Svefndagurinn mikli

5. mars 2007

Ekki fór þessi dagur eins og ég hugsaði mér.  Held, svei mér, að ég hafi farið fram úr mér í gærkvöldi með hátíðlegum yfirlýsingum.  Uppskar í dag eins og ég sáði í gær, svaf í heila 15 klst. í dag og geri aðrir betur.  Hef verið í “henglum” þann tíma sem ég hef verið  vakandi og tekist að gera ekki nokkurn skapaðan hlut.  Ég viðurkenni það alveg að það pirrar mig ósegjanlega að vera ekki til eins eða neins.                               Walking Garbage Can 

Ruslafötunni var ég búin að leggja, ætlaði ekki að taka hana fram aftur en fjandakornið; hún er komin aftur!

Aðrar aukaverkanir lyfjameðferðarinnar en ógleðin eru sem sé að gera vart við sig, trúlega hafa lyfin náð að slá beinmerginn út þannig að ég er væntanlega lág í hvítum og rauðum blókornum með tilheyrandi slappleika og vanlíðan.  Læt svo eins og það komi mér á óvart!  Ástandið á eftir að versna næstu vikuna og augljóst að því fer versnandi eftir því sem á líður meðferðina.  Það er þetta með afneitunina, það er svo auðvelt að detta í það farið.

Mér hefur oft í hug æðruleysisbænin á síðustu vikum og mánuðum;¨”Guð - gef mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt,……………… o.s.frv. Bæn sem hefur hjálpað ótal einstaklingum í gegnum veikindi og sorgir.  Stundum virkar hún, stundum ekki og nú virkar hún ekki.  Mig skortir hreinlega þolinmæði núna til að bíða eftir því að verða sjálfri mér lík og koma hlutum í framkvæmd.  Ég þoli ekki langa verkefnalista sem lengjast og lengjast og eftir því sem þeir verða lengri, þeim mun óyfirstíganlegri verða þeir. Ætlar þetta allt saman engan endi að taka??? 

Ég ætla ekki að vera með eitthvert volæði hér, verð að kyngja því að ég er í meðferð og henni fylgja aukaverkanir.  Ég er ekki og verð ekki með fullt starfsþrek á næstunni og þannig er það einfaldlega. Raunveruleikinn er ósköp grámyglulegur núna og það eina sem ég get gert er að hrista drungan af mér og gleðjast yfir smásigrunum.  Nú búta ég niður verkefnalistan sem bíður og tek aðeins nokkur verkefni fyrir í einu á morgun.  

   Bow Down  

Í dag tók ég þá ákvörðun að nóg væri komið af eymd og volæði á þessum bæ.  Búin að liggja eins og slytti síðan seinni partinn á miðvikudag, gjörsamlega ónýt til alls, með ruslafötuna og plastpokann um hálsinn.  Ég hreinlega nenni þessu ekki lengur!  Viðurkenni nú reyndar, að heilsan er eitthvað að skána, tókst að borða fyrst í dag, brauð og annað léttmeti og hef eiginlega ekki stoppað síðan         Food Fight

Ruslafatan er komin inn í skáp og hef ég ákveðið að nota hana ekki aftur til annars hlutverks en henni er ætlað. 

Skreið á fætur um kl.13.00 og fékk Ástrósu Veru lánaða í dag, drifum okkur út og versluðum.  Blóm og aftur blóm!  Ég veit ekki alveg hvað er með mig og blóm en ég virðist hafa mikla þörf fyrir blómstrandi pottaplöntur þegar ég vil láta mér líða vel.  Nú er nóg af þeim í kringum mig.  Eins gott miðað við veðurspánna              Snowstorm 

Ég er, satt best að segja komin með upp í kok af vandamálum og heilsuleysi og ætla að nýta næstu 2 vikur vel áður en síðasta meðferðin hefst.  Nú bretti ég upp ermar og læt mig vaða í þau mál sem bíða úrlausnar, það er ekkert sem heitir.  Ég verð augljóslega ekki í standi til að gera eitt eða neitt á lokasprettinum þannig að það er eins gott að nota tíman vel.  Af nógu er að taka; bankinn, skatturinn, sýslumaðurinn, lögfræðingurinn, tilboðshafinn, ráðunauturinn, féð, hrossin,heimilið, börnin, hundarnir og nefndu það…. Faint 

Sem sé, nýr dagur framundan, engin eymd og ekkert volæði.  Ég hleypi engu slíku að á   næstunni.     Er afar sátt við daginn, fékk góðar heimsóknir frá Haffa bro og Sigrúnu og frábært að fá Ástrósu sem var að missa sig í öllu dýraríkinu hér.  Mikið fjör og mikið gaman, þó ég hafi misst af framsóknarþinginu…………………..

