4. maí

4. maí 2007

Þá er 4. maí runnin upp, sit hér og trúi vart að það séu komin heil 20 ár síðan Katan mín fæddist.  Ótrúlegt en satt :)  Birthday Cake 

Ekki laust við að tilfinningarnar séu blendnar.  Er að rifna af stolti og alsæl með mína prinsessu en um leið hálf óttaslegin yfir því hvað tíminn hefur liðið hratt.  Ég eldist nefnilega líka, svo einfalt er það.  Ég er ekki eins hrifin af því.

 Aging Woman 

Katan er ótrúlega heilsteyptur einstaklingur sem veit hvað hún vill.  Nánast alltaf hress og kát en mikil tilfinningavera.  Hún er ótrúlegur orkubolti en hefur náð að leiða orkuna í jákvæðan farveg og henni sjálfri til framdráttar.  Það að fylgjast með henni í vetur hefur verið ótrúlegt.  Ég hef oft spurt mig ,hvaðan hefur hún þetta” þegar hún hefur tekist á hvert mótlætið fætur öðru, á ótrúlega þroskaðan hátt. Auðvitað hefur hún kiknað á erfiðum stundum en aldrei hefur hvarlað að henni að gefast upp.  Clappy 

Hún hefur náð að komast í gegnum áföllin og komið sterkari og sterkari út úr þeim.  Já, ég leyni því ekki, ég er stolt að minni konu. Og að hugsa sér, hún sem er dóttir mín og hefur að mestu leyti alist upp hjá mér einni.  Samt tekist svona vel :)   Einhverjum kann að finnast það skrítið.

Það sama er uppi á teningnum með Hafstein.  Þó þau systkinin séu ólík eins og dagur og nótt, hann svona pollrólegur og yfirvegaður, þá eiga þau það sameiginlegt að vera sterkir einstaklingar sem hafa náð að nýta áföllin og erfiðleikan á jákvæðan hátt fyrir sjálfa sig og aðra.  Mér er til efs að margt ungt fólk á þeirra aldri hafi reynt jafn mikið og þau, ekki einungis síðasta árið heldur síðustu árin. Ekki hefur Hafsteinn verið öfundsverður að vera fjarri heimahögum síðustu mánuði og halda dampi.  Algjör hetja.

 Dancing   

Oft hefur tekið á þau bæði þegar að mér hefur verið vegið, bæði úr launsátri og opinberlega.  Ég held reyndar að fátt sé börnum manns eins erfitt og þegar slíkt gerist enda bitnar það ekki síst á þeim.  Þó skotmarkið hafi verið ég, þá hafa atlögurnar ekki síður haft áhrif á þau. Já, ég er að springa úr monti, ég er svo stolt af mínum ungum. Þakklát fyrir að hafa náð að koma þeim á legg, sjá þá vel fiðraða og fleygja , tilbúna til að takast á við lífið.  Ekki eru allir svo lánsamir.  Ég vænti mikils af þeim í framtíðinni og veit að þau munu standa sig vel í því sem þau taka sér fyrir hendur.  Uppgjöf verður seint inni í þeirra kokkabók. Never Quit 

Fátt verður um dýrðir á afmælisdegi Kötunnar, hún á bólakafi í stúdentsprófunum þannig að við höldum upp á daginn síðar. Það er ekkert svigrúm til þess núna. Ekki það að kökur “a´la mamma”  hafa nú ekki verið í uppáhaldi hjá henni, enda hafa þær flestar mistekist í gegnum tíðina.  Bakstur er eitthvað sem ég verð að fara að ná tökum á, svona á gamals aldri.  Veit að Systa mágkona er betri en enginn í að kenna mér sitt lítið af hverju í þeim efnum enda algjör snillingur á því sviði sem og öðrum.  Hún er ein af þeim sem bókstaflega hristir kræsingar fram úr ermum og virðist ekkert hafa fyrir því. Ice Cream 

Ég hlakka verulega til þess að verða ,,normal” og fara að geta gert það sem mig langar til, óháð aðstoð annarra í einu og öllu. Áherslurnar hafa heldur betur breyst síðustu mánuði og forgangsröðunin önnur en var.  Númer eitt á ,,tilhlökkunarlistanum” hjá mér er að fara aftur í vinnu og finna að lífið hafi einhvern tilgang, annan en að komast í gegnum daginn og gera pínu meira í dag en í gær.  Ég mun leggja áherslu á uppgjör og ,,lok” í nokkrum málum.  Búin að læra það að maður hefur ekki endalausan tíma.

 Nurse   

Ég hef reyndar lofað krökkunum og sálfri mér að skrifa um reynslu mína og okkar, ekki síst reynslu síðustu ára.  Hver veit nema að út komi skáldsagan ,,Dalalíf” undir öðrum formerkjum en frá nöfnu minni frá Lundi. Það gæti orðið sumum fróðleg  og etv. þörf lesning, hver veit? 

 Afraid   

Sumir dagar……

3. maí 2007

Dagamunur er nokkur þessar vikurnar en ég held mig enn við það að ég sé á uppleið.  Hef grun um að kappið fari með mig suma dagana. Finnst ég vera fær í allan sjó einn daginn; rýk til að framkvæmi það sem hefur beðið lengi en gleymi því að ég er ekki með sama úthaldið og áður.  Þreytan segir því til sín af litlu tilefni.  Sleepy 

Þessi dagur fór því að miklu leyti í að “leggja sig” fram eftir öllum degi, gat eiginlega ekkert annað.  Katan mín lenti í smá sjokki í dag þannig að við reyndum að dreifa huganum við annað og skemmtilegra.  Haffa mínum gekk ekki sem best í dag heldur, þannig að í heildina var þetta hálf nöturlegur dagur fyrir okkur öll og uppskeran rýr.

