kyngimögnuð kona með alla þræði í hendi mér. Líf og limi annarra svo fátt eitt sé nefnt.  Sögurnar eru oft með svo miklum ólíkindum að ég get ekki stillt mig um að velta fyrir mér hvers konar lífi sögusmetturnar lifa.  Það hlýtur að vanta krydd í tilbreytingalaust líf þeirra þar sem þær skapa sögusvið af þvílíku hugmyndaflugi að maður tekst hreinlega á loft og “lifir sig inn í söguna”. Andargiftina og skáldsagnahæfileikann skortir ekki á þeim bæjum. Efniviðurinn í skáldsöguna mína ,,Dalalíf” safnast upp.  Það verður vandi úr að velja.

Í öllu falli býta þessar frægðarsögur um mig grunnt enda hugurinn við önnur og alvarlegri málefni þessa dagana. Það hefur því verið gott að skríða inn í skelina og sleikja sárin þar.

Svo kaldranalegt sem það er þá snerpir andlát ástvina vitund manns á lífinu og minnir mann óþyrmilega á það að allt er breytingu háð í þessu jarðneska lífi.

Svo viðkvæmt er lífið sem vordagsins blóm

er verður að hlíta þeim lögum

að beygja sig undir þann allsherjardóm

sem ævina telur í dögum.

                                                  (Friðrik Steingrímsson) 

Candle