 Perfecto   

  

Rakst á eftirfarandi skrif á heimasíðu Sæunnar Stefánsdóttur, þann 2. mars sl.  um þjóðlendumálið:

Það veldur okkur framsóknarmönnum miklum vonbrigðum að ekki hafi tekist nú þegar samstaða í stjórnarskrárnefnd um að setja ákvæði um að auðlindir sjávar séu sameign íslensku þjóðarinnar í stjórnarskrá lýðveldisins”

Og heldur svo áfram:

“Nú er hins vegar komið á daginn að sjálfstæðismenn vilja ekki standa við þennan samning. Það er andstaða fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í stjórnarskrárnefndinni kom í veg fyrir að samkomulag tækist um að leggja fyrir alþingi frumvarp til stjórnskipunarlaga um sameign þjóðarinnar á auðlindum sjávar”.  Sæunn vitnar svo í fundagerð 7. fundar stjórnarskrárnefndarinnar, sem laut forystu Jóns Kristjánssonar og skilaði nýlega af sér áfangaskýrslu. Ítrekar síðan að stjórnarandstaðan væri sammála framsóknarmönnum “leggja frumvarp til stjórnskipunarlaga um sameign þjóðarinnar á auðlindum sjávar”

Nú er ég ekki að skilja; hvað er þá málið?????   Formaður nefndarinnar framsóknarmaður, stjórnarandstaðan á sama máli. Blóraböggullinn farinn, allir sáttir.  Ég er ekki alveg að skilja…………

  

En, taustur vinur getur gert kraftaverk! Nú er gaman að vera framsóknarmaður :)

Loks kom að því að elsti stjórnmálaflokkur landins tileinkaði sér nútímaleg vinnubrögð.   Framsóknarflokkurinn er kominn í bullandi stefnumótavinnu, LOKSINS, LOKSINS!!!

Eindrægni og samstaða eru sögð einkenna andrúmsloftið á flokksþinginu og öll dýrin í skóginum orðnir vinir.  Það má a.m.k. lesa á heimasíðu flokksins. Hver ályktunin á fætur annarri hefur verið samþykkt, 60 talsins, mikill hugur er í mönnum og formaðurinn í baráttuhug. 

 Best Friends

Það er svolítið sérstakt að fylgjast með flokksþinginu úr fjarlægð, á yfirborðinu virðist allt þrungið spennu og sigurgleði.  En hér er eitthvað sem stemmir ekki alveg.  Núverandi heilbrigðisráðherra hótar stjórnarslitum, samþykki sjálfstæðismenn ekki þjóðlendumálin en fyrirverandi heilbrigðisráherra gaf út þá yfirlýsingu, ekki alls fyrir löngu ekki næðist sátt um þau mál né önnur í stjórnarskrárnefnd þeirri sem hann stýrir, að undanskildu einu ákvæði.  Hvað hefur eiginlega gerst?

Nú skal stöðva alla stóriðju, leggja meginþunga á byggðamál, byggja upp og efla heilbrigðisþjónustuna, efla sveitarstjórnastigið og gera skurk í málefnum aldraðra og fatlaðra en þetta eru m.a. þeir málaflokkar sem sem flokkurinn hefur borið ábyrgð á, árum saman!  Af hverju þarf þá að efla þessa málaflokka?  Eru þeir ekki í þeim farvegi sem famsóknarmenn hafa óskað eftir og verið sameinaðir um?  Til að kóróna allt, er innflytjendasefnan komin í nýjan búning, hugsanlega ætla menn með henni að afnema 24 ára regluna, hver veit?  Ráðherrar eiga ekki að gegna störfum þingmanna lengur, fækka á ráðuneytum, efla á landbúnaðinn, svo ekki sé minnst á sjávarútveginn.  Háskóli á að rísa á Ísafirði og Egilsstöðum og svo lengi má telja.  Rúsínan í pysluendanum er síðan fólgin í því að “læra af mistökunum” vegna ákvörðunarinnar um stuðning við Íraksstríðið!

 Belgium 

Þegar markmið stefnumótunarvinnu Framsóknarflokksins eru skoðuð nánar, kemur í ljós að þau eru afar almenn og “loðin”.  Reyndin er nefnilega sú að markmið eru til einskins, ef þau eru ekki afmörkuð og mælanleg, í raun orðagjálfur sem lítur vel út á pappír. Það sama má segja um þær leiðir sem settar eru fram til að ná settum markmiðum. Orðalagið í ályktunum bendir til þess hvað menn vilja gera en ekki hvað þeir hyggjast gera til að ná markmiðunum. 

Ég get nú eiginlega ekki orða bundist!  Loksins kom að því!  Hér liggja flestar þær áherslur sem Kristinn H. hefur lagt á síðustu kjörtímabil í innra starfi flokksins og fengið bágt fyrir í þingflokknum og í raun útskúfaður.  Nú má tileinka sér þessar áherslur!  Flokkurinn í molum, sundrung og óánægja hefur einkennt hið innra starf síðustu ár sem hefur verið drifið áfram af hörku og hlýðni við forystuna.  Nú færir forystan fórnir, nú má hlusta á hinn almenna flokksmann, nú má standa við stjórnarsáttmálann og vinna eftir þeirri stefnu flokksins sem hefur verið til á blaði síðustu ár en ekki farið eftir.  Allt gert til að efla liðsandann fyrir komandi kosningar, raða saman flokksbrotunum og sameina menn! 