Mér hættir til að gleyma því að það mun taka lengri tíma að endurheimta þrek og úthald núna eftir öll ósköpin en ég á að venjast.  Ég hef verið æði dugleg við að sleikja allar pestir síðusta áratuginn en alltaf vanist því að “láta mig hafa það” og sjaldan legið lengur en 1-2 daga, jafnvel í lungnabólgu og inflúensu.  Mér hundleiðist að liggja, þoli ekki veikindi og hef því frekar pínt mig áfram í gegnum tíðina en að láta í minni pokann.  Í þessum veikindum hefur það ekki verið hægt og búið að taka mig óratíma að venjast þeirri tilhugsun.  Hef reyndar ekki enn sætt mig við orðinn hlut í þeim efnum en lært að “láta mig hafa það”. Sick 

Ég finn svo sannarlega að vorið er komið, er kominn með þvílíkan fiðring og langar að vera úti.  Sveitastörfin kalla en á þeim vettvangi eru þau verkefni rýr fyrir mig.  Blóðlangar í skógæktina svo ekki sé minnst á blóm og aftur blóm. Ég tekst á loft við tilhugsunina :)

Marði það að fylgjast með kosningasjónvarpinu á Stöð 2 í kvöld.  Ég er komin á þá skoðun að fjölmiðlar séu ansi einsleitir í þáttastjórnun og áherslum.  Skyldu þeir flestir vera sjálfstæðismenn eða hægri grænir??  Umræðan er ansi hreint bláleit og hef ég það á tilfinningunni að frambjóðendum sé raðað upp í dilka.   Ekki eru þeir allir við sama borð í það minnsta, sumum hleypt meira að og hyglað, aðrir hundsaðir og settir til hliðar.

Kosningabaráttan hefur litast af stimplun og útilokun einstakra flokka frá umræðunni.  Ég er á því að þegar svo er, hefur einhver eitthvað að fela og breiða yfir.  Sannleikurinn kemur hins vegar alltaf í ljós; einhvern tíman.

Ekki tel ég ýkja djarfa
eða hlaðna manndómsblóma
þá sem stagla í lygalarfa
og læðast burt frá öllum sóma      (Höf. óþekktur)

Nú er bara að fara koma sér í kosningagallan :)

Kastljós

1. maí 2007

Horfði á Kastljós í dag og fannst umræðuefnin áhugaverð; ekki síst heilbrigðismálin. Það var svolítið skondið á hlusta á ráðherra og skoðanir hennar á málaflokknum.  Henni finnst svo sem engin ástæða til að breyta neinu, hvorki auka fjármagn í málaflokkinn, lækka hlutdeild sjúklinga vegna þjónustu og lyfjakaupa né auka framlög til LSH. 

Þetta var athyglisverð afstaða, ekki síst í ljósi þess að framlög til LSH hafa ekki hækkað í raun í 7 ár.  Allt logar í óánægju innan stofnunarinnar, nýútskrifaðir hjúkrunarfræðingar og ljósmæður fást ekki til að sækja um störf vegna lágra launa og sjúkraliðar af skornum skammti.  Framundan er stöðvun á  iðjuþjálfun fyrir geðfatlaða þar sem launin eru það lág að fagmenntað starfsfólk flýr annað.  Að mati ráðherra eru engin alvarleg vandamál í kerfinu, af frátöldu plássleysi fyrir aldraðra skjólstæðinga.

Ásta Möller úr Sjálfstæðisflokki var í raun á sama máli og ráðherra en vildi hins vegar færa út kvíarnar og einkavæða þjónustuna í auknu máli.  Þannig mætti stytta biðlistana o.s.frv.  Hún skapar náttúrlega tekjur á sama tíma fyrir fyrirtækið sitt. 

Allir hinir frambjóðendurnir voru á þeirri skoðun að vandamál væri til staðar í heilbrigðiskerfinu og biðlistarnir margir og langir.  Það kom því verulega á óvart að fæstir voru með raunhæfar tillögur um það hvernig mætti taka á þeim vanda sem að steðjaði.  Flest svörin voru opin og “rúm” en innihéldu ekki fastmótaðar tillögur. 

Ragnheiður Ásta er með nokkrar sérþekkingu á málaflokknum eftir mörg ár í starfi hjá TR.  Engu að síður kom hún ekki með fastmótaðar tillögur, heldur “við stefnum” og “við viljum”…….  Engin mælanleg markmið.  Það kemur svo sem ekkert á óvart.  Samfylkingin ásamt VG og Framsókn voru með borgina í 12 ár og aldrei hafa biðlistar eftir hjúkrunarúrræðum verið jafnlangir og úrræðin jafnfá.  Það sama á við félagslegu úrræðin.  Trúverðugleikinn er því lítill.

Fulltrúi VG var reyndar nokkuð málefnaleg en ekki tilbúin með neinar raunhæfar tillögur.  Margrét Sverris fór úr einu í annað; “við höfum ekki fastmótað þessar skoðanir en við styðjum……” Þekking hennar á málaflokknum virðist ansi takmörkuð og hún engan veginn sannfærandi í málflutningi sínum. 

Kristinn H. var, að vanda, reiðubúinn með svör, vel rökstudd og útreiknuð.  Búinn að vinna heimavinnuna sína og vel að sér í málaflokknum. 

Þættir sem þessir geta verið til þess fallnir að auðvelda kjósendum val sitt í vor.  Frambjóðendur eru mistrúverðugir og stefnumálin ekki alltaf skýr.  Slíkir veikleikar koma berlega í ljós í þáttum sem þessum.  Það hlýtur að vega þungt hjá kjósendum ef flokkar hafa skýra stefnu, frambjóðendur búi yfir trúverðugleika og tillögur raunhæfar, byggðar á rökum. 

Það ætti engum að dyljast það að ég tel heilbrigðiskerfið í miklum vanda.  Það virkar ekki í mörgum tilfellum, það hef ég reynt á eigin skinni.  Ég hef ekki farið í launkofa með það að ég treysti Kristni best til að vera leiðandi í heilbrigðismálum sem og öðrum málaflokkum. 

Af mér er allt þokkalegt að frétta, ekki eins hress í dag og í gær en það er ekkert nýtt.  Ef ég er “dugleg” einn daginn, bitnar það á mér þann næsta.  Það er eðlilegt í bataferlinu á meðan þrekið er að byggjast upp.  Náði í heimilislækni minn í gær sem vill endilega senda mig í myndatöku vegna rifbeinsbrotsins.  Sjálfsagt og eðlilegt að fylgjast með því en ég hef vissulega ekki verið að flýta mér í þeim efnum.  Langar ekkert sérstaklega að ganga í gegnum frumskógakerfið á ný og tilbúin að leggja ýmislegt á mig til að losna við það. En illu er best aflokið stendur einhverstaðar.

Krakkarnir á fullu í prófum, Kata að lesa fyrir Sögu en Hafsteinn í lífeðlisfræði. Hann er loksins búin að setja upp nýja bloggsíðu og tengillinn komin á þessa síðu, hægra megin. Framundan strembin tími hjá báðum fram í miðjan júní.  Þegar ég horfi á Kötu liggja yfir bókunum, rifjast upp fyrir mér sú staðreynd að fyrir nákvæmlega 28 árum var ég í hennar sporum!  Mikið rosalega flýgur tíminn og hratt eldist maður :(  

Ég er ákveðin í að njóta hverrar mínútu í framtíðinni og minna mig stöðugt á að fresta aldrei til morguns það sem hægt er að gera í dag!  Alltaf bætist ný reynsla í bankann, nú er að nýta hana til fulls.