Allt lítur þetta vel út á yfirborðinu.  Þetta heitir nefnilega stefnumótunarvinna og ugglaust hafa sérfræðingar verið fengnir til að setja hana upp.  Kannski frá H.Í, hver veit?  Ég veit að Árelía er sterkur liðsmaður!  Mér leikur hins vegar forvitni á að vita; kaupir hinn almenni flokksmaður og  kjósandi þessa vöru?  Skyldi þessi “strategia” duga til í atkvæðasmöluninni í vor?  Ég er ekki sannfærð, hér þarf meira til! Það er ekki nóg að setja stefnuna á blað, henni þarf að framfylgja.  Það hefur hins vegar verið “Akkillisarhæll” forystunar síðustu árin.

   

Horfum fram á veginn

2. mars 2007

Ég hef aldeilis fengið að finna það hversu marga góða ég á að. Frammistaða barna minna er undraverð, ég hreinlega skil ekki hvaða þá hafa þennan styrk sem þau hafa sýnt.  Systkini mín og fjölskyldur þeirra hafa verið eins og klettar í hafinu, ég veit ekki hvernig ég get nokkurn tíman þakkað þeim.  Það sama má segja um vini og nágranna fyrir vestan sem annast féð fyrir mig á meðan ákvarðanir eru teknar, þvílík þolinmæði sem þeir sýna mér.  Sigurbjörg, vinkona mín í Búðardal heldur mér gjörsamlega niðri á jörðinni og Heiðar boðinn og búinn, jákvæður og úrræðagóður. 

Síðustu dagana hef ég verið að fá kveðjur frá fyrrum nemendum mínum á sjúkraliðabraut FVA, nemendur sem ég auðvitað þykist eiga hvert bein í.  Þær eru allar eftirsóttar til vinnu og standa sig frábærlega vel, enda er mín að rifna úr stolti.  Sakna mikið kennslunnar og samskiptanna við nemendur mína, finnst ég vera að missa af svo miklu þennan veturinn með nýja hópinn “minn” sem eru ekki síður að standa sig vel.  Þó að heilsufarið hafi ekki boðið upp á starfsþrek síðustu mánuði, finn ég vel hversu vinnan gegnir mikilvægu hlutverki í lífi manns. Það er einhvern veginn svo erfitt að fóta sig í tilveru þar sem þann fasta punkt vantar.  Ég sakna vinnustaðar míns, við FVA starfar frábært starfsfólk og ég er stolt af því starfi sem þar fer fram.  Stjórnvöld mættu styðja betur við starfsemina þar en það er svo annað mál sem bíður betri tíma.

Eins og við mátti búast, var þessi dagur erfiðari en gærdagurinn, er að taka inn 6 hylki á dag af Vepesid krabbameinslyfi sem framkallar ansi hvimleiðar aukaverkanir eins og áður hefur komið fram.  Í dag hélt ég bókstaflega engu niðri og þurfti að bregðast við því.  Er heldur að rétta úr kútnum og tek síðustu 3 hylkin fyrir nóttina.  Ætti að vera orðin sæmilega á sunnudag, mánudag.  Búin að fá einhvern vökva þannig að allt ætti að vera á uppleið.  Á svona dögum er lítið annað að gera en að breiða upp fyrir haus og bíða eftir því að þessi tími líði.  Hann líður hins vegar hægt, eins og alltaf þegar manni líður illa :(

En nóg af þessum harmkvælum, þarf heldur betur að bretta ermar eftir helgi.  Framundan heilmikil skrifinnska og pappírsvinna út af dánarbúinu og skattinum.  Allir reikningar lokaðir og næstu skref eru sýslumaðurinn og skattstjórinn.  Vildi óska að mér hefði dottið í hug að hugsa út í þessi mál fyrr og nýtt tímann en það þýðir ekkert að sýta það, það tækifæri er flogið.  Mér sýnist mér ekki veita af fagaðstoð í þessum efnum sem öðrum.

Það verður seint sagt að það sé einhver lognmolla í kringum mig og virðist dóttir mín “erfa” það frá móður sinni.  Enn eitt áfallið hjá henni, blessaðri; ástarsorg bættist við í dag, nú þegar lífið var farið að komast í einhverjar skorður.  Úff, ætlar þetta engan endi að taka?  Við sem eldri og reyndari erum og þekkjum þessa sorg vel, vitum að hún er þáttur í þroska okkar og í raun sem flestir, ef ekki allir, þurfa einhvern tíman að ganga í gegnum.  Ég vildi svo sannarlega að tímasetningin hefði verið önnur en það er með þessa sorg sem aðra, við ráðum ekki falltaf ferðinni. Það kemur sér vel að stelpan er með sterk bein, kippir í “Stekkjarflatarkynið og hef ég alla trú á því að hún vinni sig út úr þessu máli á heilbrigðan hátt.

Við horfum nú fram á veginn, daginn er að lengja og styttist í vorið.  Leysum verkefnin eftir bestu getu, jafnóðum og þau koma upp og reynum að sjá aðeins fram í tímann.  Lærum af reynslunni og nýtum lærdóminn til að verða betri manneskjur.  Annað er ekki í stöðunni :)   

Nú kárnar gamanið!

1. mars 2007

Lengi getur vont versnað, stendur einhvers staðar.  Það á svo sannarlega við þessa 3. meðferð mína!  Það var svo sem búið að vara mig við og ég á að vita þetta sjálf, líðanin versnar eftir því sem á líður :)

Með öðrum orðum þá hef ég verið hundveik síðan í gær, með skerandi höfuðverk, bullandi ógleði og svima þannig að nánasti félagi minn hefur verið ruslafatan! þetta er verri en nokkur sjóveiki og hef ég kynnst henni nokkuð vel í gegnum tíðina á Ms. Herjólfi. 

Sterarnir sem ég átti að fá með mér heim í gær virðast hafa gleymst og þegar ég uppgötvaði það í morgun voru góð ráð dýr.  Maður þarf að fara í gegnum ansi marga aðila og verkferla til að fá samband við hjúkrunarfræðing á göngudeildinni og það tekur TÍMA!   Fékk sterana seinni partinn og þakka þeim að ég sit uppi núna um stund.  Komst reyndar aðeins í tölvuna í morgun og kvöld en varð fljótt frá að hverfa. 

Eyddi deginum sem sé í sófanum með vinkonu minni; ruslafötunni, reyndi að horfa á sjónvarpið með litlum árangri en reis reyndar upp við dogg við umræður á hinu háa Alþingi.  Þar voru framsóknarmenn að grátbiðja þjóðina um fyrirgefningu vegna Íraksstríðsins sem sjálfstæðismönnum var helst kennt um sem og Halldóri.  Var reyndar skemmt þegar ég hlustaði á bróður í pontu, hann var í essinu sínu og kom til dyranna eins og klæddur.  Heyrði ekki betur en að Guðni kveinkaði sér undan sínum góða vini til 9 ára sem nú væri búinn að yfirgefa flokkinn!  Ég hreinlega “gleymdi” minni líðan á meðan.

Staðan er sem sé þessi, ég þarf að sætta mig við þessar aukaverkanir, a.m.k. fram á sunnudag á meðan ég er að taka krabbameinslyfin.  Sterarnir eru ekki að gera nein kraftaverk og velgjustillandi lyfin verka lítið.  Matarlykt má ég ekki finna, aumingja Kata verður að láta sér snarl duga, ljósin trufla og allur hávaði nístir.  Kertaljós eru einu ljósin tendruð í kringum mig, önnur eru of sterk.

Í öllu þessu volæði mínu get ég ekki stillt mig um að hugsa enn og aftur um okkar “ágætis” heilbrigðiskerfi. Fyrir um áratug lá fólk inni á sjúkrahúsum á meðan rannsóknir og meðferðir fóru fram.  Nú fer sú þjónusta að mestu leyti fram á göngudeildum og fólk liggur heima hjá sér, hvernig sem það er á sig komið.  Vissulega hafa meðferðarúrræðin batnað til muna og fólk í krabbameinsmeðferð trúlega minna veikt af aukaverkunum en áður.  Mér finnst þó reyndar alveg nóg um þegar maður heldur engu niðri og skiptir einungis um legustelingar vegna þrýstingsóþæginda þegar maður hefur legið of lengi á sömu stellingunni.    Innlögn er reyndar alltaf inni í myndinni ef ástandið verður slæmt, ég má ekki gera lítið úr því en viðurkenni það fúslega að þeir ranghalar sem við þurfum að fara í gegnum til að komast inn á bráðamóttökuna og þaðan inn á krabbameinsdeildina, eru ekki fýsilegir.  Maður pínir sig heldur aðeins lengur heima.

Mér virðist báknið á LSH of stórt, boðleiðir allt of langar og kræklóttar og stjórnsýslan langt frá starfsmönnum.  Álagið á þeim er gríðalegt og mikill skortur á fagfólki, ekki síst hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum.  Skriffinskan virðist yfirgengileg, þrátt fyrir alla upplýsingatæknina. Það fer helmingurinn af þeim tíma sem ég fæ hjá mínum lækni í að skrifa lyfseðla og alltaf þá sömu! Mér sýnist virkilega þörf á því að taka stjórnsýsluna í gegn og grípa til úrræða til að auka vellíðan heilbrigðisstarfsmanna í starfi og þá um leið sjúklinganna. 