Kv. GJG   Flowers 

Vorið er komið…..

30. apríl 2007

Loksins er vorið komið, meira að segja í höfuðborginni.  Gróðurinn farinn að taka við sér, heldur betur.  Það liggur við að ég horfi á  trén laufgast og grasið grænka. Í raun alveg ferlegt að vera hér, sunnan heiða.  Frétti að veðrið hafi verið með eindæmum gott heima og vorið sannarlega komið þar.       

Finnst ótrúlega erfitt að hugsa til þess að fjárhúsin standi auð og enginn sauðburður á mínum bæ.  Ég veit að það væsir ekki um féð í nýjum heimkynnum, það hefði ekki getað fengið betri húsbændur, það veit og er mikil huggun í.  En ansi er
þetta allt öfugsnúið og aðstæður mér þvert um geð.  Það þýðir svo sem ekkert að væla yfir því, ég fæ engu breytt í þeim efnum og verð að taka þessu hundsbiti. Dog 16 

Það vorar víðar en í náttúrunni þessa dagana.  Ég get loksins sagt að heilsan sé á uppleið þó mér finnist þetta ganga hægt.  Finn mun á mér frá því í síðustu viku og líðanin betri á allan hátt.  Hef afrekað það að fara í göngutúra sem hafa smálengst þó ekki hægt að telja vegalengdir í kílómetrum.  Er farin að keyra eins og herforingi styttri leiðir, finn ekki eins mikið fyrir ruguveikinni og áður þannig að ég er ekki eins hættuleg í ufmerðinni og ég var um tíma.  Ég er ekki lítið montin yfir afrakstri dagsins; týndi rusl í garðinum, sópaði tröppurnar og það sem meira er, ég vogaði mér út fyrir bæjarmörkin, alein!  Ekki langt að vísu en út fyrir þau samt. 

Já, það er ótrúlegt hvað hægt er að gleðjast yfir litlu þessa dagana og hvað ómerkilegir og sjálfsagðir hlutir breytast í stórsigur og meiriháttar afrek.  Það þarf ekki mikið til!  Öðru vísi mér áður brá.  Standardinn hefur lækkað allverulega. 

  Surrender 

Ég rakst á nýútkomið upplýsingarit frá Krabbameinsfélaginu sem var ansi fróðleg lesning. Í þessu riti eru tíunduð öll þau “réttindi” sem við, þegar við greinumst og kippt út úr atvinnulífinu, eigum “rétt á” og getum sótt um.  Satt best að segja varð ég hálf fúl þegar ég sá að ég vissi nánast ekkert um þau úrræði sem mér stóðu til boða strax í haust. Seint og um síðir komst ég reyndar að því fyrir tilviljun að ég átti rétt á svokölluðum endurhæfingalífeyri sem ég gat sótt um til Tryggingastofn ríkisins.  Ég sótti reyndar svo um hann fyrir all nokkru síðan en hef ekki heyrt hósta eða stunu frá þeirri umsókn um hríð.  Hún virðist vefjast fyrir fulltrúa okkar heima enda búin að vera þar til meðferðar síðan í mars.  Skyldi ég fá svar fyrir sumarfrí?  Það er greinilega brjálað að gera á þeim bænum.  

 Business Woman 

Það jákvæða við þessa kerfismeðferð er að ríkið og við skattborgararnir, höfum sparað einhverja aurana í þeim kassanum.  Hversu margir skyldu hafa verið og eru í mínum sporum, vita ekkert og treysta á fræðslu og leiðbeiningum þegar á þarf að halda? 

Það vill nefnilega þannig til að það er ekki það fyrsta sem kemur upp í huga manns að rjúka í að kanna réttindi og úrræði þegar veikindi koma upp.  Maður hefur fullt fangi með að einbeita sér að því að vinna sig í gegnum blessuð veikindin svo ekki sé minnst á þá orku sem fer í að kyngja slíkum ósköpum. Ég mannaði mig reyndar upp í það að hafa samband við TR í nóvember og spurðist fyrir um hvaða úrræði ég gæti sótt um vegna veikindanna.  Svörin voru ansi rýr, jú ég fengi náttúrlega afsláttakort þegar ég væri búin að greiða 18.000 kr. á því ári, var reyndar löngu búin að ná þeirri tölu og vel yfir 100 þúsundin vegna veikinda ársins 2006 þannig að aflsáttarkortið var komið í hús.  Nú, svo átti ég rétt á lyfjaskírteini og styrk vegna höfuðfats sem sótt var um í lok nóvember og þar með var það upptalið.  Mörgum vikum seinna komst ég að þessu með endurhæfingalífeyrinn og enn síðar um niðurgreiðslu á næringadrykkjum.  Svona væri endalaust hægt að telja upp hvernig kerfið hefur virkað eða öllu heldur ekki virkað. 

Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum er það staðreynd að starfsfólk TR er ekki viljugt að fræða sjúklinga þó svo að maður láti sig hafa það að hafa samband og biðja um fræðslu.  Nú skil ég margt sem mínir skjólstæðingar hafa kvartað yfir í kerfinu í gegnum tíðina. Mouth At Side 

Víða eru gloppur en í ríkiskerfinu.  Ég hef verið ríkisstarfsmaður nánast alla mína starfstíð og þar af í um 26 ár í stéttarfélagi mínu.  Þangað hef ég greitt mín gjöld og lífeyrissjóðsgreiðslur eins og vera ber enda hefur engin val í þeim efnum.  Sem félagsmaður á ég hins vegar rétt á ýmsum styrkjum, t.d. vegna gleraugnakaupa, líkamsþjálfunar o.fl.  Falli ég frá, eiga mínir nánustu rétt á útfarastyrk og maki minn á rétt á einhverjum lífeyrisgreiðslum.  Mér hefur alla tíð þótt þessir styrkir sjálfsagðir þó ég hafi ekki verið dugleg að nýta mér þá.