Læt þetta volæði duga í bili, verð lítt viðræðuhæf næstu 1-3 daga, vona að fólk misvirði það ekki við mig.  Verð manna fyrst að láta í mér heyra og hækka í símum þegar skánar.  Minni þó á að ég er ekki með númerabirti í heimasímanum, hef ekki komið því í verk að fá mér slíkan en sé öll númer í GSM símanum!

Slæmt að missa af flokksþingi Framsóknarmanna þessa helgina en þar á bæ virðast menn gera ráð fyrir því að ég sé hætt þar Kristinn hefur yfirgefið flokkinn.  Eða var það flokkurinn sem yfirgaf hann??  En það sem er gott við þennan dag er annars vegar það að ég get talið niður þær vikur sem eftir eru og hins vegar sú staðreynd að þessi dagur kemur aldrei aftur :)

Meðferð á morgun

27. febrúar 2007

Þessi dagur var svipaður gærdeginum hvað varðar heilsuna.  Ég geri mér enga grein fyrir því hvort ég sé með flensu, einfaldlega þreytt eða eitthvað annað.  Hef verið ansi úthaldslítil og “léleg” að undanförnu. Dotta alls staðar þegar ég sest niður.  Fór í blóðprufu í dag og liggur þá væntanlega fyrir í fyrramálið hvort ég fái næsta skammt.  Ég ætla rétt að vona að meðferðinni verði áframhaldið á morgun, finnst 2 vikna frestun vera ærin þó hún hafi vissulega hjálpað mér að ganga í gegnum síðustu 2 vikurnar.  Hvítu blóðkornin ættu að vera komin upp á þessum tíma sem liðinn er frá síðustu blóðprufu. 

Ég get þó ekki sagt að ég hlakki til þeirra aukaverkana sem ég á von á en það eitt að ljúka hverjum áfanga gefur manni kraft til að halda áfram.  Ég þarf ekki að kvarta miðað við marga sem eru að berjast við krabbamein.  Mér eru gefnar góðar batahorfur sem auðveldar baráttuna á meðan aðrir eru komnir með útbreiddan sjúkdóm og litlar batahorfur.  Ég er ekki með neitt ábyrgðarskírteini fyrir fullum bata, eins og ég hef áður sagt en hef töluvert forskot á miðað við suma aðra.  Mörgum kom það á óvart að sjúkdómurinn hafði ekki náð að skjóta sér víða í önnur líffæri, svo stórt var æxlið.  Ég komst alla vega á blað hjá læknavísindunum vegna þessa en mér var sagt að aðeins ein önnur kona hafi verið í svipaðri stöðu og ég og það var fyrir 20 árum og hún er enn meðal vor! Mér hefur alltaf verið ýmislegt “til lista lagt” og af mörgum talin fær um ótrúlegustu hluti þannig að mér ætti ekki að koma þetta á óvart :)

Vissulega er þungt yfir okkur öllum, Hafsteinn þarf virkilega að bíta á jaxlinn úti og Katrín berst á hverjum degi við það að horfast í augu við verkefni dagsins.  Auðvitað eðlileg viðbrögð þegar fótunum er kippt undan manni fyrirvaralaust.  Það eina sem ég get sagt við þau er að þrauka og aftur þrauka, það birtir alltaf upp um síðir.  Það getur hins vegar verið erfitt að trúa því á meðan élin eru að ganga yfir.  Það þekki ég mæta vel sjálf en hef þó reynsluna fram yfir þau, sem betur fer og því miður, þannig að ég veit að það er satt.  Ég vildi hins vegar óska þess að ég gæti dregið úr vanlíðan þeirra og komið með einhverja töfralausn NÚNA! Hún er einfaldlega ekki til, þetta ástand verður að hafa sinn gang.  Við verðum að halda okkar striki og einbeita okkur að því að komast í gegnum þetta allt, annað er ekki í stöðunni.

Ólíkt mörgum öðrum, eigum við góða að til að styðja við bakið á okkur en sum mál eru þess eðlis að við verðum að takast á við þau sjálf.  Það sem kemur mér kannski mest á óvart í öllum þessum harmleik er sú staðreynd að okkur hefur ekki staðið til boða nein áfallahjálp né stuðningur til að komast í gegnum hann af hálfu heilbrigðiskerfisins.  Það er umhugsunarvert að ekkert ferli skuli fara í gang fyrir aðstandendur þegar einstaklingur tekur þá ákvörðun að taka líf sitt.  Það er í hróplegri mótsögn við það nám og reynslu sem ég hef tileinkað mér í starfi mínu sem hjúkrunarfræðingur, ekki síst úti á landi.  Ég velti því óneitanlega fyrir mér hvort ástæður séu einfaldlega bundnar við búsetu eða þær persónur sem eiga hlut að máli hverju sinni.  Ekki stóð á kirkjunni að bjóða fram aðstoð sína og sáluhjálp og skipti búseta engu máli í þeim efnum en fram til þessa hefur okkur ekki staðið til boða nein þjónusta af hálfu heilsugæslunnar sem á að heita hornsteinn heilbrigðisþjónustunnar í landinu.   Telst áfallahjálp þó til starfsemi heilsugæslunnar.  Ég viðurkenni það fúslega að ég á venjast meiri fagmennsku í aðstæðum sem þessum sem við fjölskyldan stöndum í.  Sjálfsvíg er harmleikur sem snertir mjög þá sem eftir standa, áfallahjálp af hálfu heilbrigðiskerfisins á að vera sjálfsögð í þeim aðstæðum og er talið nauðsynlegt að hún sé veitt inna sólahrings frá því að atburðinn á sér stað.  Þar koma heimilisæknar sterkt inn í, ekki síst vegna þekkingar sinnar.   Sumum stóð áfallahjálp til boða, óumbeðið, að morgni 12. feb. sl., öðrum ekki.  Hverju skyldi það sæta?

Slæmur dagur

26. febrúar 2007

Þessi dagur var slæmur, ég er fegin að hann skuli nú á enda.  Hugga mig við það að hann kemur aldrei aftur. Heilsan hefur verið með verra móti, stanslaus ógleði og lystarleysi og áfram “beinverkir” og slen.  Kata hefur ekki sloppið heldur, verið fremur framlág en náði að mæta í skólann.  Trúlega varð okkur of kalt á laugardaginn. Atli steinliggur með flensuna, trúi ég og ótrúlega heppinn að fá ekki lungnabólgu, þökk sé úlpunni hans Tóta :)   Í dag var það sem sé Þyrnirósin og sófinn á þessum bæ!

Dagurinn hefur því farið í mest lítið, ég gerði nánast ekkert af því sem ætlaði en af nógu er að taka.  Ótal atriði sem ég þarf að taka afstöðu til og gera ráðstafanir á mörgum sviðum. Sumt virðist óyfirstíganlegt núna, atriði sem að öllu jöfnu eru ekkert mál.

Andleg líðan hefur svo sem ekki verið upp á marga fiska heldur.  Þungar hugsanir og minningabrot sækja að.  Ég trúi því vart hvað gerst hefur, finnst það óraunverulegt og í fjarska, líkt og vondur draumur.  Pirrandi að geta ekki breytt atburðarrásinni og óþolandi að vera í þessari stöðu.  Mig langar mest að urra! Það þýðir svo sem ekki neitt, ekkert breytist við það en mig langar það samt en við hvern á ég að vera reið?  Auðvitað verð ég að sætta mig við orðinn hlut, hvort heldur sem það eru veikindin eða fráfall Guðjóns, ég get hvorugu breytt.  Er það ekki alltaf þannig að ef maður getur ekki haft stjórn á hlutunum og lífi sínu þá verður maður pirraður og ónógur sjálfum sér? Eins og systurdóttir mín, hún Auja, orðaði svona aðstæður í “den”; urr, garg og hvæs!!!

Móðir mín sagði oft við mig þegar mér fannst lífið ekki ganga eins og ég vildi að það væri tilgangur með öllu í þessu lífi og hélt því fram að í öllum áföllum og vonbrigðum lægju ákveðin tækifæri eða ný leið.  Pabbi sagði alltaf að “þetta kæmi allt með kalda vatninu”, ég þyrfti að vera þolinmóð og gefa öllu tíma.  Bæði höfðu oft rétt fyrir sér þó mér fyndist þar harla ólíklegt þegar þau orð voru sögð.  Oft hef eg saknað þeirra en aldrei eins og nú, allt væri auðveldara ef þau væru hér enn.  Ráð þeirra voru alltaf trúverðug enda búin að upplifa marga raunina sjálf.  Mér finnst mitt hlutskipti stundum hundfúlt og lífið ósanngjarnt, ég get ekki neitað því :(

Framkoma sumra síðustu daga og vikur hefur farið fyrir brjóstið á mér og í raun hneykslað mig.  Hvernig getur fólk verið svo grunnhyggið að trúa því að allt slæmt sem gerist, sé öðrum að kenna?? Ég hef velt því fyrir mér hvort mér myndi líða eitthvað betur ef ég fyndi sökudólg fyrir öllu því neikvæða sem fyrir mig hefur komið. Að vera uppi á rósrauðu skýi, með geislabaug, einfaldar ugglaust tilveruna enda væri maður þá á eins konar stalli, horfði niður og benti á aðra þegar miður fer.  Vissulega skapast þær aðstæður að aðrir beinlínis skaða okkur með hegðun sinni og gjörðum og við getum lítt haft þar áhrif á.  Við verðum að láta slíkt yfir okkur ganga.  Hins vegar höfum við heilmikið um það að segja hvaða áhrif meiðandi hegðun annarra hefur á okkur þegar upp er staðið.  Við getum einnig valið að umgangast ekki slíkt fólk.  Svo ég fái að láni orð móður Teresu; “Fólk er oft ósanngjarnt, óskynsamt og eigingjarnt: Fyrirgefðu því, þrátt fyrir það. Það getur stundum verið erfitt og tekið tíma.