Því var mér all brugðið þegar ég komst að því að Lífeyrisjóður bænda sem allir bændur greiða í, hefur enga slíka styrki á boðstólnum, hvorki vegna útfarar sjóðsfélaga né nokkur annars í raun.  Mér er nær að halda að lög og reglur sjóðsins séu frá 19. öldinni, svo forneskjulegur er hann. Ég skil ekki í stéttinni að sætta sig við svona nokkuð.  Open Mouth 

Mér finnst reyndar að stéttin ætti hreinlega að rísa upp á afturfæturnar og koma sjóðnum inn í 21. öldina þannig að hann samræmist öðrum sjóðum að öllu leyti. Ég er þess fullviss að Lífeyrissjóður bænda sé sá eini á landinu sem greiðir ekki útfarastyrk vegna andláts sjóðsfélaga, styrk vegna krabbameinsskoðana, gleraugnakaupa, tannviðgerða o.s.frv. 

Í öllu falli þurfa börnin mín ekki að hafa áhyggjur af kistunni minni og kaffisopanum.  Þau geta sótt um útfarastyrk í mitt stéttarfélag.   Auðvitað hugsa ég um mál sem þessi.  Það er kostnaðarsamt að fara í moldina og eins gott að hafa allt á hreinu.  Ég hef rekið mig illþyrmilega á að allt getur gerst, ekkert er sjálfgefið og engin veit sína ævi fyrr en öll er.  Því er eins gott að hafa alla hluti á hreinu og vera búin að gera ráðstafanir.  Ég vil ekki að þau lendi í sömu aðstæðum og ég.

Hvað sem öðru líður þá læt ég vefslóðina sem inniheldur þetta nýja upplýsingarit fylgja hér með.  Allir hafa gott að því að kynna sér þessi mál

http://www.krabb.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=123

Nú fer mín að skreppa í sveitina enda löngu tímabært. Mér líður eins og belju sem hleypa á út í vorið, er orðin friðlaus fyrir löngu.  Þetta er allt að koma, næturnar að fara að verða bjartar og nú fer mín að geta keyrt sjálf vestur.  Það er líka orðið ansi stutt í kosningar og kominn kosningafiðringur eftir því.  Og ég sem missti af framboðsfundi framsóknarmanna í fyrrakvöld.

 Birdie   

Mér var ansi brugðið þegar ég las um uppsagnir 48 starfsmanna í Bakkavör í Bolungavík.  Þvílík blóðtaka fyrir sveitarfélagið þar. Enn og aftur fækkar atvinnutækifærum þar og nú er með vissu hægt að segja hver skýringin er. Hún er einfaldlega fólgin í fiskveiðistjórnun og þeirri ráðstöfun kvóta sem núverandi ríkisstjórn hefur komið á. Engum öðrum er hægt að kenna í þetta skiptið, hvorki meintum “rasistum” í þjóðfélaginu né pólitískum andstæðingum.

Hvar gera sjávarútvegráðherra og ráðherrar byggða- og félagsmála nú?  Þeir hafa ekki sést, engin fjölmiðill hefur svo mikið sem tekið viðtal við þá vegna málsins né viðbragða ríkisstjórnar. Ekki hósti né stuna frá þeim.  Grafaþögn.  Það virðast allir hafa hagsmuni af þögninni.

Nógu mikið lá mönnum á að koma á enn annarri nefndinni fyrir nokkrum vikum til að fjalla um málefni Vestfjarða, þrátt fyrir að ítarlegar og raunhæfar tillögur lægu fyrir frá sveitarstjórnarmönnum úr öllum sveitarfélögum fjórðungsins.  Blásið var í herlúðra þegar niðurstöður “Halldórsnefndarinnar” lágu fyrir og fjölmiðlar flyktust að.  Nýskipuð nefnd var til umfjöllunar í nánast hverjum fréttatíma og í öllum blöðum.  Gúrkutíð hjá fjölmiðlum og gaman að vera til.  Flott strategia hjá stjórnarflokkunum  Dumb 

Hverjar voru svo niðurstöðurnar? Jú, nokkurn veginn þær sömu og þær tillögur sem þegar lágu fyrir. Óhætt er að segja að tillögur Vestfjarðarnefndarinnar (Halldórsefndar) hafi valdið einhverjum miklum vonbrigðum enda enn eitt merkið um sóun á tíma og fjármunum.  Þau vonbrigði hafa þó ekki farið hátt. Shhh 

Ólíuhreinsistöð og 80 störf varð skærasta stjarnan í kosningabaráttu sjálfstæðis- og framsóknarmanna sem reiknuðu greinilega með að kjósendur sæju ekki fyrir sér hrikalegar afleiðingar af slíkri starfsemi í einangruðum fjörðum, ekki síst ef einhver umhverfisslys ættu sér stað.  Þetta kosningatrikk er greinilega að svínvirka Bow Down 

Svo er að sjá að þessar tillögur sem og aðrar kosningabrellur stjórnarflokkanna hafi heldur betur aukið fylgi þeirra í kjördæminu, ef marka má nýjustu könnun Capacent sem birt var í dag.  Þar bæta sjálfstæðismenn við sig 2 mönnum og fylgi Framsóknarflokksins komið yfir 18% (> 21% las ég í Mbl. í morgun).  Kjósendur Norðvesturkjördæmis virðast  hæstánægðir með árangur ríkisstjórnarinnar. Á því leikur enginn vafi.  Thumbs Up 

Þrátt fyrir þetta hefur Framsóknarflokkurinn sýnt ýmiss merki um taugaveiklun og uppgjöf síðustu viku og daga og á fullu að skipa sína menn í hinar ýmsu nefndir og störf, jafnvel á kostnað eigin flokksbræðra.  Virkar mótsagnakennt á mig sem leikmann en kannski er þetta ný herkænska sem formaðurinn er að beita núna, hver veit? “Öfug sálfræði” er slík herkænska gjarnan kölluð, hún er að svínvirka við að snúa kjósendum. Smile 

Ekki virðast menn kippa sér mikið upp við mismunun í málefnum innflytjenda.  Einstaka boffs heyrðist frá Stöð2 þegar nýjasta mismunin var gerð opinber fyrir stuttu, þ.e ríkisborgararéttur tengdadóttur umhverfisráðherra.  Stöð1 kom reyndar með aðeins ítarlegri umfjöllun um málið og Jónína tekinn á teppið af Helga Seljan. Púðrið  fór hins vegar að mestu leyti í það að deila hvort hefði orðið; Helgi Seljan eða Jónína.  Í sjálfu sér kom ekkert nýtt fram í málinu, auðvitað kom ráðherrann ekkert að málum þegar beiðni tengdardóttur hennar barst alsherjarnefnd, dettur einhverjum slíkt í hug af fullri alvöru?  Ráðherrann sjálfur! Surprised  Hún greiddi hins vegar atkvæði með afgreiðslu málsins.  Þess ber að geta að afgreiðsla alherjanefndar fór fram í mars, hennar var lítilega getið í fjölmiðlum eftir afgreiðsluna á þingi en ekki orð frá fjölmiðlum um hugsanleg hagsmunatengsl og klíkuskap við umrædda afgreiðslu á beiðni tengdardóttur Jónínu.  Þögn í mánuð, við skulum átta okkur á því. En fjölmiðlar eru búnir að sinna upplýsingaskyldu sinni nú með eftirminnilegum hætti og RÚV búið að launa ríkisstjórninni “fjölmiðlafrumvarpsgreiðann”.  Öll dýrin í skóginum eru vinir Bouncing Heart 

Fór reyndar að aðeins að bera meira á boffsi í dag, Fréttablaðið birti opið bréf til alsherjarnefndar frá Falasleen Abu Libdeh sem hefur enn ekki fengið íslenskan ríkisborgararétt eftir 12 ára búsetu í landinu.  Eðlilega spyr konan  hvers vegna Lucia Celeste Molna Sierra hafi verið veitt undanþága eftir einungis 15 mánaða dvöl í landinu.  Hún fær aldrei svör við því bréfi, alsherjanefnd hefur lokaúrslitavald í þessum málum og þarf ekkert að rökstyðja ákvarðanir sínar. Mér er það til efs að það sé hægt að kæra þá ákvörðun sem nefndin tekur hverju sinni.  Hvert ætti að kæra? Nú, Fréttablaðið er búið að leggja sitt af mörkum með því að heimila birtingu bréfsins.  Ég reikna með því að þar með sé umfjölluninni lokið.

Það er hlutverk fjölmiðla að upplýsa almenning og viðhafa vönduð vinnubrögð, þeim hefur ekki verið stætt á því að þegja þessa mismunun algjörlga í hel.  Samfylkingarmönnum hefur etv. ekki þótt stætt á því að þegja yfir þessari mismunun, þó það hafi hentað þeim það uppþot sem fjölmiðlar settu á svið varðandi meinta “rasistastefnu” frjálsyndra. Flott hjá þeim, þeir græddu.   Þeir fulltrúar alsherjarnefndar sem samþykktu beiðni tengdardóttur Jónínu um íslenskan ríkisborgararétt voru Bjarni Benediktsson frá Sjálfstæðisflokki, Guðjón Ólafur úr Framsóknarflokki og Guðrún Ögmundsdóttir, Samfylkingunni. 

Í öllu falli ætti öllum að vera það ljóst að miðað við þessa nýjustu könnun Capacent Gallup um fygli flokkanna í Norðvesturkjördæmi, eru kjósendur hæstánægðir með núverandi stjórnarflokka og vilja tryggja þeim áframhaldandi setu í ríkisstjórn.  Samfylkingin er með 20,5%, VG rétt rúmlega 18% og Frjálslyndir koma ekki manni inn. Ber okkur ekki að virða vilja kjósenda í íslensku lýðræðisríki?  Ég hefði nú haldið það. Þeir hafa síðasta orðið og þetta er niðurstaðan, hvort sem mér líkar hún eður ei.   Devil 

Kjósendur vilja áfram stóriðju, ekkert stopp, aðgerðarleysi gagnvart innflytjendum sem hvorki fá þá íslenskukennslu sem þeim ber né eru læsir á ráðningasamninga sína, séu þeir yfir höfuð gerðir og er hrúgað saman í kojur í hin og þessi atvinnuhúsnæðin. 

Kjósendur virðast aðhyllast áframhaldandi fólksfækkun úr stjrálbýlum byggðum, stuðla að uppbyggingu sumarbústaðahverfa á þeim svæðum og tryggja eignarhald einkaaðila á jörðum og landi í auknu mæli.  Þeir virðast einnig hlynntir aukinni einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu og svo lengi mætti telja.

Það hentar Samtökum atvinnulífsins að hafa innflytjendur mállausa á íslenska tungu þannig að þeir geti ekki kynnt sér rétt sinn.  Það kemur vel út fyrir atvinnurekandur að þurfa ekki að greiða heilbrigðisvottorð fyrir starfsmenn sína, svo ekki sé minnst á skyldusjúkratryggingu upp á 2 millj. fyrstu 6 mán. erlendra starfsmanna í landinu og auðvitað arðbært og hagkvæmt að halda launum í landinu niðri og fyribyggja þar með launaskrið í landinu.   Money 

Félagsmálaráðuneytinu hentar að taka þátt í upphrópunum í “rasistaumræðunn” enda hefur það margt að fela sökum aðgerðarleysis í þessum málaflokki síðustu 12 árin.  Það kemst þá ekki upp á meðan. Secret 

Í stuttu máli; ef niðurstöður könnunar Capacent Gallups um fylgi flokkanna endurspeglar vilja kjósendur í NV kjördæmi þá er engin ástæða til að skipta ríkisstjórninni út og allir hagsmunaaðilar sáttir.  Ekki satt?

Ég er hneyksluð og kjaftstopp, sem gerist ákaflega sjaldan. Shock

Fundur

26. apríl 2007

Vek athygli á fundi Kristins H. í Dalabúð í kvöld. Hvet menn til að mæta og hlýða á hvað hann hefur fram að færa í framboðsmálum.  Menn geta treyst á heiðarlega umræðu og svör.

Bkv. Guðrún Jóna

4. valdið

26. apríl 2007

Það var áhugavert að fylgjast með stjórnmálaumræðunni á Stö2 í kvöld í fleiri en einum skilningi.  Efnislega voru umræðurnar áhugaverðar og tilsvör ýmissa enn áhugaverðari.  Er enn að “melta” þau og velta þeim fyrir mér.  Það sem vakti ekki síður athygli mína var stýring umræðanna.  Sigmundur Ernir og Svanhildur skelegg, það vantaði ekki en með ólíkindum hvernig gengið var framhjá einum frambjóðanda, aftur og aftur.  Hvernig er svona lagað hægt í beinni útsendingu fyrir framan alþjóð?   Er það svo að þjóðin sætti sig við að mönnum sé mismunað með jafnafgerandi hætti og við öll höfum verið vitni af síðust vikur?

Við búum við lýðræði, a.m.k. á pappírum og valdið skv. lögum þrískipt. Ég sé ekki betur en að 4. valdið sem er í höndum fjölmiðla, sé ekki síður áhrifaríkt en hið lögbundna vald.  Málið er hins vegar það að sennilega er þetta 4. vald sem lýtur engum lögum, heldur óskráðum völdum tiltekinna stjórnmálaflokka og manna, er sennilega áhrifameira en það vald sem er bundið í lögum.  Slíkt vald er varhugavert og getur beinlínis verið hættulegt þar sem það er á hendi örfárra einstaklinga og háð hagsmunum og geðþótta valdhafa hverju sinni.