Það stoðar hins vegar lítt að væla og vorkenna sér.  Við þurfum að ganga í gegnum veikindin og sorgina hvað sem tautar og raular.  Þá er eins gott að gera það með heilbrigðu hugafari í stað þess að detta ofan í einhvern pytt sjálfsmeðaumkunar sem gerir illt verra. Það er einu sinni í eðli mannsins að leita innra jafnvægis, við reynum það alltaf eftir áföll, sorg og vonbrigði. 

Á morgun hefst nýr dagur og mál bíða úrlausnar.  Hann verður vonandi betri en sá sem nú er liðinn, vandamálin hverfa ekki fyrr en þau eru leyst :)

Oft er erfiðara að flýja vandamálin en að takast á við þau.  Að takast á við þau krefst vitsmuna okkar, kjarks og visku.  Að flýja þau gerir okkur einungis taugaveikluð.            (David Baird)

Þunglyndi

26. febrúar 2007

Þunglyndi hefur trúlega fylgt manninum frá upphafi. Sjúkdómurinn fer ekki í manngreiningarálit og er talið að þúsundir Íslendinga þjáist af honum dag hvern. Um 25% kvenna og 10% karla uppifa einkenni þunglyndis á einhverjum tímapunkti ævinnar.Einkennin eru margvíseg og engir tveir sjúklingar hafa sömu sjúkdómsmyndina.  Fjöldi fólks þjáist af þunglyndi án þess að leita sér meðferðar með alvarlegum afleiðingum.  Meðferð er hins vegar afar árangursrík þar sem allt að 90% fá fullan bata innan mánaðar.  Ómeðhöndlað þunglyndi varir hins vegar lengi, allt frá 4 mánuðum upp í 2 ár.

Öll upplifum við einhvern tímann vonbrigði, ástvinamissi, óhóflegt álag, atvinnuleysi o.s.frv. og finnum þá fyrir leiða og vanlíðan. Það eru eðlileg viðbrögð og ganga oftast yfir en þegar einkennin eru farin að skerða líf einstaklingsins og breyta háttum hans eru allar líkur á því að hann þjáist af þunglyndi sem þarf að bregðast við.

Einkenni þunglyndis eru bæði andleg og líkamleg.  Auk þungyndis getur borið á einkennum oflætis en miðað er við að ef einstaklingur er með > 3 geðræn einkenni og > 1 líkamlegt er hætt við því að hann þjáist af þunglyndi.  Beri á a.m.k. 3 einkennum oflætis má telja líklegt að hann þjáist af oflæti.

Helstu geðrænu einkenni þunglyndis eru: 

  • Depurð - allt verður dapurt og þungt.
  • Vonleysi um bata. Tilgangslaust að leita hjálpar, til hvers þá? 
  • Hjálparleysi - fyllist af vanmáttartilfinningu, finnst hann vera ósjálfbjarga og fá ekki stuðning.
  • Kvíði - oft óraunhæfur eða án þess að einvher skýring finnist
  • Óróleiki eða eirðarleysi - af tilefnisalausu að því er virðist og skapast af innri vanlíðan.
  • Ánægja og áhugi dvín eða hverfur alveg.
  • Svefntruflanir.  Koma fram með misjöfnum hætti, t.d. erfitt verður að sofna, stundum vaknað oft á nóttu, stundum vaknað 2-3 klukkutímum fyrr að morgni en venjulega, stundum of mikill svefn.
  • Kynlíf minnkar, stundum ekkert.
  • Matarlyst - minnkar oftast en er stundum aukin.
  • Þreyta eða slen  verða áberandi og oft túlkað sem einkenni um alvarlegan sjúkdóm
  • Tregða.  Kemur t.d  fram í hægum viðbrögðum, hreyfingum, tali og hugsun.
  • Vanmáttarkennd eða sektarkennd.  Viðkomandi finnst hann vera einskis nýtur, óþarfur, erfiður fjölskyldu sinni, jafnvel skaðlegur og syndugur.
  • Hugsun verður hægari.  Hugarflug snautt, oft bundið við sérstakar hugsanir. Erfitt að taka ákvarðanir, ákvarðanataka verður meir efablandin og óörugg.
  • Tómleiki.  Viðkomandi finnst hann vera dofinn eða dauður í hugsun, tómur.
  • Sjálfsvígshugsanir.  Viðkomandi finnst hann verðskulda að deyja eða að dauðinn einn lini þjáningarnar

Helstu líkamlegu einkennin eru:

  • Höfuðverkur
  • Magaverkir
  • Verkir almennt
  • Tregar hægðir
  • Svitaköst

Verkjalyf koma að litlum notum, slá lítið eða ekkert á verkina. 