Svo virðist sem fjölmiðalmönnum finnist mismunun ekkert tiltökumál, þeir reyna ekki einu sinni að breiða yfir hana.  En það sem mér finnst alvarlegra mál er það að almenningur situr hjá og segir ekki aukatekið orð.  Á maður að túlka þá staðreynd að hann sé sáttur og sammála mismunun eða kemst hann ekki að með sínar skoðanir?  Er meðvirknin svo mikil að menn sjái ekki í gegnum þetta sjónarspil?  Ég trúi því varla.  Það hlýtur að koma að því að almenningur vakni og tjái sig um þessi mál.

Af mér er það að frétta að ég held að ég geti sagt með sanni að ég sé að hressast um eitt hænufet á dag.  Er, auðvitað, óþolinmóð og vil helst að ástandið skáni verulega, helst í gær.  Því er það ákveðinn lexía að þurfa að sætta sig við það að geta ekki stjórnað öllu sjálf og að verða að sætta mig við það að bataferlið tekur langan tíma.

Rugguveikin virðist heldur á undanhaldi þannig að vonandi fer ég að geta keyrt lengri leiðir.  Er með mikla heimþrá, vil fara að komast í sveitinna mína :)   Frétti af spennandi fundi með Kristni H. annað kvöld í Dalabúð og langar ekkert lítið til að mæta.  Rosalega yrði gaman ef ég yrði það hress að ég gæti keyrt vestur, þó ekki væri nema á fundinn. 

Fer með það viðhorf í háttinn að kraftaverkinn gerist enn, að ég geti brugðið undir mig betri fætinum og mætt á almennilegan stjórnmálafund!

Bkv. Guðrún Jóna

Örvænting

25. apríl 2007

Allt er nú hægt og leyfinlegt í pólitíkinni. 18 dögum fyrir kosningar kynnir Framsóknarflokkurinn í Mbl. sameiginlegu málgagni stjórnarflokkanna sáttartillögur í virkjanamálum og nýtingu auðlinda.  Heyr á eindæmi!  Ái………hvað örvæntingin hefur gripið um sig á þeim bænum.  Ekki það að ég er svo sem ekkert hissa á þeirri örvæntingu en að bregðast við með slíkum kosningaáróðri, korter fyrir kosningar, kemur mér á óvart.  Hvar er sjálfsvirðing formanns og frambjóðenda?  Halda þeir virkilega að kjósendur kokgleypi þetta trix? Shocked 

Framsóknarmenn vita hins vegar að þeir hafa tapað fylgi til annarra flokka og þá helst til VG sem ég á reyndar erfitt með að skilja.  Fyrir utan það að vera “inni” þessa dagana eru þeir nátturlega grænir og þar með umhverfisvænir, eru á móti virkjunarframkvæmdum, sýna fram á feminískar áherslur og jafnrétti kynja á framboðslistum sínum en hvað bjóða þeir annað fram?? Allt hið mætasta fólk, það vantar ekki en ungir eldheitir feminístar, nýskriðnir úr stúdentapólitíkinni skipa víða efstu sæti framboðslistanna, með háleitar hugsjónir.  Þeir sjá tilveruna á rósrauðu skýii  með stjörnur í augunum  Star og minna á margt um rómantísku stefnuna.  En raunveruleikinn er annar en draumar þeirra og hugsjónir

  Thunder 

Ekki það að hugsjónir séu slæmar, síður en svo en þær duga ekki einar og sér.  Það þarf meira til;reynslu og kjark til að standa í eldlínunni og treysta sér til að axla ábyrgð.  Því miður hefur myndun sveitartstjórna eftir síðustu kosningar í vor sýnt fram á að VG virðist veigra sér við forystuhlutverkinu og ábyrgðinni.

Yfirbragð femínistanna á framboðslista VG minnir mig svolítið á Kvennalistann forðum daga, þegar það þótti merki um sjálfstæði að mæta á þing og fundi með prjónana og börnin á brjósti.  Hitt er svo annað mál að VG standa fyrir nokkrum ágætis málum en stefnan, markmiðin, framtíðarsýnin og leiðir að settu marki, eru loðin og óljós. Á meðan svo er, er flokkurinn ekki trúverðugur.   Fouled Up Beyond Belief 

VG fær nokkra athygli fjölmiðla í kosningabaráttunni, meira en hægt er að segja um suma flokka sem komast ekki á skjáinn eða á blað.  Hefur sú athygli aukist nokkuð eftir að fjölmiðlar komust um snoðir um leynifund Steingríms J. og Geir Haarde fyrir skömmu.  Það er nokkuð augljóst að sjálfstæðismenn ætla sér að sitja í næstu ríkisstjórn og tekst það trúlega ef fram fer eins og horfir. Hvernig skyldi sú samsteypa hugnast vinstri sinnuðum kósendum VG sem er eins langt til vinstri á væng stjórnmálanna eins og hægt er.

En á meðan VG og aðrir flokkar sem eru í náðinni hjá málgögnum fjórflokkanna og baða sig í athyglinni, deyja menn ekki ráðalausir þó þeim sé úthýst.  Frjálslyndir hafa t.a.m. brugðist við útskúfunni með því að stofna eigin fljölmiðil: VEFSJÓNVARP (www.xf.is) og geri aðrir betur.  Þetta kalla ég að bjarga sér og láta ekki deigan síga. Hver veit nema að menn eigi fleiri tromp uppi í erminni….. 

Sumir eru með föðurleg ráð í rándýrum auglýsingum, aðrir halda uppi brekkustemningu með fjöldasöng og hörkupartý og enn aðrir sitja fyrir framhaldsskólanemendum.  Línudans og fleiri sturtuauglýsingar koma kannski næst, hver veit.

 Party Time 

Nú er orðið spennandi í íslenskri pólitík og gaman að lifa :)   Mín öll að hressast í sálartetrinu en á langt eftir hvað varðar líkamlega heilsu.  Allt á uppleið þó  Smiles  

 mbkv. Guðrún Jóna

 

 

 

Pólitíkin

22. apríl 2007

Hún er undarleg þessi tík; pólitíkin og mannskemmandi eins og ég ætti að þekkja vel. Engu að síður er hún hluti af okkar lífi og um hana snýst líf margra. 

Það hefur verið með eindæmum að fylgjast með innflytjendaumræðunni og afleiðingum hennar síðustu mánuði.  Svo virðist sem allir hugsi það sama í þeim efnum en enginn má segja neitt upphátt, annars er rasistastimpillinn skammt undan.  Þegar ég hef farið yfir skoðanir og álit frambjóðenda í þessum kemur í ljós að í raun eru allir sammála um hvert eigi að stefna.  Taka vel á móti innflytjendum og aðstoða þá í hvívetna til að aðlagast íslensku samfélagi. 

Hinn ágæti félagsmálaráðherra okkar tók undir þau sjónarmið á ráðstefnu SSV um málefni innflytjenda og taldi margt óunnið í þeim efnum.  Það var svo sem ágætt út af fyrir sig að hann skuli viðurkenna vandann og það hafa fleiri stjórnarliðar gert sem er auðvitað hið besta mál.

Umfjöllun fjölmiðla á málefnum innflytjenda er hins vegar með einkennlilegum hætti.  Svo virðist sem þeim sé í mun að blása upp og rangtúlka öll sjónarmið, komi þau frá tilteknum stórnmálaflokkum.  Komi þau hins vegar frá stjórnarliðum, fá þeir klapp á axlirnar og verðlaun fyrir.  Rannsóknarblaðamennskan er hvergi sýnileg í störfum þeirra og engin umfjöllun um það hvernig stjórnarflokkum síðustu 12-16 ára hefur tekist til í málefnum innflytjenda.  Ég hlýt því að spyrja; er sá málaflokkur ekki í góðum farvegi??  Hví talar félagsmálaráðherra um vandamál í þessum efnum? 

Ef litið er til stöðu innflytjenda í höfuðborginni þá liggur fyrir að þau mál mættu vera í betra horfi.  Mikið er um brottfall innflytjenda úr skólum og augljós vandi hefur skapast við þá tilhneigingu hinna ýmsu þjóðabrota að safnast saman og halda hópinn í einstökum hverfum, t.d í Breiðholti.  Sú þróun átti sér reyndar stað í stjórnartíð R-listans, Nota bene.  Borið hefur á ýmsum félagslegum vandamálum, sem er ekkert óeðlilegt að gerist hjá innflytjendum í ókunnugu landi, ekki síst þegar tungumálakunnátta er engin, launin eru lág og fátt um fína drætti.

Fasteignarverð hefur lækkað í þessum hverfum og klíkumyndanir, eðlilega, til staðar.   Við erum félagsverur og líkur sækir líkan heim, þannig hefur það alltaf verið.  Nú er stefna borgaryfirvalda að reyna að sporna gegn þessari þróun dreifa félagslegum íbúðum víðar um borgina og leggja aukna áherslur á tungumálakennslu innflytjenda. Af hverju? Jú, af því að það eru þegar vandamál sem hafa skapast.  Nýbúarnir hafa ekki náð að aðlagast íslensku samfélagi.

Ég hef starfað tímabundið á hjúkrunarheimili í höfðuborginni sem er svo sem ekki til frásögu færandi.  Er sú stofnun rekin af Reykjavíkurborg.  Illa hefur gengið að manna í ummönnunarstörf um áraraðir, ekki síst vegna lágra launa og mikils vinnuálags.  Þróunin hefur því verið sú að útlendingar hafa raðast í störfin og í flestum tilfellum um prýðilegt og harðduglegt starfsfólk að ræða.  En flóran er fjölskrúðug, á einni vakt gat ég verið með 7 þjóðarbrotum í vinnu, frá Thailandi, Filipseyjum, Króatíu, Póllandi, Suður-Ameríku, Jamaica og Rússlandi.  Í langflestum tilfellum, ef ekki öllum, voru umræddir starfsmenn algjörlega mállausir á íslenkska tungu og fæstir gátu bjargað sér á ensku.  Starfsfólkið skyldi því ekki hvort annað, stjórnandann sinn né aldraða skjólstæðinga sína.  Vaktirnar gátu því oft verið skrautlegar og stundum sauð upp úr, ekki síst vegna ólíks menningallegs bakgrunns, gilda og sjónarmiða. Í langflestum tilfellum var um að ræða öndvegis fólk og hörkuduglegt sem vann myrkranna á milli og tók allar lausar aukavaktir.  Hvar var og er réttur þessa starfsfólks?  Hver er réttur aldraðra skjólstæðinga? Ekki það að borgin tryggði metnaðarfulla stefnu í málefnum nýbúa á pappír, ekki síst með tungumálakunnáttu í huga en minna var um framkvæmdirnar. Svo einfalt var og er það. 

Fyrir utan málleysið varð ég vör við ýmiss önnur “einkenni” sem vert er að skoða.  Erlenda starfsfólkið gerði mikið af því að skipta vöktum við aðra og þegar betur var að gáð, var tilgangurinn sá að hin ýmsu þjóðabrot vildu vera saman á vakt.  Í öllum hléum og matartímum raðaðist starfsfólkið þannig að thailendingarnir fóru saman í mat, pólverjarnir fóru saman o.s.frv. og það sem meira er, þjóðfélagshóparnir “áttu” sín ákveðnu svæði í matsalnum og víðar þar sem starfsmenn höfðu afdrep.  Samlögunin að íslensku samfélagi er lítil ef þá nokkur.  Nýbúarnir borða helst ekki íslenskan mat, þeir koma yfirleitt nestaðir að heiman.

Ég varð vitni af nákvæmlega sömu þróuninni hjá nýbúum sem störfuðu á LSH og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í vetur.  Um svæðaskiptingar virðast gilda óskráð lög sem allir virtu, meira að segja sjúklingarnir urðu að beygja sig og víkja fyrir hópunum í “pásum” og matartímum.

Málefni nýbúa og innflytjenda eru ekki í góðum farvegi og það hafa skapast vandamál.  Félagsleg, samfélagsleg og efnahagsleg þar sem það er staðeynd að útlendingar sætta sig við lægri laun og leita í fæstum tilfellum eftir rétti sínum hjá stéttarfélögum.  Það er mér vel kunnugt um.

Nú er ég væntanlega stimpluð “rasisti” og það verður þá bara að hafa það.  Ég veit sjálf að ég er það ekki.  Ég hef hins vegar miklar áhyggjur af málefnum nýbúa og innflytjenda sem eru ekki í góðum farvegi.  Ég er hrædd um að nágrannar okkar; Danir, myndu hrista hausinn, færu þeir ofan í saumana á þessum málum hjá okkur.  Ég veit ekki betur en að Íslendingar verði að vera orðnir skröltfærir í danskri tungu áður en þeim er hleypt út á vinnumarkaðinn.  Okkur finnst það sjálfsagt og hlýtum því.  En hvaða kröfur gerum við til nýbúa okkar og hvað gerum við til að liðsinna þeim?