Eins og þegar hefur komið fram, getur jafnframt borið á oflæti en helstu einkenni þess eru:

  • Ofvirkni.  Viðkomandi er á fullu, sífellt að, gerir margt í einu og  unir sér ekki hvíldar.
  • Óþolinmæði.  Allt verður að gerast í einum grænum og vinnast hratt.  Málin þola enga bið.  Úthald mjög lítið.
  • Svefnleysi.  Viðkomandi “þarf ekki” að sofa.
  • Málæði.  Viðkomandi talar stanslaust og út í það endalausa.  Þarf stöðugt að grípa fram í fyrir öðrum.
  • Stórmennskukennd.  Finnst vera yfir alla hafinn, vita allt og geta allt.
  • Sundurleysi í tali og gjörðum. Veður úr einu í annað.
  • Marghuga.  Hefur mörg járn í eldinum hverju sinni en oft er minna um framkvæmdir. Viðkomandi virðist seint eða ekki þreytast.
  • Dómgreind skerðist. Er of viss í sinni sök og gefur sér lítinn tíma til hugsunar.
  • Innsæið er skert, einkum sjúkdómsinnsæi.
  • Trufluð samskipti vegna þess að aðrir þreytast á ástandinu og forðast samskipti.
  • Hreyfing er á sífelldu iði oftast án markvissra aðgerða.
  • Kynlíf meira en áður.

Orsakir þunglyndis eru margvíslegar og geta ýmist verið af ytri ástæðum eða af innri orsökum og kallast þá innlægt.  Meðferðin er háð orsökum en felst oftast í lyfjameðferð og/eða samtalsmeðferð og raflækningum. Því miður vill það brenna allt of oft við að einstaklingar sem þjást af þunglyndi þiggja ekki ráð, hafna aðstoð og eru vanþakklátir og óþolinmæðir.  Sjúkdómurinn bitnar því ekki síst á aðstandendum og þeim sem standa sjúklingnum næst.  Því er mikilvægt að allir þekki einkennin og viti hvernig bregðast eigi við sjúkdómnum.  Þunglyndi á ekki að vera eitthvað feimnismál og öll umræða þarf að vera opin og laus við fordóma.  Hægt er að lesa nánar um sjúkdóminn, orsakir og helstu meðferðarúrræði á slóðinni: http://www4.landspitali.is/lsh_ytri.nsf/htmlpages/index2.html#fraedsla_thunglindi.html

Örmagna

25. febrúar 2007

Við mægður erum gjörsamlega örmagna, algjörlega búnar á því.  Dagurinn tók meira á en okkur óraði fyrir.

Athöfnin var hins vegar mjög falleg og söngurinn himneskur. Ásgeir í Blönduhlíð og Skjöldur Orri á Hamraendum sungu tvísöng og gerðu það frábærlega vel, ég vona að ég sjái þá ná lengra.  Vorboðinn var feikigóður enda skipaður úrvals söngfólki.  Við erum þakklátari en orð fá lýst, það sýndi sig í dag hve tónlistin skiptir máli á erfiðum stundum sem þessum.  Hlýlegar móttökur í Árbliki hjá kvenfélagskonum skiptu og miklu máli og kann ég þeim bestu þakkir fyrir daginn.  Hjónin á Kvennabrekku eiga heiður skilið og gerðu okkur morguninn auðveldari.

Við fengum fallegan dag en það andaði ansi köldu á stundum, í meira en einum skilningi.  Undravert hve fólk tekur á sorginni á misjafnan hátt.  Það var hins vegar merkilegt hvernig sólargeislarnir brutust í gegn á réttum augnablikum.  Við erum Dalamönnum sem og öðrum gestum ákaflega þakklát fyrir að fylgja Guðjóni síðasta spölinn.  Systkinum og mökum þeirra þökkum við fyrir að koma okkur í gegnum daginn.  Við fáum þeim seint fullþakkað.

Nú eru ákveðin kaflaskil og framundan erfiðar ákvarðanir varðandi framtíðina.  Okkar bíður tími sem einkennist af tómleika og söknuði.  Blákaldur veruleikinn blasir við.  Ferlið er rétt að hefjast og ég veit að það verður bæði sársaukafullt og flókið fyrir okkur öll.  Þau bjargráð sem fjölskyldan býr yfir duga skammt til að vinna okkur í gegnum sorgina og sársaukan.  Þó hefðbundnar sorgarathafnir hjálpi mikið, þá duga þær skammt núna.  Ég upplifi þennan tíma eins og fellibyl sem ætlar aldrei að ganga yfir. En einhvern tímann gengur hann yfir, við göngum að því vísu.

Það var erfitt að þurfa að halda suður á bóginn, tómleikatifinningin jókst.   Stundum getur maður ekki sætt sig við aðstæður, þannig er það bara en ég vil trúa því að þær muni breytast.

Litla fjölskyldan mín er ekki sú eina sem á sárt um að binda, við megum ekki gleyma því.

Beiskustu tárin sem falla við grafir,
eru vegna orða sem aldrei voru sögð,
og verka sem voru aldrei unnin

                           (Höfundur óþekktur)