Rasistagrýlan er nú við völd fyrir kosningar.  Þeim flokki sem hóf umræðuna um þessi málefni, er alls staðar úthýst frá umræðunni, ekki síst af fjölmiðlum.  Hvað segir þetta manni? Jú, þetta segir mér alla vega að margir eru hræddir við styrkleika þess flokks.  Hann virðist ógna þeim og því þarf að ryðja honum úr vegi.  Ég er ekki viss um að það takist, held að Íslendingar séu skynsamari en svo að þeir láti mata sig slíkri fyrru, án þess að staldra við  og hugsa málið gaumgæfilega. 

Persónulega hef ég ekkert á móti nýbúum, af hvaða þjóðerni sem er en ég viðurkenni að mér líkar ekki sú hópa- og klíkumyndun sem ég hef orðið vitni af í starfi og leik. Ég vil sjá þá samlagast íslensku samfélagi. Mér líkar heldur ekki metnaðarleysi stjórnvalda gagnvart þessum hóp.  

Vegna ólíkra sjónarmiða, bakgrunns, gilda og afkomu sætta nýbúar sig frekar við lág laun en heimamenn og afleiðingin er, óhjákvæmilega, lægri laun á vinnumarkaðinum sem þýðir enn meiri vinna til að hafa í sig og á.  Kosið verður um þessi málefni eftir tæpar 3 vikur. Ég spái því að innflytjendaumræðan eigi eftir að koðna og falla í gleymskunar dá af þeim loknum og fátt eitt aðhafst í þessum málefnum. Þjóðin er fljót að gleyma.  En þangað til, er málflutningurinn í kringum málefni innlfytjenda ógeðfelldur og ekkert “grænt” við hann.

  Politician 

Myrkfælni og hundagelt

22. apríl 2007

Svei mér þá, ég er orðin myrkfælin.  Hef reyndar fundið fyrir henni síðustu vikur en nú keyrir um þverbak.  Það sem meira er; tíkurnar eru verri en ég; hlaupa til af óskilgreindum tilefnum, geltandi út í loftð á eitthvað sem ég sé ekki.

  Ghost 

Mér finnst þetta ónotanleg tilfinning. Var óskaplega myrkfælin sem barn og unglingur.  Man þegar ég gekk frá Vífilsstöðum og niður á Flatir í “den”, þjáðist ég verulega af myrkfælninni.  Fannst alltaf einhver vera á eftir mér.  Ekki lagaðist ástandið þegar ég byrjaði að vinna við ummönnun og hjúkrun. Ég var rosalega “líkhrædd” fyrstu árin.  Svo hrædd að ég þóttist skynja það um leið og ég kom inn á Vífilsstaði til vinnu að einhver hefði skilið við.  Skjátlaðist reyndar aldrei, gat meira tilgreind stofunúmerið ef því var að skipta.  En smátt og smátt tókst mér að venja mig af þessari fælni og hræðslu og hef ekki fundið fyrir henni fyrr en nú. 

  Mummy 

Tíkurnar, sem sé,  virðast skynja eitthvað sem ég sé ekki en skelfing er þetta hvimleið tilfinning.  Ekki bætir geltið úr.  Fór á Netið til að dreifa huganum og datt í hug að slá inn leitarorðið “myrkfælni”.  Lenti af tilviljun á síðu Jónu Rúnu Kvaran sem er afar athyglisverð síða og margt fróðlegt hægt að lesa þar. Mæli með henni: http://www.jonaruna.com/framsida_ic.htm

Rakst m.a. á áhugaverða lesningu um “vistaverur óþroskaðra sála” þar sem Jóna Rúna kemur með sitt innlegg inn í umræðuna um það af hverju sumir verði varir við “neikvæða strauma”.  Kunni hún ýmsar skýringar á því og má þar helst nefna að einstaklingar/sálir breytist ekki við það eitt að lifa af líkamsdauðann.  Dulspekingar o.fl. trúa því að þegar við yfirgefum þessa jarðvist, höldum við áfram á öðru tilverustigi, þ.e sál okkar. Það er svo annað mál sem ég hvet alla til að kynna sér.

Það sem vakti sérstaka athygli mína var lýsing á þeim einstaklingum sem hafa neikvæð áhrif á líf okkar og jafnvel skaða okkur.  Fannst mér ég kannast ansi vel við lýsinguna sem ég gæti heimfært á nokkra sem ég hef fyrirhitt á lífsleiðinni.  Leyfi ég mér að setja inn brot af þeim texta hér eftir Jónu Rúnu:

,,Hér á jörðinni getur hver sem er, alveg sama hve slæmur  hann er, villt um fyrir samferðafólki sínu í mislangan tíma. Þannig að þeim getur fundist viðkomandi heillandi. Viðkomandi getur virst hafa góðan dreng að geyma og haft áhrif sem eru aflöguð og slæm, án þess að upp um viðkomandi innræti komist fyrr en seint og síðar meir. Margur hefur getað leynt neikvæðu atferli sínu og jafnvel skaðað aðra um tíma. Slæmur eða neikvæður einstaklingur hefur á jörðinni marga möguleika til að gefa illsku sinni líf. Peningar, titlar, þjóðfélagsaðstaða og eitt og annað getur verið slíkum einstakling nokkurs konar skálkaskjól til að hylma yfir óþverrahátt” 

  Good Vs Evil 

Svo mörg voru þau orð.  Kannast einhver við lýsingarnar?

Mér finnst Jóna Rúna lýsa þarna staðreyndum um ákveðna perónugerð/einstaklinga á mjög yfirvegaðan hátt og hvert orð sannleikur.  Hún fjallar síðan um afdrif slíkra einstaklinga/sála þegar hinum meginn er komið en í stuttu máli verða þeir að vinna að því að bæta sig þar, ekki síður en í jarðnesku lífi.  Ég geri mér fulla grein fyrir því að ekki allir trúa á tilvist í einhverju formi eftir að jarðvist lýkur en hvernig sem þeim málum er háttað, eiga þessi orð hennar vel við.

En hvernig eigum við að þekkja þessa klóku einstaklinga úr og verjast þeim? Ég hef talið mig nokkuð glöggan mannþekkjara en engu að síður látið glepjast af fagurgala sumra og klókum leik.  Hef líka, líkt og aðrir, farið flatt á því. Umhugsunarefni ……………………